Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Þegar fundur í hv. fjh.- og viðskn. var afboðaður áðan var sagt að hann yrði haldinn þegar að lokinni ræðu hæstv. fjmrh. Ég vona að það hafi verið um mistök að ræða að boða fundinn með þessu móti því að auðvitað hlýtur hv. þingdeildarmönnum að vera leyfilegt að taka til máls og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs.
    Auðvitað hef ég ekkert á móti því úr því að náðst hefur um það samkomulag að málið gangi til nefndar. Það leiðir af sjálfu sér að ef forustumenn í þinginu eru búnir að samþykkja það fer ég ekki sem óbreyttur þingmaður að reyna að breyta einhverju um það. Mér skilst að það liggi mjög á að koma aftur á fundi í Sþ. þannig að hér verði þá kannski ekki langar umræður, en þær gætu orðið eitthvað lengri við 2. umr. málsins.
    Ég fæ satt að segja ekki séð að það sé ljóst að þetta markmið um 450 millj. kr. tekjuauka á árinu sem nú er nýbyrjað vegna hækkana á áfengi og tóbaki náist nema heimilt verði að hækka útsöluverð á þessum vörum sem allra fyrst. Ég held að það geti ekki verið um neina nákvæma útreikninga að ræða sem skipti því máli hvort þetta verður deginum fyrr eða seinna. Og umfram almennar verðhækkanir. Hver ætlar að segja í dag hverjar almennar verðlagshækkanir verði? Ekki get ég það og það getur auðvitað ekki nokkur maður. Það er dengt yfir þjóðina nú hverjum skattinum á fætur öðrum sem auðvitað gengur inn í verðlag þegar verðstöðvun lýkur og það verða engir smámunir. Það eru engin 2 eða 3% sem verið er að telja mönnum trú um að verði kannski hækkanir umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Við vitum öll, landslýður veit það allur, að það er ákveðið að rýra kjörin og er verið að því hvern einasta dag og hækka vöruverð með þeim hætti að það getur ekki verið ljóst, eins og sagt er í athugasemdum, að það þurfi að skipta einhverjum dögum hvenær þetta frv. sé samþykkt.
    Mér skilst að hæstv. ríkisstjórn sé í þann veginn að styrkja enn þann meiri hluta sem hún telur sig hafa og þá verður einskis svifist að dengja yfir landslýðinn hverri kjaraskerðingunni á fætur annarri og getur enginn sagt í dag hver verði almenn verðlagsþróun í þessu landi. Ég er raunar alveg sannfærður um að hún verður með því mesta sem hún hefur orðið. Hún yrði kannski eitthvað svipuð og á fyrri helmingi ársins 1983. Það er stefnt í nákvæmlega það sama og þá var stefnt í með afgreiðslu fjárlaga og skattaálögum á landslýðinn. Það er það sem verið er að gera og hefur gerst núna með vaxandi hraða þegar stjórnin með einhverjum hætti hefur styrkt sinn meiri hluta og hún ætlar sér sýnilega að nota það til hins ýtrasta.
    Við skulum ekkert dylja okkur þessa. Það er verið að hækka álögur á allar mögulegar og ómögulegar vörur. Við skulum segja að áfengi og tóbak sé út af fyrir sig óþarft, menn geti án þess verið, en það er verið að hækka skatta á alls kyns vörur aðrar og álögur og ríkið er í fararbroddi að hækka allar sínar álögur. Það er ekki verið að heimila atvinnuvegunum hækkanir eða bæta þeirra kjör. Þó að menn séu

sammála um að meginatvinnuvegirnir séu nánast gjaldþrota er ekki verið að bæta þeirra kjör. Það er verið að rýra þeirra kjör með öllum þeim hækkunum sem yfir dynja. Ríkið segist þurfa meiri peninga, 7 milljarða nefnir núna hæstv. sjútvrh. til viðbótar við það sem áður hefur verið, 7 milljarða hygg ég. Þessir milljarðar verða ekki greiddir af öðrum en atvinnuvegunum og fólkinu í landinu. Og hverjar verða verðlagshækkanirnar þegar þetta allt saman springur framan í þá menn sem halda að það sé hægt að bjóða alþýðu þessa lands hvað sem er? Það er enginn dómbær að skera úr um það á þessari stundu.
    En það er samkomulag um að málið gangi til nefndar. Ég skal ekki tefja tímann. Ég á sæti í nefndinni og þar munum við að sjálfsögðu ræða bæði við hæstv. fjmrh. og aðra þá sem við teljum að þurfi að ræða við áður en málið verður afgreitt úr nefnd.