Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. vék að því þegar hann setti fund Alþingis hér í dag að ósk hans væri sú að þessu þingi auðnaðist að auka með störfum sínum við veg og virðingu Alþingis. Auðvitað er það svo að þessi ábyrgð hvílir á öllum þingmönnum og ég hygg að hver einasti þingmaður sem hlýddi á ræðu hæstv. forsrh. hafi tekið undir þessa ósk í hljóði. En forustan um störf sem leiða til aukins vegs og aukinnar virðingar Alþingis er hjá hæstv. ríkisstjórn. Og hæstv. forsrh. hefur með þeirri tilkynningu, sem hér hefur verið lesin um það sem kallað hefur verið efnahagsaðgerðir, lagt dóm á það hvernig það er að auka veg og virðingu Alþingis.
    Það hefur lítið farið fyrir aðgerðum þessarar stjórnar. Menn hafa beðið ýmist eftir að löngum ríkisstjórnarfundum eða þá því að löngu jólaleyfi Alþingis lyki af því að í hvert skipti sem boðaður er langur ríkisstjórnarfundur eða boðað er langt jólaleyfi, þá eru gefin fyrirheit um aðgerðir til þess að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna í landinu, útflutningsframleiðslunnar, þeirra atvinnuvega sem skapa verðmætin sem íslenska þjóðin lifir á. En hér kemur forsrh. og talar hátt í heila klukkustund án þess að tilkynna um nokkrar raunhæfar aðgerðir til þess að leysa þann vanda sem atvinnuvegirnir búa við. Það er framlag hæstv. ríkisstjórnar til þess að auka veg og virðingu Alþingis. Það er boðskapurinn sem á að senda núna út til fólksins í landinu, í sjávarplássunum úti um land. Það er á þennan veg sem hæstv. ríkisstjórn lítur á veg sinn og virðingu, að senda þessi skilaboð út til fólksins sem starfar í sjávarútveginum, fólksins sem starfar í iðnaðinum og er að skapa verðmætin í þessu landi.
    Ég vil taka það fram að þrátt fyrir miklar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, bæði fyrir jól og á þeim stutta tíma sem Alþingi starfaði í byrjun þessa árs, um það að haft yrði sérstakt samráð við stjórnarandstöðuna, leitað yrði eftir sem nánastri samstöðu allra flokka á Alþingi því að ábyrgðin væri jöfn og sérstaklega var tekið fram að allar upplýsingar yrðu látnar í té eftir því sem þær lægju fyrir. Við höfðum í stjórnarandstöðunni flutt sérstakar hólræður um hæstv. forsrh. vegna þessara yfirlýsinga. En það er ástæða til þess að taka það fram að ekkert af því sem hér var kynnt og kallað hefur verið efnahagsráðstafanir var kynnt stjórnarandstöðunni, a.m.k. ekki Sjálfstfl., áður en þetta var lesið upp hér áðan --- og ég er ekki að gagnrýna það því að í raun og veru var ekkert að kynna. Boðskapurinn var enginn. Meira að segja var boðskapurinn svo kyndugur að eitt helsta stefnuatriði núverandi ríkisstjórnar í viðreisn iðnaðarins í landinu var yfirlýsing um það að hæstv. ríkisstjórn hefði ráðið erlendan ráðgjafa til þess að gefa upp álit á því hvernig standa ætti að uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins í landinu. Það var að vísu fyrrv. ríkisstjórn sem réði þennan ráðgjafa til starfa og þá þótti það eðlilegt og sjálfsagt, en var ekki talið til meiri háttar stefnuatriða í efnahagsmálum. En þessi

aðgerð fyrrv. ríkisstjórnar, að ráða hingað erlenda ráðgjafa, er núna talið til meiri háttar stefnuatriða og nýmæla í endurnýjaðri stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Er það nú skýrt dæmi um það hversu markvissar og mikilvægar þær ráðstafanir eru sem hér voru kynntar. Nei, það er ástæðulaust að kvarta yfir því að skort hafi á samráð um þetta efni því efnið er nánast ekkert.
    Hæstv. forsrh. tilkynnti á neyðarfundi fiskframleiðenda á öndverðum þessum vetri að gera þyrfti neyðarráðstafanir eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið ráðstafanir sem hún sjálf kallaði biðleik. Og til þess að gera þessar neyðarráðstafanir átti að halda langan neyðarfund í hæstv. ríkisstjórn. Og það var samdóma álit manna að loknum þeim fundi að það væri neyðarleg hæstv. ríkisstjórn sem sæti í landinu. Og nú hefur verið neyðarjólafrí, óvenjulangt til þess að gefa hæstv. ríkisstjórn tóm til þess að kynna neyðarráðstafanirnar. Og ég hygg að það sé samdóma álit manna að hún sé hálfu neyðarlegri en eftir langa neyðarfundinn sem að engu varð. Þetta eru nú staðreyndir málanna.
    Vandi okkar í dag er sá að höfuðatvinnuvegirnir, bæði sjávarútvegur og iðnaður, búa við þau skilyrði að það er tap á rekstrinum. Viðskiptahallinn hefur verið mikill, hefur reyndar verið þrálátt vandamál í áratugi, en það hefur verið markmið allra ríkisstjórna að vinna gegn þessum vanda. En nú höfum við ríkisstjórn sem virðist hafa vaxandi viðskiptahalla að markmiði.
    Vandi sjávarútvegsins verður ekki leystur með fjölgun sjóða. Það er gott og blessað að útvega atvinnufyrirtækjunum lánsfé og að framlengja lán og að aðstoða eigendur fyrirtækja til þess að geta aukið eigið fé þeirra. Og það kann að vera nauðsynlegt í ýmsum tilvikum að gera ráðstafanir til þess að treysta stöðu atvinnufyrirtækja í byggðarlögum þar sem eitt fyrirtæki heldur uppi allri atvinnunni. En skilyrðið fyrir því að eitthvert vit geti orðið í ráðstöfunum af þessu tagi er auðvitað það að tryggður sé almennur rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn í landinu og samkeppnisiðnaðinn. Það hefur ekki verið gert.
    Hæstv. forsrh. lýsti því hvernig ytri aðstæður hefðu breytt stöðu
sjávarútvegsins og við þurfum ekki að eyða löngum tíma í það að ræða hvers vegna mál komust í þennan farveg. En það var um það býsna víðtæk samstaða á sl. sumri að lengur mætti ekki dragast en fram til loka ágústmánaðar eða byrjunar septembermánaðar að gera viðhlítandi ráðstafanir. Núv. ríkisstjórn var mynduð vegna þess að um það tókst ekki pólitísk samstaða og þess var auðvitað ekki að vænta að ný ríkisstjórn vinstri flokkanna í landinu stæði að heilsteyptum ákvörðunum í þessu efni, enda hefur hún sjálf kallað þær ráðstafanir biðleik, gagnslausan biðleik.
    Nú eru enn á ný kynntar efnahagsráðstafanir sem eru biðleikur, enn á ný kynntar ráðstafanir sem ekki tryggja rekstur útflutningsframleiðslunnar. Hæstv. forsrh. fór hér með tölur um afkomu sjávarútvegsins í byrjun þessa árs þar sem hann greindi frá því að

botnfiskútvegurinn í heild væri rekinn með 4% halla, að veiðarnar væru reknar með 7% halla og að frystingin væri í jafnvægi, ef vinnslan í heild væri í jafnvægi, frystingin rekin með 2*y1/2*y% halla en söltunin með 4*y1/2*y% ágóða. Hér er þó ekki tekið tillit til þess að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins greiðir með fjármunum sem ríkissjóður á að leggja til 5% uppbætur sem þýðir um 4% í afkomu greinarinnar.
    Nú er ákveðin gengisbreyting upp á 2*y1/2*y%. Þetta þýðir áframhaldandi verulegan halla á rekstri sjávarútvegsins, 7--8% halla á veiðum og þó að færa megi tölur upp fyrir núll að því er varðar vinnsluna sjálfa, þá er frystingin áfram rekin með a.m.k. 1% tapi. Og til viðbótar er það tap sem ríkissjóður stendur uppi með, með uppbótum í gegnum Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þannig að tap frystingarinnar sýnist vera um 6%. Og engin tilraun er gerð til þess að rétta þennan almenna rekstrargrundvöll. Engin tilraun. 2*y1/2*y% breyting á gengi krónunnar skiptir sáralitlu máli í þessu efni, er engin meginráðstöfun til þess að rétta við rekstur fiskvinnslunnar. Staðreyndin er því sú eftir þessa ráðstöfun, eftir þessa breytingu á gengi krónunnar að það á að halda áfram að taka upp eigið fé fiskvinnslunnar í landinu. Það er stefnt að því með þessum ráðstöfunum að taka a.m.k. 1 milljarð kr. til viðbótar af eigin fé sjávarútvegsins og þykir nú ýmsum nóg hvað gengið hefur á eigið fé sjávarútvegsins að undanförnu. En þá er stefnt að því markvisst með þessum ráðstöfunum að halda þessari eignaupptöku áfram. Og hæstv. sjútvrh. lætur sér það gott þykja. Það er boðskapur hæstv. sjútvrh. til íslenskra sjómanna, til fiskvinnslufólksins í sjávarplássunum úti um landið að þessari stefnu eigi að fylgja áfram. Vegna hvers? Vegna þess að Alþb., sem virðist hafa náð undirtökum í þessari ríkisstjórn, má ekki til þess hugsa að hér starfi atvinnulíf á eigin fótum, má ekki til þess hugsa að hér starfi sjálfstætt atvinnulíf rekið af einstaklingum, félögum þeirra, hvort sem það eru hlutafélög eða samvinnufélög. Það virðist vera augljóst markmið Alþb. með þeirri stefnu sem það hefur knúið fram í þessari ríkisstjórn að ríkisvaldið nái undirtökum í atvinnuvegunum og að sjávarplássin verði háð miðstjórnarvaldi kommissaranna í sjóðunum hér suður í Reykjavík. En bannorðið er að þessi fyrirtæki fái eðlilegan rekstrargrundvöll og að þau geti starfað sjálfstætt í eðlilegu umhverfi. Bannorðið er að fólkið í sjávarplássunum fái að reka fyrirtækin sín upp á eigin ábyrgð. Það á að gerast á ábyrgð miðstýrðra sjóða. Undir þessa stefnu hefur Framsfl. gengið. Það er óþarfi að tala um Alþfl. í þessu sambandi. Þetta er boðskapurinn sem hæstv. forsrh. var að flytja, áframhaldandi halli á rekstri sjávarútvegsins. Engin grein er gerð fyrir því hvað á við að taka þegar uppbótum ríkissjóðs í gegnum Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins lýkur í maí. En til þess voru teknar 800 millj. kr. að láni. Og hæstv. sjútvrh. hefur marglýst því yfir að ríkissjóður eigi að bera þessar 800 millj. þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki fengist til

þess að bókfæra þær á ríkissjóð til þess að geta gefið svolítið aðra mynd af ríkissjóðsdæminu en raunveruleikinn segir þó til um.
    Hvað á að gera þegar þessu tímabili lýkur? Á að halda þessum uppbótum í gegnum ríkissjóð á kostnað skattgreiðendanna áfram eða á að breyta genginu þegar þar að kemur? Eða á að reka efnahagsstefnuna á þeim grundvelli sem hæstv. forsrh. var að lýsa hér? ,,Við vonum að verðlagið á erlendum mörkuðum hækki.`` Er það grundvöllur efnahagsstefnunnar? ,,Við vonum að verðlagið á erlendum mörkuðum hækki.`` Er það allur grundvöllurinn? Er það boðskapurinn sem á að fara með út um hinar dreifðu byggðir landsins? Sér er nú hver efnahagsstefnan! Sér er nú hver reisnin! Sér er nú hver virðingin fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir störfum Alþingis Íslendinga!
    Með þessari stefnu er líka verið að halda áfram því sem hefur verið meginvandi í marga áratugi, að leggja kollhúfur gagnvart viðskiptahallanum. Hann hefur verið þrálátt vandamál. Á árinu 1986 tókst að ná jöfnuði, m.a. vegna þess að þá gekk á útflutningsbirgðir. Nú hefði maður haldið að gengisskráninguna þyrfti að miða við það að það drægi úr viðskiptahallanum. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að viðskiptahallinn er það mikill að það er ekki unnt að fella gengið svo mikið í einu vetfangi að það leiði til þess að við náum jöfnuði í viðskiptum við útlönd þegar í stað. Ég tel að það væri óraunhæf krafa til hæstv. ríkisstjórnar að ætlast til þess að hún næði jöfnuði
í viðskiptum þegar á þessu ári. Til þess þurfum við vafalaust a.m.k. tvö ár. En þessi ríkisstjórn er að stefna úr 11 milljarða viðskiptahalla á síðasta ári upp í 14--15 milljarða viðskiptahalla á þessu ári. Og þær aðgerðir sem nú hafa verið ákveðnar kunna kannski að leiða til þess að hallinn verði ekki nær 15 milljörðum, eins og í stefndi, heldur nær 14. En það er verið að auka viðskiptahallann. Niðurstaðan af þeim ákvörðunum sem hér hafa verið teknar og tilkynntar er sú að það er stefnt að auknum viðskiptahalla. Menn vita hvaða afleiðingar það hefur. Menn vita að með því er verið að skekkja samkeppnisstöðuna hér innan lands, treysta stöðu verslunar og þjónustu en veikja að sama skapi stöðu útflutningsgreinanna. Menn vita það líka að með því að auka viðskiptahallann er verið að auka þrýsting á vaxtahækkanir. Þetta tvennt er afleiðing af stefnu sem felur það í sér að auka við viðskiptahallann, skekkja samkeppnisstöðuna útflutningsgreinunum í óhag, verslunar- og þjónustugreinunum í hag og að kynda undir vaxtabálið. Það er auðvitað hægt að taka ákvarðanir um það að vextir skuli vera þetta og vextir skuli vera hitt. En ríkisstjórn, sem með öllum öðrum aðgerðum sínum í efnahagsmálum stefnir í þveröfuga átt, kemst ekki hjá því að viðurkenna að þessar ráðstafanir auka þrýstinginn á vaxtahækkanir. Og það er það sem við þurfum síst á að halda við þessar aðstæður. Við þurfum við þessar aðstæður efnahagsráðstafanir sem draga úr þrýstingi á vaxtahækkanir. Atvinnulífið þarf á því að halda. En þá er stefnt í þveröfuga átt af

hálfu hæstv. ríkisstjórnar, í þveröfuga átt.
    Það væri fróðlegt í þessari umræðu að fá álit hv. 10. þm. Reykv. sem hefur verið einlægur baráttumaður gegn viðskiptahalla, haft um það stór orð að hann gæti aldrei stutt ríkisstjórnir sem ekki kæmu á jöfnuði í viðskiptum við útlönd þegar í stað. Ég hef nú verið þeirrar skoðunar að hann hafi stundum verið einum of kröfuharður í því efni því að þetta er ekkert einfalt verk. Þetta er ekki verk af því tagi sem hægt er að smella saman fingrum með og láta sér svo detta í hug að málið sé leyst. Þess vegna geri ég ekki þá kröfu til þessarar hæstv. ríkisstjórnar að hún geri ráðstafanir sem komi á jöfnuði þegar á þessu ári. En það væri fróðlegt að heyra álit þessa baráttuglaða þingmanns fyrir lækkun viðskiptahallans, hvaða álit hann hefur á þeirri ríkisstjórn sem stefnir að því að auka viðskiptahallann, auka þannig á þrýsting fyrir vaxtahækkunum og auka ójafnvægið á milli útflutningsgreinanna annars vegar og verslunar- og þjónustugreinanna hins vegar. En þetta sýnist mér vera alveg augljós afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún stefnir m.ö.o. að því að auka erlendar lántökur.
    Í áætlun sem gerð var um erlendar lántökur á þessu ári og birt var með fjárlagafrv. fyrir 1989 var gert ráð fyrir því að löng erlend lán yrðu rúmir 14 milljarðar kr. En 12. jan. á þessu ári gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að nú stefni í erlendar lántökur allt að 20 milljarðar kr. Ég geri ráð fyrir því að hlutfall erlendra skulda stefni með þessari efnahagsstefnu í um það bil 50% af landsframleiðslu.
    Hér stefnir því allt í þveröfuga átt og engar þær heildarráðstafanir hafa verið gerðar sem snúa þróuninni við til betri vegar, hvorki að því er varðar rekstur sjávarútvegsins, almenn markmið í efnahagsmálum að því er varðar lækkun viðskiptahalla, að draga úr erlendum skuldum, að draga úr þrýstingi á vaxtahækkanir. Þvert á móti sýnist áfram eiga að stefna í öfuga átt, auka við erlendar skuldir, auka viðskiptahallann, auka við þrýstinginn á vaxtahækkanir og halda áfram taprekstri sjávarútvegsins. Og væri nú ástæða til þess að hæstv. sjútvrh. gerði hinu háa Alþingi grein fyrir þeirri virðingu fyrir sjávarútveginum sem hann kýs að sýna með þessum hætti og að hann gerði fólkinu í landinu grein fyrir því hvernig hann rökstyður það að þetta sé að auka veg og virðingu Alþingis, að þessi afstaða til sjávarútvegsins, fólksins sem þar vinnur, feli það í sér að verið sé að auka veg og virðingu Alþingis. Það er ástæða til þess að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir því.
    Ég veit að hæstv. sjútvrh. getur flutt hér tölu sem felur í sér upplestur á fjölgun sjóða, auknum skuldbreytingum og þar fram eftir götunum. Það er ekki það sem verið er að tala um. Við þurfum að breyta rekstrarskilyrðunum og það verður ekki gert með því að horfa fram hjá því að gengi krónunnar er enn rangt skráð. Að því búnu, þegar hin almennu rekstrarskilyrði hafa verið tryggð, er unnt og eðlilegt að fara í þau verkefni að skuldbreyta og horfa sérstaklega á einstaka staði á landinu þar sem eitt fyrirtæki er undirstaða allrar atvinnu, byggðaaðgerðir.

En meginstefnan í efnahagsmálum verður aldrei grundvölluð á því að stofna hér sjóði, skuldbreyta og bæta við lánum. Þá er verið að knésetja framleiðsluna í landinu.
    Hæstv. forsrh. taldi upp þau markmið sem ríkisstjórnin hefði ætlað að vinna að í upphafi: Ná hallalausum fjárlögum, ná niður verðbólgu, lækka vexti og tryggja varanlega rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Við skulum fara stuttlega yfir þessi meginmarkmið.
    Ná hallalausum fjárlögum. Þau voru að vísu samþykkt á pappírnum hallalaus. En skyldi nú ekki vanta sitthvað í þessi fjárlög? Ég nefni hér fyrst
yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. um það að lántakan til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins eigi að lenda á ríkissjóði. Af hverju er verið að fela það í bókhaldinu? Af hverju er hæstv. sjútvrh. látinn segja fólkinu í sjávarútveginum að þetta eigi að lenda á ríkissjóði, en hæstv. fjmrh. látinn segja skattgreiðendum að þetta eigi ekki að lenda á ríkissjóði? Þarf ekki að fara að gera upp sakirnar í þessu efni?
    Ég spyr um annað dæmi. Hæstv. forsrh. gerði hér grein fyrir því að það væri eitt meginmarkmiðið að ekki aðeins halda búvöruverði óbreyttu, heldur að lækka verð á mikilvægum matvörum. Það hefur verið upplýst í bréfi sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun að það vantar 220 millj. kr. ef niðurgreiðslustigið á að vera óbreytt. Ef sú breyting á að koma til framkvæmda, sem fjárlögin kveða á um, þá þarf að hækka landbúnaðarvörurnar, mjólk og kjöt. Og vill nú ekki hæstv. ríkisstjórn gera grein fyrir því hvernig það fer saman að lýsa því yfir að fjárlögin séu hallalaus, þau séu raunhæf, samt vanti þessar 220 millj., samt eigi að halda áfram aðgerðum til þess að lækka búvöruverðið. Mér sýnist að hér rekist hvað á annars horn og hæstv. ríkisstjórn eigi býsna mikla heimavinnu eftir áður en hún getur komið hér og flutt sitt mál þannig að mark sé takandi á. M.ö.o.: Það liggur í augum uppi, þó bara séu tekin tvö dæmi, að fjárlögin eru óraunhæf og að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki náð þessu markmiði.
    Annað markmiðið var að ná niður verðbólgu. Með þeim verðstöðvunarákvörðunum sem fráfarandi ríkisstjórn greip til í ágústmánuði á sl. ári og framhaldi þeirra náðist verðbólga verulega niður. Nafnvextir lækkuðu til að mynda í samræmi við það úr 40% niður í 25%. En hvað hefur gerst síðan? Það kom ríkisstjórn sem sagði: Verðstöðvunin í landinu á að gilda um alla nema ríkisstjórn Íslands. Launafólkið á að taka á sig verðstöðvun og atvinnurekendurnir --- og ríkisstjórnin hældi atvinnurekendunum og sérstaklega kaupmönnunum fyrir að taka á sig gengisbreytingu, velta henni ekki út í verðlagið. En ríkisstjórnin kom með skatta- og efnahagsaðgerðir sem leiddu til þess að verðbólgan, sem var komin niður í nánast núll, fór yfir 20%. Það liggur fyrir að verðbólga fyrstu þriggja mánaða þessa árs verður yfir 20%. Lánskjaravísitalan fór að vísu held ég yfir 30%, en þeir breyttu tommustokknum til þess að ná henni

niður aftur. M.ö.o.: Á þessu sviði hefur enginn árangur náðst.
    Það átti að lækka vexti. Nafnvextir lækkuðu að vísu í kjölfar aðgerða fráfarandi ríkisstjórnar og héldu áfram að lækka nokkuð meðan verðbólgan hélt áfram að lækka í kjölfar þeirra aðgerða. En í kjölfar verðlagsstefnu núverandi ríkisstjórnar hafa nafnvextir farið hækkandi á ný. Spariskírteini ríkissjóðs hafa ekki selst á lækkuðum vöxtum. Þau hafa verið seld á útsölu. Í reynd hefur engin raunvaxtalækkun orðið og nafnvextir eru að hækka á nýjan leik vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þriðja höfuðmarkmiðið hefur þannig að engu orðið.
    Í fjórða lagi átti svo að tryggja rekstur grundvallaratvinnuveganna. Og enn stendur að sjávarútvegurinn er rekinn með verulegum halla og það á að stefna að því að taka einn milljarð í viðbót af eigin fé sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu. Það er niðurstaðan af efnahagsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í dag.
    Þetta eru markmiðin fjögur, þetta er árangurinn og þetta er það sem blasir við.
    Það er ástæða til þess að fara hér líka nokkrum orðum um ýmislegt annað það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að aðhafast. Ég nefni hér breytingu á lánskjaravísitölu. Það hefur verið með ólíkindum hvernig að því máli hefur verið staðið. Fyrst ákvörðun um að tengja laun við lánskjaravísitölu. Síðan tillöguflutningur nokkurra stjórnarþingmanna um það að sú skipan mála væri ófullnægjandi og setja þyrfti á fót sérstaka nefnd til þess að finna upp aðra samsetningu vísitölunnar. Loks yfirlýsingar hæstv. viðskrh. sem hnigu í þá veru að það væri óskynsamlegt að tengja launin lánskjaravísitölunni. Þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að það ætti bara að vera ein lánskjaravísitala, en um leið yfirlýsingar hæstv. viðskrh. um að það væri æskilegt að hafa margar lánskjaravísitölur. Og loks sú ákvörðun sem tekin var, og alkunn er, og hefur stofnað viðskiptum í verulega hættu og dregið mjög svo úr öryggi í viðskiptum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn á nú yfir höfði sér umfangsmikil málaferli.
    En hitt er þó kannski athyglisverðast við þessa ákvörðun að ríkisstjórnin gerði samninga við lífeyrissjóðina í landinu, við lífeyrisþegana í landinu, um viðskipti með skuldabréf þrjá fyrstu mánuði þessa árs. Og hæstv. ríkisstjórn samdi um það að gamli vísitölugrundvöllurinn skyldi gilda í þeim samningum. Síðan er þeim grundvelli breytt og hæstv. fjmrh. hefur ekki fengist til þess að staðfesta það hvort ríkisstjórnin ætlar að standa við gerða samninga. Það kom ekki á óvart að hæstv. fjmrh. gæti ekki staðfest það. Það hefur verið megineinkenni á öllum hans málflutningi að fara rangt með staðreyndir, segja ósatt um efni skattafrumvarpa og nú loks að standa ekki við eigin samninga.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í sjónvarpi að sérstök úrskurðarnefnd sem starfar á grundvelli Ólafslaga hefði samþykkt nýju vísitöluna. Hann hafði varla sleppt orðinu er yfirlýsing kom um að það væri rangt.

Mér sýnist því að
hæstv. forsrh. sé að ganga í fótspor hæstv. fjmrh. um vinnubrögð að þessu leyti til líka og er það nú ekki til fyrirmyndar. En það væri fróðlegt að fá skýr svör við því eftir að hæstv. ríkisstjórn hefur haft svo langan tíma til umhugsunar hvort hún ætlar að standa við gerða samninga eða ekki.
    Hæstv. forsrh. vék hér í alllöngu máli að því sem kallaðar eru aðgerðir í efnahagsmálum. Auðvitað er orðið ljóst að það sem hér var lesið og tilkynnt hefur engin raunveruleg áhrif til breytinga á rekstrarskilyrði fyrir atvinnuvegi landsmanna. Ýmislegt í því sem hæstv. ráðherra las þarfnast nánari skoðunar og athugunar. Það er auðvitað göfugt markmið í verðlagsmálum að gæta þar fyllsta aðhalds og hafa umþóttunartíma að því er varðar strangt verðlagsaðhald. Ég get ekki sagt annað en að þetta er göfugt markmið. En hæstv. forsrh. lýsti engum efnislegum ráðstöfunum til þess að hafa aðhald að verðlagsmálum, engum efnislegum ákvörðunum sem miða að því að koma í veg fyrir verðhækkanir, enda er hann forsrh. í fyrstu ríkisstjórn lýðveldisins sem hefur litið svo á verðstöðvun að ríkisstjórnin ein gæti virt hana að vettugi og var ekki að vænta að slík ríkisstjórn kæmi fram með markverðar tillögur í þessu efni. En hitt er auðvitað fallegur ásetningur að koma fram með slíkt aðhald og tilkynningar eða viðurlög við broti á tilkynningarskyldu breyta nú ekki miklu í verðlagsmálum. En það sýndist mér vera eina efnisatriðið sem hæstv. forsrh. kom fram með, viðurlög við broti á tilkynningarskyldu. Það var eina efnisatriðið í verðlagsmálum.
    Það á svo að fela Verðlagsráði að fjalla um gjaldskrár orkufyrirtækja. Hér er nú ekki mikil breyting á ferðinni. Þær hafa verið háðar samþykki ríkisstjórnarinnar að því er varðar ríkisfyrirtæki, en fyrirtæki sveitarfélaganna hafa í einu og öllu virt, svo best ég veit, verðstöðvunina fram til þessa og hafa þannig staðið sig miklu betur. Sveitarfélögin hafa virt verðstöðvunina þó ríkisstjórnin hafi ekki gert það. En opinberu fyrirtækin hafa verið háð samþykki ríkisstjórnarinnar. Nú verða gjaldskrár þeirra og sveitarfélaganna háðar samþykki Verðlagsráðs. En hverju breytir það? Á að breyta einhverju í rekstri þessara stofnana? Hafa verið teknar ákvarðanir um að draga úr fjárfestingu, draga úr þjónustu þannig að koma megi í veg fyrir verðhækkanir eða lækka verð? Hæstv. forsrh. var ekki með neinar tilkynningar þar um. Engar efnislegar breytingar sem leitt geta til annarrar niðurstöðu í verðlagsmálum en fyrirsjáanleg er nema þá að ætlunin sé að fyrirskipa Verðlagsráði að segja nei við verðhækkunum en fyrirskipa svo fyrirtækjunum að halda áfram óbreyttri þjónustu og taka bara erlend lán? Skyldi það vera markmið hæstv. ríkisstjórnar að borga verðbólguna niður með erlendum lánum? Er það hugsanlegt, hæstv. forsrh.?
    Það er nauðsynlegt að fá nánari skýringar við þessi atriði. Og það er líka nauðsynlegt í tengslum við verðlagsmálin að hæstv. forsrh. svari því alveg skýrt hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í tengslum við

búvöruverðið. Hann lýsir því yfir að það eigi að lækka búvöruverð, en fjárlögin sem hann stendur fyrir og ríkisstjórnin í heild gera ráð fyrir því að það hækki núna í mars vegna þess að það skortir á 220 millj. að niðurgreiðslurnar tryggi óbreytt verð. Vill ekki hæstv. ráðherra svara því hér skýrt og skorinort, a.m.k. ef hann ætlar að gera minnstu tilraun til þess að halda því fram að hér hafi verið talað í einhverri alvöru af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?
    Ég get líka tekið undir það ekki aðeins sem gott markmið heldur höfuðmarkmið í þessu þjóðfélagi að það þurfi að lækka vexti. Ég er að sama skapi ekki mjög trúaður á að sá boðskapur sem hæstv. forsrh. flutti hér leiði til einhverra raunverulegra breytinga í þeim efnum því að það er hið efnahagslega umhverfi sem ræður því auðvitað mest hvert vaxtastigið er í þjóðfélaginu. Og ríkisstjórn sem stefnir að því að auka viðskiptahallann er ekki að stefna að því að draga úr vöxtum, lækka vexti. Markmiðið er fallegt. En ég sé ekki að hæstv. ríkisstjórn sé í raun og veru að ná neinum árangri með þessu móti. Hæstv. ríkisstjórn getur sagt: Vextirnir á ríkisbréfum eiga að vera 5%, sem þýðir kannski 6*y1/2*y--7% á öðrum bréfum. Það eru nú nokkuð góðir vextir, of háir vextir að mínu mati. En menn verða auðvitað að horfa á efnahagslega umhverfið og það þarf að ná á þeim vettvangi fram þeim breytingum sem gera það mögulegt að lækka þessa vexti. Ég geri ráð fyrir því að áfram verði seld skuldabréf með afföllum. Og mér sýnist að þó að ríkisstjórnin setji á blað að vextir megi ekki vera nema 5% og kannski 7% annars staðar, þá komi það ekki í veg fyrir það að verðbréf gangi kaupum og sölum á því gengi sem markaðurinn telur nauðsynlegt á hverjum tíma miðað við efnahagsstefnu stjórnarinnar að öðru leyti. Það er einmitt þetta sem hefur verið að gerast undanfarna mánuði. Og það er einmitt af þessum sökum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn --- þrátt fyrir góðan vilja, ég dreg ekki úr því að hún hlýtur að hafa góðan vilja í þessu efni --- hefur engum árangri náð í því að lækka raunvextina. Og mér sýnist flest stefna í að það sama verði uppi á teningnum.
    Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að það væri meginstefna ríkisstjórnarinnar í peningamálum að skipulag bankakerfisins yrði bætt. Þetta er býsna stór yfirlýsing. Skipulag bankakerfisins bætt. En væri nú ekki fróðlegt að fá
nánari skýringu á því hvernig á að bæta skipulag bankakerfisins eða er þetta bara almenn yfirlýsing sem stjórnarflokkarnir eiga svo eftir að takast á um og rífast um? Hvort það eigi að selja Útvegsbankann, leggja Útvegsbankann niður eða hvort ekkert eigi að gera? Hvort það megi hreyfa við Búnaðarbankanum eða það megi ekki hreyfa við honum? Það er ágætt svo sem að hafa þetta á blaði og berja sér á brjóst, en aðgerð er þetta ekki. Og ekki bætir það rekstrarskilyrði sjávarútvegsins, hæstv. forsrh., að setja svona á blað.
    Þá á að fela Seðlabankanum aðhald að nafnvöxtum og eftir því sem ég skildi hæstv. forsrh. að tryggja

það að nafnvextir yrðu í samræmi við ávöxtun á verðtryggðum verðbréfum. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir. Nú get ég tekið undir það að það er eðlilegt að hafa sem mest samræmi í vöxtum og það er slæmt þegar mikill mismunur verður á milli vaxta eftir því hvort menn eru með verðtryggða eða óverðtryggða pappíra. En í fljótu bragði sýnist mér að þessi samræming leiði til þess að nafnvextir hækki talsvert og jafnvel býsna mikið á næstu vikum og væri fróðlegt að fá nánari skýringu á því hjá hæstv. ráðherra hvernig þessi samræming á að fara fram. Hverjir verða nafnvextirnir eftir að þeir hafa verið samræmdir vöxtum á verðtryggðum bréfum? Hvaða afleiðingu hefur það fyrir nafnvaxtaákvarðanir banka og sparisjóða á næstu vikum?
    Svo var það til þess að kóróna boðskapinn að tilkynna það að viðurlög bankanna vegna of mikilla útlána skyldu núna renna í ríkissjóð. M.ö.o.: Þegar atvinnufyrirtækin lenda í vanda, bankarnir freistast til þess að lána meira en góðu hófi gegnir vegna þess að hæstv. ríkisstjórn neitar að leiðrétta rekstrargrundvöllinn, neitar að skrá gengi krónunnar rétt, bankarnir neyðast til þess að lána atvinnufyrirtækjunum meira, sjávarútvegsfyrirtækjunum, þá lenda þeir í smáskuld við Seðlabankann, fá refsivexti og nú eiga þeir að renna í ríkissjóð. M.ö.o.: Það er verið að gera ranga gengisskráningu, hallarekstur atvinnuveganna að tekjulind fyrir hæstv. fjmrh. Það verður gaman fyrir hæstv. sjútvrh. að fara út um land með þennan boðskap. Ég hygg að hann ætti nú að fá sér rautt ljós og ferðast um sjávarplássin og tilkynna fólkinu í sjávarútveginum þennan mikla árangur sem hann hefur náð í að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins.
    Það er ein veigamesta yfirlýsing hæstv. forsrh. að taka refsivextina í ríkissjóð. Því meir sem hæstv. ríkisstjórn falsar gengið, því meir sem hún leggur á bankana aðhald að rekstri atvinnuveganna, því meira á ríkissjóður að græða.
    Ég tók eftir því í ræðu hæstv. forsrh. að það var ein af efnahagsráðstöfununum, sem þeir notuðu jólaleyfið, fjögurra vikna jólaleyfið til að fjalla um, að þeir hefðu ákveðið í hæstv. ríkisstjórn að frumvörpin um verðbréfamarkaði og verðbréfasjóði, sem var fyrsta mál Alþingis, yrði að lögum á þessu þingi. Þeir þurftu sérstakt jólaleyfi, neyðarjólaleyfi, til þess að komast að þeirri niðurstöðu að fyrsta frumvarpið sem hæstv. ríkisstjórn lagði hér fram ætti að verða að lögum á þessu þingi. Það fer nú ekki hjá því að manni komi til hugar að hæstv. ríkisstjórn hafi leitað til einhvers grínista þessar fjórar vikur sem hún hefur setið við að útbúa efnahagsstefnu sína þegar flest er þessu marki brennt.
    Síðan kemur að því að hæstv. ráðherra fer að ræða um tengingu íslenska fjármagnsmarkaðarins við hinn alþjóðlega fjármagnsmarkað. Það er byrjað á því að lýsa því að nú eigi að hverfa frá þeim almennu reglum sem hér hefur verið stuðst við og eru mjög í samræmi við það sem Norðurlöndin hafa búið við í áratugi að því er varðar skipan og ákvarðanir á

fjármagnsmarkaðnum. Það er byrjað á því að tilkynna þetta. Svo er tilkynnt að ríkisstjórnin hafi sérstaklega í huga að sníða íslenska fjármagnsmarkaðinn að þeirri áætlun sem Norðurlöndin hafa nú á prjónunum um frjálsa fjármagnsflutninga. --- Og þá gekk hæstv. forsrh. úr salnum. --- En það stendur þannig á að hæstv. fjmrh. gerði við þessa efnahagsáætlun, sem nú liggur fyrir á vettvangi Norðurlandaráðs, sérstakan fyrirvara að því er varðar frjálsa fjármagnsflutninga. Ég hygg þó að einmitt þetta atriði í efnahagsáætluninni sé kannski sá þáttur sem kunni að hafa mest áhrif á íslenskt atvinnulíf og kynni þegar til lengri tíma er litið að hafa hér jákvæð áhrif, ef við værum tilbúnir til þess að taka þátt í þessu samstarfi. En ríkisstjórnin ákvað að gera um það sérstakan fyrirvara vegna þess að það samræmdist ekki stefnu Alþb. að taka þátt í þessu samstarfi Norðurlandaþjóðanna. Og ekki voru það nú neinir stórkapítalistar sem að þessu stóðu. Engir stórkapítalistar. Þetta voru kratafjármálaráðherrar af hinum Norðurlöndunum upp til hópa. Nei, en það var of frjálslynt fyrir Alþb. og um leið ríkisstjórnina. En nú er tilkynnt að það eigi að aðlaga fjármagnsmarkaðinn hér að því sem Norðurlöndin eru að stefna að. Og því spyr ég: Hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að falla frá þessum fyrirvara? sem ég lít nú svo á að sé til vansæmdar fyrir Íslendinga að hafa gert. En ber að skilja þessi orð svo að íslenska ríkisstjórnin hafi fallið frá þeim fyrirvara sem þarna var gerður? Sé svo, þá er það fagnaðarefni, en ég bendi á að ákvarðanirnar ganga í tvær áttir. Önnur ákvörðunin gengur í þá átt að auka handstýringuna á fjármagnsmarkaðnum og hin ákvörðunin gengur í þá átt að
aðlaga fjármagnsmarkaðinn að því sem gerist á Norðurlöndunum til aukins frelsis og er það nú í samræmi við flest annað sem hér hefur verið borið á borð.
    Hæstv. forsrh. sagði að ákvarðanir yrðu teknar um það að vextir verðtryggðra lána verði fastir, þ.e. óumbreytanlegir. Þetta atriði tel ég vera um margt athyglisvert. Ég hygg að ákvörðun af þessu tagi geti stuðlað að aukinni festu á fjármagnsmarkaðnum. Auðvitað skiptir mjög miklu máli um framkvæmdina og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn hafi ekkert í hyggju í þessu sambandi í líkingu við það klúður sem hún stóð að varðandi lánskjaravísitöluna. En efnislega er það mín skoðun að þarna sé um jákvætt atriði að ræða þó að það sé ekki nein grundvallarbreyting, en það verður að koma hér fram sem jákvætt er.
    Að því er ríkisútgjöldin varðar er hin stóra ákvörðun fólgin í því að nú á að halda mánaðarlega fundi í fjmrn. Er það nú svona og svona gagnlegt að halda fundi, en það er auðvitað að vonum að það hafi tekið ríkisstjórnina langan tíma og hún hafi þurft alveg sérstaklega neyðarlega langt jólaleyfi til þess að komast að þessari niðurstöðu.
    Þá er lýst almennri stefnu í skattamálum: breikka skattstofna og lækka skatthlutföll. Það sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera er að hún hefur

verið að hækka skatthlutföllin. Því hefur verið lýst hér að nú eigi sérstaklega að huga að skattlagningu fyrirtækja, hlutabréfa og þar fram eftir götunum. Þessi ríkisstjórn hefur verið að koma hér fram skattalögum sem íþyngja atvinnurekstrinum í landinu. Ber að skilja orð hæstv. forsrh. svo að allar þær ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn tók hér í skattamálum að því er varðar atvinnufyrirtækin hafi verið rangar og á misskilningi byggðar? Var þetta enn eitt dæmið um það að hæstv. forsrh. var bara ,,plataður"? Hvers vegna er verið að keyra fram í desember skattbreytingar gegn harðri og eindreginni andstöðu hér á Alþingi vegna þess að það var svo augljóst að það væri verið að leggja auknar byrðar á atvinnufyrirtækin, draga úr möguleikum fólks að byggja hér upp eiginfjárstöðu atvinnufyrirtækjanna og koma svo með einhvern nýársboðskap í byrjun febrúar og segja: Við þurfum að lækka skattana á atvinnufyrirtækin. Við þurfum að auðvelda fólki að kaupa hlutabréf. Hvað á þetta að þýða? Hvaða heila brú er í þessari stefnumörkun? Ég fagna því ef mark má taka á þessum nýju yfirlýsingum. En þær verða þá að sjást í verki. Það þýðir lítið að koma hér og keyra hér og þvinga í gegn skattalög sem íþyngja fyrirtækjunum, koma svo nokkrum dögum seinna og segja: Við ætlum að fara að hjálpa fyrirtækjunum með því að lækka skattana. Ef það á að taka mark á hæstv. ríkisstjórn, þá þarf hún að haga gerðum sínum á annan veg og meira í samræmi við þau fyrirheit sem verið er að gefa.
    Það var athyglisvert að hæstv. forsrh. tók hér fram í kaflanum um aðgerðir í þágu íslensks iðnaðar að það ætti að endurskoða vörugjaldið. Það var eitt stærsta deilumálið fyrir jól, höfuðágreiningsefni Sjálfstfl. við ríkisstjórnina að það væri verið að setja á nýtt vörugjald, breyta vörugjaldslögunum til íþyngingar íslenskum iðnaði. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að jólaleyfið, þetta langa, skuli hafa nýst til þess að hæstv. ríkisstjórn hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi allt saman verið rangt, að það hafi verið rétt, sem bent var á af hálfu talsmanna Sjálfstfl., að skattbreytingin íþyngdi íslenskum iðnaði og nú eigi að huga að því að leiðrétta þetta á nýjan leik. Ætli hæstv. forsrh. hafi verið plataður í þessu efni? Og ef svo er, hver skyldi hafa platað hann? ( HBl: Það má alltaf skipta um skoðun ef maður hefur rangt fyrir sér.)
    Hæstv. forsrh. lýsti svo sértækum aðgerðum í þágu sjávarútvegsins, stofnun hlutafjársjóðs, úreldingarsjóðs, sérstakrar þróunardeildar við Fiskveiðasjóð, áformum um gæðaátak og svo tilkynnti hann að ríkisstjórnin hefði enn á ný tekið ákvörðun um lækkun raforkuverðs. Ég held að þetta sé í þriðja skipti sem hæstv. ríkisstjórn tilkynnir ákvörðun sína um lækkun raforkuverðs til frystihúsa og er spurning hvort hæstv. sjútvrh. á ekki að fá leyfi til að tilkynna þetta reglulega á svona þriggja mánaða fresti. Þá gæti hann hringt út á land og sagt: Nú hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að lækka raforkuverð til frystihúsa þannig að afkoma þeirra batni um 0,25%. Þetta er

auðvitað svolítið ruglandi þegar verið er að tilkynna þetta æ ofan í æ en án þess að nokkur regla sé á hlutunum og ég sting upp á því að þeir setji það í lög að á þriggja mánaða fresti fái hæstv. sjútvrh. að tilkynna að þetta sé í vændum og ríkisstjórnin ætli að standa við þetta.
    Hæstv. forsrh. lýsti með almennum orðum áformum um úreldingarsjóð. Það er auðvitað ekki hægt að taka neina endanlega afstöðu til þess boðskapar hér. Mér sýnist þó að það eigi að afla fjár til þessa sjóðs með því að taka þá fjármuni innan úr sjávarútveginum sjálfum. Hér er því ekki verið að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins. Hugsanlega geta komið upp mjög áleitnar spurningar um hverjir eigi þá peninga sem draga á úr öðrum sjóðum inn í þennan nýja sjóð og úr því geta orðið lagaflækjur miklar. Það ber auðvitað að hafa líka í huga að þegar hæstv. sjútvrh. kynnti fiskveiðistefnuna sem nú er í gildi, kvótastefnuna sem svo hefur verið nefnd, var einn megintilgangurinn með
þeirri breytingu sá að stuðla að samruna og aukinni hagræðingu í sjávarútveginum. Það átti með þessari breytingu, með almennum aðgerðum, að knýja fram fækkun fiskiskipa. Nú kemur hæstv. sjútvrh. og segir: Nú þurfum við að stofna nýjan sjóð til að ná þessu markmiði. Og ég sé ekki betur en að hann sé að kveða upp þann dóm yfir sinni eigin fiskveiðistefnu að hún hafi ekki náð því meginmarkmiði sem lýst var þegar haldið var af stað. Og það þarf auðvitað að skoða þessi áform um úreldingarsjóð í þessu ljósi.
    Um hlutafjársjóðinn vil ég aðeins segja það að ég er þeirrar skoðunar að veruleg þörf sé á því að gera sérstakt átak í þjóðfélaginu til þess að auka eigið fé í atvinnufyrirtækjum landsmanna. Það er sú hugmynd sem Sjálfstfl. og Kvennalistinn stóðu að í þessu efni, að miða að því að slíkur sjóður yrði settur á fót í tengslum við Byggðasjóð, að komið yrði upp atvinnumálanefndum í kjördæmum með þátttöku aðila vinnumarkaðarins. Þetta mátti ríkisstjórnin auðvitað ekki heyra á minnst, að fólkið í landshlutunum fengi eitthvað um þessi mál að segja. Nei, allar tillögur þar um voru felldar. Allar tillögur um að verkalýðshreyfing og atvinnurekendur fengju að koma þar að voru auðvitað felldar og ríkisstjórnin ákvað að yfir slíkum sjóði ætti aðeins að sitja þriggja manna nefnd þar sem hæstv. forsrh. skipaði alla. Og nú sýnist mér samkvæmt orðum hæstv. forsrh. að þeir sjóðir sem eiga peninga inni hjá atvinnufyrirtækjunum eigi sérstaklega að kaupa hlutdeildarbréf. Ég átta mig ekki alveg á því hvert hæstv. ráðherra er að fara. Það verður auðvitað að skoða miklu betur þegar það mál kemur í útfærðu formi frá hæstv. ríkisstjórn, en auðvitað bendir margt til þess að hæstv. ríkisstjórn ætli að nota þennan sjóð með allt öðrum hætti en upphaflegar hugmyndir voru um þegar tillagan var sett fram í upphafi. En það skýrist auðvitað þegar nánari grein verður gerð fyrir þessu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Aðalatriðið er þó þetta: Það verður að byrja á því að gera almennar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn. Ef þær ráðstafanir eru ekki gerðar og

almennur rekstrargrundvöllur fyrir þessa atvinnugrein er ekki tryggður koma ráðstafanir af þessu tagi að mjög litlu haldi. Eigið fé heldur áfram að brenna upp, tapreksturinn heldur áfram og það þarf að koma með nýjan hlutabréfasjóð eftir örskamman tíma. Og eftir hversu langan tíma á að koma með nýjan hlutabréfasjóð, því að þetta hlutafé brennur upp á örskömmum tíma? Þess vegna verður að gera þá höfuðkröfu að hin almennu rekstrarskilyrði séu leiðrétt. Það dugar ekkert annað. Allt annað verður kák. Allt annað leiðir til þess að sjávarútvegurinn lamast í landinu. Það er auðvitað hægt að halda honum gangandi með svona millifærslum. Ef menn trúa því að hægt sé að leggja skatta endalaust á neysluna í þjóðfélaginu til þess að halda uppi sjávarútveginum geta menn gert þá tilraun. Afleiðingarnar verða hins vegar skelfilegar vegna þess að verðmætin eru sköpuð í sjávarútveginum og sjávarútveginum verður auðvitað ekki haldið gangandi með millifærslum og skattheimtu á aðra aðila vegna þess að verðmætin verða til í sjávarútveginum. En það er eins og hæstv. fjmrh. fáist ekki til þess að gera sér grein fyrir því, vilji ekki gera sér grein fyrir því á hverju íslenska þjóðin lifir. (Gripið fram í.) Og Framsfl. vill ekki styggja hæstv. fjmrh. og tekur því á sig ábyrgð af þessari stefnu. Og það líður auðvitað ekki á löngu þar til best reknu fyrirtækin í sjávarútveginum eru komin í þessa sömu stöðu.
    Sem betur fer eigum við mörg vel rekin fyrirtæki í sjávarútveginum, fiskvinnslufyrirtæki sem eru vel rekin og hafa jafnvel skilað hagnaði löngu eftir að mörg hús voru farin að tapa stórlega. En hæstv. ríkisstjórn segir sem svo: Okkur kemur ekkert við hvað verður um best reknu fyrirtækin í þessu landi. Þau eiga bara að fara á hausinn smám saman. Við ætlum að bíða eftir því að þau verði komin í skussaflokkinn þannig að við getum tekið þau inn í sjóðakerfið okkar af því að við getum ekki hugsað okkur, segir hæstv. ríkisstjórn, að hér starfi fyrirtæki með eigið fé sem hafi hagnað og ágóða af starfsemi sinni. Það eru einmitt þessi fyrirtæki sem skapa verðmætin, það eru þessi fyrirtæki sem tryggja það að við getum bætt lífskjör fólksins í landinu. Svo er hæstv. ríkisstjórn að tala um það að hún vilji hafa gott samráð við launafólkið í landinu og launþegasamtökin. Þegar hún er að vega að rekstrargrundvelli best reknu fyrirtækjanna, þangað sem við eigum að sækja bætt lífskjör, þá á markvisst að keyra þau niður í sama svaðið. Og hæstv. sjútvrh. ætlar að fara með þann boðskap út um landið að að því sé nú stefnt að öll fyrirtæki komist á endanum inn í náðarfaðm sjóðakerfisins.
    Frú forseti. Ég hef hér með nokkrum almennum orðum vikið að því sem fram kom í tilkynningu hæstv. forsrh. Niðurstaðan af þessu er sú að sjávarútvegurinn á Íslandi er áfram rekinn með verulegum halla. Það er stefnt að því að eignaupptakan verði um 1 milljarður kr. með þessum efnahagsráðstöfunum. Það er stefnt að því að auka viðskiptahallann. Það er stefnt að því að þrýsta á um

vaxtahækkanir með almennum efnahagslegum ráðstöfunum vegna þess að viðskiptahalli þrýstir á vextina en leiðir ekki til þess að dregið verði úr þeim. Hinar sértæku ráðstafanir sem hér hafa verið kynntar, mjög óljóslega og óútfærðar, breyta engu um það að rekstur sjávarútvegs og iðnaðar er enn í halla. Það er áfram stefnt að hallarekstri á íslensku atvinnulífi. Það er sú
hætta sem við stöndum frammi fyrir. Og það er sú stjórnarstefna sem þarf að breytast.