Meðferð trúnaðarmála
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Án þess að lengja þessa umræðu að ráði vil ég taka undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði um Þjóðskjalasafnið. Það er mjög alvarlegur þrándur í götu góðrar meðferðar þessara mála að skjölin eru ekki aðgengileg og þau liggja yfirleitt í kössum sem að vísu eru að mér er sagt skráð að vissu leyti en afar erfitt að komast að. Það er mjög brýnt verkefni að ganga svo frá því ágæta húsnæði sem sú stofnun hefur nú fengið að skjölin verði vel aðgengileg eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni.
    Ég vil geta þess, af því að það kom fram hjá ræðumanni að aðgangur að skjölum væri takmarkaður vegna óska frá íslenskum yfirvöldum, að ég leitaðist við að afla mér upplýsinga um þetta á meðan ég var utanrrh. er mál kom upp þá. Ég gat ekki fengið þetta staðfest þótt ég hefði sömu fréttir erlendis frá. Það virðist vera mjög óljóst hvaða íslensk yfirvöld og hvenær hafi óskað þess að ákveðin skjöl yrðu ekki birt þótt um það gildi reglur hjá viðkomandi erlendum ríkjum.