Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hér er fjallað um frv. sem er allviðamikið og kemur til umræðu í hv. deild og til afgreiðslu á síðasta starfsdegi hennar fyrir það hlé sem nú hefur verið ákveðið.
    Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. landbrh. að það hefur farið um þetta frv. fram ofurlítil umfjöllun sem landbn. Ed. hefur verið þátttakandi í og ég þarf ekkert að leyna því að ég var satt að segja afar ánægður með þá málefnalegu umfjöllun að þeim hluta sem nefndarmenn landbn. Ed. tóku þátt í því starfi.
    Hinu er aftur ekki að leyna að það hefur ekki farið fram nákvæm umfjöllun um málið hér í deildinni og satt að segja virtist mér vera hálfgerður hlaupagangur á mönnum í gær við að fella þær tillögur saman sem nú hafa verið samþykktar í Nd. til breytingar á þessu frv.
    Það skal að sjálfsögðu skýrt tekið fram að þær eru til bóta og skýra málið sem slíkt nokkuð frekar, en eigi að síður liggur enn þá ljóst fyrir að þetta frv. eins og það er nú úr garði gert hefur ekki víðtæk áhrif til stuðnings við fiskeldið í landinu.
    Það eru ýmsar athugasemdir sem ég hef við frv. að gera. Ég geri mér hins vegar ljóst hvernig staða málsins er og að ekki verður miklu um þokað. En í þessum efnum ætla ég nú við umræðuna að drepa á örfá atriði og kannski mættu þau þá á einhverju stigi málsins verða til varnaðar.
    Í fyrsta lagi tel ég fullkomlega óeðlilegt að þessi tryggingasjóður sé vistaður hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Stofnlánadeildinni, eins og nafnið ber með sér, er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að veita lán til uppbyggingar í landbúnaði og greinum sem reyndar eru landbúnaði tengdar, eins og vinnslustöðvar landbúnaðarins, en Stofnlánadeildin er hins vegar ekki aðili að rekstrarlánum á einn eða annan hátt. Þar af leiðandi á þessi atvinnugrein erindi inn í Stofnlánadeildina með tilliti til uppbyggingar en ekki með tilliti til rekstrar. Ég óttast alveg sérstaklega í þessum efnum, og þá vil ég vona að hæstv. landbrh. fái næði til að hlýða á orð mín, að sjóðir Stofnlánadeildarinnar verði notaðir til að fjármagna þann rekstur sem hér er verið um að tala. Það er ekki neitt sjálfgefið, þó að það séu veittar heimildir til lántöku, jafnvel þó að þær séu ríkistryggðar, að það fjármagn sé gripið upp úr hvaða banka sem er. Sem betur fer er Stofnlánadeildin vel efnum búin. Um áramótin 1987--1988 hygg ég að varasjóður Stofnlánadeildarinnar hafi talið hér um bil 1 milljarð kr. Auðvitað er þessi góði hagur Stofnlánadeildarinnar fyrst og fremst til kominn vegna þess að hún á í viðskiptum við skilvísa stétt, bændastéttina í landinu.
    Alveg burtséð frá því hvað hæstv. landbrh. kann að hugsa í þessum efnum hef ég mikinn beyg af því að það verði farið í sjóði Stofnlánadeildarinnar þegar þörf krefur til að leysa þær skuldbindingar sem nú hefur verið ákveðið að vista innan stofnunarinnar. Það er af þessari ástæðu sem mér þykir hlýða að bera fram þessi varnaðarorð.

    Þá er það ýmislegt í frv., m.a.s. eftir breytinguna, sem hlýtur að orka tvímælis. Hér finnst mér fyrst rétt að minna á hverjir það eru sem kunna að eiga ábyrgðarréttindi í þessum nýja tryggingasjóði. Það er í rauninni alls ekki nákvæmlega skilgreint. Lögfróðir menn hafa skýrt þau hugtök fyrir mér þannig að þeir einir eigi þar lánsréttindi eða ábyrgðarréttindi sem fengið hafa afurðalán sem nemur 37% af þeim verðmætum sem þau eru tryggð með. Þetta þýðir að þeir sem eru fyrir neðan þetta hlutfall, eins og t.d. allir viðskiptaaðilar Búnaðarbankans, hafa þarna ekki réttindi.
    Þá liggur það nú fyrir og er algerlega óumdeilanlegt, enda beinlínis tekið fram í frv., að þeir sem ekki hafa enn fengið afurðalán hafa ekki réttindi til að fá viðbótarfé eins og reyndar er skýrt tekið fram í frv. Í því kjördæmi sem ég er kunnugastur, Austurlandskjördæmi, hygg ég að fyrirtæki sem eru að hefja rekstur eða hafa hafið hann nú þegar séu tíu talsins. Þar af hefur einn þessara aðila fengið afurðalán. Hinir níu hafa ekki fengið nein afurðalán enn þá og eru þess vegna réttindalausir í þessum sjóði. Þetta er að sjálfsögðu afar þýðingarmikið að menn athugi í þessum efnum.
    Þá þykir mér vert að minna sérstaklega á og vekja athygli á því ákvæði sem kveður á um hversu ábyrgðir tryggingasjóðsins mega mestar verða. Það held ég að sé mikil ástæða til að grandskoða, m.a. vegna þess að sú heimild er veitt í innlendri og erlendri mynt, þ.e. 1,8 milljarðar íslenskra kr. eða jafnvirði þeirrar tölu í erlendri mynt. Hvernig fer þegar genginu er breytt og krónurnar eru allt í einu orðnar fleiri en 1,8 milljarðar? Þar með ná ekki lögin þeirri tryggingarupphæð sem sjóðurinn hefur þegar gengist í ábyrgð fyrir.
    Þetta hlýtur líka að verða að vera mjög til athugunar í hverju tilviki þegar bankar eða lánastofnanir veita viðbótarlán. Þannig virðist sú afgreiðsla í öllum tilvikum þurfa að ganga til sjóðsins svo að ekki verði farið þar yfir þau mörk sem heimildir veita. Þetta hygg ég að geti orðið nokkuð þungt í vöfum.
    Til viðbótar við þetta geðjast mér ekki að því stjórnarfyrirkomulagi sem þessi sjóður á að lúta og ýmislegt hefur komið fram í viðræðum við þá sem á
sameiginlegan fund landbúnaðarnefnda Alþingis hafa verið kvaddir sem staðfestir ótta minn í þeim efnum. Hér er verið að setja á stofn eina stjórnina enn sem mun með einum eða öðrum hætti veita þessa fyrirgreiðslu að eigin geðþótta.
    Ég skal ekki meta hér hvaða skoðun fyrrv. hæstv. landbrh. hefur í þessum efnum. En loðdýrabændur fengu á sl. ári og hafa kannski fengið enn að ganga í gegnum harðan skóla í viðskiptum sínum við Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar var alls ekki fjallað um mál með eðlilegum hætti eða á hlutlausan hátt. Það væri hægt að fletta því upp. Sum vinnubrögð við ákvarðanatöku þar --- m.a. sérstakar einkunnagjafir sem loðdýrabændur fengu fyrir árangur í störfum og jafnvel var seilst svo langt að taka án þeirrar vitundar

skilríki sem voru þeim persónulega bundin --- sýna að sjálfsögðu hvað menn geta gengið langt eða tekið sér mikinn rétt í þessum efnum.
    Hér er um það að ræða að hagsmunaaðilar eiga m.a. að taka þátt í þessari umfjöllun og það tel ég sérstaklega óviðeigandi þar sem gætir enn frekari persónulegra sjónarmiða en ef þarna er fyrst og fremst beitt faglegum vinnubrögðum.
    Efnislega eru það þessi tvö atriði sem mér er langsamlega verst við í þessum efnum og reyndar leiða hvort af öðru, þ.e. að þessi sjóður skuli vera vistaður hjá Stofnlánadeildinni og að hagsmunaaðilar skuli eiga að fjalla um þær ábyrgðir sem teknar verða og þá að sjálfsögðu þrúgaðir af miklum persónulegum viðhorfum.
    Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar. Hér á eftir fer fram umfjöllun um málið í nefnd og er augljóst að það er lagt á það mikið kapp að koma þessu máli hér til afgreiðslu. Ekki ætla ég að verða til þess að svo geti ekki orðið, enda er ákveðinn meiri hluti í Alþingi sem hefur þann rétt að vilji hans gangi fram. Ég vek hins vegar athygli á því að það hefði ekki þurft að tefja lánveitingar til eins einasta fiskeldisbónda þótt Alþingi hefði gefið sér betri tíma til umfjöllunar um þetta mál. Hæstv. landbrh. hefur nú lýst því að hann ætli að vanda sérstaklega til þeirrar reglugerðar sem fylgja mun þessari lagasetningu og það er mjög af hinu góða, ekki dreg ég í efa vilja hans í þeim efnum. En þá reglugerð hefði verið hægt að byrja að vinna strax á morgun þótt lögin hefðu ekki verið samþykkt. Að sumu leyti hefði það auðveldað umfjöllun um málið ef drög að reglugerð hefðu legið fyrir þegar umræðan og afgreiðslan fer fram í Alþingi.
    Ég vona að þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð núna verði ekki til að gefa fordæmi um að með sama hætti verði unnið að afgreiðslum í þessari deild og í landbn. Ed. Alþingis því að þar hafa menn lagt metnað sinn í að skila vandaðri vinnu. Þessi afgreiðsla sem slík er fráhvarf frá þeirri vinnutilhögun og auðvitað hlýtur það að valda vonbrigðum. Ég tek hins vegar skýrt fram að hér er ekki verið að beita ofríki né neinum þjösnaskap við afgreiðslu þessa máls þótt slæmt fordæmi sé gefið.