Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Eftir að frv. það sem sagt var fyrir Nd. hafði legið átta vikur í fjmrn. og ríkisstjórnin gat ekki komið sér saman um hvernig ætti að leggja plaggið fyrir Alþingi var því loks hent inn í Nd. tveim eða þrem dögum áður en þingmenn fóru heim í jólaleyfi og farið var fram á af meiri hlutanum að því yrði þá kastað á milli deildanna án undirbúnings, án þess að þingmenn gætu kynnt sér málið eins og raunar var gert með fleiri mál hér í deildinni einmitt á þeim tíma og fer mjög vaxandi. Ég hygg að það hljóti að vera fyrir okkur alþingismenn mikið umhugsunarefni hvort það sé af tilviljun sem til þess er ætlast í þingsköpum að ákveðinn tími líði á milli umræðna og að ákveðinn tími líði áður en mál sem samþykkt eru í Nd. megi takast fyrir í hinni efri eða öfugt. Eins og þessi mál hafa þróast er tilhneiging ráðherra sú og ríkisstjórnar að draga það í síðustu lög að leggja málin fyrir Alþingi og ætlast svo til þess að þingmenn loki öllum skilningarvitum og afgreiði frumvörpin eins og á færibandi en engin málefnaleg vinna megi eiga sér stað í þinginu. Ég held þess vegna að óbreyttir þingmenn verði að fara að athuga sinn gang, verði sjálfir að taka það upp og ræða saman um það hvernig hægt sé að hafa stjórn á ríkisstjórnum, hvernig Alþingi getur aftur náð þeim sjálfsagða rétti, sem það hlýtur að verða að standa á, að það geti fengið að skoða mál og kynna sér mál, hugsa um þau áður en þau eru afgreidd sem lög frá hinu háa Alþingi. Ég held að það mikið sé í húfi að þetta sé óhjákvæmilegt. Núna fyrir jólin voru tvö frumvörp afgreidd úr nefndum og í báðum tilvikum loksins rankaði meiri hlutinn við sér við 2. eða 3. umr. í deildinni. Eins er um þetta frv. Það var loksins þegar stjórnarandstaðan sagði að hún mundi ekki líða það að frv. yrði afgreitt núna fyrir helgina sem stjórnarmeirihlutinn fékkst til að horfa á einstakar greinar þessa frv. gagnrýnisaugum.
    Ég vil taka það fram að ég vil síður en svo koma í veg fyrir að þetta frv. verði afgreitt frá Alþingi í dag. Ég hefði auðvitað kosið að þingið hefði tekið sér tíma fram á mánudag, við hefðum fengið að hugsa um frv. til mánudags og ríkisstjórnin hefði beðið þangað til á mánudaginn með að senda okkur heim. Mér hefði liðið betur með það. En úr því að minni hluti Alþingis ætlar á eftir að senda enn meiri minni hluta Alþingis heim með þál. er að taka því, en ég vil undir engum kringumstæðum að það bitni á fiskeldinu í landinu. Af þeim sökum mun ég aðeins víkja nokkrum orðum til viðbótar að frv., en að öðru leyti ekki taka þátt í þessum umræðum.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að eins og frv. lítur út núna er það allt annað og betra en eins og það var lagt fyrir þingið í upphafi sem veldur því að maður getur verið þekktur fyrir að láta það ganga í gegnum þingið í dag. Að öðrum kosti hefði það verið óhugsandi með öllu. Ég bendi á að hér er auðvitað ekki um tryggingasjóð að ræða í eiginlegri merkingu. Þetta er ábyrgðarsjóður og við hljótum að velta því fyrir okkur í tengslum við þetta mál hvort ekki sé

eðlilegra að stofnaður verði sérstakur ábyrgðar- og verðjöfnunarsjóður fiskeldis og hvort ekki verði að vekja þá spurningu hvert eðlilegt sé að eignarhaldið verði á sjóðnum, hverjir verði að eiga þennan sjóð. Ég held að Alþingi verði að velta því fyrir sér og kannski fyrst og fremst vegna þess að frv. er þannig samið að ekki virðist annað hafa vakað fyrir ríkisstjórn og ráðherrum en að reyna að tryggja að þessi baktrygging fiskeldisins í landinu yrði ríkissjóði með öllu áhættu- og kostnaðarlaus. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í 2. mgr. d-liðar 22. gr., þar sem talað er um ríkisábyrgðina, eru öll orð mjög loðin og ógreinileg og ógerningur að átta sig á því hvað við er átt. Það væri t.d. fróðlegt að spyrja ráðherrann hvort hann telji að sú ríkisábyrgð sem þar er veitt sé sjálfskuldarábyrgð eða einföld ábyrgð, hvort ráðherrann telji að þessi orð um ríkisábyrgðina séu fullnægjandi þannig að lánastofnun mundi treysta sér á grundvelli þessara orða til að veita lán án þess að nýrrar ríkisábyrgðar sé aflað hjá Alþingi. Það er deginum ljósara að Stofnlánadeild landbúnaðarins er með sérstakan fjárhag og sú ríkisábyrgð sem er á bak við Stofnlánadeild landbúnaðarins tekur ekki til þess sjóðs sem hér er verið að fjalla um og þess vegna er nauðsynlegt að íhuga þetta mál. Það þarf hins vegar ekki að tefja frv. vegna þess að á ábyrgðina mun ekki reyna á næstu 3--4 vikum þannig að þingið getur þá tekið það til skoðunar þegar það kemur aftur saman í febrúarmánuði, eins og ég tel raunar að nauðsynlegt sé að gera um ýmsa aðra þætti þessa frv., að íhuga hvort það sé nauðsynlegt.
    Ég vek athygli á því í öðru lagi eða raunar þakka fyrir það að hæstv. ráðherra skuli hafa gefið þá yfirlýsingu að stjórnarandstaðan, mér hefði kannski þótt fullnægjandi landbúnaðarnefndir en ég er ekki á móti því að það sé stjórnarandstaðan í heild, fái að fylgjast með því starfi sem unnið er í ráðuneytinu í sambandi við reglugerðir á grundvelli þessara laga og ýmislegt annað sem ákvörðun þarf að taka um og vil sannarlega vona að vilji Alþingis til þess að þessi sjóður geti tekið til starfa, áþreifanlegur vilji þingmanna til þess að bakábyrgðin standi ekki í vegi fyrir því að fiskeldið geti þróast með eðlilegum hætti í landinu verði til þess að reglugerðarvinnan gangi vel og það verði þá búið að ganga frá öllum formsatriðum, reglugerð og öðru slíku, þegar þingið kemur saman á nýjan leik. Ég vona það sannarlega.
    En eins og ég sagði í ræðu minni, herra forseti, hygg ég að óhjákvæmilegt sé að bæði þingmenn og ég tala nú ekki um ríkisstjórnin velti þessu frv. fyrir sér í hléinu, hvort nauðsynlegt sé kannski að bæta eitthvað upp á sakirnar þegar þing kemur saman á nýjan leik í febrúarmánuði.