Samkeppnisstaða innlendrar kökugerðar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég fagna þessu svari hæstv. ráðherra og fagna því að hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt að fara að tillögum nefndarinnar í megindráttum. Ég skil að framkvæmdin hafi tafist. Nú hins vegar hefur hæstv. ríkisstjórn óskað eftir því að fá fjögurra vikna leyfi frá þinghaldi til að geta komið málum í lag. Má þá búast við því að á þessu máli verði tekið og væri gott að fá staðfestingu hæstv. fjmrh. á því, þ.e. ef fundahald hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. leiðir ekki til þess að það verður útilokað að vinna að slíkum málum.
    Mig langar, virðulegur forseti, í tilefni þeirra fundarhalda að fara með vísu sem mér barst í morgun, ekki síst af því að hæstv. ráðherrar eru báðir hér samtímis í þingsalnum en það er ekki oft. En vísan er svona:
     Eykur vanda enn á Fróni
     Ólafur í fylgd með Jóni.
     Tillögur úr Tímans fjósi
     tendra ást á rauðu ljósi.