Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Eggert Haukdal:
    Frú forseti. Það lá ósköp mikið á í haust að mynda núv. ríkisstjórn, svo mikið að útkoman varð sú að búin var til stjórn sem vissulega gat varist vantrausti ef allir skiluðu sér en hefði ekki styrk til þess að koma fram mikilvægum málum án þess að treysta á aðstoð stjórnarandstæðinga. Þannig ýtti stjórnin úr vör með rifin segl. Öllum var ljóst að aðgerða var þörf og bjuggust menn við að skjótlega yrði gripið til raunhæfra aðgerða til að rétta af taprekstur höfuðatvinnuveganna og litið yrði til erfiðleika fólksins í landinu. En lítt bólar á slíkum aðgerðum enn. Þótt ríkisstjórnina hafi fram að þessu ekki endanlega rekið í strand hefur hún steytt á skerjum, en dælur virðast enn þá hafa undan lekanum hvað sem síðar verður. Horfur eru þó á að fleiri mönnum verði senn á að skipa til að ausa eins og að nokkru hefur komið í ljós.
    Undanfarna mánuði hefur verið í gildi verðstöðvun og kaupstöðvun og samkvæmt þessum handaflsaðgerðum hafa vextir lækkað svo að um munar og opinber verðbólga er nú lítil. En sá aðili sem verst hefur gengið að halda verðstöðvunina er sjálf blessuð ríkisstjórnin. Endalausar hækkanir hafa dunið yfir frá henni að undanförnu, svo sem hækkun tekjuskatts og eignarskatts, vörugjalds, hækkun skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, hækkun bensíngjalds o.fl. eða samtals alls á áttunda milljarð kr. Nú síðast kom gengisfelling en af henni mun leiða hækkun vöruverðs, hækkun lánskjaravísitölu og verðbólgan mun fara á fulla ferð þótt kaupið sé fast. Ríkisstjórnina munar ekkert um það í miðri verðstöðvun að skella ríkissjóðshallanum á heimilin í landinu á einu ári. Er þetta í samræmi við jafnrétti og félagshygggju sem núverandi ríkisstjórn kennir sig við og kyrjar á hátíðlegum stundum? Nýjast er að til stendur að hækka áfengi í verðstöðvuninni. Hætt er við að hið nýja verð á ,,guðaveigunum`` verði ekkert nálægt handhafakjörum frekar en verið hefur.
    Það hefur verið mér sem öðrum þingmönnum og þjóðinni allri undrunarefni og það hefur sannarlega valdið erfiðleikum við að vinna að framfaramálum hversu laus tök ríkisstjórnin og sérfræðingalið fjmrn. hefur haft ekki aðeins á fjárlagaafgreiðslunni sjálfri heldur á stöðu ríkiskassans á hverjum tíma. Má nefna ágreining fyrrv. fjmrh. í sumar við ýmsar ríkisstofnanir um hve gatið væri stórt í ágúst. Þar var hin nýja og dýra hagdeild hans sjálfs með 693 millj. kr. meðan aðrar stofnanir eins og t.d. Ríkisendurskoðun voru með 2,5 milljarða kr. og Þjóðhagsstofnun með 1500--2000 millj. kr. Hverjum átti að trúa? Engum bar saman og auðvitað kom í ljós að allir höfðu á röngu að standa. Þegar núv. fjmrh. gekk til jólahalds hafði þessi halli í nokkrum áföngum vaxið upp í 6,5 milljarða kr.
    Við höfum nú undanfarið horft á hvernig þessi sami fjmrh. lætur greipar sópa um aflafé almennings til þess að stoppa í þetta gat en útflutningsatvinnuvegirnir í landinu halda áfram taprekstri sínum þótt viðurkenna beri tilraunir til að

veita fjármunum til útflutningsfyrirtækja til að halda þeim gangandi. Slíkt er þó aðeins gálgafrestur meðan grundvöllinn vantar. Fjármunir þeirra brenna upp í áframhaldandi taprekstri. Væri ekki ráð að ríkisstjórnin og þetta mikla sérfræðingalið færi að einbeita sér að ríkisrekstrinum sjálfum í stað þess að sækja alltaf sífellt meira með aukinni skattpíningu, að fara að leita leiða til að vinda ofan af eyðslunni, ekki síst í ráðuneytunum sjálfum. Stöðugt eru almenningi og þingi birtar upplýsingar um óráðsíu og sóun. Víða í ríkiskerfinu er ekki sjáanlegur neinn árangur til ráðdeildar og sparnaðar. Hinar gífurlegu kollsteypur í tekjuöflun ríkisins og misrétti í skattheimtu gera það að verkum að æ erfiðara er fyrir fólk að fóta sig í þessu þjóðfélagi hvort sem um er að ræða venjulegan heimilisrekstur eða fyrirtæki.
    Þessi fjárlög virðast þannig úr garði gerð að ríkisstjórnin virðist ætla í skjóli valds síns að fá hreint borð hjá sér á kostnað fólksins í landinu. Sjáanlegar tilraunir til þess að taka á sig hluta vandans, t.d. með skipulögðum sparnaði eða deila hallanum niður á fleiri ár, er ekki fyrir hendi. Þetta tel ég megingalla þessara fjárlaga og ekki stórmannlega að staðið hjá ríkisstjórninni. Það er eins og ríkisstjórnin og sérfræðingalið hennar geri sér ekki grein fyrir þeim gífurlegu erfiðleikum sem fólk um allt land hefur komist í. Þrátt fyrir yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar jafnréttis og félagshyggju að gera átak í að rétta við hinar dreifðu byggðir landsins, þá er staðreyndin sú að í þessu frv. er skorið á framkvæmdafé, skorið á framlög til atvinnuveganna og skorið á framlög til byggðamála. Sérstaklega er ömurlegt að horfa upp á það að framþróun í vegamálum undangenginna ára er rofin með því að leggja á nýja stórfellda skatta á umferðina sem renna beint í ríkissjóðshítina en ekki til framkvæmda í vegamálum. Er hér um að ræða á milli 800 og 900 millj. kr. Í mörgum landshlutum horfir svo að um mjög litlar vegaframkvæmdir verður að ræða í sumar. Var þó þegar nóg að gert hjá Alþingi og ríkisstjórnum á undanförnum árum að standa ekki við þau áform sem Alþingi setti sér með langtímaáætlun árið 1982. Nú sýnist endahnúturinn vera lagður að því að falla frá markmiðunum frá 1982 þannig að langtímaáætlunin hrynur endanlega ef menn
taka sig ekki verulega á við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og vegáætlunar síðar í vetur.
    Eitt þeirra mála sem ríkisstjórnin er í vandræðum með er lánskjaravísitalan en í því máli virðist skorta hugrekki. Hún var sett í endurskoðun á síðasta ári og út úr því starfi kom að engu þurfti að breyta, svo gott væri þetta fyrirkomulag. Þrátt fyrir það var við síðustu stjórnarskipti ákveðið að taka launavísitöluna til helminga inn í grundvöllinn á móti byggingarvísitölu og framfærsluvísitölu og skyldi það taka gildi um áramótin. Þau eru nú nýliðin. Flestum var og er þó ljóst að það gerir aðeins illt verra nema meiningin sé að halda kaupinu föstu, eins og verið hefur að undanförnu, en láta allt annað hækka. Eitthvað virðist standa á stuðningi Seðlabankans við þess aðgerð og

nú um áramótin var öllu slegið á frest í nokkra mánuði. Seðlabanki og hæstv. viðskrh. virðast enn eiga að ráða. Í áramótaboðskap sínum telur hæstv. fyrrv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson að nú verði að fara að breyta lögunum um Seðlabankann til þess að hægt sé að taka á þessum málum. Undarlegt er að menn geti setið í ráðherrastól ár eftir ár án þess að taka til hendinni í meginmálum, benda bara á vondan Seðlabanka sem þeir segja að allt sé að kenna. Það er vissulega gott að hafa blóraböggul til að koma flestu hinu illa á. Vafalaust má laga lögin um Seðlabanka en menn sem eru í ráðherrastólum eiga að vera menn til að stjórna og ef hindranir eru í vegi þarf að ryðja þeim snarlega í burt en ekki bara að tala, án þess að framkvæma.
    Frú forseti. Í upphafi þessara orða gat ég þess að mikið hefði legið á í haust að mynda núv. stjórn til að bjarga þjóðinni. Þrátt fyrir þriggja mánaða setu hafa bjargráðin enn ekki séð dagsins ljós því það getur varla talist bjargráð að seilast enn dýpra ofan í vasa almennings eða bæta enn á taprekstur fyrirtækjanna. En eitt ,,bjargráð`` er þó boðað og það er kannski ljós í myrkrinu. Það er ferðalag tvímenninganna, AA-mannanna, hæstv. ráðherra utanríkismála og fjármála, um landið. Það verður mikil ,,dýrð`` fyrir fólk að hitta þá. Kannski þeir geti sannfært fólkið í landinu um hversu skattpíningin er mikil blessun fyrir þjóðina.