Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Í ræðustól hefur komið upp hver fjárveitinganefndarmaðurinn á fætur öðrum við afgreiðslu þessa máls og hælt sér af því að frv. til fjárlaga hafi ekki breyst í meðförum fjvn., talið það þrekvirki að fjvn. hefur aðeins hækkað fjárlögin frá því að þau voru lögð fram í frumvarpsformi um 0,43%. Nú er það staðreynd að frá fjárlögum síðasta árs til niðurstöðutalna þeirra fjárlaga sem við erum að afgreiða núna hafa fjárlögin hækkað um meira en 12 milljarða --- um 12 milljarða á tólf mánuðum --- og segir þetta sína sögu, þar sem fjvn. hefur ekki getað breytt til né frá, hvorki lækkað þá hækkun sem kemur frá ríkisstjórninni né hækkað samkvæmt óskum og vilja alþingismanna, og staðfesti betur að fjvn. hefur unnið í algerri spennutreyju þannig að þetta frv. er ekki að einu né neinu leyti frv. til fjárlaga sem Alþingi býr til. Þetta er frv. ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarinnar einnar og þar af leiðandi segi ég sem alþingismaður: Ég sit hjá.