Störf ósonnefndar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. um störf ósonnefndar sem ég skipaði 15. júní sl. og var skipuð í framhaldi af skipan nefndar sem átti að gera tillögur um umhverfismál fyrir forsrn. Þær tillögur lágu fyrir fyrrv. ríkisstjórn.
    Frá því að þessi fsp. var flutt hefur ýmislegt gerst í þessu máli sem ég hygg að hæstv. iðnrh. muni segja frá. Tillögur nefndarinnar liggja fyrir og hæstv. ráðherra hefur tekið ákvörðun í anda tillagna nefndarinnar.
    Auðvitað er það svo að ekki er vísindalega sannað að eyðing ósonlagsins stafi af klórflúorkolefnum, en þó er það talið líklegt. Það er ljóst að eyðing ósonlagsins hefur átt sér stað yfir suðurskautinu a.m.k. Þar hefur kalda loftið verið nokkrum vikum seinna að hitna en var fyrir nokkrum árum, að sögn bandarískra sérfræðinga sem þetta mál hafa kannað. Það er athygli vert að hér á landi hafa mælingar á ósonlaginu farið fram frá 1952 af hálfu Veðurstofunnar en ekkert verið unnið úr þeim rannsóknum. Ósonlagið verndar jörðina og íbúa hennar fyrir útfjólubláum geislum, en það er talið að meðal áhrifa á menn, sem eyðing ósonlagsins mundi hafa í för með sér og þar af leiðandi bein útfjólublá geislun, væri að krabbamein, einkum húðkrabbamein, gæti aukist, starblinda og truflun á ónæmiskerfi manna, auk áhrifa á umhverfi.
    Við notum talsvert af ósoneyðandi efnum hér á landi. Það er talið samkvæmt skýrslunni sem liggur fyrir að notkunin hafi verið 200 tonn árið 1986 og þar af hafi 70 tonn verið flutt inn en 130 í hálfunnum eða fullunnum varningi hér á landi.
    Mér er ljóst, virðulegi forseti, að það er í raun búið að svara þessari fsp. með aðgerðum af hálfu ráðuneytisins og ég leyfi mér að þakka fyrir að brugðist var skjótt við og fylgt niðurstöðum nefndarinnar sem skipuð var á sl. sumri.