Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Aðeins fáein orð.
    Ég þakka hv. þm. sem hér hafa talað þann skilning sem þeir hafa allir sýnt á þeim aðstæðum sem uppi eru í fiskeldinu og gera það að verkum að lögð er mikil áhersla á að þetta mál verði afgreitt. Vegna þeirra orða sem einnig hafa fallið um málsmeðferðina og hvernig þessu máli hefur verið hraðað í gegnum þingið endurtek ég að ég hef margsagt að mér þykir miður að ekki hafi gefist meiri tími til að skoða málið rækilegar í þinginu og í þingnefndum, en færi það fram mér til málsbóta að það er ekki ég sem vel mér þetta verklag heldur eru það aðstæður í fiskeldinu sem gera það að verkum að málið er svo brýnt sem raun ber vitni og ég tel það skyldu mína sem umsjónarmaður þessa máls að leggja til að því verði hraðað eftir föngum. Þess vegna hefur svona rík áhersla verið lögð á málið og það veit ég að hv. alþm. skilja og kom reyndar fram í máli allra þeirra sem töluðu.
    Það er enn fremur ljóst og rétt að hér eru fjölmörg álitamál á ferðinni sem út af fyrir sig væri hægt að ræða ítarlega. En þá vísa ég til þess sem ég hef sagt um þá reglugerð sem setja þarf á grundvelli laganna ef af verður, að ég býðst til þess að reyna að vinna hana í samráði við hv. þm., bæði stjórn og stjórnarandstöðu, ekki síst landbn. hv. deilda, og enn fremur er það rétt, sem bent hefur verið á, að komi í ljós við nánari skoðun málsins að þar séu enn hlutir sem betur megi fara er auðvitað hægt að breyta þeim þó síðar verði, en það er mjög mikilvægt fyrir framgang málsins að þetta frv. verði að lögum þannig að á grundvelli þeirra laga sé hægt að hefja undirbúning að framkvæmdum og setningu reglugerðar. Það er, eins og hv. alþm. vita, auðveldara að vinna að slíku þegar lög eru í höfn, ella geta þau tekið breytingum sem reglugerðin þyrfti að taka mið af o.s.frv.
    Varðandi eitt atriði sérstaklega sem spurt var um og kom fram í máli fleiri en eins aðila, það varðar ábyrgðarrétt og hlutföll lána frá bönkunum, þá hef ég lítillega rætt það mál við aðila úr viðskiptabönkum og tryggingafélögum og við höfum orðið ásáttir um að það sé eitt af þeim atriðum sem sérstaklega þurfi að ganga frá í samstarfi þessara aðila og setja í reglugerð. Hvort það hlutfall verður miðað við það sem einhver ein tiltekin bankastofnun hefur viðhaft upp á síðkastið í fyrirgreiðslu til fyrirtækjanna skal ég ekki segja. Fyrst og fremst væri heppilegt ef næðist samkomulag um það milli fulltrúa frá viðskiptabönkum, tryggingafélögum og hagsmunaaðilum málsins hvað væri eðlilegt afurðalánahlutfall frá viðskiptabönkunum á grundvelli eða á bak við svonefnda umframskaðatryggingu, en ég tel þó líklegt að það yrði nálægt þeim 37,5% sem flest fiskeldisfyrirtækin hafa fengið frá sínum viðskiptabönkum.
    Ég vil svo endurtaka þakkir mínar, herra forseti, fyrir þann skilning sem menn hafa sýnt á aðstæðum

í þessu máli og vona að frv. megi verða að lögum innan tíðar.