Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ef hv. 2. þm. Norðurl. e. heldur að þau fundahöld sem áttu sér stað fyrr í dag hafi eingöngu verið vegna brtt. hans er það ekki alveg rétt. Það var ýmislegt fleira til umræðu en vissulega var þar fjallað um hans tillögu og komið til móts við þau sjónarmið sem þar komu fram eins og hann hefur reyndar áður lýst og þau raunar tekin upp að fullu. Um það ræddu menn kannski ekki mjög lengi.
    Ég vildi, herra forseti, fá leyfi til fyrir hönd meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar fá að gera grein fyrir skriflegri brtt. við frv. til laga um vörugjald. Hún er á þá leið að á eftir ákvæði til bráðabirgða III komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, IV, sem orðist svo:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. gr. skal ekki greiða vörugjald af innlendri húsgagna- og innréttingaframleiðslu í tollskrárnúmerum 9401.1000 til 9404.9000 fyrr en frá og með 1. mars 1989.``
    Þessi tillaga gengur nokkru skemmra en sú tillaga sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert grein fyrir en hér er komið nokkuð til móts við húsgagna- og innréttingaframleiðendur og þeim veittur aðlögunartími, að vísu ekki alveg jafnlangur og farið var fram á en þó fram til 1. mars á næsta ári. Vill meiri hl. með þessu koma til móts við þær óskir og raunar eindregnu kröfur sem fram hafa verið settar.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Þessi tillaga skýrir sig að öðru leyti sjálf. Hér er um aðlögunartíma að ræða fyrir húsgagna- og innréttingaframleiðslu.