Störf ósonnefndar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni þegar greint er á Alþingi frá jákvæðum viðbrögðum af hálfu framkvæmdarvaldsins í mikilvægu máli sem þessu varðandi verndun ósonlagsins.
    Hér var til meðferðar á síðasta þingi till. til þál. sem ég var meðflm. að en 1. flm. Álfheiður Ingadóttir. Þeirri tillögu var sl. vor vísað til ríkisstjórnarinnar með jákvæðum hætti að tillögu félmn. Sþ. og í framhaldi af því skipaði hæstv. þáv. iðnrh. nefnd til að gera tillögur um málið. Nú hefur hún skilað áliti og má segja að það sé með skjótari hætti en gerist um ýmsa aðila sem fá slík verkefni til meðferðar.
    Ég tel að þarna hafi verið vel að verki verið. Ég hef ekki kynnt mér í smáatriðum niðurstöður þessarar nefndar, en mér sýnist að það sem greint hefur verið frá stefni allt í rétta átt í þessu máli varðandi takmörkun á ósoneyðandi efnum hérlendis og að Íslendingar geti borið sig saman við það sem er að gerast hjá nágrannaþjóðum okkar og á vettvangi Norðurlanda eins og hæstv. ráðherra vék að í sínu svari.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra ætlar að fylgja þessu máli eftir með sérstakri framkvæmdanefnd og orðaði það svo: á meðan ekki hefur verið stofnað hér sérstakt umhverfisráðuneyti eða meðferð umhverfismálanna komið í annað og betra horf. Ég fagna þeirri áherslu sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um sérstakt ráðuneyti þessara mála sem er mjög knýjandi að hér verði að veruleika hið fyrsta, óháð ráðuneyti sem fylgist með þessum málum og geti beitt sér gagnvart þeim aðilum sem þurfa að taka með á málum þar með öðrum ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands og auðvitað fjölmörgum fleiri.