Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fjvn. Alþingis hefur nú lokið umfjöllun sinni um fjárlagafrv. fyrir árið 1989. Frá nefndinni koma brtt. á fjórum þingskjölum, þskj. 395, 396, 397 og 398. Brtt. á þskj. 395 varða einkum og sér í lagi 4. gr. frv. og eru fluttar af meiri hl. fjvn. Brtt. á þskj. 396 tilheyra 6. gr. og eru fluttar af nefndinni allri. Brtt. á þskj. 397 varða 5. gr., þ.e. B-hluta fjárlaga, og eru þær brtt. fluttar af meiri hl. nefndarinnr. Og brtt. á þskj. 398 varða 3. gr., tekjugreinina, og eru þær einnig fluttar af meiri hl. fjvn.
    Áður en ég vík að brtt. vil ég nota þetta tækifæri til að endurtaka þakkir mínar við starfsfólk fjvn. og hagsýslu sem hefur veitt okkur ómetanlegt liðsinni í okkar störfum. Enn fremur vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum í fjvn., ekki síður stjórnarandstæðingum en stjórnarsinnum, fyrir gott samstarf og þolinmæði við formann í oft erfiðri stöðu og miklu tímahraki.
    Vil ég nú víkja að brtt. á þingskjölunum í þeirri röð sem þingskjölin eru.
    Koma þá fyrst til álita brtt. á þskj. 395 frá meiri hl. fjvn. 1. brtt. á því þskj. er við 1. gr. frv. og er 1. brtt. í sjö stafliðum.
    Gengisbreyting íslensku krónunnar sem kom til framkvæmda þann 2. jan. sl. hefur að sjálfsögðu áhrif á útreikninga á afborgunum af teknum og veittum lánum sem færð eru undir lánahreyfingar við 1. gr. Undir sama yfirlið í greininni þarf svo einnig að koma nýr undirliður sem heitir Uppgjör á skammtímaskuld við Seðlabanka. Er hér um að ræða uppgjör á yfirdrætti ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands í árslok 1988, en þá nam skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands samtals 7,3 milljörðum kr. 800 millj. kr. af þeirri fjárhæð eru frá árinu 1987, en 6,5 milljarðar vegna halla á rekstri ríkissjóðs á árinu 1988. Gert hafði verið ráð fyrir því í fjárlagafrv. að séð yrði fyrir þessari skammtímaskuld á þann veg að fyrir árslok 1988 yrði tekið erlent lán til lengri tíma og það notað til að gera skil á yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands, bæði frá árinu 1987 og árinu 1988. Í greiðsluheimildarlögunum, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir jólaleyfi þingmanna, var gefin heimild til umræddrar lántöku. Hins vegar vannst ekki tími til að ganga frá nema hluta af þessu láni fyrir árslok 1988 þannig að í upphafi árs 1989 var ekki búið að ganga frá lántökum og greiða nema 2,8 milljarða af umræddri skammtímaskuld. Verður þess vegna að gera ráð fyrir lántöku til uppgjörs á skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands á árinu 1989 vegna ársins 1988 sem nemur 4,5 milljörðum kr. Stafl. a og b í 1. brtt. varða þannig breytingar sem gera þarf vegna áhrifa gengisfellingar á lánahreyfingar og stafl. e varðar uppgjör skammtímaskulda við Seðlabankann að fjárhæð 4,5 milljarðar kr. eins og áður getur.
    Í staflið c í þessari brtt. er gerð tillaga er varðar veitt lán til B-hluta ríkissjóðs og er lagt til að sú fjárhæð, sem í frv. er 1 milljarður 265 millj. kr.,

hækki um 75 millj. kr. og verði 1 milljarður 340 millj. Ástæðan er sú að gert er ráð fyrir að hefja mjög viðamikla endurbyggingu Þjóðleikhússins á árinu 1989. Í þá endurbyggingu verður ráðist strax að loknu yfirstandandi leikári og verður endurbyggingin mjög kostnaðarsöm þar sem húsið er orðið ákaflega illa farið og miklar breytingar þarf á því að gera af þeim sökum. Á árinu 1989 þarf því að afla fjár til umræddra framkvæmda sem á því ári er áætlað að kosti 75 millj. kr. Er í þessari tillögu gert ráð fyrir slíkri lántöku og síðan í B-hluta, þar sem fjallað er um Þjóðleikhús, gert ráð fyrir samsvarandi framkvæmdakostnaði.
    Eins og áður segir mun þessi viðamikla endurbygging hefjast þegar að loknu því leikári sem nú stendur. Fyrirsjáanlegt er að hún mun taka talsverðan tíma og er óhjákvæmilegt annað en gera ráð fyrir því að á meðan endurbyggingin standi yfir þurfi að gera talsverðar breytingar á starfi leikhússins. M.a. muni leggjast niður sýningar á aðalsviði hússins, a.m.k. um verulegan hluta þess tíma sem endurbyggingin stendur yfir, og munu þær ekki geta hafist fyrr en að lokinni endurbyggingu hússins.
    Þjóðleikhúsið hefur stofnað til mjög mikilla launaskulda við ríkissjóð sem ekki er fyrirsjáanlegt að húsinu takist að greiða eins og sakir standa og raunar er ekki heldur fyrirsjáanlegt að sú skuldasöfnun verði stöðvuð nema með umtalsverðum breytingum og endurskipulagningu á rekstri hússins. Þann tíma sem starfræksla Þjóðleikhússins liggur að miklu leyti niðri vegna endurbóta á byggingunni verður því að nota til að endurskipuleggja rekstur hússins og skoða m.a. samningamál við starfsfólk og aðra. Fjvn. leggur ríka áherslu á að sú endurskoðun fari fram og mun fyrir sitt leyti fylgjast með því að það verði gert.
    Tölul. d í 1. brtt. á þskj. 395 varðar síðan hluta- og stofnfjárframlög. Samkvæmt frv. eftir 2. umr. er gert ráð fyrir að varið verði 115 millj. kr. til slíkra framlaga.
    Þann 1. jan. sl. tók nýtt fyrirtæki, Bifreiðaskoðun Íslands hf., við starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins. Ráð var fyrir því gert að ríkissjóður legði hinu nýja fyrirtæki til 40 millj. kr. í hlutafé. Ekki var endanlega
gengið frá samningum og stofnframlagi ríkissjóðs á árinu 1988, en á því ári voru greiddar 20 millj. af þeim 40 sem fyrirheit höfðu verið gefin um. Verður því að gera ráð fyrir 20 millj. kr. hlutafjárframlagi á árinu 1989 til endanlegrar greiðslu á hlutafjárloforðum ríkissjóðs í Bifreiðaskoðun Íslands hf. Samkvæmt því er gerð sú brtt. við 1. gr. fjárlagafrv. að liðurinn hluta- og stofnfjárframlög hækki úr 115 millj. kr. í 135 millj. kr.
    Stafliður f varðar liðinn Innlend útgáfa verðbréfa og er þar lagt til að liðurinn verði hækkaður um 600 millj. kr. Stafliður g varðar nýjan lið, erlenda lántöku upp á 4 milljarða 635 millj. kr., og hefur ástæðan fyrir þessari tillögu þegar verið skýrð. Er hér um ræða þá lántöku sem rætt var um að taka þyrfti erlendis til uppgjörs á skammtímaskuldum við Seðlabanka Íslands

vegna halla á ríkissjóði á árinu 1988.
    Þær tillögur sem hér á eftir koma varða allar 4. gr. frv., allt aftur að 52. brtt. á þskj. 395. Allar þessar brtt. eru fluttar af meiri hl. fjvn., en mjög margar af brtt. þessum við 4. gr. eru hins vegar afgreiddar af nefndinni í heild og að þeim staðið með hefðbundnum hætti þannig að minni hl. fjvn. stendur með meiri hlutanum að afgreiðslu margra þessara brtt. Í hópi brtt. við 4. gr. sem fluttar eru á þskj. 395 eru hins vegar allnokkrar tillögur sem fluttar eru samkvæmt ákvörðun og að tilmælum ríkisstjórnarinnar og varða samþykktir ríkisstjórnarinnar um breytingar á einstökum útgjaldaliðum. Minni hl. fjvn. stendur að sjálfsögðu ekki að slíkum tillögum sem fluttar eru samkvæmt ákvörðun og tilmælum ríkisstjórnar. Til þess að flækja ekki mál að óþörfu var því það ráð tekið að meiri hl. fjvn. stæði einn að öllum brtt. við 4. gr. sem hér eru fluttar, bæði þeim tillögum sem fluttar eru samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar og eins þeim tillögum sem samkomulag varð um í fjvn. Er þetta gert eins og áður segir til einföldunar, en ég ítreka að sumar af þessum tillögum sem ekki varða ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru gerðar í samvinnu fjvn.
    1. brtt. við 4. gr., þ.e. önnur brtt. á því þskj., varðar embætti forseta Íslands. Þar er lagt til að viðfangsefnið 501, Viðhald fasteigna, hækki í 12 millj. kr. Í þeirri tillögu, ef hún verður afgreidd með samþykki, er fólgin sú ákvörðun Alþingis að hefjast handa á árinu 1989 um umfangsmiklar framkvæmdir við endurbyggingu á efri hæð forsetasetursins á Bessastöðum. Þarna er um brýna og nauðsynlega framkvæmd að ræða sem m.a. hefur verið fjallað um opinberlega. Áætlanir um framkvæmdina, m.a. kostnaðaráætlanir um endurbygginguna, hafa verið lagðar fyrir fjvn. Er ekki laust við að nefndarmönnum þyki sú framkvæmd vera nokkuð kostnaðarsöm og spurningar hafa risið hvort ekki væri unnt að ráðast í þetta þarfa viðfangsefni fyrir minni kostnað en þó svo að verkinu væri fullur sómi sýndur. Til samanburðar má geta þess að eins og kostnaðaráætlunin liggur nú fyrir um þetta verk mundi þessi endurbygging per fermetra kosta tvisvar sinnum hærri fjárhæð en nam byggingarkostnaði pr. fermetra á hinu margumtalaða mannvirki Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fjvn. gafst ekki tækifæri til að skoða nánar þessar kostnaðaráætlanir, en að sjálfsögðu er nauðsynlegt að það verði gert og það verður án efa gert.
    Með tillögu sinni vill nefndin hins vegar stuðla að því að framkvæmdir geti hafist á árinu 1989, en leggur að sjálfsögðu til að áætlanirnar verði skoðaðar betur og tilboða leitað í þeim tilvikum þar sem unnt er að viðhafa útboð í þeirri von að verkið verði hægt að vinna eins og verklýsing segir til um án þess þó að af því þurfi að hljótast sá mikli kostnaður sem kostnaðaráætlunin gerir ráð fyrir.
    Þá er í b-tölul. 2. brtt. lagður til nýr liður varðandi forsetaembættið þar sem gert er ráð fyrir því að önnur af tveimur bifreiðum embættisins verði endurnýjuð. Báðar bifreiðar forsetaembættisins eru 6--7 ára gamlar

og beðið hefur verið um af embættinu að heimila að endurnýja aðra þessa bifreið.
    3. brtt. varðar Alþingi. Þar hefur fjvn. fylgt þeirri reglu að leitast af fremsta megni við að áætla útgjöld Alþingis í samræmi við raunveruleg útgjöld einstakra viðfangsefna eins og þau birtast í ríkisreikningi. Það þjónar engum tilgangi að styðjast við svo rangar áætlanir fjárveitingavaldsins um rekstur löggjafarsamkundunnar að kostnaður við hefðbundna og óhjákvæmilega og eðlilega starfsemi þingsins fari árlega tugum milljóna fram úr áætlun. Áherslu ber að leggja á varðandi þá stofnun eins og aðrar að áætlanir í fjárlögum séu sem réttastar miðaðar við raunveruleikann eins og hann er, en þó þannig að fyllsta aðhalds sé að sjálfsögðu gætt. Þess sjónarmið voru ríkjandi hjá fjvn. varðandi tillögugerð hennar um útgjöld Alþingis.
    1. tölul. þessara breytinga varðar þannig skrifstofu- og alþingiskostnað Alþingis og er lögð þar til hækkun upp á 3,3 millj. kr. þannig að heildarútgjöld skrifstofu- og alþingiskostnaðar verið 143 millj. 198 þús. kr. Hækkunin er öll til komin vegna leigukostnaðar þeirra tveggja hæða að Austurstræti 14 sem Alþingi tók á leigu í haust, en kostnaður þeirra vegna lá ekki fyrir þegar fjárlagafrv. var samið en verður að sjálfsögðu að taka tillit til hans.
    Þá er lagt til í b-staflið að liðurinn 106, Útgáfukostnaður Alþingistíðinda,
hækki um 5 millj. kr. og er það í samræmi við niðurstöður um raunverulegan útgáfukostnað.
    Þá er lagt til í c-staflið að viðfangsefni 110, Umboðsmaður Alþingis, hljóti hækkun er nemi 1 millj. kr. og er það vegna kostnaðar við aðkeypta sérfræðiþjónustu, en kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu hlýtur óhjákvæmilega að verða allmikill hjá embætti eins og því sem hér um ræðir sem verður að sinna fjölmörgum og mjög ólíkum erindum og leita umsagnar og álits ýmissa aðila sem embættið getur ekki haft í þjónustu sinni sem fastráðið fólk.
    Stafl. d varðar leiðréttingu á kostnaði við þátttöku hjá Alþjóðaþingmannasambandinu og stafl. e er svo nýr liður.
    Eins og kunnugt er tók utanrrn. þá ákvörðun á nýliðnu ári að tilkynna að ráðuneytið mundi ekki lengur greiða kostnað vegna þátttöku fulltrúa þingflokkanna í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en þann kostnað hefur utanrrn. greitt um margra ára bil eða sennilega allt frá því að þessu verkefni var sinnt í fyrsta skipti. Féll því á Alþingi sá kostnaður sem af því hlýst að fulltrúar þingflokkanna sóttu fundi allsherjarþingsins á sl. hausti, að jafnaði þrjár vikur á hverju hausti hver fulltrúi til þess að kynna sér umræður á þessari mikilvægu alþjóðasamkomu.
    Tillagan í staflið e á þskj. 395 varðar það að þetta viðfangsefni verði tekið upp sem sérstakt viðfangsefni á vegum Alþingis, fái númerið 136 og heiti viðfangsefnisins verði: Þátttaka alþingismanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Kostnaður verði

áætlaður 2 millj. kr.
    Í sambandi við þessa afgreiðslu vil ég taka fram eftirfarandi:
    Til þess var mælst af þingforsetum á sínum tíma að þátttaka fulltrúa þingflokkanna í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna miðaðist við alþingismenn eina. Þessum tilmælum þingforseta hefur ekki að öllu leyti verið fylgt, enda hefur þessi þátttaka ekki verið á vegum Alþingis fram til þessa heldur á vegum utanrrn. og fulltrúar þingflokkanna í sendinefndinni hafa talist starfsmenn ráðuneytisins meðan á dvölinni hefur staðið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en ekki verið fulltrúar Alþingis á þeim vettvangi. Hafa fulltrúar þingflokkanna þannig sinnt störfum í tilteknum fastanefndum á allsherjarþinginu. Í hlut þeirra hefur komið að skila ráðuneytinu daglegum skýrslum eins og um starfsmenn ráðuneytisins væri að ræða en ekki fulltrúa Alþingis. Fulltrúar annarra þjóðþinga á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hafa hins vegar fyrst og fremst því hlutverki að gegna að fylgjast með og kynna sér þau umræðuefni sem á dagskrá eru hverju sinni að þeirra eigin vali og í samræmi við áhuga þeirra á þeim umræðuefnum sem á dagskrá eru og fulltrúarnir því ekki bundnir við störf í einhverri tiltekinni undirnefnd alla veru sína á þinginu. Þar eð utanrrn. greiðir ekki lengur kostnað af þessari starfsemi heldur hefur hann alfarið flust yfir til Alþingis er ekki lengur um það að ræða að Alþingi geti greitt kostnað annarra þátttakenda en alþingismanna. Þingflokkarnir geta því hér eftir ekki tilnefnt aðra fulltrúa af sinni hálfu til setu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en alþingismenn því ekki er heimilt að Alþingi greiði slíkan kostnað vegna annarra en alþingismanna. Hafi þingmenn einhvers þingflokks ekki aðstæður til eða áhuga á að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er því ekki um það að ræða að sá þingflokkur geti átt fulltrúa þar í það sinn og yrði það þá ákvörðun alþingisforseta og þingflokkaformanna hvort öðrum þingflokkum yrði gefinn kostur á að tilnefna í það sæti eða þátttaka félli niður.
    Sú breyting sem hér um ræðir hefur einnig annað í för með sér. Fulltrúar Alþingis í sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum verða eftir þessa breytingu ekki lengur starfsmenn utanríkisþjónustunnar heldur áheyrnarfulltrúar á allsherjarþinginu eins og þingmenn annarra löggjafarsamkoma hafa verið. Þeim verður því eftirleiðis í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir kjósa að kynna sér þau mál sem til umræðu eru á allsherjarþinginu og hvernig þeir vilja haga veru sinni þar. Eftirleiðis eru þau fulltrúar Alþingis á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en ekki þar í störfum á vegum utanrrn.
    Brtt. 4 varðar Þjóðhagsstofnun. Þar er lagt til að launagjöld hækki um 2 millj. 903 þús. og er þar miðað við að umsvif stofnunarinnar verði þau sömu og á árinu 1988, en Þjóðhagsstofnun hafa nýlega verið falin ýmis ný verkefni. Þar er gert ráð fyrir því að sértekjur stofnunarinnar hækki um 1 millj. 140 þús. kr. og er það í samræmi við þessa afgreiðslu.

    5. brtt. varðar Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Þar er lagt til að viðfangsefnið 101 Almennur rekstur lækki um 3 millj. kr. en á móti hækki um sömu fjárhæð viðfangsefnið 110 Rannsóknadeild fisksjúkdóma. Er þetta til samræmis við breytingu sem gerð var varðandi meðferð þessarar stofnunar við 2. umr. fjárlaga þar sem m.a. áætlun um sértekjur var verulega lækkuð vegna fyrirsjáanlegra minni umsvifa og tekna af sölu bóluefnis, en þau minnkandi umsvif munu gera fært að flytja til viðfangsefni milli deilda.
    6. brtt. varðar svo tillögu sem ég tók aftur til 3. umr. við 2. umr. fjárlaga vegna ábendinga sem komu fram í umræðunni er vörðuðu fjárveitingu til
liðarins Önnur leiklistarstarfsemi. Í tillögum fjvn. við 2. umr. var gert ráð fyrir því að þetta viðfangsefni, Önnur leiklistarstarfsemi, lækkaði verulega og var það skýrt með því að viðfangsefni sem áður féllu undir þann lið yrðu nú sjálfstæð í fjárlögum og fyrir því séð annars staðar. Fjvn. hefur endurskoðað tillögur sínar varðandi þennan lið og leggur til að ekki verði um eins mikla lækkun að ræða á framlögum til annarrar leiklistarstarfsemi og gert var ráð fyrir í tillögum hennar við 2. umr. Miðast tillaga nefndarinnar við að menntmrh. hafi jafnmikið fé óráðstafað til stuðnings við aðra leiklistarstarfsemi á árinu 1989 og hann hafði á árinu 1988 og hefur þá verið tekið tillit til þeirra viðfangsefna sem áður voru inni á þessum lið en hafa nú fengið sérstakt fjárlaganúmer.
    Hvað aðra stafliði þessarar brtt. varðar heldur fjvn. við upphaflega tillögu sína eins og henni var lýst við 2. umr., enda komu ekki athugasemdir við þá umræðu fram við þessa þrjá stafliði, stafliði b, c og d.
    7. brtt. varðar liðinn Bygging íþróttamannvirkja og er sundurliðun þar nánar lýst.
    8. brtt. varðar viðfangsefni 2-999 192 Ýmis framlög. Er þar lagt til að sá liður verði hækkaður úr 8 millj. 890 þús. kr. í 11 millj. 490 þús., en fjvn. mun síðar fjalla um skiptingu á þeim lið.
    9. brtt. varðar liðinn 3-103 Skrifstofa ráðherranefndar Norðurlandaráðs. Er þar lagt til að tilfærslur til einstaklinga, samtaka og heimila hækki um 2,3 millj. kr. og er þar um að ræða leiðréttingu á fjárframlögum vegna hlutar Íslands í kostnaði við starf á vegum norrænu ráðherranefndarinnar.
    Brtt. 10 er um nýjan lið, 4-221 Áburðarverksmiðja ríkisins, almennur rekstur, og er um að ríkisframlag verði veitt að fjárhæð 22 millj. kr. Það samkomulag var gert við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 að á því ári og árinu næsta yrðu greidd ríkisframlög til Áburðarverksmiðjunnar alls að upphæð 40 millj. kr. á verðlagi ársins 1988. Fyrri hluti þessarar greiðslu fór fram í fjárlögum ársins 1988 og vísa ég til þess sem ég sagði í fjárlagaræðu um þá afgreiðslu, en þar var gefin yfirlýsing um að samkomulag hefði náðst milli fjvn., fjmrh. og landbrh. um að á næsta ári yrði greiddur síðari hluti þessa framlags verðbættur. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 var hins vegar ekki gert ráð fyrir að þetta framlag yrði greitt. Um er hins vegar að ræða skuldbindandi samkomulag sem fjvn. leggur til að staðið verði við og gerir því hér tillögu

um 22 millj. kr. fjárframlag úr ríkissjóði til Áburðarverksmiðju ríkisins á árinu 1989. Er það lokagreiðsla og samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi er ekki gert ráð fyrir því að um frekari fjárframlög verði að ræða úr ríkissjóði til Áburðarverksmiðjunnar.
    11. brtt. varðar Skógrækt ríkisins. Ekki er þar um að ræða tillögur um neinar hækkanir heldur fyrst og fremst um orðalagsbreytingar og minni háttar tilfærslur. Í sambandi við Skógrækt ríkisins vil ég þó taka fram að fjvn. fékk bréf frá landbrn. sem sent hafði verið til Skógræktarinnar þar sem ítrekaður var sá vilji ráðherrans að Skógræktin hæfi undirbúning að flutningi aðalbækistöðvar sinnar austur á land og verði sem samsvari launagreiðslum til eins manns varið til þess verkefnis að undirbúa þann flutning.
    12. brtt. varðar landgræðslu- og landverndaráætlun. Hér er um að ræða ákvörðun og samþykkt ríkisstjórnarinnar um afgreiðslu þess máls sem ríkisstjórnin náði samkomulagi um og meiri hl. fjvn. flytur. Hækkunin skýrist á eftirfarandi hátt:
    Landgræðsluáætlun, til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins: Framlag hækki um 500 þús. Landgræðsluáætlun, framlag til Skógræktar ríkisins: Liðurinn hækki um 900 þús. Landgræðsluáætlun, framlag til Landgræðslu ríkisins: Liðurinn hækki um 5,5 millj. kr. Landgræðsluáætlun, ýmis starfsemi: Liðurinn hækki um 200 þús. kr. Landgræðsluáætlun, óskipt: Liðurinn falli brott.
    Í framhaldi af þessari tillögu er síðan 13. brtt. um að á landgræðslu- og landverndaráætlun komi nýr liður, Landþurrkun að fjárhæð 500 þús. kr., en sambærilegur liður var áður færður undir Búnaðarfélag Íslands og nam á fjárlögum yfirstandandi árs 700 þús. kr. en er nú felldur niður. Sundurliðun kemur síðar fram á sérstöku yfirliti á þskj. 395.
    Þá er brtt. 14 einnig tengd við sömu ákvörðun ríkisstjórnarinnar, en þar er að inn á landverndar- og landgræðsluáætlun bætist nýr liður, Fyrirhleðslur. Sá liður hefur verið inni á fjárlögum undanfarin ár en féll niður í fjárlagafrv. Lagt er til að til fyrirhleðslna samkvæmt þessum lið verði veitt samtals 16,5 millj. kr. og kemur sundurliðun fram á sérstöku yfirliti.
    Fram skal tekið að í samþykkt ríkisstjórnarinnar og afgreiðslum og í þessum tillögum meiri hl. fjvn. er ekki gert ráð fyrir því að landgræðsluáætlun sé að fullu verðbætt. Skýringar eru að sjálfsögðu þær að á sama tíma og menn neyðast til að rifa seglin á öllum sviðum við afgreiðslu fjárlaga sökum sérstakra aðstæðna í efnahagsmálum okkar Íslendinga þykir ekki fært á árinu 1989 að leggja til að landgræðsluáætlun verði að fullu verðbætt.
    Brtt. 15 varðar síðan viðfangsefnið 4-288 Jarðræktarlög, framlög, og er þar um nýjan lið að ræða, Framlög til búnaðarsambanda að fjárhæð 9 millj. kr.
Þessi afgreiðsla á sér fordæmi frá afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988. Í sambandi við þessar afgreiðslur er rétt að taka fram að landbrh. hyggst láta endurskoða lög um jarðræktarframlög og einnig búfjárræktarlög. Gert er ráð fyrir því að þær breytingar sem sú

endurskoðun hefur í för með sér dragi úr útgjöldum vegna nýframkvæmda sem tengjast hefðbundnum búgreinum. Í tengslum við endurskoðun og afgreiðslu nefndra lagabreytinga er ætlunin að ganga frá uppgjöri á skuldum vegna þegar tilkominna framkvæmda samkvæmt gildandi jarðræktar- og búfjárræktarlögum og leita samkomulags um greiðslu þeirra á tilteknu tímabili.
    Brtt. 16 varðar söluskatt í sjávarútvegi. Er gerð tillaga um að endurgreiðsla á söluskatti verði lækkuð um 30 millj. kr., en á móti komi nýr liður, 110 Útflutningsráð Íslands, með 30 millj. kr. framlagi. Er þetta sambærileg afgreiðsla og gerð var í fyrra við 3. umr. fjárlaga og er þessi breyting gerð að tilmælum sjútvrn.
    Brtt. 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25 og 26 varða síðan eitt og sama mál, en þar er um að ræða tilfærslur á stöðugildum tollgæslumanna frá embætti ríkistollstjóra og til viðkomandi sýslumanna- og bæjarfógetaembætta og embættis tollstjórans í Reykjavík. Ekki er hér um að ræða aukin útgjöld heldur tilfærslur og samsvarandi breytingar sértekna.
    Brtt. 27 varðar viðfangsefnið 303 620 Byggingar á prestssetrum. Er þar gerð tillaga um að fjárveiting til viðfangsefnisins verði hækkuð um 4,5 millj. og verði 11,5 millj. kr. alls. Í frumvarpstölunni, sem er 7 millj. kr., er gert ráð fyrir að 1 millj. renni til byggingar prestsseturs í Bjarnanesprestakalli. Á fjárlögum í fyrra voru veittar 2 millj. kr. til þess viðfangsefnis en fest hafa verið kaup á íbúðarhúsi til bráðabirgða fyrir prestinn. Þetta íbúðarhús er ekki ætlað sem framtíðarbústaður hans. Með fjárveitingu ársins 1988 og fjárveitingu þeirri sem hér er lögð til verða til ráðstöfunar alls 7,5 millj. kr. til byggingar embættisbústaðar prests í Bjarnanesprestakalli og er gert ráð fyrir því að þeirri fjárhæð verði varið til framtíðarembættisbústaðar fyrir prestinn í þessu prestakalli og að sá framtíðarbústaður verði að sjálfsögðu á prestssetrinu sjálfu.
    Tillaga 28 varðar Byggingarsjóð ríkisins. Er þar lagt til að tilfærslur lækki um 70 millj. kr. og er það vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar til lækkunar ríkisútgjalda.
    Tillaga 29 varðar Byggingarsjóð verkamanna. Er þar lagt til að tilfærslur verði lækkaðar um 80 millj. kr. vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar til lækkunar ríkisútgjalda.
    Brtt. 30 varðar skipulagsstjóra ríkisins. Þar er gerð tillaga um að sértekjur verði lækkaðar um 12 millj. kr. Er það miðað við óbreytt lög um skipulagsgjöld og er þar með horfið frá því að gera ráð fyrir því í fjárlagafrv. og fjárlögum að flutt verði frv. á Alþingi er breyti skipulagsgjöldum til hækkunar.
    Tillaga 31 varðar málefni fatlaðra á Norðurlandi eystra, verndaðan vinnustað á Bjargi. Er lagt til að fjárveiting verði veitt að fjárhæð 2 millj. kr. vegna uppgjörs á rekstrarhalla.
    Brtt. 32 varðar Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þar er lagt til að framlög hækki um 1 millj. kr. og er hækkunin ætluð til að koma sundlaug vistheimilisins

Sólborgar á Akureyri í notkun.
    Tillaga 33 varðar Vinnueftirlit ríkisins. Lagt er til að áætlun um sértekjur stofnunarinnar verði lækkuð um 10 millj. 41 þús. kr. þannig að stofnunin skili ekki tekjum í ríkissjóð eins og áformað var. Hins vegar er löngu orðið tímabært að málefni þessarar stofnunar verði tekin til rækilegrar skoðunar og hún verði endurskipulögð, m.a. þannig að hún geti alfarið staðið sjálf undir útgjöldum við starfsemi sína en hafi þá um leið meira frjálsræði um starfsemi og starfshætti.
    Tillaga 34 varðar viðfangsefni 7-999 131 Félagasamtök, styrkir á vegum félmrn. Er þar lögð til hækkun um 1 millj. kr. og er hækkunin ætluð til styrktar við Blindravinnustofuna vegna hallarekstrar bursta- og körfugerðar.
    35. brtt. varðar Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingar. Er þar lögð til lækkun um 80 millj. kr. og tengist sú tillaga ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til lækkunar ríkisútgjalda og er í samræmi við þær lækkanir og launakostnaði sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.
    Brtt. 36 varðar læknishéraðasjóð. Er þar lögð til hækkun sem nemur 1,5 millj. kr. Er sú hækkun vegna aukningar á ríkisframlagi í sjóðinn.
    Brtt. 37 er í tveimur stafliðum. Fyrri stafliður, stafl. a, felur ekki í sér neina breytingu á fjárhæð heldur aðeins orðaskýringu um framlagið sem hér er um að ræða, þ.e. stuðning við Krabbameinsfélag Íslands. Hér er ekki um rekstrarstuðning að ræða heldur greiðslu samkvæmt samningi milli ríkisins og Krabbameinsfélagsins um krabbameinsleit. Er brtt. gerð um þessa orðalagsviðbót til að taka af öll tvímæli um hvers kyns fjárframlag er hér um að ræða.
    Stafl. b varðar viðfangsefni 195 Kynsjúkdómar, eyðni. Þar er lagt til að framlagið hækki um 2,5 millj. kr.
    Í sambandi við heilbrigðismálin og málefni heilbrmrn. vil ég sérstaklega taka fram eftirfarandi:
    1. Í fjárlagafrv. því, sem hér er til umræðu og afgreiðslu, er ekki gert ráð fyrir því að hefja á árinu 1989 frekari framkvæmdir við svokallaða tengibyggingu eða tengigang við krabbameinslækningadeild Landspítalans. Fjvn. flytur ekki tillögur um breytingar á þeirri ákvörðun í fjárlagafrv. Ástæðan er ekki sú að ríkisstjórn og Alþingi geri sér ekki fulla grein fyrir því að þessum framkvæmdum verður að halda áfram. Fullur vilji er á því að þessu verki verði haldið áfram eins og til er stofnað og ber alls ekki að skoða þá afgreiðslu sem hér er gerð tillaga um sem ákvörðun fjárveitingavaldsins um að nú eigi að gera hlé á framkvæmdum við K-byggingu. Ákvörðunin um að leggja ekki til að veruleg fjárveiting verði veitt til áframhaldandi byggingarframkvæmda á landspítalalóð er aðeins og einvörðungu tengd þeim sérstöku erfiðleikum sem nú er við að fást í efnahagsmálum landsmanna. Verði breytingar þar á á árinu 1989, sem breyti verulega forsendum fjárlaga þannig að svigrúm gefist til þess að sinna þeim viðfangsefnum sem ekki

er talið mögulegt að sinna við afgreiðslu fjárlaga nú, munu þessi mál verða skoðuð. Einnig vil ég að ljóst liggi fyrir að það er ásetningur að halda áfram þeim framkvæmdum sem ráðast þarf í á landspítalalóðinni í samræmi við tillögur yfirstjórnar mannvirkjagerðar á landspítalalóð og munu þau áform að sjálfsögðu koma á dagskrá að nýju við gerð fjárlaga fyrir árið 1990.
    2. Þá vil ég taka fram að mjög ítarleg og athyglisverð skýrsla barst fjvn. frá stjórnarnefnd ríkisspítala um launaþróun á vegum ríkisspítalanna á undanförnum árum og að hve miklu leyti rekja má þá launaútgjaldaþróun, þ.e. hækkun álagsgreiðslna o.fl., til sérstakra aðstæðna eins og gerðar kjarasamninga sem áhrif hafa til launakostnaðarauka umfram það sem ráð er fyrir gert. Var þess óskað í þessari greinargerð að fjvn. beiti sér fyrir því að teknar verði upp viðræður um gerð kjarasamninga eins og stjórnarnefnd ríkisspítala hefur óskað eftir. Fjvn. hefur samþykkt fyrir sitt leyti að fallast á þessi tilmæli og mun beita sér fyrir því að sérstök athugun verði gerð á áhrifum kjarasamninga á launaútgjöld ríkisspítalanna með þeim hætti sem stjórnarnefndin hefur óskað eftir.
    38. brtt. á þskj. 395 varðar svo viðfangsefnið 926 Ríkistollstjóri. Fyrsti stafliðurinn varðar almennan rekstur ríkistollstjóraembættisins og er viðfangsefnið lækkað um 118 millj. 712 þús. kr. Er þar um að ræða áhrif vegna tilflutnings á stöðugildum tollgæslumanna og þeim kostnaði er því fylgir frá embætti ríkistollstjóra til tollstjórans í Reykjavík og til embætta sýslumanna og bæjarfógeta.
    Þá er stafliður b þar sem viðfangsefnið Tölvubúnaður, bifreið o.fl. er lækkað um 900 þús. kr. Er þar um að ræða tilfærslu á stofnkostnaðarfjárveitingu til tollstjórans í Reykjavík. Loks er lagt til að sértekjur lækki um 6 millj. 851 þús. kr. og tengist það einnig ákvörðuninni um tilflutning tollgæslumanna sem að framan var getið.
    39. brtt. tengist sama máli og varðar tollstjórann í Reykjavík. Þar er tekinn inn nýr liður, Tollgæsla, og fjárhæðin 99 millj. 969 þús. kr. vegna tilfærslunnar frá embætti ríkistollstjóra og viðfangsefni 610 Tölvubúnaður hækkar um 900 þús. kr. af sömu ástæðu.
    Tillaga 40 varðar liðinn 9-381 Uppbætur á lífeyri. Þar er lagt til að viðfangsefnið verði hækkað um 90 millj. kr. og er það vegna leiðréttingar og umreiknings á uppbótum á lífeyri.
    Þá er næst tillaga 41 og varðar hún viðfangsefnið Ríkisábyrgðasjóður. Þar er lögð til lækkun að fjárhæð 78 millj. kr. og tengist sú tillaga ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til lækkunar ríkisútgjalda.
    Þá kemur 42. brtt. er varðar viðfangsefnið 9-989, Launa- og verðlagsmál. Í þessari brtt. er lagt til að tillit verði tekið til áhrifa þeirra breytinga sem orðið hafa vegna ákvarðananna um breytingar á gengi íslensku krónunnar sem teknar voru og komu til framkvæmda þann 2. jan. sl. Þessi ákvörðun hefur áhrif á útgjöld ríkisins með tvennum hætti. Annars vegar eins og segir í 42. brtt. á þskj. 395 og varðar liðinn 9-982, Launa- og verðlagsmál, og hins vegar er

varðar 50. brtt. á því þskj. er fjallar um viðfangsefnið 15-991 Ýmis lán ríkissjóðs, vaxtagreiðslur.
    Í A-hluta frv. til fjárlaga er rekstrarkostnaður einstakra stofnana á verðlagi sem miðað er við janúar 1989. Á einum fjárlagalið, 09-989 Launa- og verðlagsmál, er ætlað fyrir fé til að mæta þeim breytingum á launum og rekstrargjöldum innan ársins sem eru í samræmi við almennar forsendur frv. Heildartölur frv. voru því á áætluðu meðalverðlagi ársins 1989. Vaxtagjöld vegna A-hluta eru síðan færð upp á einum fjárlagalið 15-991, Ýmis lán ríkissjóðs, vextir.
    Við gerð frv. var miðað við að laun hækkuðu um 8% milli ára, almennt verðlag um 12% og að gengið yrði um 7% hærra að jafnaði en það var 1988. Endurskoðun á verðlagsforsendum eftir gengisfellingu í janúar 1989 leiðir til þess að rétt er talið að miða launabreytingar eftir sem áður við 8%, en hækka breytingu á
almennu verðlagi um 1,5% og gengi um 4%. Útgjöld sem beint eru tengd gengi önnur en vextir, svo sem framlög til alþjóðastofnana, kostnaður við sendiráð og fleira, eru alls um 400 millj. kr. Áætlað er að þessi kostnaður hækki um 16 millj. kr. vegna gengisbreytinganna.
    Rekstrargjöld önnur en laun eru 9,5 milljarðar kr. þegar frá eru dregin gengistengd gjöld sem þegar hafa verið hækkuð. Hækkun á þessum lið um 1,5% er um 143 millj. kr. Í samræmi við það er gerð tillaga um að liðurinn Launa- og verðlagsmál hækki um 160 millj. kr. vegna breytinga á almennu verðlagi og gengi og er það skýringin á 42. brtt.
    Áætlaðar vaxtagreiðslur voru endurskoðaðar með tilliti til gengisbreytingarinnar að því er varðar erlend lán, en með tilliti til lánskjaravísitölu þegar um innlend lán var að ræða. Var talið rétt að hækka þá áætlun um 190 millj. kr. Af sömu ástæðum er einnig talið rétt að hækka áætlun um afborganir af teknum lánum um 140 millj. kr. og afborganir af veittum lánum um 70 millj. kr. Þessar fjárhæðir snerta ekki útgjöld A-hluta en koma fram undir lánahreyfingum í 1. gr. frv. Samtals nema áhrif gengisbreytingarinnar á launa- og verðlagsmál annars vegar og vaxtaútgjöld hins vegar því um 350 millj. kr. til hækkunar.
    Ég ítreka að hér er um það að ræða að samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar, sem barst fjvn. í gær, var gert ráð fyrir því að launahækkanirnar milli áranna 1988 og 1989 nemi 8% og hefur þá verið tekið tillit til áhrifa gengisbreytingarinnar. Hér er um sömu prósentutölu að ræða hvað varðar laun og þegar er búið að áætla fyrir í fjárlagafrv. Gengisbreytingin þann 2. jan. 1989 mun því ekki breyta launaforsendunum frá því sem ráð var fyrir gert í frv. Fyrir viðbótarútgjöldum vegna áhrifa gengisbreytinganna hvað varðar launalið hefur því þegar verið séð í frv.
    Sjálfsagt verða einhverjir til að efast um að hér sé nægilega ríflega áætlað fyrir áhrifum gengisbreytingarinnar. Um það er enn að segja að samkvæmt áætlunum Þjóðhagsstofnunar eru launabreytingar milli áranna 1988 og 1989 ekki meiri

en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv. þrátt fyrir gengisbreytinguna í janúarbyrjun. Hún gefur sem sé ekki tilefni til að áætla aukningu launaútgjalda hjá ríkinu umfram það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. En það er auðvitað í launaútgjöldum sem breytingarnar yrðu mestar og mjög verulegar ef gengisbreytingin hefði breytt launaforsendum fjárlagafrv. sem hún ekki hefur gert. Þetta er meginskýringin á því að gengisbreytingin hefur ekki í för með sér meiri útgjaldaauka á liðnum uppbætur á laun og verðlagsmál en þær 160 millj. kr. er ég áður nefndi.
    43. brtt. er í tveimur stafliðum. Fyrri stafliður varðar viðfangsefnið 118 sem er undirliður 9-999 Ýmislegt á vegum fjmrn. Þar er lagt til að tiltekin orðalagsbreyting verði gerð á texta. Í frv. er rætt um styrk til dagblaðaútgáfu. Er lagt til að orðalaginu verði breytt í ,,styrkur til blaðaútgáfu``.
    Þá er lagt til í staflið b að nýr liður verði tekinn í fjárlög er heiti Ýmsar endurgreiðslur og til hans verði varið fjárhæð er samsvari 10 millj. kr. Þar er gert ráð fyrir að hægt verði að sinna beiðnum um ýmsar undanþágur frá greiðslu söluskatts og aðflutningsgjalda sem ávallt hefur verið leitað eftir í 6. gr. fjárlaga, en með breytingu söluskattslaganna í fyrra var tekin sú stefna að fella niður þann hátt að sinna öllum slíkum erindum með heimildagreinum á fjárlögum með því m.a. að setja inn almenna undanþáguheimild í söluskattslögin.
    Nú hefur komið í ljós að sú almenna heimild er í einstökum tilvikum ekki fullnægjandi þegar sérstaklega stendur á. Hafa nokkrar umsóknir um slíkar endurgreiðslur og niðurfellingar borist fjvn. og stóð nefndin frammi fyrir því annaðhvort að hefja á ný upptöku slíkra heimilda í 6. gr. ellegar að gera ráð fyrir sérstakri fjárveitingu á fjárlögum sem gæti gengið til þess að endurgreiða slík gjöld í sérstökum tilvikum í samræmi við hefðbundnar afgreiðslur eins og þær hafa löngum verið með heimildum í 6. gr. Nefndin valdi síðari kostinn og leggur hér til eins og áður segir að 10 millj. kr. verði varið í þessu skyni og að fé þessu verði ráðstafað í samráði við fjvn.
    Tillaga 44 varðar Póst- og símamálastofnun, almennan rekstur.
    Tillaga 45 varðar Vegagerð ríkisins. Er þar m.a. gert ráð fyrir afgreiðslum í samræmi við samþykktir ríkisstjórnarinnar um framkvæmdafé, en jafnframt er þó ráð fyrir því gert að nýframkvæmdir fái alls til ráðstöfunar 1 milljarð 345 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að innan þess ramma geti rúmast framkvæmdir við gerð jarðganga um Ólafsfjarðarmúla sem þegar hefur verið samið um, en fjárþörf vegna þeirra framkvæmda á árinu 1989 er talin vera um 320 millj. kr. Nánari tillögur um hvernig að þessu verkefni skuli staðið svo og öðrum nýframkvæmdum mun ríkisstjórnin gera af sinni hálfu þegar kemur til afgreiðslu á Alþingi að endurskoða vegáætlun síðar á þessu vormissiri og Alþingi mun síðan taka sínar endanlegu ákvarðanir við afgreiðslu þeirrar endurskoðunar.
    Þá er einnig rétt að fram komi hér að við

óreglulega endurskoðun vegáætlunar á sl. ári var gert ráð fyrir að á árinu 1989 yrði skilað til Vegasjóðs
áætluðum tekjum af innheimtu fastra gjaldstofna sem ekki var ráðstafað til vegaframkvæmda á árinu 1988 og talið var að nema mundu 285 millj. kr. Þessar óinnheimtu tekjur, sem þannig voru áætlaðar, reyndust hins vegar vera allmiklu lægri eða 180 millj. kr. í stað þeirra 285 sem rætt var um við afgreiðslu vegáætlunar í fyrra og var það skipt á einstök kjördæmi. Vegna sérstakra aðstæðna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á árinu 1989 er ekki gert ráð fyrir að þessum tekjum verði skilað til ríkissjóðs á því ári eins og ráðgert hafði verið heldur munu þær áfram færast á ríkisreikningi sem skuld ríkissjóðs við Vegasjóð og koma til greiðslu síðar.
    Einnig er rétt að taka það fram að í þessum tillögum um vegamál felst að lögbundnar tekjur Vegasjóðs á árinu 1989 eru skertar um 700 millj. kr. miðað við þá áætlun sem gerð hefur verið um hversu miklu þessar tekjur geti skilað. Samgrh. hefur tekin fram að sú ákvörðun að skerða tekjur Vegasjóðs miðist aðeins við árið 1989 vegna sérstakra aðstæðna á því ári, en allar tekjur Vegasjóðs muni frá og með árinu 1990 verða til ráðstöfunar til framkvæmda eins og til er ætlast.
    Brtt. 46 varðar Flugmálastjórn. Þar er gert ráð fyrir að sértekjur hækki um 24 millj. kr. og framkvæmdir að sama skapi og er það í samræmi við nýlega samþykkta flugmálaáætlun.
    Þá er tillaga 47 er varðar ýmis framlög á vegum samgrn. Þar er lögð til hækkun um 1 millj., en liðnum verður skipt síðar með bréfi af fjvn. eins og vani er.
    Þá kemur loks brtt. 48 er varðar Ferðamálaráð. Þar er lagt til að almennur rekstur Ferðamálaráðs lækki um 1 millj., en inn komi nýr liður er varði Ferðamálasamtök landshlutanna og fái þau til ráðstöfunar 1 millj. kr. Er þetta í samræmi við afgreiðslu sem gerð var í fjárlögum ársins 1988.
    49. brtt. varðar Orkusjóð. Þar er lagt til að viðfangsefnið Lán til jarðhitaleitar verði hækkað um 1150 þús. kr. og er hækkunin til að greiða skuld vegna jarðhitarannsókna 1988 í Öxarfirði.
    Þá er gert ráð fyrir því og gerð tillaga um að viðfangsefnið 620 Sveitarafvæðing hækki um 1 millj. kr. og er sú hækkun ætluð til að greiða kostnað við sérstaka framkvæmd í sveitarafvæðingu samkvæmt samkomulagi við Orkusjóð.
    Þá er loks lagt til í staflið c að framlag til styrkingar dreifikerfis í sveitum verði hækkað um 5 millj. kr.
    50. brtt. hafði ég þegar lýst.
    51. brtt. við 4. gr. Þar er lögð til sú afgreiðsla að launaliðir í rekstri stofnana lækki um 1,5% og fjárhæð þessi sem reiknast af heildarlaunum hverrar stofnunar skal koma til lækkunar á launagjöldum öðrum en föstum mánaðarlaunum. Þar sem sértekjur stofnana eru ákveðnar sem hlutfall gjalda skulu þær lækka til samræmis við þau. Auk þess skal framlag til tiltekinna stofnana, sem upp eru taldar, lækka eins og þar segir.

Þetta merkir að framlög til nokkurra stofnana, sem þarna eru upp taldar og fá framlag í formi tilfærslu, eru lækkuð þannig, að áhrif fyrrnefndra launabreytinga verði hliðstæð og hjá öðrum stofnunum. Er þetta í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að draga úr launakostnaði hjá hinu opinbera.
    52. brtt. varðar Póst- og símamálastofnunina og er þar vísað í sundurliðun á fjárfestingum Pósts og síma um einstök verkefni.
    53. brtt. varðar með sama hætti Rafmagnsveitur ríkisins og felur í sér sundurliðun á fjárfestingum á vegum RARIK.
    Ég hef þá lokið við að lýsa brtt. á þskj. 395 og koma þá næst brtt. á þskj. 396, en þær brtt. flytur fjvn. öll og varða þær brtt. 6. gr., heimildagrein fjárlaga.
    Í 1. brtt. er gert ráð fyrir að heimilað verði að fella niður stimpilgjald vegna kaupa Flugleiða hf. á Boeing-þotu og er þetta í samræmi við afgreiðslur sem áður hafa verið gerðar við slík tilefni.
    b-stafliður er leiðrétting um að fella á brott lið sem rangt hefur verið upp settur og þegar hefur verið gert ráð fyrir að sinna á öðrum stað í frv.
    Stafl. c er um nýja liði, heimildir til að selja tilteknar fasteignir og eru þessar tillögur fluttar að beiðni fjmrn. og skýra sig sjálfar. Ástæða er þó að segja nokkur orð um tillögu 4.40 sem fjallar um heimild til að selja lögreglubifreiðaverkstæði og lóð að Síðumúla 24--26 í Reykjavík en kaupa í staðinn húsnæði fyrir þvotta- og þjónustustöð fyrir lögreglubifreiðar. Hér er um það að ræða að leita leiða til að draga úr kostnaði með því móti að selja verkstæði það og lóð að Síðumúla 24--26 sem notað hefur verið undir viðgerðarhúsnæði fyrir lögreglubifreiðir og kaupa viðgerðir á þeim bifreiðum annars staðar án þess að lögreglan starfræki sjálf sérstakt verkstæði í þeim efnum, en gera hins vegar ráð fyrir því að lögregluembættið starfræki staðinn aðstöðu til minni háttar viðhalds og þrifa á lögreglubílunum, eins og segir í tillögugreininni.
    Tillaga í stafl. d varðar að almenn heimild til kaupa á skrifstofuhúsnæði fyrir Stjórnarráð Íslands og taka til þess nauðsynleg lán falli niður.
Talsvert mikið af húsnæði hefur þegar verið keypt fyrir Stjórnarráð Íslands. Fjvn. finnst ekki ástæða til að hafa í heimildagreinum fjárlaga svo opna heimild eins og hér um ræðir til ótiltekinna kaupa á ótilteknu húsnæði undir ótiltekin ráðuneyti þegar ekkert liggur fyrir um að slík kaup séu á döfinni eða hvaða ráðagerðir menn hafa uppi um þau mál og er því lagt til að þessi almenna heimild verði felld niður.
    Sama máli gegnir um næstu tillögu í stafl. e, en hún varðar að niður falli almenn opin heimild til að kaupa húsnæði fyrir ríkisstofnanir og taka til þess nauðsynleg lán ef fullreynt þykir að ekki fáist fyrir það leiguhúsnæði á viðunandi leigukjörum. Þessi heimildargrein er svo opin og víðtæk að út af fyrir sig gæti hún staðið ein og aðrar kaupaheimildir þyrfti ekki til en hana eina því að hún gerir ráð fyrir því, eins og í greininni segir, að fjmrh. sé heimilt að

kaupa hvaða húsnæði sem er fyrir hvaða ríkisstofnun sem er og taka til þess hvaða lán sem hann kann að kjósa og sá varnagli einn er sleginn að ekki fáist húsnæði leigt á viðunandi leigukjörum til starfseminnar. Fjvn. telur ekki ástæðu til að hafa svo víða heimildargrein í fjárlögum sem hér um ræðir og leggur því til að hún verði felld brott.
    Af öðrum greinum sem tillaga er gerð um á þskj. 396 vil ég staldra við þessar:
    Stafliður g, tillaga 5.15 þar sem veitt er heimild til að kaupa heimavistarhúsnæði fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands að því tilskildu að aðrir rekstraraðilar greiði sinn hluta kaupverðsins. Hér er um að ræða húsnæði sem nýtt hefur verið sem heimavistarhúsnæði fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands og er nú til sölu á almennum markaði en býðst ríkissjóði á mjög góðum kjörum vegna þess að núverandi eigandi vill gjarnan að húsið verði nýtt áfram sem heimavistarhús. Væri húsið ekki keypt heldur félli öðrum í hlut yrði nauðsynlegt að byggja nýtt sem mundi kosta verulega hærri fjárhæðir en þær sem hér er um að tefla.
    Þá vil ég staldra í sama staflið við tillögu 5.23 þar sem rætt er um að leigja eða kaupa húsnæði fyrir Listdansskóla Þjóðleikhússins að tilskildu samþykki fjvn. Þjóðleikhúsinu hefur boðist að kaupa tiltekið húsnæði sem er sérhannað til dansskóla og dansþjálfunar og hentar því mjög vel bæði Listdansskóla Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokknum, en bæði Listdansskólinn og Íslenski dansflokkurinn búa nú við mjög þröngan og erfiðan kost í húsnæði Þjóðleikhússins þar sem einnig má búast við að þessir aðilar þurfi að víkja alveg á næstunni vegna þeirra umfangsmiklu endurbóta sem fyrir dyrum standa. Fjvn. þótti rétt að þetta mál yrði skoðað nánar og leggur því til að þessi heimild til leigu eða kaupa verði veitt, enda verði haft samráð og fengið samþykki fjvn. fyrir kaupum eða leigu áður en í yrði ráðist.
    Stafliður h varðar þá afgreiðslu að heimila að draga mismun á tryggingaverði áburðarflugvélar frá kaupverði annarrar slíkrar, en slík heimild er í fjárlagafrv. Þessi afgreiðsla hefur þegar farið fram að fullu er því lagt til að heimildagreinin verði felld niður, enda er hún óþörf.
    Í staflið k, lið 6.17, er lagt til að heimilað verði að leita eftir tilboði og gera samning um kaup á siglingahermi fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík. Hér er um að ræða tæki sem nauðsynlegt þykir við kennslu í skipstjórnarfræðum, en þetta tæki getur bæði líkt eftir skipi á siglingu og við veiðar og enn fremur er það ákjósanlegt til að skoða betur og rannsaka ástæður sjóslysa og óhappa á sjó. Slíkt tæki er alls staðar talið nauðsynlegt við skipstjórnarkennslu í nágrannalöndum okkar og er ekki síður nauðsynlegt í kennslu skipstjórnarmanna á Íslandi. Fjvn. hefur fengið frumupplýsingar um kostnað við kaup á slíku tæki að lokinni fyrstu athugun málsins. Nefndin vill gjarnan að Alþingi stuðli að því að slík kaup geti átt sér stað, en telur að nánari athugun þurfi og miklu betri könnun á því tilboði sem fram hefur verið sett

og e.t.v. öðrum tilboðum sem fram geta komið og leggur því til að sú afgreiðsla verði gerð á málinu sem hér er nefnd.
    Svo er það loks tillaga 6.21, en þar leggur nefndin til afgreiðslu sem orðist svo: ,,Heimilað sé að ganga frá samningum við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um yfirtöku skulda til lúkningar á samkomulagi því sem gert var við þessi fyrirtæki við niðurfellingu ,,verðjöfnunargjalds á raforku`` árið 1986 að fenginni umsögn fjvn. Yfirtökunni verði hagað þannig að fyrirtækin geti öðlast þann rekstrargrundvöll, miðað við eðlilega fjárfestingu, rekstrarumsvif og gjaldskrárákvarðanir, sem umrætt samkomulag frá árinu 1986 gerði ráð fyrir``.
    Í þessu sambandi vil ég taka fram að hér er um að ræða mál sem varðar efndir á samkomulagi milli ríkissjóðs annars vegar og Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hins vegar, en það samkomulag var gert milli þessara aðila við niðurfellingu verðjöfnunargjalds á raforku árið 1986. Bæði þessi fyrirtæki hafa haldið því fram að ekki hafi að fullu verið staðið við það samkomulag sem gert var á árinu 1986 og átti að tryggja þessum orkufyrirtækjum tveimur að þau bæru ekki skaða af niðurfellingu verðjöfnunargjaldsins með þeim hætti að ríkissjóður tæki á sig tilteknar skuldbindingar á þeirra vegum um leið og
gjaldið væri niður fellt. Fenginn var óháður sérfræðingur til að meta hvort ástæður umræddra orkufyrirtækja væru réttmætar, þ.e. að ekki hefði að fullu verið staðið við það samkomulag sem ríkissjóður gerði við þessi fyrirtæki. Niðurstaða umrædds sérfræðings var sú, að umkvörtunarefni Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða væru réttmæt og að á skorti að ríkissjóður hefði að fullu staðið við sinn hlut af samkomulaginu. Þessi mál voru tekin til sérstakrar umræðu í fjvn. og náðist um það samkomulag í nefndinni og við fjmrh. og iðnrh. að sá háttur yrði á hafður að skipuð yrði sérstök nefnd sem í ættu sæti fulltrúi tilnefndur af iðnrh., fulltrúi tilnefndur af fjmrh. og fulltrúi tilnefndur af fjvn. og sú nefnd tæki tafarlaust til starfa og óskaði eftir viðræðum við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um að ganga frá samningum um yfirtöku skulda til lúkningar á samkomulagi því sem gert var við þessi fyrirtæki við niðurfellingu verðjöfnunargjaldsins. Því verki yrði hraðað eftir föngum og að fenginni niðurstöðu væri fjmrh. heimilað, að fenginni umsögn fjvn., að ganga frá samkomulagi sem tryggt gæti að umrædd fyrirtæki gætu öðlast þann rekstrargrundvöll, miðað við eðlilega fjárfestingu, umsvif og gjaldskrárákvarðanir, sem samkomulagið frá árinu 1986 gerði ráð fyrir.
    Áður en ég skilst við 6. gr. fjárlaganna vil ég ítreka það, sem kom fram fyrir um það bil einu ári, að nauðsynlegt er að tekist verði á við þann vanda sem Iðnskólinn í Reykjavík á við að etja vegna þröngs og óviðunandi húsnæðis. Þessi skóli er stærsti iðnfræðsluskóli landsins og raunar sá eini sem rís undir því nafni. Skóla þennan sækja nemendur

hvaðanæva að af landinu og er þetta í rauninni eini iðnfræðsluskólinn sem boðið getur upp á iðnfræðslunám sem er í líkingu við það sem kröfur eru gerðar um í nálægum löndum. Skólinn á hins vegar við mikla erfiðleika að etja vegna mikilla húsnæðisþrengsla, fyrst og fremst varðandi verklegt námsefni og þá ekki síst á málmiðnaðarbraut, en sú braut er samnefnari iðnfræðslumenntunar allt frá fínmekaník, eins og raf- og rafeindaiðnaður er, og til grófsmíði.
    Eftir umræður í fjvn. um þetta mál fyrir einu ári var skipuð sérstök nefnd með aðild Iðnskólans og ríkisins og borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni skólans. Sú nefnd hefur ekki lokið störfum. Nauðsynlegt er að nefndin ljúki störfum hið allra fyrsta og komist að niðurstöðu um tillögugerð, m.a. vegna þess að rekstraraðili skólans er Reykjavíkurborg og þaðan verða að koma þau erindi um framtíðaruppbyggingu Iðnskólans í Reykjavík sem ríkið og Reykjavíkurborg þurfa sameiginlega að vinna að. Fjvn. leggur mikla áherslu á að nefndin hraði störfum sínum og væntir þess að tillögur geti legið fyrir sem allra fyrst svo að unnt sé að taka þær til rækilegrar skoðunar fyrir fjárlagagerð á næsta ári. Enn fremur er rétt að geta þess að vandi loðdýrabúa og loðdýrabænda er nú til sérstakrar skoðunar hjá ríkisstjórninni og til umfjöllunar hjá ríkisstjórn.
    Við víkjum nú að brtt. á þskj. 397, en þær brtt. eru fluttar af meiri hluta fjvn. og varða þær gervallan B-hluta fjárlagafrv., ríkisfyrirtæki og sjóði í ríkiseign. B-hluti frv. er settur fram á áætluðu meðalverðlagi 1989. Stofnanir, sjóðir og fyrirtæki í B-hlutanum afla flestar tekna fyrir útgjöldum. Breytt rekstraráætlun hefur því yfirleitt ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs og A-hluta fjárlaga. Rekstraráætlun B-hluta stofnana hefur nú verið breytt frá upphaflegu frv. þannig, og koma þær breytingar fyrir á þskj. 397, að gert er ráð fyrir að þær sæti sömu niðurfærslu launa og A-hluta stofnanir og hafa launaáætlanir þeirra því verið færðar niður um 3,5%. Vegna gengisbreytingar og áætlaðra verðlagsáhrifa af henni voru rekstrargjöld önnur en laun hækkuð um 1,5%, fjármagnskostnaður, fjármagnstekjur og afborganir lána voru hækkaðar um 1,5% vegna innlendra lána og sem gengisbreytingunni nam vegna erlendra lána. Auknum gjöldum B-hluta stofnana af framangreindum ástæðum var mætt með því að breyta áætluðum tekjum af sölu á vöru og þjónustu um allt að 1,5% eftir því sem með þurfti. Þar sem tekjubreyting dugði ekki til var unnt að brúa bilið með því að gera ráð fyrir breyttri sjóðsstöðu. Þannig hafa allar B-hluta stofnanirnar í fjárlögunum verið uppreiknaðar í samræmi við þær forsendur sem ég hef hér lýst.
    Nokkrar stofnanir í B-hlutanum þarfnast sérstakrar umsagnar og mun ég nú ræða um þau efni hér á eftir. Ber ég þá fyrst niður þar sem rætt er um Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp. Eins og fram kom við 2. umr. skilaði sérstök nefnd, sem menntmrh. skipaði til að fjalla um vanda Ríkisútvarpsins, álitsgerð og tillögum í desembermánuði sl. Voru þar

ýmsar tillögur gerðar til lausnar á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins.
    Við fjárlagaafgreiðslu í fyrra fór fjvn. mjög vandlega ofan í málefni Ríkisútvarpsins og bjó þau undir afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Í forsendum fjvn. sem kynntar voru hér og lagðar voru til grundvallar afgreiðslu Alþingis var m.a. út frá því gengið að stjórnendur Ríkisútvarpsins gripu til tiltekinna ráðstafana til að lagfæra rekstrarstöðu útvarpsins og einn þáttur þeirrar aðgerðar var sá að Ríkisútvarpið bjó sig undir að auka mjög verulega tekjur sínar af auglýsingum með sérstöku átaki. Forsendur þeirra áætlana sem gerðar
voru og fjvn. lagði fyrir Alþingi við afgreiðslu fjárlaga í fyrra voru einnig þær að Ríkisútvarpið fengi tilteknar hækkanir á afnotagjöldum og var Alþingi frá því skýrt hverjar þessar hækkanir voru þannig að það lá fyrir í upphafi árs hvað stjórnendur Ríkisútvarpsins höfðu á sig tekið til þess að lagfæra rekstrarstöðu útvarpsins og hvaða afgreiðslur löggjafinn gerði ráð fyrir að hafa á afnotagjaldamálum útvarpsins til að tryggja þá afkomu sem Alþingi afgreiddi samkvæmt tillögum fjvn.
    Það sem gerðist hins vegar var að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að þær afnotagjaldshækkanir sem í forsendunum fólust fengust ekki framkvæmdar heldur var þeim hrundið. Með því var raunar öllum grundvelli kippt undan þeim afgreiðslum sem Alþingi hafði haft á málefnum Ríkisútvarpsins. Stjórnendum þess tókst í öllum höfuðatriðum að ná þeim árangri sem þeir höfðu tekið að sér að tryggja í sambandi við bætta rekstrarafkomu og bættan rekstrargrundvöll. Það að hnekkja þeim ákvörðunum um tekjur útvarpsins sem Alþingi ákvað við fjárlagaafgreiðsluna gerði það hins vegar að verkum afkoman varð ekki sú sem stefnt var að heldur stofnaði Ríkisútvarpið þvert á móti til mikilla skulda við ríkissjóð og lenti í verulegum erfiðleikum.
    Frumskilyrði þess að hægt sé að gera kröfu til þess að stjórnendur ríkisstofnana haldi sig innan marka fjárlaga er að framkvæmdarvaldið virði þær afgreiðslur sem Alþingi leggur til grundvallar við gerð fjárlaga um tekjustofna fyrirtækja og stofnana sem eru forsendur þess að afgreiðslur Alþingis og rekstraráætlanir stofnunarinnar fái staðist. Það er ekki hægt af framkvæmdarvaldinu né fjárveitingavaldinu að gera kröfur til þess að stjórnendur ríkisstofnana haldi sig innan ramma fjárlaga ef framkvæmdarvaldið sjálft virðir ekki þær gjaldskáráætlanir sem Alþingi leggur til grundvallar samþykktum sínum við fjárlagagerð.
    Fjvn. mótmælti því að þessi afgreiðsla á málefnum Ríkisútvarpsins hefði verið gerð af fyrrv. ríkisstjórn og ætlast til þess að það samkomulag sem unnið hefur verið að í samráði við stjórnendur stofnunarinnar og ríkisstjórn og viðkomandi ráðherra um afgreiðslu Ríkisútvarpsins hér verði virt.
    Í umræddum tillögum hinnar sérstöku nefndar um rekstrarvanda Ríkisútvarpsins eru ýmsar tillögur. Með bréfi til fjvn., dagsettu 16. des. sl., greinir menntmrh. frá því að ríkisstjórnin hafi fyrir sitt leyti fallist á

umræddar tillögur og framsendi skýrsluna með óskum um að hún verði tekin til afgreiðslu í fjvn. Þetta hefur fjvn. gert og tillögur hennar um afgreiðslu Ríkisútvarpsins hér og nú eru í öllum höfuðatriðum byggðar á niðurstöðum þessarar nefndar.
    Í fyrsta lagi er ráð fyrir því gert að hinn 1. mars nk. hækki útvarpsgjald hljóðvarps og sjónvarps í 1500 kr. á mánuði og við hækkun gjaldsins verði tekið mið af breytingum á vísitölu vöru og þjónustu. Með þessu móti fær Ríkisútvarpið um 1200 millj. kr. í tekjur í stað 1020 millj. samkvæmt fjárlögum 1988.
    Í annan stað er ráð fyrir því gert að sama niðurstaða verði gagnvart Ríkisútvarpinu og öðrum B-hluta stofnunum að því verði gert að draga saman seglin í launaútgjöldum sem svarar 3,5% og verði sú fjárhæð sem þannig sparast notuð til lækkunar á skuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð.
    Í þriðja lagi áætlar nefndin, sem skipuð var af menntmrh., að með sérstöku átaki í innheimtumálum Ríkisútvarpsins, m.a. með þeim hætti að stofnunin taki í sínar hendur verulegan hluta þeirra starfa sem nú eru falin lögmönnum, ætti að vera unnt að ná til fjölda tækja sem nú eru óskráð og að með þeim hætti megi auka skil til stofnunarinnar á næsta ári um 40 millj. kr. Í tillögum fjvn. er ráð fyrir því gert að þessi bættu skil vegna aukinna innheimtuaðgerða Ríkisútvarpsins komi stofnuninni sjálfri til góða.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því, eins og segir í nál., að útboðsstefna Ríkisútvarpsins verði tekin til endurskoðunar, kynningarstarfsemi verði samræmd og skipulögð innan stofnunarinnar og dregið verði úr þenslu í stjórnunarstörfum hjá henni. Með slíkum aðgerðum megi ná betri nýtingu fjár og auka ráðstöfunarfé um 20--30 millj. kr.
    Fjvn. gerir ráð fyrir því að 10 millj. kr. af þessari fjárhæð renni jafnt til greiðslu á launaskuldum Ríkisútvarpsins við ríkissjóð, en að öðru leyti njóti stofnunin að fullu sjálf þeirra fjármuna sem bætt og betri stjórnun gæti skilað til aukins sparnaðar og hagræðingar í rekstri.
    Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að staðið verði við skuldbindingar um endurgreiðslu ríkisins á sérstökum lánum sem tekin voru á árunum 1979, 1980 og 1981.
    Að lokum má svo geta þess að svo háttar til að Tryggingastofnun ríkisins gefur út vottorð um undanþágu bótaþega trygginga sem tekjutryggingar njóta frá afnotagjaldi útvarps og sjónvarps. Hér er um það að ræða að með þessum hætti njóta um 5000 einstaklingar niðurfellingar afnotagjalda og nemur tekjutap Ríkisútvarpsins árlega af þessum sökum um 90 millj. kr. Er því hér um mjög miklar fjárhæðir að ræða þar sem einn aðili verður af tekjum, þ.e. Ríkisútvarpið, samkvæmt ákvörðunum annars aðila, þ.e. Tryggingastofnunar
ríkisins, og sá sem tekjunum tapar hefur engin áhrif á með hvaða hætti niðurfellingin er veitt og sá sem heimildina veitir til niðurfellingar ber engan kostnað þar af.
    Það er auðséð að hér er um verulegt fjárhagsmál

að ræða og nokkur brögð eru að því að þessar niðurfellingar séu misnotaðar, m.a. þannig að tæki séu skráð á heimilismann sem tekjutryggingar nýtur þannig að annað heimilisfólk í fullri vinnu og með góðar tekjur njóti þjónustu hljóðvarps og sjónvarps án endurgjalds. Til þessa var að sjálfsögðu aldrei ætlast. Í tillögum umræddrar nefndar, sem skipuð var af menntmrh. til að endurskoða málefni Ríkisútvarpsins, var ráð fyrir því gert að sú breyting yrði á gerð að Tryggingastofnun ríkisins tæki að sér greiðslu afnotagjalda þeirra er hingað til hafa notið niðurfellingar þannig að Ríkisútvarpið yrði ekki af þeim tekjum. Slíkt er ekki hægt að framkvæma að óbreyttum lögum. Hins vegar þarf vendilega að skoða slíkar breytingar og einnig breytingar svo sem í þá átt hvort ekki sé rétt að um undanþágu frá útvarpsgjaldi þurfi sérstaklega að sækja þar sem glöggar verði greint en nú er gert frá heimilisaðstæðum viðkomandi og meira eftirlit sé haft með því að slík niðurfelling sé ekki misnotuð. Enn fremur er að sjálfsögðu rétt að skoða hvort um allsherjarundanþágu frá gjaldinu eigi að vera að ræða eða að hluta til o.s.frv. Ákveðið hefur verið að skoða þessi mál sérstaklega og flytja frv. sem heimili þær breytingar sem hér er verið að ræða um í átt við það sem umrædd nefnd hefur lagt til.
    Það kann vel að vera að þegar menn fara að vega í prósentum þá hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins sem hér er rætt um finnist mönnum nokkuð í lagt því að sú hækkun sem nú er rætt um í 1500 kr. á mánuði er hækkun um 28,2% miðað við núverandi útvarpsgjald og um 11,9% ef miðað er við þá hækkun sem heimiluð var í gildandi fjárlögum en ekki fékkst fram. Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að það verður að tryggja jafnmikilvægum fjölmiðli og menningarmiðli og Ríkisútvarpið er eðlilegan rekstrargrundvöll. Á það hefur skort.
    Um Þjóðleikhúsið hef ég þegar rætt og þær breytingar sem þar standa fyrir dyrum.
    Nokkur orð um Sölu varnarliðseigna. Í frv. er gert ráð fyrir að Sölu varnarliðseigna verði gert að skila mun meiri tekjum en sem nemur því sem ætla má miðað við skil þessa fyrirtækis á umliðnum árum og þær aðstæður sem ríkja miðað við óbreyttan rekstur. Í frv. er jafnframt gert ráð fyrir að með skipulagsbreytingum verði sú niðurstaða tryggð sem ekki er sjáanlegt að hægt sé að ná að öllu óbreyttu. Fjvn. þykir rétt að þessar fyrirætlanir komi fram í uppsetningu fjárlagafrv. Því gerir nefndin það að tillögu sinni að tekjur af seldri vöru og þjónustu verði lækkaðar um 30 millj. kr., en sú tekjufjárhæð færð á aðrar tekjur vegna Sölu varnarliðseigna og breytir sú tilfærsla engu um niðurstöðuna. Hins vegar merkir þetta það og sá er skilningur fjvn. að verði ekki gerðar neinar þær breytingar á starfsemi Sölu varnarliðseigna sem boðaðar eru í fjárlagafrv. og eru forsenda þess að stofnunin skili meiri tekjum í ríkissjóð en reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að hún getur, þá sé ekki rétt að gera ráð fyrir því að tekjur af seldum vörum og þjónustu í ríkissjóð nemi

hærri fjárhæð en 20 millj. kr. Ætli menn að ná þeim skilyrðum sem í frv. eru sett, þ.e. að stofnunin skili 50 millj. kr. í ríkissjóð, verður það að tengjast skipulagsbreytingu á þessari stofnun sem gerir henni fært að skila þeim tekjum sem hún getur ekki að óbreyttum rekstri.
    Örfá orð um Áburðarverksmiðju ríkisins. Eins og fram kemur á þskj. 395 er gerð tillaga um að fjárveiting til Áburðarverksmiðjunnar úr ríkissjóði nemi 22 millj. kr. og er þar um lokagreiðslu að ræða. Þetta framlag úr ríkissjóði mun bæta rekstur stofnunarinnar þannig að vegna þessarar fjárveitingar er hækkunarþörf á áburðarverði 3% minni en greint er frá í forsendum fjárlagafrv. og dregur þessi fjárveiting úr útgjöldum áburðarkaupenda vegna áburðarkaupa sem því nemur.
    Um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er það að segja að þar er gert ráð fyrir tekjum af seldum vörum og þjónustu um 450 millj. kr. umfram forsendur fjárlagafrv. og það samsvarar því að verð á þessum varningi hækki um 10% umfram verðlagsforsendur.
    Hvað varðar Póst- og símamálastofnunina er rétt að fram komi að gert er ráð fyrir að hún fái til framkvæmda sömu fjárhæð og var á sl. ári eða 577 millj. kr. og er skipting þeirrar fjárhæðar sýnd á þskj. 395. Þar að auki er gert ráð fyrir afborgunum lána að fjárhæð 295 millj. kr. og loks að stofnunin greiði í ríkissjóð 250 millj. kr. Heildarlaunaútgjöld Póst- og símamálastofnunarinnar nema 2 milljörðum 537 millj. kr. samkvæmt okkar tillögum. Áætluð skil stofnunarinnar í ríkissjóð nema innan við 10% þeirrar fjárhæðar, en það er minna fé en gera má ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að greiða vegna verðtryggingar á lífeyri starfsmanna þessarar stofnunar og vegna launatengdra gjalda. Þó svo að stofnuninni verði gert að skila 250 millj. kr. í ríkissjóð er ekki um það að ræða að stofnunin greiði hærri fjárhæð til ríkissjóðs en
ríkissjóður þarf að standa ábyrgur fyrir vegna lífeyrisskuldbindinga og launatengdra gjalda starfsmanna þessarar stofnunar. Þar að auki má svo á það benda að Póstur og sími hefur ýmis þau umsvif sem eru í beinni samkeppni við einkarekstur svo sem eins og varðar sölu á símtækjum, símstöðvum og því um líku. Væri um einkaaðila að ræða mundi Póstur og sími þurfa að standa hinu opinbera skil á sköttum af þessari starfsemi eins og keppinautar hans þurfa að gera. Það er því ekki rétt að þessi greiðslukrafa á hendur Pósti og síma íþyngi stofnuninni umfram það sem hún nýtur beint og óbeint úr ríkissjóði. Þvert á móti tel ég líklegt að væri alfarið um sjálfstæða stofnun að ræða yrði hún að taka á sig mun þyngri skuldbindingar sem skattgreiðandi og gagnvart starfsfólki sínu með þau réttindi sem það nýtur nú en þessari fjárhæð nemur og vil ég biðja menn að hugleiða það sérstaklega í sambandi við umræður um þessi mál. Til þess að sú afgreiðsla á málefnum Pósts og síma sem hér er gerð tillaga um geti staðist verður að reikna með því að á árinu 1989 nemi gjaldskrárhækkanir hjá stofnuninni 4--5% umfram þá

gjaldskrárhækkun sem stofnunin fékk í september á sl. ári.
    Þá er loks komið að Rafmagnsveitum ríkisins, en um þær hef ég rætt talsvert áður í sambandi við 6. gr.-heimildina sem fjvn. gerir tillögur um og varða samskipti Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða við ríkissjóð samkvæmt samkomulagi frá árinu 1986. Við það vil ég aðeins bæta að auk þess sem þar er gert ráð fyrir, er varðar Rafmagnsveitur ríkisins, er við það miðað í tillögum þessum að á árinu 1989 fái Rafmagnsveitur ríkisins gjaldskrárhækkanir sem nemi um það bil 3% hækkun umfram heildsöluverð á raforku, en það er svipuð hækkun umfram heildsöluverð og Rafmagnsveitur ríkisins fengu á árinu 1988.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið umfjöllun minni um öll þau atriði er varða fjárlagafrv. fyrir árið 1989 nema sjálft kjarnaatriðið og það er að sjálfsögðu hvernig þeirra tekna á að afla sem menn hafa verið að ráðstafa. Þær tillögur er að finna á þskj. 398 frá meiri hl. fjvn. Í mjög samanþjöppuðu máli þá eru meginatriðin þessi og vík ég þá fyrst að áætluðum tekjum ríkissjóðs árið 1988:
    Við endurskoðun tekjuáætlunar í október var talið að innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1988 gætu orðið tæplega 66,5 milljarðar og var sú áætlun lögð til grundvallar tekjuhlið fjárlagafrv. 1989. Sú áætlun tók fyrst og fremst mið af innheimtutölum fyrir fyrstu níu mánuði ársins og efnahagshorfum eins og þær voru metnar þá. Nú liggja hins vegar fyrir tölur um innheimtu tekna á tímabilinu janúar til nóvember og vísbendingar um innheimtu desembermánaðar. Úr þeim tölum má einkum lesa tvennt: annars vegar áframhaldandi samdrátt í almennri veltu og hins vegar versnandi innheimtu, ekki síst í beinum sköttum. Allt bendir því nú til þess að innheimtar tekjur ríkissjóðs verði 2--2,5 milljörðum kr. minni á árinu 1988 en gert var ráð fyrir í október eða aðeins 64--64,5 milljarðar kr. Tekjur af beinum sköttum verða líklega 1 milljarði lægri en talið var sem stafar af lakari innheimtu bæði hjá einstaklingum og félögum. Óbeinir skattar lækka um 1--1,5 milljarða frá októberáætlun, en sú lækkun kemur fyrst og fremst fram í söluskatti en einnig í innflutningsgjöldum. Þessi þróun endurspeglar vel þann samdrátt sem um þessar mundir virðist ríkja í efnahagslífinu. Á móti vegur svo að aðrar tekjur, einkum þó tekjur af dráttarvöxtum, gætu farið tæplega 300 millj. kr. fram úr áætlun.
    Þá kem ég að tekjuhorfum ríkissjóðs fyrir árið 1989.
    Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 var áætlað að tekjur ríkissjóðs á árinu 1989 yrðu um 77,3 milljarðar kr. Af þeirri fjárhæð mátti rekja 5,5 milljarða kr. til nýrrar tekjuöflunar. Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því frv. var lagt fram hafa forsendur þeirrar áætlunar breyst í þremur meginatriðum. Í fyrsta lagi hefur tekjugrunnurinn breyst, þ.e. tekjur ársins 1988 verða minni en reiknað hafði verið með, og það hefur að sjálfsögðu sambærileg áhrif á tekjuspá af þessum tekjustofnum fyrir árið 1989.

    Í öðru lagi hefur verið gripið til frekari tekjuöflunar til að bregðast við minnkandi tekjum og er nú gert ráð fyrir að ný tekjuöflun muni skila ríkissjóði 5600 millj. kr. á þessu ári. Þetta reyndist nauðsynlegt eigi það markmið að nást að ríkissjóður verði rekinn með afgangi í ár.
    Í þriðja lagi hafa almennar verð- og veltuforsendur breyst í kjölfar þeirrar gengisfellingar sem nú hefur verið gripið til. Með hliðsjón af þessum breyttu forsendum hefur tekjuáætlun frv. nú verið endurskoðuð og er áætlað að heildartekjur ríkissjóðs verði 77,1 milljarður kr.
    Frávik einstakra tekjuliða frá tölum frv. eru eftirfarandi: Eignarskattar hækka um rúmlega 300 millj. kr. frá áætlun frv. Tvo þriðju hluta þessa tekjuauka má rekja til frekari hækkunar á eignarskatti einstaklinga og félaga. Almennur eignarskattur hefur verið ákveðinn 1,2% í stað 1% eins og reiknað hafði verið með í frv. bæði hjá einstaklingum og félögum. Enn fremur hækkar hlutfall sérstaka eignarskattsins úr 1,25% í 1,5% en á móti hækka eignamörk úr 6 millj. kr. á einstakling í 7 millj. kr. Tekjur af erfðafjárskatti verða einnig nokkuð meiri en áætlað hafði verið. Á móti þessari hækkun eignarskatts
lækka tekjuskattar hins vegar um tæpan 1 milljarð kr. frá frv. Sú lækkun kemur einvörðungu fram í tekjuskatti einstaklinga og skýrist af þrennu: Í fyrsta lagi af lægri tekjum á árinu 1988 sem hefur áhrif á tekjuspána 1989. Í öðru lagi af minni hækkun á meðalskatti og meiri hækkun frádráttarliða en stefnt hafði verið að í frv. Og í þriðja lagi var síðan í tölum frv. reiknað með að skattur af fjármagnstekjum gæti gefið um 150 millj. kr. á þessu ári, en nú er hins vegar talið óvarlegt að reikna með þessum tekjum þar sem málið krefst ítarlegri undirbúnings.
    Með öðrum orðum er ljóst af þessu að hvað svo sem sagt hefur verið um skattastefnu núverandi ríkisstjórnar og að hún hafi með skattabreytingum sínum í desembermánuði seilst lengra en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir er það ekki rétt. Skattar á þá sem eiga umtalsverðar eignir, eignarskattarnir, hækka að vísu um 300 millj. kr., en sú hækkun kemur fyrst og fremst fram hjá þeim sem eiga meira en meðaleignir. Tekjuskattarnir hafa hins vegar lækkað í meðförum Alþingis um tæpan 1 milljarð kr. frá upphaflegri áætlun fjárlagafrv. og skýrist, eins og sagt var áðan, m.a. af minni hækkun meðalskatts og meiri hækkun frádráttarliða en áformað var upphaflega þannig að á sviði tekjuskattsins hefur verið dregið meira úr skattlagningu en upphaflega var ráð fyrir gert og í öðru lagi dregið meira úr honum gagnvart lág- og meðaltekjufólki en í upphaflegum áformum.
    Í þriðja lagi eru síðan tekjur af innflutningi því sem næst óbreyttar frá tölum frv. sem skýrist af því að á móti meiri veltusamdrætti og þar með lægri tekjum kemur aukin tekjuöflun, svo sem af innflutningsgjaldi bifreiða og bensíngjaldi. Minni tekjur verða af söluskatti en spáð var og lækkun hans stafar fyrst og fremst af meiri veltusamdrætti á þessu ári en búist hafði verið við. Skattar af launagreiðslum

lækka frá áætlun frv. um röskar 250 millj. kr. og skýringanna er einnig að leita í meiri samdráttaráhrifum en gert hafði verið ráð fyrir.
    Aðrir óbeinir skattar hækka hins vegar um tæpar 600 millj. kr., en þar er fyrst og fremst um að ræða fyrirhugaða hækkun á áfengi og tóbaki umfram almennar verðlagsbreytingar en sú hækkun er áformað að gefi 450 millj. á árinu 1989. Þá er talið að aðrar tekjur, þar á meðal vaxtatekjur, muni hækka um 575 millj. kr. frá áætlun frv. Vaxtatekjur af endurlánum ríkissjóðs munu hækka nokkuð og loks verður Pósti og síma gert skylt að skila 250 millj. kr. í ríkissjóð eins og áður hefur fram komið.
    Niðurstaða þessarar endurskoðunar verður því sú að tekjur ríkissjóðs á þessu ári verði rúmlega 200 millj. kr. lægri en tekjuáætlun fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Skýringin er í fyrsta lagi meiri samdráttur á árinu 1988. Áhrif gengisfellingar og frekari tekjuöflun ná ekki til fulls að vinna það upp.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið umfjöllun um þau meginatriði sem eru brtt. á þingskjali 398 frá meiri hl. fjvn. Ég á að sjálfsögðu von á því að menn komi upp á eftir til að kvarta undan naumum fjárveitingum og að afgreiðslur séu skornar við nögl, en ég á síður von á því að menn komi upp til að kvarta yfir því að hinir svokölluðu veiku þættir fjárlagafrv. séu ekki bættir upp með þeim eina hætti sem er hægt við þessar aðstæður svo nokkru nemi, þ.e. að afla þeirra tekna sem þarf til að svara þeim útgjaldakröfum sem menn ætla sér að gera.
    Við 2. umr. fjárlaga tók hv. stjórnarandstaða fram að það væru fyrst og fremst tvö atriði sem hún vildi að útkljáð væru áður en til afgreiðslu fjárlaga kæmi. Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin hefði sýnt fram á að hún hefði þingmeirihluta fyrir þeim afgreiðslum sem þyrfti að gera á Alþingi til að tryggja þær tekjur sem til þyrfti til að standa undir rekstri ríkissjóðs á árinu 1989. Margir í röðum stjórnarandstæðinga efuðust um að ríkisstjórninni tækist þetta og höfðu uppi svardaga og heitingar um það að þetta skyldi aldrei vera. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Þessum skilmálum er nú fullnægt. Ríkisstjórnin hefur á Alþingi fengið afgreiðslur á þeim tekjufrv. sem gera það að verkum að hægt er að afgreiða ríkissjóð nú með verulegum rekstrarafgangi.
    Með þessum afgreiðslum og tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar hefur tekist að tryggja að fjárlög verði afgreidd með tekjuafgangi eins og að var stefnt. Verði allar tillögur meiri hl. fjvn. samþykktar nú við 3. umr. verða tekjur umfram gjöld á rekstrarreikningi rúmlega 640 millj. kr. Við munu svo bætast útgjaldamegin áhrifin af hækkunum vegna tillagna samvn. samgm. verði þær samþykktar og vegna tillagna menntmn. um heiðurslaun listamanna verði þær samþykktar. Engu að síður er ljóst að mjög verulegur rekstrarafgangur, yfir 600 millj. kr., verður á ríkissjóði samkvæmt þeirri afgreiðslu sem hér er lögð til.
    Ég lét þess getið í ræðu minni við 2. umr. fjárlaga að við afgreiðslu á tekjuöflunaráformum mundi reyna

mjög á ábyrgð alþingismanna, bæði stjórnarþingmanna og annarra. Alþingismenn yrðu að vera reiðubúnir að horfast í augu við þá ábyrgð Alþingis að sjá fyrir tekjuöflun til þeirra útgjalda sem ákveðin eru með fjárlögum. Ýmsir urðu til að draga í efa að þau orð fengju staðist að stuðningur mundi verða á Alþingi við óhjákvæmilega tekjuöflun fyrir
ríkissjóð. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Sá stuðningur reyndist vera fyrir hendi. Þrátt fyrir spár og jafnvel fullyrðingar um að hið gagnstæða mundi gerast reyndist vera fyrir hendi á Alþingi sú ábyrgðartilfinning að ekki mætti afgreiða fjárlög með halla við núverandi aðstæður og að viðbótartekna yrði að afla til að tryggja það. Efasemdir um að slíkt mundi ekki gerast reyndust ekki á rökum reistar.
    Fjárlög eru auðvitað aldrei annað og meira en afgreiðsla greiðsluheimilda úr ríkissjóði til tiltekinna viðfangsefna og byggist sú afgreiðsla annars vegar á spá um tekjuöflun og áætlun um útgjaldaþarfir og hins vegar á áformum ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis um tilteknar aðgerðir í ríkisfjármálum. Spár geta auðvitað reynst rangar og áætlanir ekki byggðar á nægilega traustum grunni. Reynslan ein sker úr um hvort svo er. Í fjárlagaafgreiðslunni nú er eins og jafnan áður byggt á haldbestu upplýsingum um þjóðhagshorfur sem tiltækar eru og áætlanir fjárlaga um útgjaldaþarfir eru sömuleiðis byggðar á eins vönduðum grunnupplýsingum og tök voru á að afla. Hvað þessi atriði varðar er fjárlagagerðin nú hvorki byggð á traustari né ótraustari grunni en gerist og gengur.
    Hins vegar má segja að væntanleg útkoma sé nú í ríkara mæli en oft áður byggð á áformum stjórnvalda um tilteknar breytingar. Er hér fyrst og fremst um að ræða áform um lækkun útgjalda, en á bak við allar þær áætlanir búa tiltekin áform um athafnir og breytingar. Hvort slíkar áætlanir standast er svo undir því komið hversu ríkur viljinn er til að standa við áformin. Í þessum efnum gerir hinn góði vilji mjög takmarkaða stoð. Til þess að staðið verði við áætlanir fjárlaga verður að standa við framkvæmdaáformin sem að baki búa. Ríkisstjórnin verður að meina það sem hún segir og framkvæma það. Skorti á viljann og framkvæmdina verða áformin ekki virði þess pappírs sem þau eru skráð á. Þetta á ekki hvað síst við um áætlanir þær um lækkun launakostnaðar sem í fjárlagaafgreiðslunni felast. Árangurinn þar er undir framkvæmdinni kominn. Þar er hægt að ná þeim árangri sem áformaður er. Það er engin spurning. Spurningin er miklu frekar hvort stjórnvöld heykjast þegar á hólminn er komið og menn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum ellegar hvort menn láta undan kröfum þrýstihópanna og hopa af hólmi þegar á reynir.
    Virðulegi forseti. Með þessari fjárlagaafgreiðslu er fullnægt þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar, sem fram kom strax við 1. umr. um fjárlögin, að þegar afgreiðsla fjárlaga færi fram væri búið að sýna fram á með afgreiðslum á Alþingi að stuðningur væri við þá tekjuöflun sem til þyrfti svo séð yrði fyrir tekjum

vegna þeirra útgjalda sem áformuð eru. Það hefur verið gert. Fjárlögin verða þannig afgreidd.
    Einnig komu fram óskir um að áður en til lokaafgreiðslunnar væri gengið hefði ríkisstjórnin lagt fram og fengið afgreiddar hugmyndir sínar og tillögur um endurreisn atvinnulífsins á Íslandi. Þar er hvorki um að ræða einfalt né auðvelt mál og tengist ekki nema að litlu leyti fjárlagaafgreiðslu, m.a. það sem ítrekað hefur fram komið, að meginatriði þeirra efnahagsaðgerða verða ekki sú hin mikla gengisfelling og samsvarandi lífskjaraskerðing sem sumir stjórnarandstæðingar hafa krafist.
    Sú gengisbreyting sem gerð var fyrir nokkrum dögum er aðeins ætluð til að koma til móts við þá óhagkvæmu þróun gengismála, einkum og sér í lagi varðandi gengi bandaríkjadollars, sem rýrt hefur afkomumöguleika íslenskra útflutningsatvinnuvega að sama skapi. Eftir gengisbreytinguna verður staða þeirra svipuð og hún var í september eftir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin gerði þá, enda var gengisbreytingunni þann 2. janúar sl. aldrei ætlað annað og meira hlutverk.
    Um það er enginn ágreiningur að ástæða er til þess og hún rík að grípa til heildstæðra aðgerða í efnahags- og atvinnumálum til að tryggja útflutningsatvinnuvegunum eðlileg rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnin vinnur nú að slíkri tillögugerð. Vissulega hefði verið æskilegt að niðurstaða hefði legið fyrir áður en fjárlög yrðu afgreidd, ekki vegna þess að þær tillögur sem væntanlegar eru tengist svo mjög sjálfri fjárlagaafgreiðslunni heldur vegna hins að því fyrr sem tillögurnar koma fram og hljóta afgreiðslu, því betra. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar fjárlög eru nú tilbúin til afgreiðslu liggja þessar tillögur enn ekki fyrir. Þar eð fjárlögin liggja tilbúin til afgreiðslu er ástæðulaust að bíða með þá afgreiðslu þótt umræddar tillögur séu ekki komnar fram. Auðvitað væri áskjósanlegast að geta leyst öll meiri háttar vandamál efnahagslífsins á einni og sömu stundu, en sjaldnast geta menn gengið þannig til verka heldur verða menn að takast á við viðfangsefnin í þeirri röð sem þau ber að.
    Vandamálin varðandi afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 eru leyst. Fjárlögin eru tilbúin til endanlegrar afgreiðslu og við skulum ganga til þeirrar afgreiðslu án nokkurra óþarfatafa. Þá mun betra ráðrúm gefast til að snúa sér að öðrum viðfangsefnum sem ekki eru síður vandasöm.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins geta þess í lokin að þær breytingar sem orðið hafa á frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 síðan það fyrst kom fram á
Alþingi í nóvember eru, þegar tekið er tillit til þeirra aðgerða sem gerðar hafa verið, útgjaldaaukning upp á 329,1 millj. kr. Þetta samsvarar hækkun um 0,43% á útgjöldum fjárlaga í meðferð Alþingis. Ég efast um að það hafi nokkurn tíma áður gerst að fjárlagafrv. hafi verið afgreitt með svo lítilli útgjaldaaukningu eftir þá meðferð sem fjárlagafrv. fær hér á Alþingi. Vaninn er að útgjaldaaukningin í meðförum Alþingis nemi um 3%. Nú nemur hún 0,43%. Þetta sýnir, virðulegi

forseti, vilja Alþingis og ríkisstjórnar til að standa þannig að afgreiðslu fjárlaga að fyllsta tillit sé tekið til þess árferðis sem nú ríkir í efnahagsmálum á Íslandi.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði gengið til atkvæða og samþykktar þær tillögur sem meiri hl. fjvn. flytur og fjvn. í heild og fjárlög fyrir árið 1989 þannig samþykkt.