Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 422 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 45 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með síðari breytingum, fyrir hönd landbn. Landbn. beggja deilda þingsins héldu sameiginlegan fund um þetta mál 22. des. sl. að lokinni 1. umr. þar sem strax var farið yfir frv. Á fundinn komu fulltrúar frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands sem gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Málið lá niðri meðan á jólafríi stóð en landbn. Nd. hafði málið síðan til meðferðar. Fyrir liggur samþykkt stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem leggur áherslu á samþykkt frv. með nokkrum breytingum. Landbn. beggja deilda þingsins héldu sameiginlegan fund um málið í gær. Á þann fund komi fulltrúi frá Búnaðarbanka Íslands, fulltrúar frá Landssamtökum fiskeldis- og hafbeitarstöðva, svo og fulltrúar frá landbrn.
    Það er alveg ljóst að frv. þetta, ef að lögum verður, er mikilvægt fyrir stöðu fiskeldis hér á landi, ekki síst nú vegna mjög alvarlegs rekstrarfjárskorts og takmarkaðra möguleika þeirrar atvinnugreinar á nægjanlegum afurða- og rekstrarlánum. Fram kom í gær að raunverulega er neyðarástand ríkjandi í þessari atvinnugrein og þess vegna er brýnt að hraða afgreiðslu frv. og leggur nefndin til að svo verði gert. Enn fremur er vonast til þess að breið samstaða sé um málið á hv. Alþingi.
    Nefndin leggur fram sérstakar breytingar á þskj. 423. Ég vil geta þess að allir nefndarmenn skrifuðu undir þetta nefndarálit, þ.e. þeir Alexander Stefánsson, Guðni Ágústsson, Pálmi Jónsson, Eggert Haukdal, Ragnar Arnalds, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Ingi Björn Albertsson, sem skrifar undir með fyrirvara.
    Ég vil, herra forseti, í örfáum orðum fara yfir breytingartillögurnar á þskj. 423 sem eru fyrst og fremst gerðar eftir samkomulagi við Stofnlánadeild landbúnaðarins og enn fremur til þess að skýra nokkur atriði nánar sem ekki var í upphafi algert samkomulag um.
    Fyrsta brtt. er um það að tekinn er af allur vafi um að sjóðurinn skuli hafa sjálfstæðan fjárhag en vera í vörslu og umsjón Stofnlánadeild landbúnaðarins sem jafnframt sér um rekstur hans samkvæmt nánari reglum sem landbrh. setur.
    Önnur brtt. er um nefndarskipan. Í frv. var gert ráð fyrir að í þessari nefnd sætu fjórir fulltrúar sem yrðu skipaðir þannig: einn eftir tilnefningu Stofnlánadeildar, annar eftir tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva og sá þriðji samkvæmt tilnefningu fjmrh. og fjórði nefndarmaður yrði skipaður af landbrh. án tilnefningar. Sú breyting sem hér er lögð til er að 3. og 4. málsl. orðist svo: ,,Í nefndinni eiga sæti fimm fulltrúar og skal einn þeirra skipaður eftir tilnefningu stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins, tveir eftir tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva og sá fjórði samkvæmt tilnefningu fjmrh. Fimmta nefndarmanninn skipar landbrh. án tilnefningar og er hann jafnframt formaður

nefndarinnar.`` Breytingin er sem sagt sú að bætt er við fimmta nefndarmanninum og skal hann vera frá fulltrúum Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva.
    Þriðja brtt. er við 1. gr., d-lið, að 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: ,,Landbrh. ákveður árlega í samráði við fjmrh. iðgjald sem tekið er fyrir greiðslutryggingu sjóðsins.`` Þarna er bætt við: í samráði við fjmrh.
    Fjórða brtt. er við 1. gr., d-lið (22. gr.). Þar sem áður stóð: ,,Reynist nauðsynlegt vegna stöðu sjóðsins skal veita sérstaka ríkisábyrgð fyrir slíkum lánum þrátt fyrir ákvæði 11. gr.`` falli niður orðin ,,þrátt fyrir ákvæði 11. gr.``.
    Fimmta brtt. er svo við 1. gr., d-lið (22. gr.) og þetta var aðalágreiningsefnið í sambandi við þetta frv. Ákvæðið í frv. var þannig:
    ,,Verði höfuðstóll tryggingasjóðs neikvæður í árslok 1993 er landbrh. heimilt að ákveða tímabundna gjaldtöku á söluverðmæti fiskeldisfyrirtækja í allt að fimm ár og miðist heildarfjárhæð gjaldsins við að jafna fjárhæð sjóðsins. Gjald þetta má taka lögtaki.``
    Samkvæmt brtt. er þessi grein þannig:
    ,,Auk hins árlega iðgjalds skv. 1. málsgr. skal landbrh. í samráði við fjmrh. og að fengnum tillögum tryggingaeftirlitsins ákveða sérstakt áhættugjald þeirra fyrirtækja, sem við sjóðinn skipta, sem hlutfall af söluverðmæti þeirra. Iðgjaldið skal ákveðið út frá eðlilegu áhættumati og með tilliti til þess að ná jöfnuði í fjárhag sjóðsins. Iðgjöld þessi skulu verðtryggð með byggingarvísitölu og falla í gjalddaga að fjórum árum liðnum og er þá heimilt að taka þau lögtaki. Telji ráðherra að fjárhag sjóðsins sé borgið án iðgjaldsins í heild eða að hluta, þegar að innheimtu kemur, skal ráðherra heimilt að lækka gjaldið eða fella það niður.``
    Þetta var samkomulagsatriði og felur jafnframt í sér að ákvörðunin miðast við að sjóðurinn verði gerður upp án halla ef til lengri tíma er litið.
    Sjötta brtt. er við 1. gr., e-lið (23. gr.). Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    ,,Um endurskoðun og bókhald Tryggingasjóðs fiskeldislána fer eftir lögum nr.
86 4. júlí 1985, um viðskiptabanka. Ársreikningar sjóðsins skulu að lokinni endurskoðun lagðir fyrir landbrh. til staðfestingar. Reikningar Tryggingasjóðs fiskeldislána skulu birtir árlega í Stjórnartíðindum með reikningum Stofnlánadeildar.``
    Þetta þarfnast ekki skýringar en hefði þurfti að vera í frv.
    Sjöunda brtt. er við 2. gr. sem fjallar um gildistökuna. Í frv. var gert ráð fyrir að lögin skuli endurskoðuð fyrir árslok 1993 en brtt. leggur til að í stað ,,1993`` komi: 1992.
    Herra forseti, ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það er von nefndarinnar að samkomulag náist í báðum deildum Alþingis um að hraða þessu máli, því eins og ég sagði í upphafi þá ríkir raunverulega neyðarástand í þessum málum. Þeir sem eru í þessari atvinnugrein hafa beðið eftir ráðstöfunum sem dregist hefur í allt of langan tíma að koma í lag. Þeir tóku þá ákvörðun að ala upp þau

seiði sem ekki seldust eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma og hafa þess vegna orðið fyrir miklum fjárútlátum og standa alls ekki undir þessum rekstri nema Alþingi grípi þarna inn í á þennan hátt. Ég vænti þess að Alþingi bregðist vel við þessu og samþykki þetta frv. með hraði í dag.