Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Það kemur fram í greinargerð með þessu frv. sem hér er til umræðu að aðgangur fiskeldisfyrirtækja að fjármagni þegar að rekstri kemur hefur verið mjög ófullnægjandi hérlendis hvort sem litið er til möguleika samkeppnisaðila erlendis eða til annarra útflutningsatvinnugreina hér á landi. Menn eru sammála um þetta og það hefur verið unnið að því á undanförnum mánuðum að reyna að ná fram breytingu hér á bæði af fyrrv. og núv. ríkisstjórn.
    Starfshópur skilaði núv. ríkisstjórn niðurstöðum sínum 25. okt. og á bls. 3 í greinargerðinni á þskj. 305 er getið um hverjar eru tillögur þessa starfshóps, þar á meðal um að við Ríkisábyrgðasjóð verði komið á sérstakri tryggingadeild fiskeldislána. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki talið rétt að flytja málið í því formi heldur því sem er á þskj. 305, þar sem gert er ráð fyrir að stofna tryggingasjóð fiskeldislána við Stofnlánadeild landbúnaðarins. Nú hafa menn verið að vinna að framgangi þessa máls, skoða það og reynt að lagfæra þá hnökra sem á frv. voru og tekist hefur um það breið samstaða, eins og kom fram hjá frsm. landbn. þessarar hv. deildar og síðan í tillögum á þskj. 423.
    Mér finnst hins vegar rétt að fá fram við þessa umræðu mat þeirra tveggja ráðherra sem þetta mál skiptir, þ.e. hæstv. landbrh. og hæstv. viðskrh., og vildi þess vegna beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. landbrh. og einni til hæstv. viðskrh. Ég vonast samt sem áður til að það verði ekkert verið að tefja málið því eins og komið hefur fram er áhugi manna að ná því fram nú.
    Ég vildi mega spyrja hæstv. landbrh. hvort hann telji að stofnun þessa tryggingasjóðs fiskeldis, sem hér er gert ráð fyrir, og það hlutverk sem honum er ætlað að gegna tryggi fullnægjandi aðgang fiskeldisfyrirtækja að afurða- og rekstrarlánum. Í öðru lagi hvort það er skoðun hæstv. landbrh. að lánastofnanir telji að með þessu fyrirkomulagi geti þær veitt þá auknu fyrirgreiðslu sem óskað hefur verið eftir en sem þær hafa ekki enn treyst sér til að veita.
    Til hæstv. viðskrh. vildi ég mega beina þeirri fyrirspurn hvort ekki muni gilda það sama fyrir lánastofnanir og aðrar útflutningsatvinnugreinar um erlendar lántökur til fjármögnunar á afurða- og rekstrarlánum fiskeldis. Ég tel rétt að þetta komi fram og vænti þess að hæstv. ráðherrar, sem ég hef aðeins gert aðvart um þessa fyrirspurnir, geti veitt við þeim svör svo málið geti haldið áfram og fengið fullnaðarafgreiðslu á þessum degi.