Meðferð trúnaðarmála
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka forsrh. fyrir þessi svör og tek undir ósk hans um að nefndinni auðnist að ljúka störfum á næstu vikum eða mánuðum.
    Ég tel að það sé brýnt að við setjum okkur ákveðnar reglur um þessi efni, bæði um hvenær birta eigi upplýsingar en kannski ekki síður hvenær ástæða er til að varðveita viðkvæmar upplýsingar þannig að ekki hljótist af meðferð þeirra óeðlileg vandamál eða óþægindi fyrir einstaklinga. Ég geri mér fulla grein fyrir því að um þessi mál er vandasamt að fjalla. Eflaust er líka vandasamt að setja um þau reglur svo öllum líki.
    Um hitt atriðið, að því er varðar upplýsingar frá fyrri tíð, þá er auðvitað fyrir löngu orðið tímabært að setja hér ákveðnar reglur um birtingu skjala. Um það hygg ég að flestir séu sammála. Við höfum dæmi á undanförnum vikum um hvernig menn hafa misfarið með trúnaðarupplýsingar á æðstu stöðum, þó að þar hafi kannski ekki verið um að ræða upplýsingar í formi opinberra skjala, og ég tel, eins og ég segi, afar mikilvægt að um slík mál sé jafnframt fjallað í þessu starfi.