Friðun hreindýra
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Já, ég vil þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þetta frv. og í annan stað taka undir ábendingar hennar að því er varðar umhverfismálin. Ég held að þær hafi allar verið á sínum stað og sjálfsagt að taka tillit til þeirra að mínu mati þegar um þau mál er fjallað í undirbúningi þess að stofnað verði umhverfismálaráðuneyti. Í menntmrn. eru nokkur mál sem bersýnilega ættu að heyra undir umhverfismálaráðuneyti. Það eru hreindýramálin, það eru fulgaveiðar og fuglafriðun, það er dýravernd, það er Geysissvæðið og það er Náttúruverndarráð svo nokkuð sé nefnt. Í rauninni held ég að umhverfismál og ákvörðun um að koma þeim í eitt ráðuneyti hafi aldrei strandað á menntmrn. Menntmrn. hefur tiltölulega skýra verkaskiptingu að því er þessa hluti varðar og þess vegna hefur tregðan ekki verið þar. Mæli ég af nokkurri reynslu frá þeim tíma þegar ég gerði tilraun til þess sem félmrh. að koma þessum þáttum öllum saman í eitt ráðuneyti og gekk illa. Von er þó til þess að vaxandi skilningur sé á því að á þessum málum þurfi að taka. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það eigi að taka það undir umhverfismálaráðuneyti sem hægt er að taka strax og ekki að láta kerfistregðu á einstökum stöðum verða til að stöðva málið í heild eins og við höfum því miður gert á undanförnum árum.
    Varðandi nafnið á frv. eru þær athugasemdir réttmætar. Það styðst einungis við þá staðreynd að núgildandi lög heita þetta. Ég tel að það væri langeðlilegast að þetta frv. bæri nafnið: Frumvarp til laga um verndun hreindýra. En það er mál sem hv. menntmn. á að ráða til lykta og ég tel að ábendingar hv. þm. hafi verið fyllilega réttmætar í þeim efnum. Það hefur reyndar verið sá háttur á í sambandi við löggjöf af þessu tagi að hún hefur yfirleitt verið löggjöf um friðun, svo undarlegt sem það nú er, þó efnið hafi yfirleitt verið um veiðar. Þetta dæmi er skýrt í þeim efnum. --- Lög um friðun hreindýra og eftirlit með þeim frá 1940, sömuleiðis lög um fuglafriðun. En ég hygg þó að skemmtilegasta dæmið í lagasafninu sé frá 1914. Það eru lög nr. 23, 2. nóv. það ár, sem hefjast svo: ,,Stjórnarráð Íslands getur ákveðið að hérar skuli friðaðir vera nokkurn hluta ársins eða allt árið.`` Þessi lög heita: Lög um friðun héra. Kannski er fyrirmyndin þaðan fengin og því ástæða til að breyta til af því að við höfum lítið haft með friðun héra að gera seinni áratugina, jafnvel þó maður líti yfir gjörvalla sögu menntmrn. og Runólfs Þórarinssonar deildarstjóra sem ég nefndi áðan til sögunnar.