Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Eins og ég gat um í stuttri ræðu við 1. umr. málsins er ýmislegt við þetta mál að athuga og upplýsingar skortir. Þar er t.d. tekið fram að ljóst sé að það markmið sem ætlað er í fjárlagafrv. náist ekki nema heimild til breytinga verði veitt sem allra fyrst. Þetta hefði út af fyrir sig kannski verið óþarft. Það sem er aðalatriðið er það sem kemur fram í minnihlutaáliti sem er stutt og laggott, en undir það skrifar auk mín Guðmundur Ágústsson. Þar segir:
    ,,Meðan verðstöðvun er í gildi er óeðlilegt að ríkisvaldið geti í krafti valds síns ákveðið að undanskilja sjálft sig ákvæðum verðstöðvunar. Því leggur minni hl. til að frv. verði fellt.``
    Við viljum ekki tefja fyrir því að mál þetta fá framgang, en munum greiða atkvæði á móti því af framangreindum ástæðum. Það hefði auðvitað af fjmrn. hálfu verið hægt að gefa fyllri upplýsingar um útreikninga, verðhækkanir o.s.frv. en það mun þá koma fram í neðrideildarnefndinni.
    Ég vildi ekki spyrjast fyrir um það til að ég upplýsti það hve hækkun áfengis yrði mikil ef hún yrði framkvæmd nú, mér finnst ekki eðlilegt að frá því sé skýrt opinberlega, en það kemur að sjálfsögðu á daginn ef þessi heimild verður notuð sem mér skilst að sé svo brýnt að verði. Auðvitað eru þeir menn til sem segja að hættulaust sé að hækka áfengi og tóbak. Það er ekki mergurinn málsins, við getum deilt um það annars staðar, en aðalatriðið er að ríkið er stöðugt að hækka sínar álögur og sína verðlista og beita hins vegar verðstöðvun gagnvart öðrum. Það eru óhæf vinnubrögð og þess vegna greiðum við atkvæði gegn frv.