Afturköllun og upptaka tillagna
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í það að komast að hinu rétta í því máli sem hann hér skýrði. Ég er líka þakklátur fyrir að sá skilningur sem ég hafði hefur verið staðfestur og því til viðbótar að niðurstaða umræðnanna um 41. gr. þingskapa er að sjálfsögðu atkvæðagreiðslan. Flm. tillögu dregur hana yfirleitt ekki til baka fyrr en á lokastigi umræðu eða afgreiðslu sem er þá atkvæðagreiðslan. Ég þakka forseta fyrir þetta.
    Ég þakka hæstv. forseta alveg sérstaklega fyrir að leiðrétta þann úrskurð sem hann kvað upp í gær. Ég vil bæta við að það eykur traust mitt, og ég veit annarra þingmanna, á forseta og hans persónu og það eykur virðingu fyrir persónu hans og störfum sem trúnaðarmanns okkar allra hvernig hann hefur tekið þetta mál upp í dag. Mér sem óskhafanda í gær nokkuð óvitað þó að hann hafi tilkynnt það því ég var þá ekki í salnum. Ég þakka forseta aftur.