Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það hafa komið hér fram nokkrar spurningar sem eðlilegar má telja. Vil ég fyrst víkja að því sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson, 5. þm. Vesturl., spurði hér um, þ.e. hvort samkomulag hefði tekist um að greiða götu þessa máls í Ed. Svar mitt er já. Ég vona að um það sé komið samkomulag að greiða götu þess. Eftir því sem ég hef haft tök á hef ég reynt að kanna hvernig hugur manna stæði til málsins þar og ég bind vonir við að það takist og í því trausti er reynt að ljúka afgreiðslu málsins hér í þessari deild.
    Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., spurði tveggja spurninga. Í fyrsta lagi hvort ég teldi að takast mundi að sjá fiskeldisfyrirtækjunum fyrir fullnægjandi afurða- og rekstrarlánafyrirgreiðslu að frv. fluttu. Svar mitt er að ég tel að flest þau fyrirtæki sem eru með sæmilega heilbrigðan rekstur í þessari atvinnugrein og fullnægja settum skilyrðum banka og tryggingarfélaga eigi með tilkomu frv. að geta fengið þá fyrirgreiðslu á þessu sviði sem í raun og veru er skynsamlegt að þau fái, þ.e. upp að þeim mörkum sem eðlilegt getur talist við þær aðstæður sem þau búa við. Hitt er svo alveg ljóst að einhver fyrirtæki í þessari grein eins og öðrum muni ekki ná að uppfylla þau skilyrði sem þessir aðilar, annaðhvort einhver þeirra eða allir, setja fyrirtækjunum til þess að þau fái þessa fyrirgreiðslu. Um það hvort bankar eða lánastofnanir telji sig geta veitt fyrirtækjunum þessa fyrirgreiðslu þá er alveg ljóst að koma þarf til samstarf þessara aðila, þ.e. skilyrði þess að þessi ábyrgð sé veitt, eins og kemur fram í frv., er sú að tryggingarfélag hafi tekið fyrirtækið í viðskipti og veitt því tryggingu. Enn fremur að viðskiptabanki hafi tekið það í viðskipti. Þannig fer fram mat þessara aðila á fyrirtækinu og það þarf að liggja fyrir að það uppfylli þau skilyrði sem þessir aðilar setja. Til viðbótar hefur svo sú nefnd sem fer með málefni tryggingasjóðsins enn fremur möguleika á að setja sín viðbótarskilyrði til að veita trygginguna þannig að í raun á þarna að fara fram þrefalt mat á því að þessir aðilar uppfylli sett skilyrði. Að því tilskildu tel ég, eins og ég sagði og svaraði fyrri spurningunni, að öll þau fyrirtæki sem eðlilegt má teljast fái þá fyrirgreiðslu sem ætti að nægja til þess að rekstur þeirra gæti gengið eðlilega og að þau næðu að koma sinni framleiðslu á markað.
    Það er þó alveg ljóst að einn höfuðvandi sem við er að glíma í uppbyggingu fiskeldisins er sá að í raun hafa ekki komið til stofnlán vegna bústofnsins sem verið er að ala upp í stöðvunum. Þeir menn sem þekkja til landbúnaðar vita hvað þetta heitir á þeim fræðum, það heitir bústofnskaupalán. Vandi fiskeldisins sem er að vaxa upp sem atvinnugrein er fyrst og fremst sá að ekki hafa komið til þau löngu lán sem eðlileg mega teljast þegar verið er að byggja upp bústofninn í atvinnugreininni. Að því uppfylltu ætti að vera auðveldara að veita afurðalánafyrirgreiðsluna eins og hún þarf að vera á

hverjum tíma. En hér er að hluta til verið að byggja upp bústofninn í atvinnurekstrinum sem síðan er reiknað með að haldist í gegnum líftíma stöðvanna með afurðalánum. Það er alveg ljóst.
    Þá spurði hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi vék hún að því hvort í raun lægi eins mikið á að afgreiða þetta mál og látið er í veðri vaka af þeim sem mælt hafa fyrir því. Svar mitt hlýtur að vera já. Ég tel það mjög brýnt að frv. komist í gegn og verði að lögum þannig að unnt verði að fara að vinna að því að setja reglugerð og koma starfsemi sjóðsins á fót því það er ljóst að vandi mjög margra fyrirtækja í greininni er þegar ærinn og sá tími sem tapast ef málið yrði ekki að lögum nú gæti orðið mörgum mjög dýr.
    Hvað er átt við með ákvæði 1. gr. um að afurða- og rekstrarlán gætu numið allt að 75% af verðmæti birgða og hvernig eru birgðir metnar, spurði hv. 12. þm. Reykv. Því er til að svara að gert er ráð fyrir að metið verði verðmæti fiskjar í stöðvunum eins og það er á hverjum tíma og lánað er út á það. Það mat yrði með sama hætti og til að mynda tryggingafélögin framkvæma þegar þau meta verðmæti framleiðslunnar í stöðvunum og veita síðan út á sína tryggingu, svonefnda umframskaðatryggingu. Áhættan er að sjálfsögðu mismunandi eftir rekstrarformum. Þannig er ljóst til að mynda að hún er minni í landstöðvum heldur en í sjókvíaeldi. Slíkt kæmi að sjálfsögðu inn í mat á því hversu mikil afföll á að meta á birgðirnar áður en lánin eru veitt sem og hitt að meta verður líklegar markaðsaðstæður á hverjum tíma þegar þetta hvort tveggja er ákveðið.
    Varðandi eðli ábyrgðarinnar eða tryggingarinnar og hvað gerist ef fyrirtæki geta ekki greitt afurðalán til baka er í raun um það að ræða að dugi framleiðslan eða tjónabætur ekki eða ef stöðvarnar geta ekki af rekstri sínum greitt lánin með öðrum hætti, þá kemur ábyrgðin til. Hér er ekki um einfalda ábyrgð að ræða með þeim hætti að skilyrði sé að ganga að hverju og einu fyrirtæki og gera það gjaldþrota til þess að reyna að ná tryggingunni til baka. Þetta miðast við að sé fyrirtækjunum ekki mögulegt að greiða afurðalánin til baka miðað við áframhaldandi rekstur þá komi ábyrgð sjóðsins til.
    Varðandi áhættuiðgjöldin sem vikið er að í d-lið (22. gr.) og breytt með
brtt. landbn., 4. lið, er því til að svara að þau miðast við að sjóðurinn geti til lengri tíma litið og, ef hann yrði gerður upp innan gildistíma laganna eða eftir einhverja tiltekna starfrækslu, að endingu verið gerður upp án halla. Þessi áhættuiðgjöld eru við það miðuð að þau dugi til að jafna fjárhag sjóðsins, ekki endilega innan stutts tíma, eins árs eða svo, heldur þegar til lengri tíma er litið.
    Hvað varðar skilyrðin þá hef ég þegar vikið að því hvaða skilyrði er fyrst og fremst reiknað með að yrðu lögð til grundvallar, þ.e. sambærileg skilyrði og tryggingafélög og bankar setja til þess að taka fyrirtæki í viðskipti sem og auðvitað þau skilyrði önnur sem eiga að gilda um starfrækslu

fiskeldisfyrirtækja, starfsleyfi og öll þau vottorð og leyfi sem slíkum fyrirtækjum ber að hafa til að mega stunda sína starfsemi. Þó að ég geti tekið undir margt af því sem rætt var um að taka þyrfti til endurskoðunar þá tel ég frekar að rétt sé að leysa þau mál þar sem þau eiga heima, þ.e. á þeim vettvangi þar sem fjallað er um almenn starfræksluskilyrði, starfsleyfi o.s.frv.
    Varðandi eign erlendra aðila í fyrirtækjunum þá er mér ekki kunnugt um að lög hafi verið brotin í því efni og hvað sem um það má segja fer reksturinn fram hér á landi, þetta er útflutningsstarfsemi á Íslandi, þannig að við hljótum auðvitað að miða fyrirgreiðsluna við það. Og það hvort eignarhaldið er eins og best yrði á kosið kýs ég að ræða við betra tækifæri.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði um áhættumatið. Því hef ég þegar vikið að í svari mínu við fyrri spurningum. Það þarf að fara rækilega ofan í saumana á því máli og er eitt af því sem verður að ræða vandlega, m.a. í samráði við tryggingafélög og viðskiptabanka, þegar reglugerð verður sett. Ég hef hugsað mér að fá þá aðila til samstarfs um setningu þeirra ákvæða þegar eftir setningu laganna.
    Ég vil að endingu segja að mér þykir auðvitað miður hversu mjög hefur þurft að hraða þessu máli í gegnum þingið. Ég vil þó ekki taka undir að það sé að öllu leyti og algerlega óunnið. Það hefur vissulega verið reynt eftir því sem tíminn hefur leyft að vinna málið og var það þó lagt fram fyrir jól. En ég tek undir það að vissulega hefur þurft að hraða þessu meira en æskilegt má teljast í gegnum þingið og er ekki annað að gera en biðja velvirðingar á því. Vegna þess m.a. vil ég lýsa því yfir að ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því að haft verði samráð við alla aðila á Alþingi um setningu reglugerðarákvæðanna og þeir hlutir kynntir bæði stjórn og stjórnarandstöðu áður en af setningu reglugerðarinnar verður því að alveg ljóst er að þar verður að útkljá ýmis atriði sem ekki hefur gefist mikill tími til að ræða hér.
    Herra forseti. Ég hef þetta þá ekki lengra en legg áherslu á, eins og frsm. og fleiri hafa gert, að það ber brýna nauðsyn til að hraða þessu máli.