Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls þann 16. des. sl. gerði ég ítarlega grein fyrir því hversu fjárlagafrv. væri reist á ótraustum grunni. Ég gerði enn fremur grein fyrir því að í fjárlagafrv. felst alvarleg atlaga að atvinnuvegunum og landsbyggðinni og ég vakti athygli á því hvernig frv. stangast á við yfirlýsingar og loforð hæstv. ríkisstjórnar sem hún gaf þjóðinni þegar hún var mynduð.
    Í sameiginlegu nál. minni hl. fjvn. fyrir þá umræðu var enn fremur gerð grein fyrir þeirri skoðun okkar, sem erum fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn., að áður en fjárlagafrv. væri tekið til lokaafgreiðslu væri óhjákvæmilegt að tvennt hefði gerst: Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin hefði mótað stefnu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar sem gæti orðið grundvöllur raunhæfra forsendna fyrir fjárlög næsta árs. Í öðru lagi að skattafrv. ríkisstjórnarinnar hefðu hlotið afgreiðslu Alþingis þannig að hægt væri að áætla tekjuhlið fjárlaganna.
    Telja verður að síðara atriðinu af þessum tveimur hafi verið fullnægt. Skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar voru afgreidd frá Alþingi þann 22. des. Útreikningar er varða tekjuhlið frv. nú við lokaafgreiðslu eru m.a. byggðir á þeim ákvörðunum sem teknar voru við afgreiðslu á skattafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir jólin en auk þess á nýjum skattaálögum hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar nú um áramótin.
    Á hinn bóginn hefur hæstv. ríkisstjórn enn enga stefnu tekið í efnahags- og atvinnumálum sem þjóni því markmiði að annars vegar verði hægt að byggja upp nýjar og raunhæfar forsendur fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og hins vegar að gefa atvinnuvegunum möguleika á því að byggja upp nýja undirstöðu fyrir lífvænlega afkomu og atvinnuöryggi, að snúa við frá botnlausum hallarekstri og skuldasöfnun yfir í viðunandi rekstrarafkomu.
    Þrátt fyrir þetta stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar er fjárlagafrv. nú komið til 3. umr. Það þýðir að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að afgreiða fjárlög fyrir hið nýbyrjaða ár með forsendum sem eru gjörsamlega í lausu lofti og verður ekki betur lýst í einu orði en gert var af forseta Alþýðusambands Íslands, Ásmundi Stefánssyni, en hann sagði að forsendur fjárlagafrv. væru rugl.
    Ég hlýt að mótmæla því að fjárlög séu afgreidd með þessum hætti. Þegar raunhæfar forsendur vantar við afgreiðslu fjárlaga er fjárlagadæmið allt á sandi byggt.
    Ég undrast það að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki nota þinghlé um jól og áramót til þess að móta stefnu í efnahagsmálum sem dygði til þess að fjárlagaafgreiðsla gæti orðið með trúverðugum hætti og að vandamál atvinnuveganna yrðu leyst.
    Allir virðast sammála um það að sú gengisfelling sem hæstv. ríkisstjórn greip til nú eftir áramótin leysi engan vanda. Meira að segja hæstv. ríkisstjórn sjálf segist vera að leitast við að ná sömu stöðu fyrir atvinnuvegina og var í september þegar hún tók við. Hærra er nú ekki risið á þeim aðgerðum. Samt er

þetta nú ekki niðurstaðan.
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar var halli á rekstri sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, metinn 2,5% við stjórnarskiptin í september, en 4,5% í nóvembermánuði og hafði þá hallareksturinn nærri því tvöfaldast. Samkvæmt áliti Þjóðhagsstofnunar í gær var halli sjávarútvegsins, þ.e. botnfiskveiða og vinnslu, nú metinn um 5% eftir gengisfellingu. Þrátt fyrir síðustu kákráðstafanir ríkisstjórnarinnar, þ.e. gengisfellingu eftir áramótin og skattahækkanir hennar, sem snerta atvinnureksturinn á mörgum sviðum, þá hefur afkoma sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, versnað um helming frá því að ríkisstjórnin tók við.
    Þannig er nú niðurstaðan samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Þetta er staðan þegar hæstv. ríkisstjórn hefur setið að völdum í rúma þrjá mánuði. Þetta er sú hæstv. ríkisstjórn sem lýsti því yfir að hún væri mynduð til þess að leysa bráðan efnahagsvanda þjóðarinnar, rétta við stöðu útflutningsgreinanna, forðast atvinnuleysi og hemja verðbólgu. Lokið væri tímabili óþolandi óvissu og úrræðaleysis, upp væri runninn tími aðgerða, tími tillagna væri að baki.
    Digurbarkalegar yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar frá því í haust duga henni ekki lengur. Allir sjá að óvissunni er ekki lokið, allir sjá að úrræðaleysi er alls ráðandi, allir sjá að hæstv. ríkisstjórn horfir á það vitandi vits að útflutningsatvinnuvegirnir eru að fara fram af bjargbrúninni. Það er orðið tímabært að spyrja þessa hæstv. ríkisstjórn --- hér er enginn til andsvara úr þeim hópi og ég hlýt enn að undrast það að þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. ræða um fjárlög hér í hv. sameinuðu Alþingi, þá hirða hæstv. ráðherrar og núv. ríkisstjórn ekki um að vera við í salnum. Ég hlýt að fara fram á það við hæstv. forseta að gerðar verði ráðstafanir til þess að ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar mæti hér við umræðuna, a.m.k. hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Ég er reiðubúinn til þess að gera hlé á máli mínu
meðan þeir eru sóttir. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hafa samband við fjmrh.) Hæstv. forseti, ég ætti kannski að fá mér sæti á meðan? ( Forseti: Það er hv. þm. í sjálfsvald sett. --- Forseti hefur ákveðið að fresta fundi í 5 mínútur. --- Hæstv. fjmrh. er nú kominn til leiks og hv. 2. þm. Norðurl. v. heldur áfram máli sínu.)
    Virðulegi forseti. Ég gerði hlé á máli mínu og óskaði eftir því að ráðherrar úr hæstv. ríkisstjórn væru hér viðstaddir þessa umræðu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef þurft að gera athugasemd við umræðu um fjárlög á þessum vetri vegna þess að hæstv. ráðherrar hafi ekki hirt um að vera við fjárlagaumræðu. Þetta er í þriðja sinn í jafnmörgum umræðum sem ég hef þurft að kvarta undan því að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið við umræðu. Í þriðja sinn í þremur umræðum hef ég þurft að vekja á því athygli að hæstv. fjmrh. sjálfur og hæstv. ríkisstjórn sýnir ekki þingheimi þá virðingu að vera við umræðu um fjárlög hér á hv. Alþingi. Hæstv. fjmrh. hefur í sumum þessara umræðna verið hér eins og fló á skinni. Hann hefur vikið úr þingsalnum og það kann

að geta verið afsakanlegt að fjmrh. hæstv. og aðrir hæstv. ráðherrar víki úr þingsal undir umræðu sem þá og þeirra málaflokka snertir sérstaklega, en það er alla jafna venja og siður að það sé þá gert undir þeim kringumstæðum að þeirra meðhaldsmenn séu í ræðustól en ekki stjórnarandstæðingar.
    Nú vildi svo til að hæstv. ráðherra var ekki mættur hér á réttum tíma þegar umræða hófst og enginn ráðherra úr hæstv. ríkisstjórn. Ég fagna því að sjálfsögðu að hæstv. fjmrh. skuli hafa séð sér fært að koma hingað til fundar því það er mér ánægja að horfa til hans annað veifið í minni ræðu, en ég hlýt enn að vekja á því athygli að aðrir hæstv. ráðherrar sýna þingheimi ekki þá virðingu að vera hér viðstaddir. Hæstv. forsrh. var ekki hér viðstaddur þegar 1. umr. og 2. umr. um fjárlög fóru fram. Hann sagði að við 2. umr. hefði hann verið staddur erlendis, sem vel má vera rétt, en þá þess heldur hefði hann átt að sýna Alþingi þá virðingu að vera viðstaddur við umræðu hér í dag og í kvöld. Ekki er við hæstv. fjmrh. að sakast um þessi efni en það er furðu fáskipað úr röðum þeirra stjórnarliða. Hér sé ég t.d. einungis tvo hv. þm. Framsfl. og engan ráðherra úr þeirra röðum. ( Gripið fram í: Það er óvenju góð mæting.) Og það er líklega óvenju góð mæting. En ég sé hér út undan mér að hæstv. utanrrh. er mættur í hliðarsal og fyrrv. fjmrh. ( Gripið fram í: Þeir eru mættir hérna tveir.) Þeir eru hér mættir formenn AA-samtakanna sem ætla sér að fara um á rauðu ljósi í endurhæfingu og væntanlega til þess að bæta eigið skinn og e.t.v. að reyna að verða einhverjum landsmönnum til skemmtunar. Hvað sem út úr því kemur þá er sjálfsagt fagnaðarefni að þeir skuli vera hér mættir við þessa umræðu.
    Ég hafði lokið við að flytja nokkurn pólitískan inngang að ræðu minni sem vitaskuld var sérstaklega ætlaður hæstv. ráðherrum í núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég mun þó ekki gera það öðrum hv. þm. hér til skapraunar að fara að flytja ræðu mína aftur en ég hef minnt á það í þessum ræðukafla að sú ríkisstjórn, sem nú situr að völdum og er búin að sitja í þrjá mánuði, var mynduð til þess, að eigin sögn, að ráða bót á því efnahagsástandi sem við er að fást, að rétta við stöðu atvinnuveganna, að bægja frá hættu á atvinnuleysi og að vinna gegn verðbólgu.
    Þessi ríkisstjórn hefur enn enga stefnu tekið sem sýnir það að hún ætli að vinna þessi verk þrátt fyrir það að liðnir séu þrír mánuðir frá því að hún tók við völdum. Hún lýsti því yfir þegar hún tók við að nú væri að baki tími tillagna, nú væri tími aðgerða, sagði hæstv. núv. utanrrh. Hæstv. forsrh. sagði: Atvinnuvegirnir þola ekki lengri bið. Það þarf að bregðast við því ástandi sem er í atvinnumálum og efnahagsmálum þjóðarinnar ef atvinnuvegirnir eiga ekki að hrynja. Síðan hefur ekkert gerst sem mark er á takandi, sem gagn er að, ekkert verið gert sem gagn er að að mati þeirra aðila sem eru í forsvari fyrir atvinnuvegina, jafnvel ekki heldur hinna sem eru í forsvari fyrir launþega í landinu. Ég lýsti því hér í þessum inngangi að ræðu minni hvernig staðan í

sjávarútveginum væri að mati Þjóðhagsstofnunar, en samkvæmt því mati var hallarekstur sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, metinn í septembermánuði við stjórnarskiptin 2,5%. Í nóvembermánuði var hallinn kominn í 4,5% og hafði þá nálega tvöfaldast. Og í gær, eftir að ríkisstjórnin hafði gripið til nokkurrar gengisfellingar og skattahækkana og annarra kákráðstafana sem hún hefur verið að smáfikta við núna síðustu dagana, þá er hallinn kominn í 5% samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar, eftir gengisfellinguna. Forustumenn þessarar hæstv. ríkisstjórnar sögðu: Það má ekki dragast lengur að grípa til aðgerða, það er ekki hægt að koma aðgerðum fram vegna þess að Sjálfstfl. flytur tillögur sem við getum ekki fallist á, við þurfum að losna við Sjálfstfl. úr ríkisstjórninni til þess að geta komið fram nauðsynlegum aðgerðum. Ríkisstjórnin hefur nú setið í þrjá mánuði. Og afraksturinn er þessi: Halli sjávarútvegsins hefur tvöfaldast. Það er von að hæstv. ráðherrar séu ánægðir með frammistöðuna.
    Ég endurtek það að eitt af því sem ég sagði fyrr í ræðu minni var að digurbarkalegar yfirlýsingar núv. hæstv. ríkisstjórnar duga ekki lengur. Það
sjá allir að óvissunni er ekki lokið. Það sjá allir að úrræðaleysi er alls ráðandi. Og það sjá allir að hæstv. ríkisstjórn horfir á það vitandi vits að útflutningsatvinnuvegirnir eru að fara fram af bjargbrúninni. Það er orðið tímabært að spyrja þessa hæstv. ríkisstjórn hvort hún hafi verið mynduð til þess að knésetja allan einkarekstur í undirstöðugreinum landsmanna. Aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar knýr slíkar spurningar fram.
    Það er sannarlega engin furða þótt forstjóri Þjóðhagsstofnunar leggi á það áherslu að enn ríki veruleg óvissa um ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár fyrir árið 1989. Og hann bætir við í greinargerð sinni til fjvn., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvað þróun innlendra efnahagsmála snertir á árinu 1989 ríkir ekki síður mikil óvissa. Fyrir þessu eru margar ástæður. Í fyrsta lagi er gerð kjarasamninga fram undan. Í öðru lagi er afkoma útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina almennt erfið um þessar mundir. Í þriðja lagi rennur verðstöðvun úr gildi í febrúarlok. Loks er erfitt að meta með nákvæmni áhrif skattabreytinga um áramótin á verðlag og aðrar þjóðhagsstærðir.``
    Hér er vitaskuld hófsamlega að orði komist en kjarninn leynir sér ekki. Hann er sú algera óvissa sem ríkir á öllum sviðum efnahags- og atvinnumála um þessar mundir sem er meiri en oftast áður, ef til vill meiri en nokkru sinni fyrr.
    Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir þegar fjárlagafrv. var kynnt við 1. umr. að engin erlend lán yrðu tekin vegna A-hluta ríkissjóðs á árinu 1989. Til þess að gera þetta mögulegt hefur hæstv. ráðherra væntanlega ætlað sér að taka sem allra mest erlend lán fyrir áramót til að geta kennt öðrum um lánaþörfina. Á fundi fjvn. í gær var því lýst yfir að ekki hefði komist í verk að taka nema 3,3 milljarða kr. erlend lán nú fyrir áramótin og því yrði að gera ráð fyrir

erlendum lántökum á næsta ári sem nemi um 4,6 milljörðum kr. Svona fór nú um sjóferð þá. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt og þetta er ekkert einstakt að þær yfirlýsingar sem koma frá hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórn standist ekki heldur breytist í andhverfu sína. Það er ekki nýtt.
    Á þessu ári er einnig gert ráð fyrir því að um verði að ræða hrikalegan viðskiptahalla á þjóðarbúskapnum og viðskiptum okkar við útlönd eða sem svarar um 14 milljörðum kr. sem er hækkun um 2 1 / 2 milljarð frá því sem áætlað er að verði í ár og er þó viðskiptahalli ærinn fyrir. Þannig að það er ekkert lát á hallarekstrinum, hallarekstri þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, það er ekkert lát á þessu, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh., að það eigi að fleyta okkur áfram á erlendum lánum.
    Frá því að 2. umr. um fjárlagafrv. fór fram hafa orðið nokkrar breytingar á gengis- og verðlagshorfum fyrir þetta ár í kjölfar 4% gengisfellingar. Að mati Þjóðhagsstofnunar raskar það forsendum fjárlagafrv. verulega í þessu efni. Er nú talið að framfærsluvísitalan hækki um 15% á milli áranna 1988 og 1989 í stað 12% í forsendum fjárlagafrv. Vanmat fjárlagafrv. í þessu efni er þegar orðið 2,7%. Atvinnutekjur eru taldar hækka um 8% í stað 6% í þjóðhagsspá og nemur sú hækkun um 1,9%. Að lokum er áætlað, eftir þær breytingar sem urðu á gengi eftir áramót, að gengið hækki um 12% á milli ára í stað 7% í forsendum fjárlagafrv. og nemur vanmat sem þegar er fram komið af þessum sökum því um 4,7%.
    Breytingar á forsendum frv. í A-hluta hafa verið uppfærðar harla lauslega fyrir 3. umr., harla lauslega. Það var líkast því sem hæstv. ríkisstjórn, hæstv. fjmrh. og hv. meiri hl. fjvn. gerði sér litla grein fyrir því að það væri tilefni til þess að reikna fjárlagafrv. upp eftir að gengi hafði verið breytt á milli 2. og 3. umr. Því fyrst klukkan að ganga tólf í gærkvöldi var hafið það verk að reikna upp forsendur B-hluta frv. Það var svo seint að minni hl. lét sér það nægja að fá þá ákvörðun fram og sá ekki tímans vegna tilefni til að krefjast fundar til þess að leggja niðurstöðurnar fyrir nefndina í heild. Því kunna að vera inni í uppfærslu B-hlutans atriði sem gætu komið minni hlutanum á óvart. En þetta er tákn um þau flausturslegu vinnubrögð sem verða í afgreiðslu stórmála þegar svo er haldið á málum í tímaþröng eins og hér er gert á hinu háa Alþingi undir yfirstjórn hæstv. ríkisstjórnar.
    Varðandi A-hlutann er það sjáanlegt að uppfærslan er í hæsta máta óljós í þeim plöggum sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Hvað varðar tekjur ríkissjóðs er aðeins sagt að búið sé að taka tillit til breyttra forsendna og eru áhrifin hvergi sýnd sérstaklega. Okkur í fjvn. er aðeins sagt að sú tala sem sýnd er í tekjuhlið taki bæði tillit til meiri samdráttar í efnahagsstarfseminni en upphaflega var ráð fyrir gert og vegna breyttra verðlagsforsendna.
    Að því er gjaldahliðina snertir er óvissan einnig mikil. Launatölum frv. er haldið óbreyttum þrátt fyrir að atvinnutekjur séu taldar hækka um 1,9% umfram

það sem gert er ráð fyrir í spám þjóðhagsáætlunar. Að vísu er um sömu tölu að ræða eða 8% eins og gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv. Sömu meðferð fá síðan allir tilfærsluliðir frv., þar með taldar tryggingabætur. Í því hlýtur að felast áætlun hæstv. ríkisstjórnar að ef þessi niðurstaða um launamálin ekki stenst í þessum útreikningum, þá beri tryggingar þegar skertan hlut. Eða
er það meiningin að hækka þá útgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins til þess að mæta því sem á kann að vanta? Það væri ákjósanlegt að fá um það svör hér í þessari umræðu.
    Einu tilburðir hæstv. fjmrh. til þess að taka tillit til breyttra verðlagshorfa árið 1989 í A-hluta er 160 millj. kr. hækkun í rekstrarútgjöldum og 190 millj. kr. hækkun á vaxtagjöldum. Þær hækkanir virðast einnig verulega vanmetnar. Ekki er talin nein þörf á hækkun á launum og tryggingabótum eins og áður sagði vegna breyttra forsendna og því er skyndilega haldið fram að í frv. til fjárlaga hafi verið áætlað svigrúm til að mæta þessum verðhækkunum. Það er vissulega nýmæli að þannig séu málin skýrð.
    Ég vil geta þess hér að miðað við þá útreikninga sem ég hef látið gera nokkuð lauslega og unnið að á þeim stutta tíma síðan þessi mál lágu fyrir í gær, þá sýnist mér að sú uppfærsla sé vanmetin sem gerð hefur verið af hv. meiri hl. nefndarinnar á rekstrargjöldum og vöxtum. Á það við báða þessa liði. Mér sýnist að þessi uppfærsla sé vanmetin samtals um a.m.k. 140 millj. kr. og er þá ósvarað þeirri spurningu hvort hér sé rétt að verki staðið varðandi launaútgjöld, tilfærslur og tryggingabætur. Þetta er vitaskuld ekki það eina sem vanmetið er í þessari afgreiðslu fjárlaga og kem ég nokkuð að því síðar. --- Ég hlýt að bjóða tvo hæstv. ráðherra Framsfl. velkomna í salinn til þess að vera við umræður um fjárlög. Það er mikil nýlunda að sjá hér hæstv. forsrh. Hæstv. heilbrmrh. hefur setið hér stundarkorn við 2. umr., enda er hann þessum málum kunnugur frá fyrri tíð.
    Við 2. umr. lét ég þess getið að sýnilegt væri af skattaáformum hæstv. ríkisstjórnar að árið 1989 ætti að verða skattaárið mikla. Sú verður og raunin. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn tækist ekki að koma fram öllum þeim skattaáformum, sem hún hafði hugsað sér, fyrir jólaleyfi nema skattaálögur á þessu ári samkvæmt nýjum lögum hæstv. ríkisstjórnar samtals 3 milljörðum 955 millj. kr. að mati hagdeildar fjmrn. Stendur þá út af það sem hæstv. ríkisstjórn tókst ekki að koma fram, en það er lagasetning um tekjuskatt á fjármagnstekjur, sem áætlaður var um 150 millj. kr., skatt á orkufyrirtæki, einnig um 150 millj. kr., og skatt á happdrættismiða og skylda starfsemi, lottó og getraunir, um 400 millj. kr., eða samtals um 700 millj. kr. af áætluðum skattaáformum hæstv. ríkisstjórnar sem ekki tókst að koma í gegnum Alþingi, a.m.k. ekki enn sem komið er.
    Hæstv. fjmrh. brá því býsna hart við um áramótin og hækkaði með reglugerð ýmsa skatta til ríkisins, þ.e. bensíngjald um 600 millj. kr., þungaskatt af dísilbifreiðum um 190 millj. kr., innflutningsgjald af

bílum um 400 millj. kr. og einnig er áætlað að hækka áfengi og tóbak og nemi sú hækkun um 450 millj. kr. þ.e. ef hæstv. ríkisstjórn telur sig hafa heimildir til samkvæmt verðstöðvunarákvæðum. Samtals er því áætlað af hagdeild fjmrn. að nýir skattar, sem lagðir eru á samkvæmt reglugerðum á þessu ári, nemi um 1640 millj. kr. Alls eru því nýir skattar, sem álagðir eru um þessi áramót, samtals rétt tæpir 6 milljarðar kr. Enn fremur er rétt að taka með í þennan útreikning ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar um að fresta gildistöku virðisaukaskatts frá miðju þessu ári til næstu áramóta, en sú ákvörðun er talin færa ríkissjóði 1200 millj. kr. í auknar tekjur. Samtals er því áætlað að ný skattheimta á þessu ári samkvæmt mati hagdeildar fjmrn. nemi samtals um 7,2 milljörðum kr.
    Við Íslendingar höfum því eignast nýjan skattakóng, sem er hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson. Og þegar hann fer að ferðast um landið ásamt hæstv. utanrrh. undir yfirskriftinni ,,Á rauðu ljósi``, mun hann vafalaust hæla sér af því að hafa gert árið 1989 að skattaárinu mikla.
    Hæstv. fjmrh. mótmælti því við 2. umr. fjárlaga að áform hæstv. ríkisstjórnar um nýjar skattaálögur á þessu ári væru 6,7 milljarðar kr., eins og upplýsingar höfðu verið gefnar um af Þjóðhagsstofnun. ( Fjmrh.: Samkvæmt tekjuöflunarfrv., sagði Þjóðhagsstofnun.) Nú liggur hins vegar niðurstaða fyrir samkvæmt mati hagdeildar fjmrn. ( Fjmrh.: Samkvæmt tekjuöflunarfrv.) ( EgJ: Nei, hún sagði það ekki.) Það mat sýnir . . . ( Fjmrh.: Hún sagði það víst.) --- Hæstv. fjmrh. er velkomið að fá orðið hér á eftir og ég vænti þess að svo sem venja er til fái hæstv. fjmrh. að tala hér í lok umræðu alveg eins og hann lystir. Þá getum við athugað það hvort ástæða þykir til fyrir okkur óbreytta þingmenn að tala að nýju eftir því sem máli hæstv. fjmrh. vindur fram, svo sem hann óskar eftir. ( Fjmrh.: Ræða þingmannsins er í þingtíðinum.) Og þá hefur hæstv. fjmrh. sitt tækifæri eins og stundum áður.
    Þetta mat sýnir sem sé, eins og ég áður sagði, að þessar nýju skattahækkanir nema samtals réttum 7,2 milljörðum kr. Hitt er svo annað mál hvernig hæstv. fjmrh. gengur innheimtan á þessum sköttum miðað við þær þrengingar sem nú eru í atvinnulífi landsmanna, bæði í rekstri fyrirtækja og í atvinnutekjum fólksins.
    Samkvæmt áætlunum hagdeildar fjmrn. er nú gert ráð fyrir að eignarskattar á þessu ári verði tæpir 3 milljarðar kr. og tekjuskattar um 10,5 milljarðar kr. Beinir skattar eru því samtals um 13,4 milljarðar kr. en í fjárlögum síðasta árs voru beinir skattar áætlaðir 8,2 milljarðar kr. Hækkun skatta á milli ára
er langsamlega mest hlutfallslega í beinum sköttum sem leggjast beint á einstaklinga og fyrirtæki. Óbeinir skattar eru samtals áætlaðir á þessu ári 59,6 milljarðar kr. en voru samkvæmt fjárlögum 1988 tæplega 51,6 milljarðar, eða 8 milljörðum lægri. Samtals er áætlað að skattheimta til ríkisins hækki á milli ára úr 63 milljörðum kr. árið 1988 samkvæmt fjárlögum í 77 milljarða kr. samkvæmt fjárlögum 1989, eða um 22%.
    Við sjálfstæðismenn höfum lýst andstöðu við þessar gífurlegu skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar og höfum

barist hart gegn flestum þeim skattafrv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur borið fram á hinu háa Alþingi. Þó höfum við viðurkennt réttmæti á einstökum þáttum hennar eins og frestun á virðisaukaskatti til næstu áramóta sem gefur, eins og áður sagði, um 1200 millj. kr. í ríkissjóð á þessu ári.
    Ég hef gagnrýnt það allharðlega að á sama tíma og atvinnureksturinn rambar á barmi gjaldþrots og hvert fyrirtækið af öðru í undirstöðugreinum landsmanna riðar til falls skuli skattheimta vera verulega aukin á atvinnureksturinn. Ég hef einnig gagnrýnt harðlega að á sama tíma og kreppir að hjá öllum almenningi, tekjur fólks dragast saman og þrengir að í öllu efnahagskerfinu þá skuli skattheimta aukin svo gífurlega til ríkissjóðs eins og nú er orðið staðreynd. Ég tel að þegar að kreppir í efnahagskerfinu verði ekki hjá því komist að ríkissjóður taki á sig einhvern hluta þrenginganna með því að draga saman sín umsvif.
    Þó að lítils háttar hafi verið fallist á þessi sjónarmið af hæstv. ríkisstjórn meðan fjárlagafrv. hefur verið til meðferðar er það að mínum dómi hvergi nærri nóg miðað við ríkjandi aðstæður. Ber þá að hafa í huga að fjárlagafrv. sjálft er þenslufrv. sem felur í sér útþenslu á rekstri og launagjöldum ríkiskerfisins. Þegar þrengir að hjá öllum almenningi á hann að borga meira en áður til ríkissjóðs til þess að ríkissjóður geti haldið áfram að auka umsvif sín. Á hinn bóginn er á sama tíma skorið niður til opinberra framkvæmda sem jafnframt hefur áhrif í þá átt að draga úr atvinnu fólksins, minnka tekjur þess og skerða möguleika fólksins til að greiða þau gjöld sem heimtað er af hálfu ríkisins.
    Í fjárlagafrv. sjálfu er gert ráð fyrir 400 nýjum störfum hjá ríkiskerfinu í A-hluta og á einu ári vaxa launaútgjöld ríkisins sem næst um 1 milljarð vegna nýrra starfa á vegum ríkisins. Þetta er óhófleg útþensla á sama tíma sem kreppir að í öllum atvinnurekstri og hjá öllum almenningi, útþensla sem síðan á að fóðra með því að hækka skatta jafn óhóflega og raun ber vitni. Þetta er að mínum dómi röng fjármálastjórn, þetta er röng efnahagsstjórn. Á sama tíma er ekkert eða sama og ekkert aðhafst til þess að gera það mögulegt að undirstöður allrar þjóðfélagsbyggingarinnar, útflutningsatvinnuvegirnir, geti starfað með sæmilegum hætti, hvað þá að þeim séu veitt skilyrði til þess að geta blómgast. Mér er engin launung á þeirri skoðun minni að við þessar aðstæður í efnahagskerfinu hefði þurft að beita verulegum samdrætti í útgjöldum, rekstri og umsvifum ríkiskerfisins og mun meiri sparnaði en lítils háttar tillögur eru gerðar um af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hl. fjvn.
    Ég tel rétt að greina frá því að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í minni hl. fjvn. hafa rætt þessi mál mjög alvarlega í sínum hóp. Við höfum fastmótaðar hugmyndir um það hvernig ná megi verulegum sparnaði í rekstri, mannafla og launaútgjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Þetta snertir bæði einstök störf á vegum ríkisins, fyrst og fremst

óheimilaðar stöður, jafnvel hjá hæstv. ráðherrum sjálfum þar sem sums staðar er farið fram úr því sem reglugerð um Stjórnarráðið og aðrar heimildir veita en einnig að því er lýtur að yfirvinnu og yfirborgunum ýmiss konar sem þanist hafa ótrúlega út á síðustu árum en þó einkum á síðasta ári.
    Það hefur hins vegar orðið niðurstaða að eftir að hæstv. ríkisstjórn hefur náð að leggja á alla þá skatta sem raun ber vitni og vegna þess að meðferð þessara mála er að sjálfsögðu í mörgum tilvikum vandasöm og viðkvæm og þeir sem flytja slíkar tillögur vilja gjarna hafa ráð á því að koma þeim fram og hafa hönd í bagga með hvernig þær eru framkvæmdar hefur það orðið að ráði að þær skuli ekki fluttar nú. Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað í vetur í umræðum um skattafrv. ríkisstjórnarinnar boðið upp á viðræður um minni skattheimtu og lægri ríkisútgjöld. Þessu hefur hæstv. ríkisstjórn ekki sinnt. Hæstv. ríkisstjórn hefur viljað fara skattaleiðina. Ef svo hefði til tekist að við í stjórnarandstöðunni hefðum náð að stöðva eitthvað af því mikla skattaflóði sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú dembt yfir þjóðina hefðum við flutt slíkar tillögur til þess að mæta því sem hrokkið hefði til baka af skattaáformum hæstv. ríkisstjórnar. Úr því að okkur mistókst að koma í veg fyrir þessar miklu skattahækkanir látum við þessar tillögur liggja um sinn.
    Nú sé ég að á þskj. 418 eru komnar fram brtt. við fjárlög frá Guðmundi Ágústssyni hv. þm. Borgfl. þar sem flutt er sem brtt. eitt vinnuskjal frá þeirri vinnu sem liggur að baki hugmyndum okkar í minni hl. fjvn. Ég hlýt að segja að þetta þingskjal kom mér mjög á óvart þar sem um er að ræða vinnuskjal sem ekki var fullmótað og ekki hefði verið flutt í þeim búningi sem það er þar
sem þetta er vinnuskjal sem sett er upp til að sjá hvernig tiltekin form koma út í útreikningi. Ég undrast það að vinnuskjal sem farið er með á milli manna í minni hl. nefndar, í þessu tilliti fjvn., og ákveðið að flytja ekki skuli tekið af tilteknum þingmanni og flutt sem brtt. hans. Að sjálfsögðu sýnir þetta að um er að ræða einn af þeim hv. þingmönnum sem ekki eiga langa setu að baki á Alþingi því að ég ætla að engum hv. þingmanni sem vanur er vinnubrögðum hér hefði flogið í hug að haga málum á þennan hátt. Mér kom þetta á óvart og ætla ekki að hafa nein stór orð um, aðeins segja það að mér þykir miður að vinnuskjöl séu á þann hátt tekin og flutt eftir að það hefur verið ákveðið að þau skuli liggja.
    Við 2. umr. fjárlaga lýsti hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, því yfir að á milli 2. og 3. umr. væri óhjákvæmilegt að taka til alvarlegrar umræðu innan fjvn. nokkur stór mál sem ég hafði minnst á við umræðuna og þó einkum skerðingu á framlögum til landbúnaðarins og skerðingu á framlögum til Vegagerðar ríkisins. Hv. þm. fékk þakkir fyrir í umræðunni bæði frá mér og eins frá hv. þm. Agli Jónssyni. Nú er mér vitaskuld ókunnugt um hvað meiri hl. fjvn. ræðir á sínum fundum. Hitt liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að afraksturinn af þessum

ummælum hv. þm. Alexanders Stefánssonar og þeim umræðum sem kunna að hafa farið fram um þessi mál í meiri hl. fjvn. á milli umræðna er helst til rýr. Raunar er hann enginn.
    Áður hefur komið fram að í þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að jarðræktarframlög verði einungis 100 millj. kr. á þessu ári. Skuldbindingar sem hefðu átt að greiðast á síðasta ári vegna framkvæmda árið 1987 nema um 77 millj. kr. og verði þær greiddar á þessu ári eru einungis 23 millj. kr. eftir til þess að greiða framlög vegna framkvæmda sem unnar voru árið 1988 og lögboðið var að greiða framlög til. Þörf fyrir framlög vegna framkvæmda síðasta árs er áætluð um 150--160 millj. kr. Nú er ljóst að engar tillögur koma frá meiri hl. fjvn. um að mæta einhverri þessara skuldbindinga. Einungis er gert ráð fyrir því að verja 9 millj. kr. til þess að styðja starfsemi búnaðarsambanda í landinu.
    Þá er einnig ljóst að meiri hl. fjvn. gerir enga tillögu um að verja einni einustu krónu á þessu ári til lögboðinna framlaga samkvæmt búfjárræktarlögum. Ég hefði gjarnan kosið að sjá hér framan í hæstv. landbrh. og samgrh. en ég get ekki gert að því að mér finnst að þetta séu kaldar kveðjur frá hæstv. ríkisstjórn og frá hæstv. landbrh. til bændastéttarinnar í landinu.
    Í fyrsta sinn eru við þessa fjárlagaafgreiðslu skert framlög samkvæmt landgræðsluáætlun og þar með brotið það meginsjónarmið sem virt hefur verið til þessa að standa við þá áætlun sem byggist á ályktun Alþingis er afgreidd var á sínum tíma samhljóða. Þar með er ekki sagan öll sögð vegna þess að hæstv. ríkisstjórn og meiri hl. fjvn. rugla hlutföllum innan þessarar áætlunar. Hún gerir meira en að skerða framlögin um 10--12 millj. kr. Hún ruglar einnig innbyrðis skiptingu þess fjár sem veitt er þrátt fyrir að fyrir liggi ályktun Alþingis um skiptingu fjárins. Þessa meðferð á málinu, þ.e. að hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hl. fjvn. taki sig þannig fram um að breyta innbyrðis hlutföllum í áætlun sem Alþingi hefur samþykkt eindregna áætlun um, tel ég enn þá alvarlegri en þó að fé skorti til þess að greiða áætlunina til fulls, enn þá alvarlegri. Þetta sýnir eitt með öðru að það skortir á að þeir sem með völdin fara beri nægilega virðingu fyrir Alþingi og ákvörðunum þess. Mun hæstv. ríkisstjórn læra af reynslunni eftir að hún hefur setið lengur að völdum eða mun hún fyllast þeirri tilfinningu, t.d. eftir ferðalag þeirra formanna AA-bandalagsins, að henni sé óhætt að fara sínu fram hvað sem líður ákvörðunum Alþingis? Fróðlegt væri að vita það ef þessi hæstv. ríkisstjórn á einhverja meiri háttar lífdaga fyrir höndum.
    Fram til þessa hefur verið staðið við ákvæði vegalaga um að sérmerktir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins rynnu óskertir til vegamála, þó að ekki hafi alltaf tekist að áætla þá fjárhæð nákvæmlega. Þessir sérmerktu tekjustofnar vegamála eru sem kunnugt er bensíngjald og þungaskattur af dísilbifreiðum. Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir frá meiri hl. fjvn. ætlar hæstv. ríkisstjórn nú einnig að brjóta

þessa meginreglu sem haldin hefur verið í heiðri af Alþingi til þessa. Samkvæmt fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að taka 600 millj. kr. af þessu fé beint í ríkissjóð. Í sparnaðartillögum hæstv. ríkisstjórnar var enn fremur gert ráð fyrir að bæta þá við 90 millj. kr. í þann niðurskurð og samkvæmt síðustu tillögum og tillögum meiri hl. fjvn. hefur enn verið bætt 10 millj. kr. við af fé Vegasjóðs í ríkissjóð þannig að samtals er skert fé til Vegagerðar ríkisins af sérmerktum tekjustofnum vegamála um 700 millj. kr. Enn fremur kemur fram að á þessu ári á ekki að skila þeim 180 millj. kr. til Vegagerðarinnar sem geymdar voru á síðasta ári af innheimtum tekjum Vegasjóðs. Samtals á því að skerða vegafé samkvæmt sérmerktum tekjustofnum til vegamála á þessu ári um 880 millj. kr. Þetta eru efndirnar á því sem hæstv. ríkisstjórn segir í málefnasamningi sínum, þ.e. að hún ætli að vinna skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun.
    Fátt kemur fólkinu á landsbyggðinni, og raunar Íslendingum öllum, betur en
greiðar samgöngur. Ástæðulaust er að gleyma því hvílík vandamál hafa skapast á höfuðborgarsvæðinu vegna vaxandi umferðarþunga og öngþveitis í umferðarmálum. Óhjákvæmilegt er að leggja í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er því eitt hið allra þýðingarmesta hagsmunamál landsmanna allra að unnt sé að halda sæmilega í horfi með framkvæmdir í samgöngumálum. Samkvæmt þessum niðurskurði, um 880 millj. kr., á fé til Vegasjóðs er ljóst að ekki verður unnt að vinna nýframkvæmdir í vegamálum fyrir eina einustu krónu í a.m.k. þremur kjördæmum á landinu á þessu ári ef miðað er við óbreytta hlutdeild þeirra í skiptingu á fé til vegamála. Þessi kjördæmi eru Suðurland, Vesturland og Norðurland eystra. Í þessum kjördæmum var á síðasta ári búið að vinna fyrir fram fyrir meira en sem svarar áætlaðri fjárveitingu til nýframkvæmda í vegamálum á þessu ári. Sú fjárveiting sem ætla má að þessi kjördæmi fái til nýframkvæmda samkvæmt vegáætlun síðar í vetur mun ekki duga til þess að greiða þau lán sem tekin hafa verið til nýframkvæmda á síðasta ári. Það verður því ekkert og minna en ekkert til þess að hefja þar einhverjar nýframkvæmdir. Samt skerðir hæstv. ríkisstjórn sérmerkta tekjustofna Vegagerðar ríkisins um 880 millj. kr.
    Nú eru auðvitað hinir mætustu þingmenn stjórnarliðsins, hv. þm. úr þessum kjördæmum, sem hafa tekið á sig að halda þannig á málum. Ég hlýt að undrast það að þeir skuli sætta sig við það að 880 millj. kr. af fé sem samkvæmt lögum á að renna til Vegagerðar séu teknar beint í ríkissjóðshítina. Enn er ekki hægt að sjá fyrir um það á hvern hátt fé verður útvegað eða hvort eitthvert fé verður útvegað til þess að halda áfram jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla sem er stórvirki. Vel má vera að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að taka erlent lán til þeirra hluta og fá heimild til þess á lánsfjárlögum sem enn bíða afgreiðslu þrátt fyrir að lög kveði svo á að afgreiðsla fjárlaga og lánsfjárlaga skuli fara fram samtímis eða því sem

næst. Meðferð lánsfjárlagafrv. er nú með þeim hætti að brotið er það sem náðst hefur í vinnubrögðum af hálfu þeirra sem farið hafa með fjármálastjórn í landinu á síðustu fjórum til fimm árum, þ.e. að afgreiðsla lánsfjárlaga og fjárlaga fari fram á sama tíma. Nú er það brotið. Óhætt er að segja að við þessa afgreiðslu fjárlaganna er því sá hluti ríkisfjármála sem birtist í lánsfjárlögum algerlega í lausu lofti og ómögulegt að segja hvernig afgreitt verður.
    Ég lít svo til og væri kannski fróðlegt að fá að heyra það frá hv. þm. stjórnarliðsins hvort ætlunin sé að taka af óskiptu niðurskornu fé Vegasjóðs til framkvæmda í Ólafsfjarðarmúla eða hvort eigi að hverfa frá þeim framkvæmdum sem þar eru hafnar. Ég sá fregnir af því að hæstv. samgrh., sem því miður er ekki viðstaddur, sem er þó jafnframt einn af þm. Norðurl. e., hefði farið í haust norður til Ólafsfjarðar og stutt þar á hnapp til þess að sprengja þegar framkvæmdir hófust við jarðgangagerð í gegnum Múlann. Nú væri rökrétt framhald af þeim ákvörðunum sem hér hafa verið raktar um niðurskurð á fé til vegamála að hæstv. samgrh. færi aðra ferð norður til Ólafsfjarðar og styddi aftur á hnapp til þess að loka göngunum. Miðað við frammistöðu hans í þessum málum og frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar væri það rökrétt framhald. Mér er sannarlega engin launung á því að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum hvernig þessi hæstv. ráðherra, ungur maður og ég álít vaskur maður, hefur látið samráðherra sína beygja sig á þeim þremur mánuðum sem ríkisstjórnin hefur setið. Mér er engin launung á því að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með það. Ég hefði ætlast til meira.
    Sjálfstfl. er nú í stjórnarandstöðu og hefur ekki með sama hætti og fyrr möguleika til að standa vörð um hagsmuni strjálbýlisins. Þegar til kastanna kemur sjá menn að þegar áhrifa Sjálfstfl. nýtur ekki við í stjórn landsins er ekki sparað að skera niður vegaframkvæmdir, lögboðið fé til vegamála og skera niður lögboðin framlög til bændanna í landinu. Þá stendur ekki á hv. þm. Framsfl. og hæstv. ráðherrum Alþb. og hv. þm. að standa þannig að málum. Enginn spyr um hæstv. ráðherra eða hv. þm. Alþfl.
    Eins og fram hefur komið í máli mínu hér að framan hefði í raun átt að fresta afgreiðslu fjárlaga þangað til hægt væri að byggja afgreiðslu þeirra á nýjum og traustum forsendum. Engin merki sjást hins vegar um það að hæstv. ríkisstjórn muni koma sér saman um stefnu og aðgerðir til þess að svo megi verða. Allt bendir til þess að hún muni áfram láta reka á reiðanum, láta skeika að sköpuðu, þótt framleiðslufyrirtækin hrynji.
    Um það hafði verið samið fyrir jól að afgreiðsla gæti farið fram í þessari viku í janúar. Og þótt forsendur séu breyttar og vissulega mikið breyttar hef ég talið mér skylt að standa að þeim samningum um afgreiðslu frv. í þessari viku nema til kæmu nýir samningar á milli forustumanna flokkanna. Þess vegna hef ég ekki tafið fyrir því að þessi afgreiðsla gæti hér

tekist sem þó efnislega væri fullt tilefni til og full ástæða til. Fjárlögin eru því afgreidd á brauðfótum og að ýmsu leyti sem óraunsætt plagg. Eftirmæli þessarar fjárlagagerðar verða þess vegna ekki fagurleg. Ljóst er að í fjárlagadæmið vantar stórar fjárhæðir. Áður er komið fram að vanmat á áhrifum gengisbreytingar í janúar eru a.m.k. um 140 millj. kr. Skerðing á fé Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári vegna stofnunar Atvinnutryggingarsjóðs
nemur nær 300 millj. kr. Til þess að halda niðurgreiðslum óbreyttum, aðeins í krónutölu, út þetta ár vantar um 620 millj. kr. Samtals vantar inn í fjárlagadæmið samkvæmt þessum liðum rúman milljarð eða 1040 millj. kr.
    Ég hafði hugsað mér að spyrja út í málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Um 50% lána sjóðsins eru í erlendri mynt og ljóst er að til þess að standast það vantaði um 70--80 millj. kr. umfram það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir vegna gengisbreytingarinnar. Ég vakti athygli á þessu máli á fundi með forustumönnum fjvn. í gærkvöldi og nú er mér sagt, þó að ég hafi ekki séð það þingskjal, að tillit hafi verið tekið til þessa við uppfærslu á B-hluta stofnunum í nótt. Það þingskjal hefur hins vegar ekki verið sýnt okkur í minni hl. og ég hef ekki haft tíma til að kafa í þingskjalið í dag vegna annarra verka. En ég hefði auðvitað spurt, ef þetta er ekki svo, hvort hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. ætluðu sér að skerða námslánin eða hvort stæði til að afla aukins fjármagns til þess að mæta áhrifum gengisbreytingarinnar. Ég met það svo að síðari kosturinn hafi verið valinn.
    Við sjálfstæðismenn og aðrir fulltrúar minni hl. í fjvn. óskuðum eftir því við meiri hl. að tillögum frá fulltrúum í Stúdentaráði Háskóla Íslands um sérstakt fé til þess að styðja við bakið á þeim nemendum sem þurfa að búa í dýru leiguhúsnæði yrði sinnt. Unnt hefði verið að komast af með allt niður í 50 millj. kr. til að mæta þessu verkefni. Þessu var hafnað af meiri hl. nefndarinnar, enda þótt það hafi í för með sér misrétti og ranglæti gagnvart mörgum þeirra sem ekki geta sótt nám heiman frá sér, að þurfa að sæta því að búa í dýru leiguhúsnæði.
    Ég vil svo segja það um málefni Lánasjóðsins að við þessa fjárlagaafgreiðslu er horfið frá því sem þó var reynt í afgreiðslu fjárlaga fyrir síðasta ár að fjármagna sjóðinn í vaxandi mæli af framlögum ríkisins. Nú er snúið við frá þeirri stefnu og sjóðurinn er fjármagnaður að miklu minni hluta en áður af framlögum ríkisins en meiri hluta af lánum sem hlýtur að enda með því að fjárhag sjóðsins verði kollvarpað. Hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. ættu að gefa því gaum hvernig þá verður séð fyrir hagsmunum námsmanna.
    Virðulegi forseti. Verði fjárlagafrv. afgreitt nú eins og meiri hl. fjvn. leggur til má draga saman nokkrar niðurstöður.
    1. Fjárlögin verða byggð á stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum. Forsendur fjárlaganna verða svífandi í lausu lofti, eða rugl eins

og Ásmundur Stefánsson orðaði það réttilega, og afgreiðsla þeirra felur því í sér virðingarleysi við Alþingi. Það er virðingarleysi við Alþingi að afgreiða fjárlög með vísvitandi vitlausum forsendum og forsendurnar eru vitlausar meðan þær byggjast á stefnuleysi þegar allir sjá að það verður að taka stefnu og það verður að grípa til aðgerða eigi þetta þjóðfélag ekki að hrynja.
    2. Tekjuhlið fjárlaganna byggist á hrikalegri nýrri skattheimtu sem vegur þyngra en nokkru sinni að hagsmunum einstaklinga og fyrirtækja í landinu.
    3. Í fjárlagadæminu eru vanáætluð útgjöld sem nema a.m.k. yfir 1 milljarði kr.
    4. Niðurskurður útgjalda hittir fyrst og fremst atvinnuvegina og strjálbýlið, ekki síst bændur og vegamál.
    5. Afgreiðsla fjárlaga stangast í fjölmörgum greinum á við málefnasamning hæstv. ríkisstjórnar sem helst virðist hafa verið saminn í öfugmælastíl miðað við efndir á þeim fyrirheitum og loforðum sem þar eru gefin.
    6. Lausatök á þessum málum eru slík á meðan atvinnuvegunum er að blæða út að ég hef valið þann kost að flytja ekki brtt. við frv. og lýsa m.a. á þann hátt andúð minni á meðferð þessara mála. Sjálfstfl. stendur að sjálfsögðu ekki að slíkri afgreiðslu.