Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 45 frá 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með síðari breytingum.
    Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd. og hefur þar fengið allnokkra umfjöllun. Það var lagt fram þar fyrir jólahlé og fór til hv. landbn. sem hafði það til umfjöllunar nú fram yfir áramótin.
    Frv. gerir ráð fyrir því að stofnaður verði sérstakur tryggingasjóður fiskeldislána sem hafi sjálfstæðan fjárhag og lúti stjórn sérstakrar nefndar, en sjóðurinn verði í vörslu og umsjón Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem jafnframt sjái um rekstur hans samkvæmt nánari reglum þar um.
    Hlutverk þessa sjóðs er að veita greiðslutryggingu og tryggja greiðslur afurðalána sem bankar og aðrar lánastofnanir veita fiskeldisfyrirtækjum þannig að afurða- og rekstrarlánahlutfall til þessara fyrirtækja geti orðið fullnægjandi. Þessi trygging verði því aðeins veitt að viðkomandi fyrirtæki hafi þegar tryggt afurðir sínar með svonefndri umframskaðatryggingu eða hliðstæðri tryggingu og að banki eða lánastofnun hafi viðkomandi fyrirtæki í viðskiptum.
    Síðan er vikið að því í b-lið 1. gr. að hámark skuldbindinga sjóðsins á hverjum tíma megi nema samtals 1800 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
    Í c-lið er vikið að þeirri nefnd sem ég áðan nefndi og skal fara með forræði fyrir sjóðnum. Nefndin skal fjalla um hverja einstaka umsókn og ákveða með hvaða kjörum sjóðurinn veiti greiðslutryggingar hverju sinni. Nefndin verði þannig skipuð að einn fulltrúi verði tilnefndur af stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, tveir samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, fjórði maðurinn samkvæmt tilnefningu fjmrh. og fimmti maðurinn samkvæmt tilnefningu landbrh. og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar.
    Þá er í d-lið (22. gr.) vikið að iðgjöldum og sérstöku áhættuiðgjaldi sem standa eiga undir starfsemi sjóðsins og tryggja þegar til lengri tíma er litið að starfsemi hans verði ríkinu að kostnaðarlausu og fjárhag sjóðsins þannig borgið, í fyrra lagi með því að ákvarða iðgjöld sem miðist við að standa undir venjulegri starfsemi sjóðsins og enn fremur að ákvarða sérstök áhættuiðgjöld sem grípa má til ef þörf krefur og rétta þannig við fjárhag sjóðsins.
    Gert er ráð fyrir því að þurfi tryggingasjóður að taka tímabundið lán vegna starfsemi sinnar, þ.e. komi til þess að iðgjöldin nægi ekki á einhverjum tíma til að fjármagna starfsemi sjóðsins, verði tekin sérstök lán með ríkisábyrgð til að leysa þann tímabundna vanda sjóðsins sem síðan er reiknað með að greidd verði aftur upp af iðgjöldum eða áhættuiðgjöldum.
    Síðan er að lokum í e-lið (23. gr.) ákvæði um að landbrh. skuli að fengnum tillögum stjórnarnefndar tryggingasjóðsins setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla laganna um Stofnlánadeild þar sem kveðið verði m.a. á um efni og eðli

trygginga, hversu hátt hlutfall afurðalána er tryggt, röð ábyrgða, rekstur sjóðsins o.fl. af því tagi.
    Að lokum er í 2. gr. sjóðsins lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi og skuli endurskoðuð fyrir árslok 1992.
    Ég held að ég láti nægja, herra forseti, að rekja í stuttu máli aðalefni frv. þar sem það hefur fengið nokkra umfjöllun í hv. Nd. og landbn. þeirrar deildar og reyndar beggja deildanna sem að hluta til unnu sameiginlega að þessu máli, hafa farið yfir málið.
    Það er ljóst að vegferð þess í gegnum þingið hefur verið hraðað og er í raun rétt og skylt að viðurkenna það. En þannig hagar til að brýna nauðsyn ber til að unnt sé að auka fyrirgreiðslu til fiskeldisfyrirtækjanna hvað varðar afurða- og rekstrarlán. Þar hefur skapast mikill vandi og liggur við stöðvun rekstrar hjá fjölmörgum aðilum af ástæðum sem óþarfi ætti að vera að fara hér um mörgum orðum.
    Ég held að eftir þær breytingar sem hv. landbn. Nd. hefur gert á frv. í samráði við hagsmunaaðila málsins eigi það að vera komið í þann búning að vel sé viðunandi. Til viðbótar vil ég svo nefna, herra forseti, að nauðsynlegt er að setja allítarlega reglugerð þar sem útfærð verða nánar ýmis atriði sem varða starfrækslu sjóðsins, hlutverk hans og hvernig með skuli farið. Vegna þess að mikla nauðsyn ber til að afgreiða málið og reynt hefur verið að hafa um það samstöðu og samkomulag vil ég lýsa því yfir hér, eins og ég gerði í hv. Nd., að ég mun beita mér fyrir því að kynna þá reglugerð bæði stjórn og stjórnarandstöðu og reyna að ná sem bestu samkomulagi um setningu hennar. Einnig er nauðsynlegt að efni reglugerðarinnar verði unnið í nánu samráði við viðskiptabanka og tryggingafélög sem hér eiga hlut að máli þannig að allir aðilar sem þessu máli tengjast geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri og sætt sig við útfærslu málsins.
    Þá held ég að ég hafi ekki fleiru við þetta að bæta, herra forseti, og legg til að málinu verði síðan vísað til hv. landbn. þessarar deildar sem ég geri ráð fyrir að vilji skoða frv. þó hún hafi að nokkru leyti unnið það, eins og ég sagði, með hv. landbn. Nd.