Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. deildarinnar er búin að fara yfir þær breytingar sem voru til meðferðar. Hugmyndin í fyrri brtt. var okkur ekki ókunn því þessari tillögu var hreyft í okkar nefnd á sínum tíma en horfið frá henni vegna þess að ríkisskattstjóri taldi óheppilegt að fara svona að. Nú skilst mér að hann telji að þetta sé nothæft fyrirkomulag og við gerum ekki athugasemd við það.
    Varðandi seinni brtt., sem varðar sjómannafrádrátt, fengum við þá skýringu að þetta væri gert til samræmis við breytingar á skattbyrði annarra, þ.e. að ekki þyngist skattbyrði meira á sjómönnum hlutfallslega en á öðrum, og gerum við ekki athugasemd við það. Þá gerði Ed. fleiri breytingar á frv. sem liggja fyrir á þskj. 366, sem ég hef nú fengið í hendur. Þar breyta þeir fyrningarákvæðum og fella á brott grein. Þessar breytingar telur neðri deildar nefndin allar vera til bóta.