Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka meðnefndarfólki í fjvn. svo og öllu starfsfólki nefndarinnar og starfsfólki í Austurstræti 14 einstaklega gott og snurðulaust samstarf á síðustu vikum.
    Þegar litið er á horfur í efnahagsmálum á næsta ári hvað varðar ytri skilyrði virðist sem Þjóðhagsstofnun sé óþarflega svartsýn í spádómum. Margt bendir til þess að næsta ár boði betri tíma. Fiskverð fer nú hækkandi og spáð er að enn muni það hækka á heimsmarkaði. Kann það að hraða enn þeirri þróun að tjón hefur orðið á fiskimiðum helstu keppinauta okkar bæði vegna ofveiða og mengunar og því eru líkur til að fiskafurðir okkar geti selst á góðu verði og jafnvel að nýir markaðir opnist. Þrátt fyrir fyrirhugaða skerðingu á afla eru uppi efasemdir um að aflaverðmæti dragist eins mikið saman og Þjóðhagsstofnun spáir nú og ekkert bendir til að olíuverð hækki, a.m.k. ekki fyrri hluta árs.
    Varðandi gengisþróun er líklegt að bandaríkjadollar hafi nú náð lágmarki og muni e.t.v. hækka eitthvað á árinu. Fremur bjartar horfur eru um hagvöxt og þar með vaxandi almenna eftirspurn í iðnríkjum. Spá Þjóðhagsstofnunar um viðskiptahalla upp á 14 milljarða kr. á næsta ári kann því að byggjast á of mikilli svartsýni.
    Hvað varðar innlend efnahagsmál þá ríkir þar mikil óvissa. --- Ég vil vekja athygli forseta á því að ráðherrar eru ákaflega lausir í sessi hér um þessar mundir í salnum. ( Forseti: Forseti mun gera tilraun til að kalla hæstv. ráðherra inn í salinn.) Hvað varðar innlend efnahagsmál þá ríkir þar mikil óvissa. Verðstöðvun, eða öllu heldur verðlagsafföll, fellur úr gildi í febrúarlok og ljóst er að nýir kjarasamningar eru fram undan. Í kjölfar gengisfellingarinnar nú hefur komið í ljós að kaupmáttur launa hefur rýrnað um 12,7% á síðustu sex mánuðum. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir sama kaupmætti launa út allt árið og á fyrstu þrem mánuðum þess. Þykir mönnum nú líklegt að launafólk sætti sig við að búa við slíkt? Ég hef efasemdir um það. Líklegra virðist að launahækkun muni verða umfram forsendur fjárlagafrv. sem þá eru brostnar nema ríkisstjórnin viðhaldi launafrystingunni út árið. Kannski ætlar hún sér það og ber við þjóðhagslegri nauðsyn. Þjóðhagsstofnun telur erfitt að meta áhrif skattbreytinganna um áramótin á verðlag og aðrar þjóðhagsstærðir. Þetta er síst að undra í ljósi þess hver raunin varð á nýliðnu ári. Þær skattbreytingar sem gengu í gildi um áramót 1987 og 1988 áttu að bjarga hag ríkissjóðs í bráð og lengd og söluskatti var ætlað að skila sér betur en nokkru sinni áður. Allt fór þetta úr böndunum með þeim afleiðingum sem öllum eru kunnar.
    Þriðja umræða um fjárlög fer nú fram við óvenjulegar aðstæður þar sem komið er fram á fjárlagaárið og forsendur eru enn að breytast og má segja að nýjar tölur birtist daglega. Stjórnarandstaðan lagði mikla áherslu á það að tekjuöflunarfrv. væru afgreidd sem lög frá Alþingi áður en endanlega væri

gengið frá fjárlögum. Annað hefði í rauninni verið óforsvaranlegt þar sem mikil óvissa ríkti um afdrif þeirra og þar með tekjuhlið fjárlaga. Að sjálfsögðu kom í ljós að ekki var vanþörf á að hafa vit fyrir stjórnarflokkunum að þessu leyti.
    Í meðförum Alþingis urðu umtalsverðar breytingar á þessum frv. sem breyttu tekjuöflunardæminu um hundruð milljóna kr. Mest munar þó vissulega um happdrættisskattinn sem hæstv. fjmrh. gleymdi að tryggja sér stuðning við áður en hann var markaður sem 400 millj. kr. tekjulind í fjárlagafrv. Ekki hörmum við kvennalistakonur afdrif þess máls og erum vissulega sáttar við að sækja svipaða upphæð í vasa þeirra sem nota áfengi og tóbak svo sem ætlunin er. Í sambandi við það vil ég lýsa andstöðu okkar kvennalistakvenna við vægi þessara þátta í framfærsluvísitölunni. Það er bágt að sjá nokkurt réttlæti í því að framfærslu- og lánskjaravísitala taki stökkbreytingum og skuldabyrði manna þyngist við hækkanir á brennivíni og tóbaki.
    Annað dæmi um breytta liði í tekjuhlið frv. er tekjuskatturinn, en enginn vafi er á því að hörð barátta stjórnarandstöðunnar kom í veg fyrir að álögur á einstaklinga yrðu enn meiri en raunin verður. Því miður tókst ekki að koma í veg fyrir hækkun skattprósentunnar en hækkun fékkst á persónufrádrætti og barnabótum frá því sem ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju hafði áformað. Ýmislegt í því frv. og reyndar öðrum hefði þurft að athuga og fjalla um miklu nánar og skal hér enn ítrekuð sú skoðun að það sé hreint glapræði að flaustra svo af afgreiðslu afdrifaríkrar lagasetningar.
    Þessi nýju skattalög kveða svo á að framreikningur persónuafsláttar og barnabóta miðist ekki lengur við lánskjaravísitölu heldur skattvísitölu sem breytist árlega. Með þessu er horfið frá því að tengja skattbyrði fólks við verðlagsþróun því áður minnkaði skattbyrðin hlutfallslega ef samdráttur varð í launum. Auk þessa var svo skatthlutfall hækkað úr 28,5% í 30,8%. Þessu vorum og erum við kvennalistakonur ekki samþykkar. Við höfum áður lagt til að háar tekjur verði skattlagðar sérstaklega bæði í tekjuskatti og útsvari og mundi það sennilega gefa álíka tekjur í ríkissjóð en vera sanngjarnari skattheimta. Við höfum í hyggju að vinna áfram að athugun þessa máls. Við erum einnig
þeirrar skoðunar að skattleggja beri eignir umfram hófleg mörk en við töldum engan veginn nægilega athugað hvernig sú skattlagning og skattlagning á fyrirtækjum kæmi niður. Því sátum við hjá við afgreiðslu þessara greina hinna nýju skattalaga en greiddum atkvæði gegn frv. í heild vegna hækkunar tekjuskatts einstaklinga.
    Ekki er hægt annað en gagnrýna enn og aftur þau vinnubrögð sem þingmönnum hefur verið boðið upp á við undirbúninginn að afgreiðslu fjárlaganna. Eftir verkefnaskort í þinginu vikum saman komu síðustu daga fyrir jól í einni skæðadrífu frv. sem ætlað er að mynda tekjur sem standa eiga undir útgjöldum fjárlaga. Þetta gerist þá sömu daga sem ætlað var að

fjárlögin yrðu afgreidd. Svona vinnulag er engin leið að samþykkja. Það þarf mjög teygjanlega samvisku til að samþykkja tekjuöflunarfrv. sem fá svo hraða umfjöllun og er rekið svo á eftir að ekki fást svör við til hvers þau kunna að leiða úti í þjóðfélaginu og hvernig þau koma við hinn almenna þjóðfélagsþegn. Þessi frv. hefðu því þurft að koma fram miklu fyrr.
    Þetta fjárlagafrv. sem við ræðum hér boðar harðari álögur og þrengri stöðu almennings en sést hefur um árabil. Álögurnar koma fram í beinum og óbeinum sköttum auk þess sem ætlað er að gjaldskrár ýmissa stofnana hækki. Hagur almenns launafólks fer síversnandi. Kaupmáttur launa hefur samkvæmt síðustu fréttum rýrnað um 12,7% á síðustu sex mánuðum. Það þýðir ekki aðeins versnandi hag almennings heldur einnig ríkissjóðs. Hækkun skatta kemur óhjákvæmilega til með að minnka ráðstöfunartekjur almennings enn frekar og hlýtur að leiða til þess að tekjur ríkissjóðs af veltusköttum minnki. Þannig kann ávinningur ríkissjóðs að verða minni en ætlað er. Það hefur þegar sýnt sig að vaxandi samdráttur hefur leitt til tekjubrests hjá ríkissjóði og í ljósi þess leyfi ég mér að hafa þá skoðun að tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum séu ofáætlaðar í frv. Hafa ber í huga að hækkun á gjaldskrám, t.d. Ríkisútvarpsins og Pósts og síma og hækkun á bensíngjaldi, er líka skattlagning sem munar um í pyngjum sem léttar eru fyrir. Þá má einnig minna á að breikkun vörugjaldsstofnsins leiðir til aukinna útgjalda einstaklinga auk þess sem sú mikla skattlagning er verðbólguhvetjandi.
    Landssamband iðnaðarmanna hefur lýst sig mótfallið hækkun vörugjaldsins. Þeir telja að með þeirri lagasetningu sé litið fram hjá vandamálum íslenskra iðnfyrirtækja og samkeppnisstöðu þeirra gagnvart innfluttum vörum. Þeir vara við þeirri stefnu stjórnvalda að gera samdráttarráðstafanir þegar efnahagslífið er að dragast saman og telja að framkvæmdir og fjárfestingaráform hafi þegar dregist svo mikið saman að naumast sé þörf á sérstökum hagstjórnaraðgerðum, svo sem aukinni skattlagningu á byggingarefni, til að draga úr fjárfestingu. Vörugjald hefur veruleg áhrif á flestöll iðnfyrirtæki og má í því sambandi minna á hve stór hluti iðnaðarins er tengdur mannvirkjagerð, framkvæmdum og þjónustu við atvinnulífið. Með þessum skatti eru vandkvæði útflutnings- og samkeppnisgreina í iðnaði stóraukin og voru þó ærin fyrir. Vert er að hafa í huga að sé búið þannig að fyrirtækjum að þau ýmist aðeins hangi á horriminni eða leggi upp laupana fær ríkissjóður ekki umtalsverðar tekjur af sköttum frá þeim. Því má heldur ekki gleyma að hækkun á byggingarkostnaði er verðbólguvaldandi, leiðir til vísitöluhækkana og kallar á aukin framlög til byggingarsjóðanna. Þannig rekur sig eitt á annars horn.
    Mér býður í grun að í þessu sem fleiru séu tekjur af skattheimtu ofmetnar. Samdrátturinn kynni að verða meiri en reiknað er með vegna rýrnunar gjaldstofnsins og við þurfum ekki að leita langt aftur í tímann eftir dæmum um rangar tekjuáætlanir. Þær hafa kannski sjaldnast staðist, sem oft er skiljanlegt, en aldrei hafa

menn þó misreiknað sig jafnhrapallega og á síðasta ári, einmitt þegar ráðist var í umfangsmiklar breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins sem leiða áttu til skilvirkari og öruggari áætlana. Sú fyrirætlun brást gjörsamlega.
    Í baráttunni við rekstrarhalla ríkissjóðs ætti hæstv. ríkisstjórn að hafa í huga að þó að vandinn sé mikill leyfist henni ekki að smíða sér vopn gegn honum úr hvaða efniviði sem er. Samdráttar- og sparnaðarhugmyndir hennar birtast okkur ekki aðeins í tillögum heldur í tilskipunum um niðurskurð í hinum margvíslegustu málaflokkum sem ég vil nefna dæmi um. Þar vil ég fyrst telja lækkun launagjalda til skóla um 110 millj. kr. Það ætti að vera öllum kunnugt að um langt skeið hafa kennarar búið við laun sem engan veginn samrýmast því ábyrgðarhlutverki sem þeir gegna og margir þeirra hafa neyðst til að drýgja tekjur sínar með mikilli yfirvinnu hreinlega til þess að komast af. Með þessum niðurskurði er dregið úr þeim möguleikum þar sem honum er að miklu leyti beint gegn yfirvinnu og forfallakennslu. Ekki eru líkur til að kennarastéttin láti slíkri skerðingu ómótmælt og gefur auga leið hverjar afleiðingarnar verða.
    Samkvæmt tilskipun ríkisstjórnarinnar skal lækka launaútgjöld ríkisins og svarar sú lækkun til þess að heildarlaunakostnaður dragist saman um 1,5%. Áætlað er að þessi samdráttur komi fyrst og fremst fram í minnkandi yfirvinnu og aukavinnu. Einnig skal lækka kostnað vegna ferða, risnu og sérfræðiþjónustu
um 250 millj. kr. eða u.þ.b. 20%. Þessu skal náð fram með auknu aðhaldi. Fyrr hafa nú sést í fjárlagafrv. áform um aðhald og sparnað. Aldrei hafa þau gengið fram því sjálfvirkni í kerfinu er býsna föst fyrir. Verður fróðlegt að sjá hvort þetta gengur eftir nú fremur en áður og satt að segja efumst við kvennalistakonur mjög um það. En það er allrar athygli vert að þegar hæstv. fjmrh. hefur talað um þessa sparnaðarleið hefur hann alltaf orðað það svo að risnu- og ferðakostnaður skyldi lækkaður um 250 millj. kr. en sérfræðiþjónustunni hefur hann sleppt úr umtalinu þó að vissulega liggi fyrir að hún sé inni í þessu dæmi. Og aldrei hefur þessi risnu- og ferðakostnaður verið sundurgreindur. Sérfræðiþjónustan er eitthvað sem fer lakar í munni en risnu- og ferðakostnaður og spurningin er: Hver á að sjá um aðhaldið og hvernig á að ná þessu fram? Halda menn virkilega að þetta takist?
    Það má enn nefna fleiri baráttutæki hæstv. ríkisstjórnar sem smíðuð eru úr efniviði sem ætlaður var í annað. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar um skipulega uppbyggingu í samgöngumálum birtast á þann hátt að af 900 millj. kr. hækkun á sérmerktum tekjustofnum Vegagerðarinnar fara aðeins 200 millj. kr. til vegamála. Hitt fer til ríkissjóðs, eða 700 millj. kr. Í öðru lagi verður ekki skilað á þessu ári 180 millj. kr. sem geymdar voru frá fyrra ári. Þarna fara því um 880 millj. kr. af sérmerktu fé Vegagerðar ríkisins beint í ríkissjóð. Það er augljóst að vegagerðarframlög til sumra kjördæma duga naumast fyrir skuldum þannig að lítið sem ekkert verður eftir til

nýframkvæmdanna. Þó að ráðherrann gefi fyrirheit um að þessar og þvílíkar ráðstafanir sem varða skerðingu lögboðinna tekjustofna séu aðeins miðaðar við árið í ár, og meini það kannski, er rétt að hafa í huga að þegar þetta hefur einu sinni verið gert er eftirleikurinn auðveldur og freistingin fyrir hendi að seilast aftur til fjárins ef færi gefst.
    Þessar ráðstafanir hljóta að hafa í för með sér tekjutap og atvinnusamdrátt á landsbyggðinni ofan á fyrirsjáanlegan atvinnubrest sem stafar af niðurskurði á öðrum verklegum framkvæmdum og þrengingum atvinnuveganna. Það er því heldur kátbroslegt sem gat að líta í Þjóðviljanum, málgagni sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar, 28. des. sl. þar sem leiðarahöfundur lýsir fögnuði sínum yfir störfum og árangri ríkisstjórnarinnar og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Allt annar andi en áður ríkir í samgöngumálum. Þar er nú hugað að því að bæta lífskjör og vaxtarmagn á landsbyggðinni.`` Ekki veit ég í hvers konar turni þessi veslings leiðarahöfundur er en sá turn hlýtur að vera bæði gluggalaus og hljóðeinangraður fyrst maðurinn sér hvorki né heyrir staðreyndir á borð við þessar sem ég hef nú lýst.
    Svo enn sé rætt um mál sem varða landsbyggðina sérstaklega þá má nefna að eftir 1. apríl sést ekki að ætluð sé króna til niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum og hvergi hefur komið fram hvað ríkisstjórnin hyggst aðhafast í því máli, hvort landbúnaðarvörur eigi að hækka í verði eða hvar á að taka fjármuni til áframhaldandi niðurgreiðslna. Búfjárræktarframlög eru strikuð út, til jarðræktarframlaga skortir 150 millj. kr. vegna framkvæmda sem þegar hafa verið unnar og auk þess er langur skuldahali á þessum liðum sem hvergi er tekið á. Að vísu lýsti formaður fjvn. í ræðu sinni hér áðan fyrirheitum ráðherra um endurskoðun, uppstokkun og skuldagreiðslu varðandi þessa liði og nú er helst að binda vonir við að það gangi eftir. En allt um það taka bændur nú að gerast langeygir eftir lögboðnum greiðslum fyrir framkvæmdir sem þeir hafa þegar komið á.
    Einnig er vert að geta þess að svo mjög sem stjórnarliðar hafa hátt um landgræðslu og landvernd, sem út af fyrir sig er allt gott um að segja, er raunin sú að samkomulagið um framlög vegna landgræðslu er brotið og síðan er ruglað öllum samþykktum um hlutföll í úthlutun til verkefna sem fyrir liggja. Landsbyggðin er ekki gæluverkefni þessarar ríkisstjórnar. Það væri nær að segja að hún væri olnbogabarn. ( Gripið fram í: Það er hún alveg ótvírætt.)
    Ég hef nú rætt nokkuð um niðurskurðartilskipanir hæstv. ríkisstjórnar og þann sparnað sem hún hyggst koma á með margvíslegu aðhaldi sem við kvennalistakonur höfum lýst efasemdum um að takist. En ég vil nú minnast á þær greinar þar sem ekki virðist gerð tilraun til að spara. Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið að kostnaður við ráðuneyti hefur aukist jafnt og þétt, einkum þó kostnaður við aðalskrifstofurnar, yfirstjórnina, sem yfirleitt hefur hækkað meira milli ára en aðrir liðir á fjárlögum. Á

næsta ári, ári aðhalds og sparnaðar í öllum greinum að sögn hæstv. fjmrh., hækkar kostnaður við æðstu stjórn ríkisins og yfirstjórn ráðuneyta um 19,5% eða 220,8 millj. kr. Launakostnaðurinn hækkar í flestum ráðuneytum umfram verðlagsforsendur frv. og upp úr stendur sjálft fjmrn. með 52,5% hækkun launa sem er vitanlega hrein og bein ósvífni og storkun. Þarna er á ferð launakostnaður langt umfram forsendur fjárlaga og útþensla á umfangi ráðuneyta á sama tíma og yfirmennirnir, ráðherrarnir, prédika allt hvað af tekur nauðsyn samdráttar og aðhalds í öllum greinum og fyrirskipa almenningi að herða sultarólina. Það stuðlar ekki að tiltrú fólks til ráðamanna þegar þeir standa eins og vegprestar, benda öðrum leiðina en fara hana ekki sjálfir. Almenningur í þessu landi hefur lengi mátt
horfa upp á ótrúlega ósvífni í opinberum fjárfestingum og margs konar bruðl og óhóf. Ýmsir athafnamenn hafa leikið lausum hala, offjárfest og bruðlað og síðan ber launafólk skaðann ýmist beint eða í gegnum ríkissjóð. Sífellt berast fréttir af alls konar misnotkun eða ofnotkun á almannafé og misferli í atvinnurekstri og því verða niðurskurðar- og sparnaðarleiðir hæstv. ríkisstjórnar að vera mjög trúverðugar og jafnafdráttarlausar og álagningartillögur hennar. Þá er hollt að minna á að tiltekt í eigin búi er þar líklegust til að vekja tiltrú.
    Ég vék að því í upphafi máls míns að forsendur frv. hefðu verið mjög á hverfanda hveli og nýjar tölur og nýjar forsendur birst dögum oftar. Þetta hefur vitanlega oft gert okkur í fjvn. erfitt um að fylgjast með og hafa yfirsýn um breytingar á frv. Við erum þó líklega ekki ein um að hafa orðið fyrir truflunum af þessum sökum. Hagfræðingar og ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa trúlega haft nokkurt angur af þessu líka við að hagræða fjárlagafrv. í samræmi við breyttar forsendur hverju sinni. Þetta lýsir sér glöggt í gagnmerku skjali sem mér barst í hendur rétt í þessu frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og ber yfirskriftina ,,Um breytingar á fjárlagafrumvarpi vegna gengisbreytingar í byrjun janúar 1989``. Að sjálfsögðu eru þar ýmsar upplýsingar um hvað Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur talið rétt að endurskoða og breyta, teygja og toga í sambandi við frv. Ég vil lesa niðurlagsorð þessa plaggs, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Rekstraráætlun B-hluta stofnana hefur verið breytt frá upphaflegu frv. Vegna gengisbreytingar og áætlaðra verðlagsáhrifa af henni voru rekstrargjöld önnur en laun hækkuð um 1,5%, fjármagnskostnaður og fjármagnstekjur og afborganir lána voru hækkaðar um 1,5% vegna innlendra lána og sem gengisbreytingunni nam vegna erlendra lána.`` --- Og taki menn nú eftir: ,,Auknum gjöldum B-hluta stofnana af framangreindum ástæðum var mætt með því að breyta áætluðum tekjum af sölu á vörum og þjónustu um allt að 1,5% eftir því sem þurfti. Þar sem slík tekjubreyting dugði ekki til var unnt að brúa bilið með því að gera ráð fyrir breyttri sjóðsstöðu.``
    Mér finnst þetta dæmi alveg lýsandi um verklagið við smíði og afgreiðslu þessa frv. Ef tölur passa ekki

er bilið brúað með því að gera ráð fyrir að eitthvað sé öðruvísi en það er. Ég gæti hugsað að fleira leyndist görótt í vinnubrögðum þessarar stofnunar sem er nokkurs konar bakhjarl ríkisstjórnarinnar.
    Þess má enn geta að í fjárlagafrv. er eins og endranær óútfylltur víxill, þ.e. 6. gr. Þar er ríkisstjórninni gefið sjálfdæmi um greiðslur og útgjöld sem enginn sér fyrir um hver kunni að verða og vandanum er vísað til framtíðarinnar. Þessi liður hefur að undanförnu kostað ríkissjóð árlega hundruð milljóna. Í frv. sem nú liggur frammi er þegar greiddur rúmur hálfur milljarður af 6. gr. og eru þá ekki öll kurl komin til grafar.
    Í fjárlagaumræðunni undanfarin ár hafa kvennalistakonur margsinnis bent á nauðsyn þess að endurskoða þessa grein og hlutverk hennar. Endurskoða hvernig hún hefur verið notuð því oftsinnis hafa ákvarðanir um kaup og sölu ríkisins sem heimilaðar eru á þessari grein orsakað deilur og jafnvel orkað tvímælis og þarf varla að nefna dæmi um slíkt. Ég vil enn ítreka að þörf er á að endurskoða hvort yfirleitt á að veita ríkisstjórninni svo rúmar yfirdráttarheimildir, ef svo má kalla þær, sem gert er með þessari grein og sem freista e.t.v. oft til ónauðsynlegra eða ótímabærra fjárfestinga. Væri ekki rétt að þrengja hana enn, hafa aðeins örfá atriði inni eða jafnvel afnema hana með öllu. Opin heimild af þessu tagi leiðir tæpast til aðhalds eða sparnaðar í ríkisfjármálum.
    Launakostnaður ríkisins er vissulega stór liður á útgjaldahlið fjárlaga og ekki að undra þótt menn líti til þess liðar þegar leitað er leiða til að hagræða og spara í ríkisrekstri. Við kvennalistakonur erum þeirrar skoðunar að víða sé pottur brotinn í þeim efnum. Launataxtar ríkisstarfsmanna eru að sönnu lágir og sumir til skammar og í mörgum tilvikum í engu samræmi við menntun fólksins eða mikilvægi starfanna, svo sem í uppeldis- og umönnunarstörfum. Láglaunastefnan sem fylgt hefur verið hefur leitt til margvíslegrar brenglunar og mismununar í launakerfinu. Það er opinbert leyndarmál hvernig reynt er að bæta upp lélega launataxta með fríðindum af ýmsu tagi, stöðuheitum sem hækka menn um launaflokka og gera menn jafnvel að deildarstjórum eða yfirmönnum með enga undirmenn til að stjórna, að ekki sé nú minnst á áfengiskaup á kostnaðarverði og ferðalög með dagpeningum sem oft eru langt umfram þörf. Stærsti liðurinn er þó væntanlega yfirvinna sem auðvitað er oft innt af hendi í raun og veru en þó er mjög algengt að opinberir starfsmenn hafi fastar yfirvinnustundir sem þeir fá greiddar án þess að skila vinnunni. Ég þarf varla að minna á að allar þessar aðferðir sem beitt er leynt og ljóst til að drýgja lágar launatekjur ríkisstarfsmanna eru að langmestu leyti nýttar í þágu karlmanna í þjónustu ríkisins. Þess hefði mátt vænta að ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti gerði meira en aðeins að tala um slíkt augljóst misrétti. Við kvennalistakonur íhuguðum alvarlega að leggja til lækkun launaliða þessa

fjárlagafrv. með það í huga að ráðist yrði að rótum þessarar meinsemdar en hurfum frá því ráði þar sem við höfum ekki tök á því að hafa hönd í bagga með framkvæmd slíkrar stefnu. Hún er hreint ekki vandalaus né einföld og við treystum því einfaldlega ekki að byrjað yrði á réttum enda.
    Ég hef áður nefnt áhyggjur okkar vegna fyrirætlana um niðurskurð á launalið skólanna í landinu. Slík fyrirætlun gefur ekki ástæðu til að ætla að þessari ríkisstjórn sé treystandi til að útfæra hugmyndir um lækkun launakostnaðar sem alls ekki mega leiða til lakari þjónustu á sviði uppeldis og umönnunar og ekki þrengja kost þeirra sem enga aðstoð þurfa að hafa til þess að sækja sér uppbætur á léleg laun í formi fríðinda, óunninnar yfirvinnu eða öðru af því tagi. Þá er vitaskuld engin leið að fallast á þær forsendur sem launaútgjöld ríkisins byggjast á. Þó að gert sé ráð fyrir launabótum á árinu þá er augljóst að þær bætur geta ekki orðið í neinu samræmi við verðbreytingar. Frv. gerir ekki ráð fyrir frekari gengisbreytingum en hins vegar er af flestum talið fullvíst að ríkisstjórnin áformi að fella gengi enn á næstunni. Gangi það fram eru flestar forsendur frv. brostnar enda að sögn t.d. formanns ASÍ tómt rugl.
    Hvernig horfir svo þetta fjárlagafrv. við almenningi í landinu? Hvernig kemur það við fjölskyldur og heimili? Jú, það færir þeim nýja skatta og álögur upp á 5,6 milljarða kr. að mati Ríkisendurskoðunar, 7,2 milljarða kr. segir hagdeild fjmrn., hverju sem maður á nú að trúa. Það sýnir þeim svimháar upphæðir í erlendum og innlendum skuldum og nýjum lántökum vegna gamallar og nýrrar óráðsíu. Það boðar samdrátt í launum og kaupmætti, niðurskurð á opinberum framkvæmdum og jafnvel atvinnubrest. Það segir okkur ófagra sögu af tilætlunarsemi ráðherra sem skera niður flest annað en eigin eyðslu og fremstur í flokki er hæstv. fjmrh. sem þenur út eigið ráðuneyti langt umfram allt annað í ríkisrekstrinum. Það segir almenningi að orð og athafnir hæstv. ríkisstjórnar eru sitt hvað og skýrustu dæmin um það eru einmitt stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar og svo fjárlögin þar sem jafnrétti milli kynja, milli byggðarlaga, milli ríkra og fátækra skipar hærri sess í stefnuyfirlýsingu en í framkvæmd.
    Virðulegi forseti. Við kvennalistakonur gerðum engar brtt. við 2. umr. fjárlagafrv. Ástæðan var ekki sú að við teldum ekki breytinga þörf heldur var umfjöllun og úrvinnsla alls ekki á því stigi að við teldum brtt. tímabærar. Eins og ég sagði áðan íhuguðum við vandlega að gera brtt. við tekjuhlið frv. en hurfum frá því ráði eins og ég gerði grein fyrir í máli mínu og sitthvað fleira kom til greina í því efni sem krafðist meiri athugunar en við höfðum tækifæri til. Brtt. okkar við gjaldahliðina eru ekki margar. Þar er aðeins um að ræða örfá atriði sem eru þó dæmigerð fyrir áherslur og forgangsröðun Kvennalistans. Þetta eru tillögur um hækkun framlaga til lista og menningarmála, til Lánasjóðs ísl. námsmanna, til Kvennaathvarfsins, til umhverfisfræðslu, til kvennarannsókna, til

kvennamiðstöðvar á Grænhöfðaeyjum, til forvarnarstarfa í heilbrigðismálum, til Heimilisiðnaðarskólans og tillögur um nýja liði um framlög til átaks í jafnréttismálum og til eflingar atvinnu kvenna í dreifbýli. Þessar tillögur liggja frammi á þskj. 404, 406, 409, 411 og 414 og munu aðrar þingkonur Kvennalistans skýra þær á eftir. Af þessum tillögum og skýringum við þær geta menn séð hverjar áherslur yrðu ráðandi í fjárlögum íslenska ríkisins ef Kvennalistinn réði meiru þar um.