Meðferð trúnaðarmála
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það, sem fram kemur í fsp. hv. þm., að hér er um mál að ræða sem þarf að afgreiða fljótlega. Því miður eru ekki hér reglur um birtingu skjala. Því skipaði fyrrv. ríkisstjórn nefnd til að gera tillögur um slíkt. Ég hef gengið eftir því að nefndin hraði sínum störfum og aflað mér upplýsinga um hvar málið stendur.
    Störfum nefndarinnar er ekki lokið, en mér er lofað að því verði hraðað eins og frekast er unnt. Hins vegar hefur nefndin lokið við undirbúning að tillögugerð sem mér sýnist miða í rétta átt, m.a. hefur nefndin flokkað niður skjöl, þ.e. almenn stjórnarskjöl og skjöl sem varða einstaklinga og skjöl sem varða öryggi þjóðarinnar, og hefur til undirbúnings sínum tillögum aflað sér upplýsinga erlendis frá um það hvernig farið er með hin ýmsu skjöl í öðrum löndum. Ég mun ganga eftir því að nefndin hraði sínum störfum og vænti þess að það geti orðið á næstu mánuðum.