Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. sem mælt var fyrir á síðasta degi þings fyrir jólahlé ef ég man rétt. Ekki var þá að heyra á hæstv. landbrh. að svo mikið lægi við að við þyrftum að afgreiða þetta frv. með þeim flýti sem raun ber vitni. Ég geri mér fulla grein fyrir að fiskeldisfyrirtækin eiga við mikinn vanda að stríða og að bregðast þarf við til að aðstoða þessa grein á svipaðan hátt og aðrar atvinnugreinar. Erfitt er þó að skilja þörfina á að hafa slíkan hraða á með þetta mál og alls ekki víst að þetta frv. muni einungis leiða til góðs eins og það liggur hér fyrir.
    Kvennalistinn á ekki fulltrúa í landbn. þessarar deildar og hefur okkur því ekki gefist kostur á að fylgjast nægilega vel með málinu. Guðrún Agnarsdóttir, fulltrúi okkar í landbn. efri deildar, fylgdist þó með því þegar landbn. beggja deilda funduðu í sameiningu. Það er því óhjákvæmilegt að margar spurningar vakni við lestur frv. Í 1. gr. frv., staflið a, er gert ráð fyrir að afurðalán til fiskeldisfyrirtækja geti numið allt að 75% af verðmæti birgða, eins og fram hefur komið. Spurningin er hvers eðlis þessar birgðir eru. Er þarna um að ræða seiði sem vonast er til að hægt verði að selja einhvern tímann í framtíðinni? Heyrðist mér raunar á máli frsm. að það væri raunin. Eða er um að ræða afurðir sem bíða tilbúnar til sölu? Í því sambandi má benda á að fiskvinnslan fær afurðalán út á unnar afurðir og einungis eru unnar afurðir veðhæfar að því er ég best veit. Bændur geta fengið afurðalán út á búfé á fæti og að því er ég best veit eru þau afgreidd í gegnum afurðastöðvarnar gegn því loforði að þeir leggi þar inn. Iðnaðurinn fær líka afurðalán út á birgðir, en þó aðeins vegna auðseljanlegrar vöru. Ullariðnaðurinn fær ekki lán nema út á mjög takmarkaðar vörutegundir. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh.: Hvernig fyrirkomulag er ætlast til að verði varðandi þessa grein?
    Í sama staflið segir í lok málsgreinarinnar: ,,Ekki verður gripið til greiðslutryggingar nema tjónabætur dugi ekki til greiðslu á afurðaláni og fyrirtækið geti ekki greitt það með öðrum hætti.`` Ég hef velt því fyrir mér hvað nákvæmlega sé átt við með þessari setningu. Er gert ráð fyrir að fyrirtækið verði gert upp ef það getur ekki greitt afurðalánið eða hvað er átt við með þessu orðalagi ,,fyrirtækið getur ekki greitt það með öðrum hætti"? Ég átta mig ekki alveg á þessu.
    Í staflið d er talað um að sjóðurinn verði rekinn hallalaus. Mjög erfitt er að sjá hvernig þetta á að vera hægt, a.m.k. ekki í upphafi, því að ekki er mér kunnugt um að til sé neinn undanfari þessa sjóðs. Því er alveg ljóst að í upphafi er einungis um að ræða að veita ríkisábyrgð á lán á meðan sjóðurinn er að myndast, ef hann myndast þá nokkurn tíma. Í brtt. við þennan staflið er gert ráð fyrir sérstöku áhættuiðgjaldi. Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig á að framkvæma þetta. Er miðað við að þarna sé um jafnt gjald á alla að ræða og hvernig á að meta áhættuna?
    Í máli frsm., og reyndar einnig hjá hv. 1. þm.

Reykv., kom fram að þarna sé um samkomulagsatriði að ræða en ég vil benda á að aldrei var haft samband við kvennalistakonur varðandi þetta. Við fengum að sjá þessar brtt. mjög seint og því var ekki gert samkomulag við okkur, þó að við gætum hugsanlega hafa fallist á það ef við hefðum fengið að kynna okkur málið og fylgjast með. Þessi grein er t.d. mjög óljós fyrir mér og ég á mjög erfitt með að átta mig á henni og þar af leiðandi þykir mér ekki auðvelt að gera mér grein fyrir hvort ég geti stutt þetta. Aðallega finnst mér því útfærslan vera óljós. Ég vildi taka þetta fram því það er ekki alveg rétt að víðtæk samstaða hafi verið um þetta. Hún gilti alla vega ekki fyrir okkur sex sem hér erum fyrir hönd Kvennalistans.
    Í frv. kemur ekkert fram hvaða skilyrða er gert ráð fyrir að krefjast til að fyrirtækin fái þessa ríkisábyrgð. Væntanlega verða slík skilyrði sett í reglugerð. Ég tel rétt að setja ákveðin skilyrði varðandi staðsetningu, aðbúnað, mengunarvarnir og hollustuhætti ásamt því að krafa sé gerð um viðhlítandi þekkingu þeirra sem við greinina starfa og fleira sem eðlilegt verður að teljast að gerðar séu kröfur um þegar um slíkan áhætturekstur er að ræða.
    Eitt atriði sem kemur upp í hugann er vert að minnast á en það er þáttur erlendra aðila í þessari grein íslensks atvinnulífs. Mér er kunnugt um að íslensk fyrirtæki verði að vera að meiri hluta í eigu íslenskra aðila. Ég hef heyrt að erlendir aðilar eigi verulegan hluta fyrirtækja í þessari grein, jafnvel meiri hluta og því meira en það sem lög segja til um. Ekki er mér kunnugt um hvernig þetta er hægt eða hvort þessu er raunverulega svo farið. Ég hef ekki getað kynnt mér þetta nánar, en þetta er a.m.k. það sem maður hefur heyrt mjög lengi. Ég get ómögulega áttað mig á því í fyrsta lagi hvernig þetta er mögulegt og hvort þessu er raunverulega svo farið. Mér finnst í fyllsta máta óeðlilegt að veita ríkisábyrgð á lán sem erlendir aðilar eru að taka að stórum hluta, ef það er raunin. Þetta hefur mér ekki gefist tími til að athuga frekar en e.t.v. hefur hæstv. landbrh. upplýsingar um þetta efni.
    Mér sýnist málið allt mjög opið og ekki nægilega undirbúið. Af hverju má
ekki bíða í einn mánuð og gefa meira svigrúm til undirbúnings, semja reglugerð og gera þingmönnum þar með betur grein fyrir hvað hér er nákvæmlega á ferðinni? Ég hef fulla samúð með þessari atvinnugrein og fólkinu sem nú er í vanda. Ríkisvaldið hefur um langa hríð hvatt menn til að taka upp nýja atvinnuhætti og þar á meðal þessa, þar sem ýmist hefur verið talað um búgrein eða eitthvað annað. Margir hafa hlaupið af stað af meira kappi en forsjá en aðrir hafa vandað vel til undirbúnings. Það er því fyllilega eðlilegt, og ég er því fylgjandi, að stjórnvöld komi til móts við þá sem hafa farið út í þennan atvinnuveg. Ég tel eðlilegt að styðja við bakið á útflutningsgreinum, efla fjölbreytni og hvetja til nýrra atvinnugreina en það á ekki að styðja þessa grein umfram aðrar og síst af öllu er það greininni til framdráttar að kasta til hendi við undirbúning málsins.

    Ég ítreka og vil að það sé öllum ljóst að við kvennalistakonur styðjum það heils hugar að hér sé sem mest fjölbreytni í atvinnugreinum. Það er enda skoðun okkar að slíkt sé æskilegt og nauðsynlegt. Ég tel mér ekki fært að styðja frv. fáist ekki greið svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram. Þetta mál er stórmál og mikilvægara en svo að þar megi vera einhverjir lausir endar og einhver vafaatriði. Þetta þýðir þó ekki að við séum málinu mótfallnar eða við viljum tefja á nokkurn hátt framgang þess.