Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að efna til ítarlegra umræðna um þá ræðu sem hv. þm. Geir Haarde flutti. Hins vegar er það ekkert nýtt að vafist geti fyrir færustu lögfræðingum að svara öllum þeim spurningum sem upp kunna að koma við meðferð málsins á Alþingi og er bæði sjálfsagt og eðlilegt að taka tillit til þeirra sjónarmiða. Ég get tekið eitt dæmi til skýringar og umhugsunar fyrir hv. þm. og aðra. Menn geta verið sammála því að slík skattlagning eigi að ná til fjárfestingarlánasjóða og menn geta verið sammála því að sú skattlagning eigi einnig að ná til atvinnuvegasjóða, það séu hinar almennu reglur sem settar eru í lögin. Síðan kann vís maður að spyrja hvort Kvikmyndasjóður falli undir þessar skilgreiningar. Er hann fjárfestingarlánasjóður? Er hann atvinnuvegasjóður? Við þeirri spurningu er ekki neitt skýrt og einfalt svar en það er hins vegar nauðsynlegt, fyrst þær óskir hafa á annað borð komið upp í meðferð þingsins, að það fái rækilegri skoðun og því finnst mér rétt að það sé gert. Mér hefur verið tjáð að frv. af þessu tagi hafi verið í vinnslu og undirbúningi í fjmrn. þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson var fjmrh. og að það hafi einnig verið í vinnslu og undirbúningi í fjmrn. þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. Mér finnst því ekkert óeðlilegt við það að alþingismenn fái tíma til þess í fjh.- og viðskn. þessarar deildar og hv. efri deildar að velta fyrir sér þeim vandamálum sem a.m.k. tveir fyrirrennarar mínir og embættismenn einnig veltu fyrir sér nokkuð langan tíma og ætla ekki að þrýsta málinu hér í gegnum þingið án þess að sú athugun geti farið fram. Þess vegna er algerlega tilefnislaust að vera að draga einhverja þá ályktun að málið sé þess vegna illa undirbúið.