Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það var ekki mjög ítarleg greinargerð sem hv. 1. þm. Norðurl. v. gaf um þessar breytingar. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að þessar breytingar eru að mínum dómi allar til bóta og eru staðfesting á mörgum atriðum í þeirri gagnrýni sem við sjálfstæðismenn í þessari hv. deild höfum haldið fram. Það er verið að sníða nokkra alvarlegustu meinbugina og fáránlegustu hlutina af frv. eins og það var upphaflega lagt fram.
    Í fyrsta lagi er m.a. hætt við að þrengja fyrningarreglur á tölvum og tölvubúnaði en það var eitt af því sem við gagnrýndum. Í öðru lagi er hætt við að skikka menn til þess að afskrifa eftir almennum reglum ýmsar smávörur sem þeir kaupa til reksturs síns. Ég fagna þessu hvoru tveggja og tel að þó að upplýst sé að engu hafi mátt hrófla við í þessum efnum í hv. neðri deild hafi þó verið hægt að koma einhverju tauti við menn í hinni efri. Mikilvægt atriði um skuldir og inneignir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í félögum er síðan á síðara þingskjalinu þar sem því ákvæði er breytt í réttlætisátt þannig að þetta eigi framvegis við stjórnarmenn og framkvæmdastjóra allra félaga en ekki aðeins hlutafélaga. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að slík lán verði vaxtareiknuð og er það í samræmi við okkar ábendingar í minni hl. fjh.- og viðskn. Ég tel að þessar breytingar séu allar til bóta.
    Varðandi síðasta atriðið sem bætt var inn í frv., og varðar hækkun sjómannaafsláttar, geri ég heldur enga athugasemd en bendi eingöngu á að frá því að frv. var lagt fram í þinginu í upphafi hefur stjórnarmeirihlutinn á þinginu afráðið að hækka skattfrelsismörk hins almenna einstaklings í þjóðfélaginu um 65 kr. á mánuði en sjómanna, með þessari breytingu, um 2700 kr. á mánuði.
    Þær breytingar sem búið er að gera á frv. eru til bóta. Frv. er samt að mínum dómi eftir sem áður algjörlega óaðgengilegt í heild sinni og stefna og afstaða okkar sjálfstæðismanna er því að sjálfsögðu óbreytt og við munum greiða atkvæði gegn frv.