Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Um leið og ég lýsi atkvæði mínu vil ég nota þetta tækifæri til að óska þeim til hamingju sem nú fá heiðurslaun listamanna og sérstaklega beinast heillaóskir okkar til þeirra sem nú fá heiðurslaun listamanna í fyrsta sinn. Jafnframt vil ég láta þá skoðun mína í ljós að ég tel það fyrirkomulag á heiðurslaunum listamanna sem hér er um að ræða hafa fyrir löngu gengið sér til húðar. Það er með öllu óeðlilegt að mínu mati að Alþingi ákveði í lokaðri atkvæðagreiðslu heiðurslaun listamanna með þeim hætti sem gerst hefur á undanförnum árum.
    Þá hlýtur það að vera sérstakt undrunarefni við fyrirliggjandi niðurstöðu að þeir menn sem hafa fengið Norðurlandaráðsverðlaun í bókmenntum og tónlist, þeir Atli Heimir Sveinsson og Thor Vilhjálmsson, skuli ekki vera á skrá yfir heiðurslaunahafa. ( FrS: Hvar var ráðherrann í umræðunum?) Þetta er ekki síst undrunarefni þegar þess er gætt að Alþingi er beinn aðili að bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlanda. Til þeirra var stofnað með aðild allra þjóðþinga á Norðurlöndum og þau eru veitt á miklum hátíðum sem þjóðþingin beita sér fyrir. Það er þess vegna sérkennilegt og Alþingi að mínu mati beinlínis til vansa að virða með þessum hætti sín eigin verk. Að fenginni reynslu tel ég því óhjákvæmilegt að heiðurslaun listamanna, svo og önnur launamál listamanna í landinu verði endurskoðuð í heild og mun ég beita mér fyrir því að sú endurskoðun fari fram. Ég segi já.