Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegur forseti. Síðla nætur sl. nótt hélt ég langa ræðu um þetta dagskrármál, þ.e. vörugjaldið, og lýsti með hvaða hætti og hvaða rökum við þingmenn Borgfl., að einum undanskildum, erum andvígir þessari skattálagningu. Ég sagði jafnframt að ég harmaði afstöðu eins þingmanns flokksins í Nd., að hann hefði greitt atkvæði með þessu frumvarpi, en því verður ekki breytt. Hins vegar er það yfirlýst stefna Borgfl. að við erum andvígir þeirri gífurlegu skattlagningu, sem nú er verið að keyra í gegn, sem kemur mjög þungt niður á öllum almenningi og fyrirtækjum þessa lands og er síst til þess fallin að laga það ástand sem nú ríkir bæði í atvinnulífinu og í fjármálalífi og efnahagslífi þjóðarinnar.
    Vörugjaldið er þægileg skattheimta. Það er fljótt til hennar gripið og hún er líkleg til að klóra saman nokkur hundruð milljóna í óseðjandi ríkiskassann. Hér er um að ræða skattform sem liggur vel við höggi ef svo mætti að orði komast.
    Það kom alveg greinilega í ljós, bæði við meðhöndlun málsins í hv. Nd. og eins hér við 1. umr., að það eru mjög margir vankantar á þessari frumvarpssmíð. Því miður hefur svo illa til tekist að um verulega mismunun verður að ræða milli atvinnugreina og jafnvel milli fyrirtækja í mjög skyldum rekstri, eins og kom mjög greinilega fram við umræðu um málið. T.d. má nefna að sælgætisframleiðsla lýtur nú þeirri skattheimtu að ef hún fer fram í bakaríi er hún undanþegin vörugjaldi en ef hún fer fram hjá sælgætisverksmiðju ber hún fullt vörugjald, jafnvel þó um sama hlutinn væri að ræða. Þetta nær engri átt og þetta er nánast brot á stjórnarskránni þar sem segir að skattheimta skuli vera almenn og hún skuli leggjast jafnt á alla.
    Ég hef oft rætt um það áður að það er gjörsamlega fráleitt og það er, eins og ég er að segja hér, andstætt a.m.k. anda stjórnarskrárinnar að skattlagning virki með þeim hætti að hún mismuni almenningi, mönnum og fyrirtækjum eins og hér er gert.
    Það hafa ekki orðið neinar þær bragarbætur á frv. í meðferðinni í hv. fjh.- og viðskn. Ed., en í morgun ræddum við þetta frumvarp ítarlega. M.a. fengum við á okkar fund fjölmarga fulltrúa atvinnulífsins sem sögðu okkur álit sitt á þessu frv. og með hvaða hætti það mundi virka. Allt það sem þessir fulltrúar atvinnulífsins sögðu við okkur styrkir mig í þeirri trú minni að hér sé um mjög illa unnið frv. að ræða þar sem fulltrúar fjmrn. sem þessa vinnu hafa unnið hafa ekki megnað að setja sig inn í vandamál atvinnufyrirtækjanna og atvinnulífsins í heild sinni.
    Ég hef bent á það áður að það hefði verið ofur auðvelt, og reyndar höfum við boðað slíkar tillögur, að skera niður útgjaldahlið fjárlaga um einar 1600--1700 millj. kr. sem er mjög svipað og þær tekjur sem fjmrh. ætlar að vörugjaldið með þeim breytingum sem nú er verið að gera muni skila í ríkiskassann. Þannig hefði verið ofur auðvelt að leggja meiri vinnu í að fara yfir útgjaldahlið fjármála, skera þar niður sem næmi 1600--1700 millj. kr. og fjarlægja

þetta frv. úr þingsölum og bjóða okkur ekkert upp á að horfa á það meir.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, aðeins lýsa því yfir að við þingmenn Borgfl. í Ed. munum greiða atkvæði gegn frv.