Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja fáein orð við þessa 2. umr. málsins en vil hafa ræðu mína í styttra lagi vegna þess að tími er mjög naumur þó að hér sé stórt mál á dagskrá sem þörf væri að ræða og hafa tíma til að ræða á Alþingi. Ég vil taka það strax fram að ég tek áhættuna af því að styðja þetta frv. Ég segi: ég tek áhættuna af því --- vegna þess að hér er um áhættusamt mál að ræða fyrir opinbera aðila í landinu, en hitt er líka áhætta að láta reka á reiðanum í sambandi við þessi mál eins og gert hefur verið um margra ára skeið. Ábyrgð þeirra aðila í stjórnkerfi landsins, sem hafa staðið það illa að þessum málum, er mikil hvað snertir uppbyggingu fiskeldis í landinu, þessa mikilvæga vaxtarsprota, og það er í rauninni hörmulegt ef það er rifjað upp.
    Ég tek undir þær áhyggjur og ábendingar sem fram komu hjá hv. 12. þm. Reykv. Mér finnst þær eðlilegar og það er æskilegt að Alþingi hefði tíma til þess að fara ofan í saumana á ákveðnum þáttum sem þar var að vikið, m.a. þætti erlendra aðila og erlends fjármagns í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi sem kominn er út fyrir öll eðlileg mörk að mínu mati og í rauninni út yfir lögleg mörk eins og stefnan hefur verið mörkuð hér í landinu, a.m.k. þannig að tvísýnt er, því það var fyrsta verk svonefnds Þróunarfélags að bakka upp erlend fyrirtæki að meiri hluta í eigu sænskra auðfélaga.
    Ég tel að veikasti þátturinn í þessu máli snúi að sjálfsögðu að áhættunni varðandi það að þessi lán og sú fyrirgreiðsla sem fara á út í skili sér til baka þegar væntanleg vara verður seld eða markaðsfærð. Ég vil bæta við spurningu til hæstv. landbrh. og hún mætti einnig vera til hæstv. viðskrh. Hvaða vinna hefur verið lögð í og hvað liggur fyrir um áhættumatið? Hvaða mat liggur fyrir hjá stjórnvöldum varðandi líklega markaðsfærslu? Hversu mikil er áhættan metin í dag þegar þessi vara verður væntanlega markaðsfærð að einu eða tveimur árum liðnum?
    Ég vísa svo, virðulegur forseti, til þess að á 106. löggjafarþingi 1983 flutti ég tillögu til þingsályktunar um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra ásamt þremur öðrum hv. þm. Alþb. Þar var lagt til að mörkuð yrði grundvallarstefna í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi líffræðilega og staðfræðilega þætti, varðandi fjármögnunarþætti og hvar þessum málum yrði fyrir komið í íslenska stjórnkerfinu. Því miður bar Alþingi ekki gæfu til þess að afgreiða þá tillögu með þeim hætti sem verðugt hefði verið. Ef það hefði verið gert hefði ýmislegt öðruvísi farið í þessum málum. Tillögunni var að vísu vísað til ríkisstjórnar en það var afskaplega lítið með hana gert. Síðan hafa ýmsir þm. flutt tillögur sem tengjast fiskeldi en þær hafa í rauninni fallið í svipaða jörð. Það hefur verið lítið hlustað á tillögur þingmanna á Alþingi um það að reynt verði að koma skynsamlegri fótum undir þessa mikilvægu búgrein í landinu, líffræðilega, rannsóknarlega og fjárhagslega. Þess vegna stöndum við í þeim sporum sem við stöndum

nú og það væri gagnlegt fyrir hv. þingmenn, og þar á meðal fyrrv. ráðherra og núv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem eru að reyna að krafsa sig fram úr vandanum í þessum málum að hugleiða þessa fimm ára sögu sem liðin er.