Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. sem felur það í sér að þrátt fyrir ákvæði brbl. um efnahagsaðgerðir, bæði nr. 83 og nr. 14, verði fjmrh. heimilt að hækka útsöluverð á áfengi og tóbaki.
    Sjálfsagt er okkur tamast að hugsa um verð á áfengi og tóbaki á þann veg að það sé liður í tekjuöflun ríkissjóðs, en engu að síður er það þannig formsins vegna að hér þarf að koma til lagabreyting af þessu tagi vegna þess að verðákvarðanir áfengis og tóbaks eru gefnar út í formi verðskrár og flokkast þannig undir verðlagningu fyrirtækja, opinberra og annarra sem þannig starfa.
    Þetar rætt var um það að bráðabirgðalögin yrðu afgreidd fyrir jól eða á milli jóla og nýárs var lögð fram brtt. við brbl. til að skapa lagagrundvöll fyrir þessari ákvörðun. Nú hefur hins vegar orðið að samkomulagi milli flokkanna í þinginu að brbl. verði látin bíða og þess vegna var talið óhjákvæmilegt til að öruggur lagagrundvöllur væri fyrir ákvörðun sem tengd er tekjugrundvelli fjárlagafrv. að frv. af þessu tagi væri flutt sérstaklega.
    Ég vil síðan þakka fyrir þann skilning, sem kom fram í samkomulagi á milli forustumanna þingflokkanna á fundum með forsetum og forsrh. í gær, að greitt yrði fyrir því að þetta frv. fengi greiðan aðgang í gegnum þingið til þess að lagagrundvöllur slíkrar ákvörðunar væri ótvíræður. Það var að vísu aðeins kannað hvort hægt væri að láta það tengjast fjárlagafrv. sjálfu, en lögfræðingar töldu að slíkt væri ekki nægilega ákjósanleg lagaleg aðferð.
    Í fjárlagafrv. sjálfu og í umræðunni í gærkvöld og í nótt kom fram að þetta er, eins og ég hef vikið að, þáttur í tekjuöflun fjárlagafrv. og töluleg greining á því var þáttur í umræðunum hér í gær þannig að ég ætla ekki að fjalla nánar um það hér, en óska eftir því að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.