Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu tillaga sem felur í sér hækkun á eignarsköttum og erfðafjárskatti. Þetta er afleiðing af þeim miklu skattahækkunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið og fengið samþykktar með lagabreytingum á hinu háa Alþingi. Þetta er skattahækkun sem ekki einungis leggst á þá sem miklar eignir eiga og góðar tekjur hafa. Þetta er skattahækkun sem kannski að stærstum hluta til leggst á þá sem eru einstæðingar, ekkjur, ekklar og einstæðir foreldrar og hafa lítil efni. Þetta er sú skattahækkun sem hvað óréttlátust er af öllum þeim óréttlátu skattahækkunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur knúið fram, af þeim skattahækkunum sem nú valda verðlagshækkunum og gera það að verkum að ríkisstjórnin ein allra aðila í þjóðfélaginu virðir ekki þá verðstöðvun sem hún sjálf hefur sett. Að öllu þessu athuguðu er það niðurstaða sjálfstæðismanna að greiða atkvæði gegn þessum lið og því segi ég nei.