Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorð um þetta þingmál.
    Við kvennalistakonur tókum þá ákvörðun eftir nokkra umhugsun að styðja þessa hækkun á útsöluverði á áfengi og tóbaki. Ástæða þess er sú að þessi tekjuöflunarleið er okkur sannast sagna hugnanlegri en ýmsar aðrar fjáröflunarleiðir, ekki síst með tilliti til heilsufarssjónarmiða. Það er svo kannski ástæða til að óska eftir því við þá sem stjórna því hvernig þessi verðhækkun kemur niður að hún verði ekki endilega hlutfallslega jöfn á allar tegundir áfengis heldur séu sömuleiðis höfð ákveðin sjónarmið í huga, þ.e. að það verði þá fremur á hinum sterkari tegundum en hinum veikari.
    En það er ákveðinn galli á gjöf Njarðar þegar rætt er um þessa hækkun á útsöluverði áfengis og tóbaks að það verð vegur þungt í framfærsluvísitölunni. Þessi hækkun hefur því áhrif til hækkunar á vísitölu framfærslu og lánskjara sem er auðvitað afar óheppilegt og slæmt. Í því sambandi vil ég koma þeirri skoðun okkar kvennalistakvenna á framfæri að áfengi og tóbak á að okkar dómi ekki heima í grundvelli framfærsluvísitölunnar og væri óskandi að menn gætu haft jafnhraðar hendur við að kippa þeim liðum út úr framfærslugrunninum og menn hafa við afgreiðslu þessa þingmáls.