Störf ósonnefndar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvað liði störfum nefndar sem hann sem iðnrh. skipaði í júní sl. til að kanna notkun efna og efnasambanda sem talin eru eyða ósonlaginu og gera tillögur um hvernig draga mætti úr notkun þeirra og áætla kostnað sem því fylgdi. Það er skemmst hjá því að segja, eins og reyndar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að nefndin hefur skilað áliti, gerði það í desember sl., og hefur þar með lokið sínum störfum. Reyndar skilaði hún mér í byrjun október drögum að reglugerð um merkingar á úðabrúsum, en þeir innihalda margir svonefnd klórflúorkolefni sem kunna að vera hættuleg ósonlaginu.
    Í framhaldi af þessari greinargerð átti ég viðræður við formann nefndarinnar og aðra nefndarmenn sem leiddu til þess að viðfangsefni hennar hafa víkkað verulega og afraksturinn kemur fram í skýrslu nefndarinnar frá því um miðjan desember eins og ég nefndi áðan.
    Það er rétt, eins og ég kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það er ekki óumdeilanlega sannað vísindalega að losun efna eins og klórflúorkolefna og halóna eyði eða sé aðalvaldurinn að þynningu ósonlagsins. Hins vegar er sú áhætta sem því fylgir að sleppa slíkum efnum út í andrúmsloftið, ef þau skyldu vera þarna orsakavaldur, svo mikil að það er ekkert spursmál að það á að líta á allar leiðir til að takmarka losun slíkra efna út í andrúmsloftið, sérstaklega þar sem í sumum dæmum er um að ræða notkun sem ekki getur talist skipta sköpum fyrir mannkynið, um þess framleiðslu eða framkvæmdir, og ég nefni aftur sem dæmi úðabrúsana því að það eru til önnur efni sem nota má til þess að þrýsta algengum hreinlætisvörum í gegnum þær túður sem eru á þessum brúsum sem ekki eru talin hafa slík áhrif. En eyðing ósonlagsins hefur, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, á seinni árum valdið mönnum vaxandi áhyggjum vegna þess að áhrifin á lífkeðjur lands og sjávar, á heilsu fólks, ekki síst hættan á aukinni tíðni húðkrabbameins, veikara ónæmiskerfi og augnskaða er svo alvarleg að ekki verður undan því vikist að Íslendingar taki þátt í alþjóðaátaki til að draga úr þessari hættu.
    Í framhaldi af skýrslu nefndarinnar lagði ég til á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir jól að Íslendingar gerðust aðilar að tveimur alþjóðasamningum um verndun ósonlagsins, annars vegar svonefndum Vínar-sáttmála frá árinu 1985 og hins vegar Montreal-samþykktinni frá því í fyrra. Ég hef þegar skrifað utanrrn. og beðið um að ráðstafanir verði gerðar til þess að Íslendingar gerist aðilar að þessum alþjóðasamningum.
    Til þess að fullnægja ákvæðum þessara samninga og til þess að taka þátt í sameiginlegri framkvæmdaáætlun Norðurlanda, sem samþykkt var á umhverfisþingi Norðurlandaráðs, aukaþingi, í nóvember sl. þarf að gera hér ýmsar ráðstafanir. Þær hafa verið bundnar í ákveðna framkvæmdaáætlun sem byggð er á skýrslu nefndarinnar. Það er í fyrsta lagi að skylt verði að merkja úðabrúsa sem innihalda

ósoneyðandi efni, einkum klórflúorkolefni, frá 1. júní á þessu ári og síðan að banna sölu þeirra eftir 1. júní 1990. Ég tek það fram að slíkt bann er í gildi í mörgum nágrannalöndum okkar, bæði austan hafs og vestan. Jafnframt er svo fjallað um aðgerðir til að minnka notkun þessara efna í kæli- og frystibúnaði, í einangrunarefnum, í plastframleiðslu, hjá efnalaugum og í slökkvitækjum. Ég hef lagt til að eftirlit og ráðgjöf á þessu sviði verði falin Hollustuvernd ríkisins, Iðntæknistofnun og Vinnueftirliti ríkisins og það verður gert. Þá verður tekin upp sérstök tollskráning á klórflúorkolefnum til að auðvelda eftirlit með innflutningi á þeim. Ég hef þegar skrifað fjmrh., sem fer með tollskrána, um það að þessi breyting verði gerð og er þar bent á fyrirmyndir í nálægum löndum.
    Þá er líka til athugunar hvort koma megi upp í samvinnu við sveitarfélög aðstöðu til aftöppunar á klórflúorkolefnum til endurvinnslu eða eyðingar þegar lögð eru til hliðar kælikerfi sem ekki eru lengur í notkun. Þetta er praktískt framkvæmdaatriði sem nauðsynlegt er að ná samvinnu um við þá sem sjá um sorphirðu og sorpeyðingu.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum geta þess að ég hef ákveðið að skipa þriggja manna framkvæmdanefnd til að fylgja eftir þessu máli þar til komið verður á fót sérstöku umhverfismálaráðuneyti eða yfirumsjón umhverfismála falin einhverju einu ráðuneyti. Í þessa nefnd hyggst ég skipa einn mann frá Iðntæknistofnun Íslands, einn frá Hollustuvernd og einn frá Vinnueftirliti ríkisins.