Sala á landbúnaðarafurðum
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanrrh. tveggja spurninga, svohljóðandi:
,,1. Hversu mikið af landbúnaðarvörum seldu Íslendingar varnarliðinu í Keflavík, sundurgreint eftir tegundum, á árunum 1985, 1986 og 1987?
    2. Hversu mikið af kjötvörum fékk varnarliðið að flytja til Íslands á árunum 1985, 1986 og 1987, sundurgreint eftir tegundum?``
    Ég tel mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að fylgjast vel með þróun mála hvað hina síðari spurningu varðar, ekki síst vegna þess hversu umdeildur er með þjóðinni sá innflutningur á hráu kjöti sem liðist hefur hvað varnarliðið áhrærir. Bæði löglærðir menn, ráðherrar og leikmenn hafa deilt um lögmæti þessa innflutnings.
    Nú ætla ég ekki að hafa í frammi neinar fullyrðingar um hvort þessi kjötinnflutningur sé löglegur eða ekki samkvæmt varnarsáttmálanum. Ég treysti mér ekki að vefengja niðurstöðu nefndar löglærðra manna um málið sem fjölluðu um það fyrir nokkrum árum. Ég ætla heldur ekki að halda því fram að varnarliðið brjóti þær ströngu reglur sem um þennan innflutning gilda. Ég tel hins vegar tímabært að ríkisstjórn Íslands hefji viðræður við varnarliðið um að íslenskir bændur anni þessum markaði út frá öryggissjónarmiðum um sjúkdómavarnir. Það er mikil vá fyrir dyrum, hæstv. ráðherra, í okkar einangraða landi ef hingað bærust sjúkdómar, svo sem gin- og klaufaveiki. Sú veiki gæti borist hingað þessa leið þó líkurnar séu kannski enn meiri að slík veiki berist hingað með smygli og lögbrotum landsmanna sjálfra sem í dag munu vera allmikil, því miður. Á því þarf að taka.
    Ég veit að varnarliðsmenn éta mest svínakjöt, nautakjöt og kjúklinga. Þegar varnarliðið kom hingað voru þessar búgreinar á því frumstigi að við gátum ekki fullnægt þörf þeirra. Nú eru þessar búgreinar það þróaðar að við höfum á boðstólum kjöt sem stenst allan samanburð. Það sem ég undrast þó mest er það að ég taldi okkur geta þjónað mjólkurþættinum, en á dögunum vakti frétt í Dagblaðinu athygli mína, að enn eru þeir að nema hér land, þessir útlendingar, enn eru þeir að auka umsvif sín í matvælasölu á Íslandi. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þessa frétt sem birtist í Dagblaðinu. ,,Ís til Íslands`` hét hún:
    ,,Á Keflavíkurflugvelli hefur verið opnuð ísbúð sem er í eigu hins þekkta bandaríska ísfyrirtækis, Baskin Robbins. Fyrirtækið rak fyrir nokkrum árum þessa ísverslun en hefur nú opnað hana aftur endurbætta. Allur ís sem seldur er í versluninni er fluttur inn frá Bandaríkjunum, enda leggur fyrirtækið mikið upp úr því að selja eigin framleiðslu.
    Að sögn Íslendinga sem vinna á flugvellinum smakkast ísinn vel og er mjög eftirsóttur. En sjálfsagt þykir sumum skjóta skökku við að mjólkurís skuli vera fluttur inn til Íslands.``
    Ég vek athygli hæstv. ráðherra á þessu landnámi þeirra Bandaríkjamanna. Og það eru ekki bara útlendingar sem éta ísinn þarna heldur og Íslendingar.

    Hæstv. utanrrh. er þekktur að því að vera höfðingjadjarfur og hikar oft ekki við að mæla digurt og láta reyna á nýjar leiðir. Nú treysti ég honum til að taka þessi mál í heild sinni til endurskoðunar með það að markmiði að við Íslendingar sinnum matvælaþættinum hvað þessa gesti, sem hér dvelja um skamma stund, varðar.