Norrænn þróunarsjóður
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Þegar hafa farið fram nokkrar umræður um þetta mál þegar það var til meðferðar í Sþ. með hliðsjón af þeirri þáltill. sem þá var flutt og þarf að sjálfsögðu ekki miklu við að bæta hér. Ég vil kannski ítreka þau varnaðarorð mín, sem ég hafði uppi við þá umræðu, að hagsmuna okkar Íslendinga verði vel gætt í þessu samstarfi. Út af fyrir sig fagna ég þessu framtaki og tel að hér sé um mjög markvert átak að ræða í þá veru að gera Íslendingum og hinum Norðurlandaþjóðunum kleift að standa að verkefnaútflutningi til þróunarlandanna og að sjálfsögðu að veita þróunarlöndunum margvíslega aðstoð í formi uppbyggingar, bæði atvinnufyrirtækja og ýmislegs fleira sem þar kæmi til greina. Hins vegar er því ekki að leyna að Íslendingar hafa átt í harðri samkeppni við hin Norðurlöndin um ýmiss konar verkefni til útflutnings til m.a. þróunarlandanna og þá hefur stundum viljað brydda á því að hinar þjóðirnar, sérstaklega þó Norðmenn, hafi í krafti aflsmunar síns látið okkur gjalda þess að þeir hafa miklu sterkari aðstöðu hjá þessum norrænu sjóðum og norrænu samtökum en við nokkurn tíma komum til með að hafa. Þess vegna þarf að gæta þess mjög vel að hagsmunir Íslendinga séu ekki fyrir borð bornir þegar til slíkra samkeppnisátaka kynni að koma t.d. við Norðmenn eða aðrar Norðurlandaþjóðir.
    Þetta vildi ég segja við þessa umræðu en tel þetta að öðru leyti hið besta mál.