Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég sat fund hv. fjh.- og viðskn. Ed. í morgun þar sem var verið að ræða um þessi mál og þar sem komu upp hugmyndir sem leiddu til þessarar brtt. frá meiri hl. Ég verð að játa að eftir fundinn í morgun var ég jafnnær um hvað hefði verið talað og tek undir það með þeim hv. þm. sem hér hafa talað á undan mér og kvartað yfir því að þetta mál sé allt afar ruglingslegt. Það staðfestir fyrir mér hvað það er fáránlegt að þurfa að afgreiða tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar og fjárlög með þessum hraða rétt fyrir jól. Ég treysti mér ekki til að taka afstöðu í þessu máli. Ég held að það sé verið að gera eitthvað jákvætt hér. Ég er þó ekki viss. Ég greiði ekki atkvæði.