Samkeppnisstaða innlendrar kökugerðar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, 1. þm. Reykv., skilaði nefnd sú sem fjallaði um samkeppnisstöðu innlendrar kökugerðar upphaflega áliti í september, en það kom í ljós að á því áliti voru nokkrir tæknilegir annmarkar sem eftir viðræður við mig voru leiðréttir og hún skilaði síðan endanlegu áliti sínu í nóvember sl.
    Ég hef lagt þetta mál fyrir ríkisstjórnina og hún hefur samþykkt að fara að tillögum nefndarinnar í meginatriðum efnislega þannig að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á innfluttar kökur og majónessósu í samræmi við álit nefndarinnar í megindráttum. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að jafna aðstöðu innlendra framleiðenda og erlendra sem verða aðnjótandi niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum í Vestur-Evrópuríkjum.
    Framkvæmd málsins hefur hins vegar tafist nokkuð sökum anna í tekjudeild fjmrn. að undanförnu, en eins og þingmenn hafa e.t.v. orðið varir við hefur þar eitt og annað verið að fljóta yfir borðin og reyndar yfir okkar borð í hv. Alþingi. Þar hefur verið til sérstakrar athugunar hvort rétt sé að hafa gjaldið í formi tímabundins jöfnunargjalds sem leggja má á samkvæmt tollskrárlögum og heimildir eru til samkvæmt okkar fríverslunarsamningum eða í formi sérstakra heimildarlaga sem flytja þyrfti um sérstakt lagafrumvarp og leita samþykkis Alþingis.
    Ég á von á því að niðurstaða tekjudeildar fjmrn. og hinna lögfróðu manna í málinu liggi fyrir á næstunni og ég mun beita mér fyrir því að þetta gjald komi til framkvæmda á næstu vikum eftir því sem frekast verða tök á.