Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 426 fyrir hönd 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. Álitið hljóðar svo:
    ,,Meðan verðstöðvun er í gildi er óeðlilegt að ríkisvaldið geti í krafti valds síns ákveðið að undanskilja sjálft sig áhrifum verðstöðvunarinnar. Því leggur 2. minni hl. til að frv. verði fellt.``
    Undir þetta rita Matthías Bjarnason og Ingi Björn Albertsson.
    Nú má ekki misskilja það að við sem undirritum þetta álit höfum í raun ekki á móti hækkun á áfengi sem slíku heldur teljum við það siðlaust að á meðan í landinu ríkir launastöðvun og launafrysting og álögur allar eru stórhertar þannig að um er rætt að hér ríði yfir alda skattpíningar, fólki gert að herða sultarólina hvað mest það getur, gangi ríkið fram fyrir skjöldu og hækki alla mögulega hluti öllum almúga til mikilla óheilla vil ég segja.
    Mér finnst við vera að gefa ríkisstjórninni óútfylltan víxil. Það kemur ekkert fram hvað ríkisstjórnin hyggst hækka áfengi mikið og þar af leiðandi ekki hvað framfærsluvísitala eða lánskjaravísitala hækkar mikið þannig að það er nánast ógerlegt að sleppa svona víxli úr höndum sér. Ég tel að ríkið eigi að ganga fyrir með góðu fordæmi og herða sína sultaról jafnmikið og almúginn í landinu sem nú er hættur að geta hert hana og þarf að naga hana sér til lífsviðurværis.