Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Hérna er komið enn eitt skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Nú erum við komin að síðasta frv. sem þessi hv. ríkisstjórn leggur fram, frv. um tekjuskatt og eignarskatt.
    Við 1. umr. lýsti hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes skoðun Borgfl. á þessu frv. Við erum mótfallnir þeirri hækkun sem frv. gerir ráð fyrir. Við teljum að á þeim tíma þegar kreppir að í þjóðfélaginu, kreppir að hjá einstaklingum og fyrirtækjum eigi ríkisvaldið ekki að taka meiri peninga til sín en fyrirtækin þola. Ég tel að þau frumvörp sem þegar hafa verið samþykkt séu nógu mikil byrði fyrir þessar tvær stoðir þjóðfélagsins og það frv. sem hér er lagt fram sé ónauðsynlegt. Ég held að það sé nær að draga enn frekar úr ríkisrekstrinum en leggja á þessar auknu skattaálögur.
    Til að styrkja stoðir efnahagslífsins þurfa einstaklingarnir og fyrirtækin að geta lifað. Á því byggist afkoman og á því byggist það að við getum rétt úr kútnum. Við þurfum að koma peningum og fjármunum til einstaklinganna og fyrirtækjanna en ekki að taka peninga frá þeim í kreppuástandi.
    Ég ætla ekki að fara út í einstakar greinar frv., en vil þó taka á nokkrum atriðum og þá sérstaklega er varða tekjuskatt fyrirtækja. Ég held að þar sé gengið mjög nærri fyrirtækjum, aðallega þeim fyrirtækjum sem þó reyna að myndast við að skila hagnaði og greiða tekjuskatt í ríkissjóð. Þær breytingar tel ég mjög óæskilegar.
    Í fyrsta lagi er þar gert ráð fyrir því að fyrirtæki megi ekki kaupa önnur fyrirtæki sem standa illa og nýta sér til frádráttar það tap sem verið hefur á rekstri þess fyrirtækis sem keypt er.
    Núna, þegar staðan er sú að hvert fyrirtækið er að fara á höfuðið á fætur öðru og sérstaklega verður það áberandi þegar kemur fram í janúar og febrúar, held ég að svona heimildarákvæði sé nauðsynlegt. Fyrir þjóðarbúið er það versta sem getur komið fyrir að fyrirtæki verði gjaldþrota. Það er ekki aðeins að fólk missir vinnuna sem hjá fyrirtækjunum vinnur heldur einnig að uppgjör til lánardrottna getur verið mjög erfitt og skil við gjaldþrot taka oft langan tíma. Ég get nefnt sem dæmi að ef fyrirtæki verður gjaldþrota og skuldar kannski 100 milljónir, og þó svo að eignir séu 50--60 milljónir, þá tekur það um tvö til þrjú ár að greiða kröfuhöfum þennan eignarhluta. Þau fyrirtæki sem hafa verslað við þetta sérstaka fyrirtæki, sem verður gjaldþrota, geta oft ekki beðið svo lengi og eru jafnvel líka orðin gjaldþrota á þessu tveggja ára tímabili.
    Þetta er eitt þeirra atriða sem ég vildi nefna. Annað er að ég held að sú hækkun sem gert er ráð fyrir í frv., að hækka tekjuskattinn úr 48 í 50%, sé ekki æskileg.
    Í þriðja lagi vil ég nefna fjárfestingarsjóðina. Upphaflega þegar fjárfestingartillagið kom inn í lögin var gert ráð fyrir að fyrirtækin mættu nota 40% af hagnaði og leggja inn í banka og fá það frádráttarbært. Síðan var þetta lækkað niður í 30% og nú er gert ráð fyrir að það verði lækkað niður í 15%.

Þetta gerði að verkum í mörgum tilvikum að fyrirtæki hættu við fjárfestingar sem fyrirhugaðar voru og sáu hag sinn í að leggja fjármuni inn á sérstaka reikninga í bankastofnunum. Kom það þjóðfélaginu í heild til góða þar sem þetta sérstaka ákvæði í lögunum leiddi til sparnaðar.
    Í fjórða lagi vildi ég minnast á afskriftareglurnar, en gert er ráð fyrir í frv. að afskriftatíminn lengist. Má ég hér nefna sérstaklega tölvur og annan slíkan búnað, en endingartími slíks er mjög skammur. Ég vil nefna að tölvur t.d. úreldast nú á þremur til fjórum árum, en samt er ekki gert ráð fyrir í frv. að tekið sé mið af því heldur er endingartíminn þar fimm til sex ár.
    Þetta eru helstu atriðin er varða tekjuskatt fyrirtækja sem ég vildi nefna. Varðandi eignarskattinn get ég í sjálfu sér fallist á að hann sé hækkaður að einhverju leyti, en mér finnst sú breyting sem þarna er gert ráð fyrir vera allt of mikil og skattheimtan allt of há.
    Varðandi tekjuskatta einstaklinga, sem ég hefði í sjálfu sér átt að byrja á, þá er ég mjög á móti beinum sköttum og sérstaklega þegar þeir, eins og í frv. er gert ráð fyrir, bitna á meðaljóninum eða meðaleinstaklingnum sem ætti að vera að mínu mati skattfrjáls.
    Þetta eru helstu atriði sem ég hef við frv. að athuga og lýsi því yfir, svo það komi ekki neinum á óvart, að ég mun greiða atkvæði á móti þessu frv.