Erfðalög
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingar á erfðalögum nr. 8, 14. mars 1962, með síðari breytingum. Frv. þetta er samið að undangenginni athugun á því hvort og þá að hverju leyti þörf er á að endurskoða ákvæði núgildandi erfðalaga. Niðurstaðan var sú að rétt væri að breyta einstökum ákvæðum þeirra og yrðu breytingarnar einkum fólgnar í eftirfarandi:
    1. Að breytt yrði núgildandi reglu 1. málsgr. 3. gr. erfðalaga sem kveður á um að foreldrar látins manns taki arf á móti maka hans, ef hann lætur engan niðja eftir sig, í það horf að maki verði einkalögerfingi hins látna við þær aðstæður.
    2. Heimildir langlífari maka til setu í óskiptu búi verði rýmkaðar verulega.
    3. Reglum erfðalaga verði breytt um frádrátt fyrirframgreiðslu arfs við endanlegt uppgjör hans.
    4. Erfðalögum verður breytt þannig að þau falli að fyrirhuguðum aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    5. Tilvísunum verði breytt í erfðalögum til annarra laga sem nú eru fallin úr gildi og settar þess í stað tilvísanir til núgildandi reglna.
    Dómsmrn. fól þeim Markúsi Sigurbjörnssyni, settum prófessor, Ragnari H. Hall borgarfógeta og Skúla Guðmundssyni, deildarstjóra í dómsmrn., að semja þetta frv.
    Um fyrsta atriðið er fjallað í 1. gr. frv. og skal um það efni þess vísað til athugasemdanna með frv.
    Reyndir skiptaráðendur hafa bent á að erfðaréttur foreldra hafi í mörgum tilvikum reynst mjög ósanngjarn gagnvart langlífari maka og hann falli ekki að þjóðfélagsaðstæðum í dag. Þá er rétt að ítreka það sem stendur í athugasemdunum um norræna lagasamræmingu á þessu sviði, en þar höfum við Íslendingar nú sérstöðu.
    Um annað atriðið er fjallað í 2. og 3. gr. frv. og eru lagðar til breytingar á núgildandi reglum um heimildir langlífari maka til að fá leyfi til setu í óskiptu búi. Núgildandi fyrirmæli 7. gr. erfðalaga taka bæði til þessarar heimildar langlífari maka gagnvart sameiginlegum niðjum og gagnvart stjúpniðjum, en í frv. er lagt til að hér verði gerður skilsmunur á. Fjallar 2. gr. um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi gagnvart sameiginlegum niðjum og 3. gr. um þann rétt gagnvart stjúpniðjum.
    Á undanförnum árum hefur nokkur umræða orðið um þá skipan sem hér hefur verið lýst, einkum í tengslum við lagafrv. sem flutt voru á Alþingi og leiddu að lokum til setningar laga nr. 29/1985. Í þeirri umræðu hefur einkum verið bent á veika stöðu langlífari maka gagnvart fjárráða börnum sínum eða fjarlægari afkomendum eftir fráfall skammlífari makans því fram að setningu áður nefndra laga var hinn langlífari alfarið háður velvilja fjárráða barna sinna um það hvort honum yrði kleift að setjast í óskipt bú. Fjölmargar röksemdir hljóta að mæla gegn reglum sem leiða til slíkrar aðstöðu.
    Langlífari maki sem knúinn er til að skipta búi

eftir fráfall hins skammlífari getur þurft að selja íbúðarhúsnæði til að standa straum af útborgun arfs eða þurft að ganga á sparifé sem ætlað var til framfærslu í elli. Eignir sem langlífari makinn kann að þurfa að láta að hendi hafa iðulega myndast á langri starfsævi hjónanna beggja með sameiginlegu framtaki þeirra án þess að börn þeirra eða fjarlægari afkomendur hafi átt hlut að öflun eignanna. Með hækkandi meðalaldri manna hafa þær aðstæður einnig orðið æ algengari að skammlífari makinn lifi að sjá börn sín komin vel yfir miðjan aldur og því fær aldursins vegna að sjá fyrir sér sjálf. Geta því orðið torfundin þau siðferðislegu og fjárhagslegu rök sem mæla með almennri reglu þess efnis að fjárráða niðjum hjóna sé í sjálfsvald sett að synja langlífari maka um heimild til setu í óskiptu búi jafnvel með þeim afleiðingum að högum hans verði verulega raskað.
    Lög nr. 29/1985 bættu stöðu langlífari maka að því leyti að skammlífari maki gat með erfðaskrá veitt langlífari maka rétt til setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum. Mörgum hefur þó vaxið í augum gerð erfðaskrár og því ekki orðið af gerð hennar fyrr en um seinan jafnvel þótt hjón hafi verið búin að binda slíkt fastmælum.
    Veruleg líkindi hljóta einnig að standa til þess að hjónum sé það almennt að skapi að hinu langlífara þeirra gefist kostur á setu í óskiptu búi ef það óskar þess. Í frv. er því lagt til að langlífari maki eigi rétt á setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum sínum og hins skammlífara nema annað hafi verið ákveðið í erfðaskrá hins skammlífari.
    Í 3. gr. er fjallað um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum og er þar mælt svo fyrir að hann hafi þann rétt varðandi ófjárráða stjúpniðja að þeir sem fara með forsjá eða lögráð hinna ófjárráða niðja veiti samþykki sitt til þess, enda hafi hið látna ekki mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef eftirlifandi maki fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpniðja á hann þennan rétt og ef fjárráða stjúpniðjar samþykkja er honum heimilt að sitja í óskiptu búi með þeim. Hafi skammlífari maki mælt
svo fyrir í erfðaskrá er eftirlifandi maka heimilt að sitja í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða.
    Rökin fyrir rýmkuðum rétti langlífari maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum eru um margt hin sömu og um þann rétt gagnvart sameiginlegum niðjum. Að mati reyndra skiptaráðenda hefur þess gætt í talsvert ríkara mæli í framkvæmd að stjúpniðjar standi í vegi fyrir setu langlífari maka í óskiptu búi en sameiginlegir niðjar hjóna. Er og áberandi við þessar aðstæður að hjón hafa leitast við að tryggja stöðu hins langlífara með ýmsum hætti, t.d. með fyrirmælum í erfðaskrá, um aukningu erfðahluta hins langlífara eða með kaupmálum. Slíkar ráðstafanir ná þó sjaldan því markmiði að gera hið langlífara eins sett og það sæti í óskiptu búi.
    Í 4. gr. er mælt fyrir um þá breytingu á 8. gr. núgildandi erfðalaga að felld eru niður skilyrði fyrir

heimild eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi sem ekki þykir lengur rétt að hafa í lögum, enda þjónar það tæpast sjálfstæðum tilgangi.
    Ákvæði 5. gr. eru til að lögfesta skýrar verklagsreglur um framkvæmd leyfisveitingar til setu í óskiptu búi og er þar höfð hliðsjón af framkvæmd núgildandi laga.
    Ákvæði 6. gr. fellir erfðalögin að fyrirhuguðu skipulagi um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en í ákvæði í 16. gr. frv. er jafnframt séð til þess að lögin falli einnig að núgildandi embættisskipan.
    Í 7. gr. er lagt til að felld verði brott tvö ákvæði sem nú teljast óþörf og í 8. gr. er fjallað um hvenær niðjar geti krafist skipta á óskiptu búi. Eru þar gerðar breytingar til samræmis við ákvæði 2. og 3. gr. Sama gildir um ákvæði 10. gr.
    Í 12. gr. eru ný ákvæði varðandi uppgjör á fyrir fram greiddum arfi og er tillaga gerð þar að lútandi í ljósi reynslunnar af framkvæmd 31. gr. núgildandi erfðalaga sem valdið getur ójöfnuði við uppgjör milli erfingja.
    Herra forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir helstu ákvæðum þessa frv. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og hv. allshn.