Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Enn eina ferðina erum við komin saman hér í sölum hins háa Alþingis til að ræða um efnahagsmál og eflaust verður það aðalviðfangsefni hins háa Alþingis svo lengi sem við byggjum þetta land. Það læðist hins vegar að mér sá grunur að ef við töluðum svolítið minna og gerðum meira væru kannski efnahagsmálin ekki í eins miklum ólestri og þau virðast vera hér ævinlega.
    Við höfum nú heyrt, bæði í máli hæstv. forsrh. og í máli hv. þm. Þorsteins Pálssonar, rætt mjög um afkomu þjóðarbúskaparins og um afkomu atvinnuveganna. Það er hins vegar eitt sem mér finnst gleymast í allri þessari umræðu. Það minnist enginn á afkomu fólksins í landinu. Hver er afkoma lágtekjuhópanna í dag? Hver af afkoma barnafjölskyldnanna í dag? Og hver er afkoma ellilífeyrisþeganna? Það er eins og það hafi enginn áhuga á að velta því fyrir sér. Að sjálfsögðu byggir afkoma fólksins á því hver afkoma fyrirtækjanna er og því ber okkur skylda til að reyna með öllum ráðum að tryggja hagstæð ytri skilyrði fyrir allan atvinnurekstur í landinu. Ef ytri skilyrði eru góð og rekstrargrundvöllur er tryggður batnar að sjálfsögðu afkoma fólksins. Síðast í þessari röð kemur síðan afkoma ríkissjóðs og kerfisins. Því miður virðist nú vera sú stefna uppi að raða þessu upp í þá röð að fyrst eigi að fjalla um afkomu ríkissjóðs og kerfisins, síðan eigi að fjalla um afkomu atvinnufyrirtækjanna og svo síðast eigi að fjalla um afkomu fólksins. Hún skiptir minnstu máli, því miður, virðist mér, samkvæmt þeirri umræðu sem hér fer fram.
    Það er alveg ljóst að eins og nú er ástatt í íslensku efnahagslífi eru stórir hópar fólks sem hafa mjög slæma afkomu. Það er hægt að tala um meðaltalskaupmátt sem sé mjög hár og að hann hafi kannski verið allt of hár núna upp á síðkastið og maður talar nú ekki um afkoma tekjuhærri hópa þjóðfélagsins sem hafa meira en meðaltalskaupmáttinn. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Það er hins vegar gífurlega stór hópur fólks sem hefur mjög slæma afkomu og við verðum að hugsa um þann hóp líka.
    Við erum vitni að því hér eina ferðina enn að fulltrúar gömlu flokkanna standa uppi í hárinu hver á öðrum til þess að fjalla um slæma afkomu ríkissjóðs og slæma stjórnun á ríkinu, bæði nú og undanfarin ár. Það er mjög fróðlegt fyrir okkur, fulltrúa hinna nýju stjórnmálaafla á þingi, að vera vitni að þessari umræðu sem fer fram hér nærri óslitið dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð meðan Alþingi situr þar sem fulltrúar gömlu stjórnmálaflokkanna, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., eru að kenna hver öðrum um hve illa er komið. Það þarf ekki að fara langt aftur á bak til þess að sjá hvernig það hefur farið með efnahagsástand þjóðfélagsins og er sérstaklega fróðlegt að virða það fyrir sér. Ég er hérna með upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun um afkomu sjávarútvegs. Þar er greint frá virðismati aflafengs á árunum 1965 fram til 1987. Virðismat aflafengs, ef

hann er mældur í dollurum, segir að ef árið 1973 er sett á töluna 100 er virðismat aflafengs í dollurum 1985 komið í 300 og aðeins tveimur árum seinna í 600 þannig að virðismat aflafengs hefur tvöfaldast á árunum 1985--1987. Í SDR-einingum er þetta svipað. Þar er virðismat aflafengs 1973 100, virðismat aflafengs 1985 300 og virðismat aflafengs 1987 500 sem sýnir okkur að dollarinn fór lækkandi á árunum 1985--1987. En þetta er svo gífurleg aukning á raunvirði aflafengs Íslendinga á þessum árum að það er von að spurt sé: Hvað varð um þetta allt saman? Hvert fór þetta allt saman? Hvað varð um góðærið?
    Það er líka fróðlegt að rifja upp hvernig fjárhagur ríkisins var þessi ár. Ef við rifjum upp, þá skilaði þáv. fjmrh., hv. þm. Albert Guðmundsson, fjárlögum fyrir 1986 með tekjuafgangi upp á líklega 200 millj. eða svo, ég man það ekki gjörla en hv. þm. mun eflaust leiðrétta það ef rangt er með farið, en hann, sem öllum er kunnugt, var fluttur til í ríkisstjórninni haustið 1985 úr embætti fjmrh. í embætti iðnrh. og við tók hv. þm. Þorsteinn Pálsson sem skilaði síðan afkomu ríkissjóðs árið 1986 með tæplega þriggja milljarða tekjuhalla. Við tók síðan hæstv. núv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sem var fjmrh. við myndun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar vorið 1987, en í tíð hans varð fjárlagahallinn fyrir árið 1987 um 5 milljarðar kr. Síðan er það núna gjört heyrinkunnugt að fjárlagahallinn fyrir árið 1988 er kominn í rúmlega 7 milljarða kr. Og þetta gerist þegar eitthvert mesta góðæri sem nokkurn tíma hefur komið á þessu landi er að baki, þ.e. þegar virðismat aflafengs, hvort sem það er mælt í dollurum eða í SDR-einingum, margfaldaðist á örskömmum tíma. Það er skelfilegt að horfa til þess hvernig hefur verið farið með góðu árin.
    Rótin að þessari meinsemd er að sjálfsögðu ríkisbáknið. Ég hef oft kallað það ríkisófreskjuna sem er gjörsamlega komin úr böndum. Það ræður enginn við hana lengur. Þetta er því miður ekkert einstakt fyrirbæri fyrir Íslendinga. Þetta virðist vera mjög svipað ástand og er víðast hvar í Vestur-Evrópu, að stjórnmálamönnum hefur gjörsamlega mistekist að hemja ríkisófreskjuna. Þeir ráða ekki við hana lengur. Það er skylda okkar, alþingismanna sem nú sitja á Alþingi, að leggjast allir á eitt að reyna að koma böndum á þessa ófreskju.
Við verðum, með samstilltu átaki, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að leggjast á eitt við það að reyna að hemja ófreskjuna. Það verður að fara rækilega ofan í saumana á ríkisrekstrinum og endurskipuleggja allt ríkiskerfið frá grunni ef á að nást árangur í þessari baráttu. Hún getur tekið langan tíma og kostað mikil átök. Við teljum, fulltrúar Borgfl., að það sé hægt að gera stóra hluti í þessum efnum ef farið væri af alvöru í þennan slag og við erum tilbúnir til þess hvort sem er í stjórnarandstöðu eða í ríkisstjórn.
    Eitt af því sem við teljum að sé nauðsynlegt og verði að gera breytingar á er með hvaða hætti fjárveitingum er varið til hinna ýmsu málaflokka og hvernig fjárveitingum er deilt út. Miðstýringin eins og

hún hefur þróast í ríkisrekstrinum, þar sem öllu er ráðstafað héðan frá Reykjavík, þ.e. niður í smæstu einingar. Fjvn. Alþingis situr hér dag eftir dag, mánuð eftir mánuð við að útdeila 5000 kr. til skóla hér og þar og til smáverkefna út um allt land, verkefna sem heimamenn væru miklu betur færir um að ráðstafa og vinna að sjálfir. Þess vegna höfum við lagt mikla og ríka áherslu á að það verði að efla heimastjórn landshlutanna, gera heimamenn ábyrgari fyrir sínum eigin málum og fela þeim að fara með sín eigin verkefni og dreifa þeim fjármunum sem eru ætluð til hinna ýmsu verkefna í hinum ýmsu landshlutum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, og þar byggi ég á langri reynslu minni sem sveitarstjórnarmaður, að heimamenn mundu fara miklu, miklu betur með þá fjármuni sem þeir fengju til umráða með þessum hætti, þeir mundu nýta þá miklu betur en nú þekkist. Með þessum hætti væri hægt að ná verulegum sparnaði í ríkisrekstrinum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það.
    Þá þarf í leiðinni að einfalda ríkiskerfið. Ríkiskerfið er orðið allt of flókið. Það er orðið svo flókið að almenningur skilur ekki lengur upp né niður í því hvað er að gerast. Þegar svo er komið er komið út á hættubraut. Þetta er eitt af þeim viðfangsefnum sem við verðum að leggja höfuðáherslu á á næstunni og á næstu árum, að leggjast öll á eitt við að leysa þetta viðamikla og erfiða verkefni.
    Þá langar mig til að fara nokkrum orðum um stöðu iðnaðarins, en samkeppnisiðnaðurinn, iðnaðurinn á Íslandi virðist vera, í mínum huga, að verða einhver munaðarleysingi. Það er eins og enginn vilji annast iðnaðinn á Íslandi. Það er eins og enginn hafi áhuga á því að hér sé iðnaður yfirleitt. Menn eru að tala um að iðnaður eigi heima í Suður-Evrópu á láglaunasvæðunum, hann eigi jafnvel að flytjast til Afríku, hann eigi kannski að flytjast til Austurlanda fjær af því að þar eru launin svo lág. Við eigum ekkert að vera að leggja áherslu á iðnað hér á Íslandi lengur, við séum hálaunasvæði og við eigum að vera í einhverju allt öðru. Ég veit ekki í hverju allt öðru við eigum að vera. En það eru mjög margir, því miður, sem virðast halda að þjóðin geti lifað á því að veiða fisk og selja fisk og umfram það eigi svo hinir að vera í einhverjum fjármagnsleik, þeir eigi að vera í því að færa peninga á milli sparisjóðsbóka eða vera í því að kaupa alls konar bréf og fá af því vexti. Menn halda að stór hluti þjóðarinnar og atvinnulífsins geti lifað af þessu. Það er alveg ótrúlegt að heyra þessar hugmyndir manna þegar verið er að tala um fjármagnsmarkaðinn á Íslandi.
    Nú er svo komið að samkeppnisiðnaðurinn berst ekkert síður í bökkum en sjávarútvegurinn. Og ég vil biðja menn að gleyma því ekki þegar verið er að ræða um efnahagsmál á Íslandi að það er fleira til en sjávarútvegur. Samkeppnisiðnaðurinn er kannski sá vaxtarbroddur sem getur tekið við þeim sem koma hér til leiks í atvinnulífinu. Það er takmarkað sem sjávarútvegurinn og fiskvinnslan getur tekið við af nýju fólki, sérstaklega þegar horft er til þess að mörg

störf í sjávarútvegi eru erfið og eru ekki eftirsóknarverð þannig að víða hefur það tíðkast að þurft hafi að manna frystihús og fiskvinnsluhús með erlendum starfskröftum.
    Því aðeins að hægt verði að koma traustari fótum undir samkeppnisiðnaðinn er von til þess að hægt verði að ráðast að viðskiptahallanum, en önnur höfuðmeinsemdin í íslensku efnahagslífi er hinn gífurlegi viðskiptahalli sem vex og vex. Hann er orðinn einn hluti af ófreskjunni sem ekkert ræðst við.
    Það er annars ótrúlegt að mörg undanfarin ár hefur mér virst ástandið vera þannig að flestar okkar aðgerðir hafa miðast við það að lagfæra skilyrði innflutningsverslunarinnar. Nú er það alveg ljóst að hagkvæm innflutningsverslun er eitt af því nauðsynlegasta sem hægt er að tala um í íslensku efnahagslífi vegna þess að íslenska þjóðin er svo háð innflutningi, bæði á hráefni og fullunnum vörum, vegna þeirrar atvinnustarfsemi sem hér fer fram að auðvitað verður innflutningsverslunin að vera eins hagkvæm og unnt er. Það verður að skapa henni hagstæð rekstrarskilyrði. En það má ekki vera á kostnað útflutningsverslunarinnar þannig að iðnaðurinn sé látinn vera einhver hornreka hér í atvinnulífinu og það skipti engu máli hvort hann leggi upp laupana og menn segi sem svo: Við flytjum þennan iðnað bara til Austurlanda fjær eða suður í Afríku. Við þurfum ekkert að vera með neinn iðnað hér á Íslandi.
    Hér var aðeins vikið að skipasmíðum í ræðum hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteins Pálssonar áðan. Einhver mesta sorgarsaga sem hefur átt sér stað í íslensku atvinnnulífi undanfarin ár er hvernig íslenski skipasmíðaiðnaðurinn hefur nánast horfið, má segja. Ástandið er þannig nú að það eru ekki nema nokkrir mánuðir í það að ekki verði smíðuð skip hér á Íslandi framar og þá er kannski skammt í það að ekki fari heldur fram neinar viðgerðir á skipum framar á Íslandi. Það getur orðið til þess að við verðum algjörlega að treysta á skipasmíðar í Afríku, í Austurlöndum fjær og sömuleiðis að senda allan flotann okkar til viðgerða eitthvað langt út í heim. Er það ástand sem menn vilja koma á hér?
    Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því hér í útvarpi að tvö útflutningsfyrirtæki, sem hafa sérhæft sig í framleiðslu á ýmsum búnaði og tækjum í sambandi við sjávarútveg, fyrirtækin Meka og Marel, hefðu gert mjög athyglisverða útflutningssamninga, m.a. við Sovétríkin og reyndar við Skotland eða Hjaltlandseyjar. Þetta er ljós punktur í því dimmviðri efnahagsmála sem við erum í þessa stundina og sýnir að þetta er hægt. Ef við viljum, þá getum við náð árangri í útflutningi á íslenskum iðnaðarvörum, einkum þó og sér í lagi iðnaðarvörum sem tengjast sjávarútvegi því að þar er þekking okkar hvað mest, þar getum við eitthvað gert og þar kunnum við eitthvað dálítið fyrir okkur.
    Hér áðan var vikið að því að erlendir ráðgjafar hefðu verið fengnir til þess að gera úttekt á stöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar. Ég hef séð frumdrög að þessari skýrslu frá breska ráðgjafarfyrirtækinu

Appledore sem er full svartsýni og lýsir því nánast yfir, sem kannski var vilji þeirra sem pöntuðu skýrsluna, að það sé engin framtíð fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. M.a. er í þessari ágætu skýrslu talað um að einkum beri okkur að forðast að reyna að ná mörkuðum fyrir íslensk fiskiskip í Arabalöndum. Er nánast ráðið eindregið frá því að vera nokkuð að fikta við slíkt.
    Nú vill svo til að eitt íslenskt skipasmíðafyrirtæki hefur náð bindandi samningi um smíði 14 togskipa hjá einu Arabalandi, þ.e. Dubai, sem er eitt Sameinuðu furstadæmanna, sem hefur gert samninga um að smíðuð verði 14 togskip eftir teikningunni af Hólmadrangi sem er vel þekkt og mjög traust og gott fiskiskip í íslenska flotanum. Þetta sýnir það að þetta er hægt. Það er hægt að fara þarna niður eftir og ná í tugi skipasmíðasamninga ef við bara nennum og ef við viljum. En ef við viljum ekki neitt, ef við viljum engan iðnað á Íslandi, þá verður auðvitað ekkert af þessu. Það er búið að ná samningum um samstarf við egypskar skipasmíðastöðvar sem vilja annast þessa smíði með Íslendingum. Og það sem athyglisvert er í þessu sambandi er að hin egypska skipasmíðastöð, sem er reiðubúin til samstarfs, er búin að gera bindandi samning um það að smíða fullbúið fiskiskip eftir teikningu Hólmadrangs fyrir langtum lægra verð en verið er að smíða fyrir íslenska útgerðarmenn í Noregi, sambærileg fiskiskip.
    Það er saga út af fyrir sig hvernig Noregur og norskir aðilar hafa verið í óheiðarlegri samkeppni við Íslendinga, ekki bara í sambandi við fiskiskipasmíðar heldur nánast á öllum sviðum. Norðmenn eru með ríkisstyrktan iðnað, bæði hvað varðar fiskiskipasmíði og á sviði búnaðar fyrir sjávarútveg, og ég tel að það sé gjörsamlega fráleitt að við séum með eðlileg viðskipti við Norðmenn meðan á þessu stendur. Ég tel sjálfsagt að setja einhverjar viðskiptahömlur á innflutning frá Noregi meðan þeir standa í ólögmætri samkeppni við íslenskan iðnað.
    Þá langar mig til að fjalla hér aðeins um banka- og viðskiptamál. Við höfum nú gengið í gegnum gífurlegar hremmingar í peningamálum. Hér hefur verið við lýði það sem oft hefur verið kallað peningastefna Seðlabankans en hún virðist byggja á því að hér geti raungengi íslensku krónunnar haldið áfram að vaxa mánuð eftir mánuð, raunvextir megi gjarnan verða einhverjir þeir hæstu sem þekkjast í heiminum og ef fyrirtækin geta ekki lifað við þetta ástand, þá sé bara þar um að kenna að þau séu svo illa rekin og þau eigi þá bara að fara á hausinn. Þetta virðist hafa verið sú peningastefna sem hefur verið við lýði undanfarna marga, marga mánuði. Það er kominn tími til að við gerum okkur það ljóst að vaxtastig í einu þjóðfélagi hlýtur að byggjast á því hvað atvinnulífið þolir, undir hverju atvinnulífið getur staðið. Ef atvinnulífið á Íslandi getur ekki staðið undir hærri raunvöxtum en 4--5%, þá þýðir ekkert að tala um að hafa hér hærri raunvexti en 4--5%. Vextir í þjóðfélaginu hljóta að taka mið af því hvað atvinnulífið ræður við, hvað atvinnulífið þolir. Eða

hvað vilja menn? Vilja menn ekkert atvinnulíf? Vilja menn einfaldlega einhvern peninga- og vaxtaleik? Og hvaðan eiga þá peningarnir upphaflega að koma? Það virðist enginn spyrja að því. Það er sorglegt að horfa upp á það hvernig eigið fé fyrirtækjanna hefur breyst í vaxtatekjur hjá tiltölulega fámennum hópi sem hefur verið í fjármagnsleik í marga, marga undanfarna mánuði. Það er kominn tími til að stöðva þetta.
    Þá langar mig til að koma aðeins inn á húsnæðismál en þau skipta verulegu máli í efnahagskerfinu. Nú er svo komið að við sitjum uppi með þvílíkt
húsnæðislánakerfi að öll þjóðin er orðin staðráðin í því að byggja yfir sig nýtt húsnæði á fimm ára fresti eða svo. Hvernig má þetta verða áfram? Er einhver skynsemi í því að allir geti gengið að niðurgreiddum húsnæðislánum, hvort sem þeir sitja í dýrum eignum eða ekki? Ég og nágranni minn, sem erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í góðum og traustum einbýlishúsum, við höfum stundum verið að tala um það að þetta kerfi sé svo fáránlegt að við getum í sjálfu sér gert samning um það að kaupa hús hvors annars. Síðan getum við sótt um húsnæðislán og þegar við erum búnir að fá lánsloforðin, því að við eigum fullkominn rétt á því eins og aðrir, þá getum við selt þessi lánsloforð hjá einhverjum fjármagnsfyrirtækjum sem kaupa þau með afföllum. Þannig gætum við stórlega hagnast á þessu kerfi eins og það er rekið.
    Þetta verður að breytast. Við verðum að fara út í það að huga fyrst og fremst að þeim sem minna mega sín í þessu tilliti. Við eigum að láta húsnæðislánakerfið númer eitt vera miðað við þarfir þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð og svo þeirra sem þurfa á aðstoð að halda af félagslegum ástæðum. Hinir hljóta að geta bjargað sér með því að fara í gegnum bankakerfið eða það verði myndaðar sérstakar húsnæðislánastofnanir þar sem þeir geti fengið hagstæð lán en á markaðsvöxtum.
    Hér hefur mikið verið rætt um yfirlýsingu í efnahagsmálum og er margt merkilegt í henni að sjá og heyra. Margt gæti betur farið eins og gengur, en að sjálfsögðu er eftir að sjá hvernig hún lítur út í smáatriðum og við komum til með að fjalla nánar um það þegar frumvarpið lítur dagsins ljós og við förum að fjalla um það hér á hinu háa Alþingi. Það er eitt sem mér finnst að verði að vera kjarni þeirra aðgerða sem eru væntanlegar.
    Í fyrsta lagi verður að grípa til almennra aðgerða til að vernda kaupmátt launþega og þá fyrst og fremst lágtekjuhópanna og barnafjölskyldnanna og gamla fólksins. Það er meginatriðið. Þá vil ég ítreka það enn þá einu sinni, en við höfum margoft bent á nauðsyn þess, að það verður að koma til móts við fjölskyldur og einstaklinga sem eru í nauðum vegna þeirrar peningastefnu sem hefur verið rekin undanfarið með beinni aðstoð til skuldbreytinga í bönkum og sparisjóðum og hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar á ég m.a. við greiðsluerfiðleikalánin sem hafa skilað verulegum árangri. En það er ekki síður nauðsynlegt að hjálpa mörgum þeim einstaklingum og fjölskyldum

sem hafa lent í gífurlegum fjárhagserfiðleikum þó að ekki sé vegna húsnæðiskaupa. Þess vegna verður að koma til aðstoð við þetta fólk og það verður að koma því til leiðar að bankakerfið geti tekið að sér að hjálpa þessu fólki með skuldbreytingum svo að það komist úr skuldasúpunni.
    Ég hélt því fram í upphafi máls míns að ef við töluðum svolítið minna og gerðum meira, þá kannski næðum við betri árangri í efnahagsmálum. Þess vegna ætla ég ekki að flytja mjög langa ræðu í þessum umræðum á hinu háa Alþingi um efnahagsmál og tilkynningu hæstv. forsrh. hjá ríkisstjórninni, en mig langar að lokum til að vitna í yfirlýsingu sem aðalstjórn Borgfl. samþykkti á fundi sínum á Selfossi sl. laugardag. Í henni segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Borgfl. hefur gengið til viðræðna við stjórnarflokkana um myndun nýrrar ríkisstjórnar í ljósi þeirra erfiðleika sem blasa við í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Aðalstjórn Borgfl. leggur áherslu á að það verði kannað til þrautar hvort hægt er að ná samstarfi við núverandi stjórnarflokka um ríkisstjórn.`` --- Það verði kannað til þrautar. Tíminn líður nú ört og við teljum að ef ekki fáist botn í þessar viðræður nú í dag eða á allra næstu dögum, þá þýði ekkert að halda þeim áfram. En með tilvísan í þessa yfirlýsingu höfum við viljað kanna þetta til þrautar, en auðvitað fer svo að lokum að það verða að fást úrslit í þessu máli.
    Annað mundi ég vilja segja um leið og ég vitna hér áfram í yfirlýsingu aðalstjórnar Borgfl. Ef ríkisstjórnin hefur ekki þor og vilja til þess að taka á og leysa vandamálin, þá eigum við ekkert erindi í slíka ríkisstjórn. Ef ekki verða gerðar þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem duga er ljóst að þá verður algert hrun fram undan hjá mjög mörgum atvinnufyrirtækjum, einkum þó í útflutningsgreinunum, og atvinnuleysi og upplausn heilla byggðarlaga er þá á næsta leiti. Það er þess vegna sem við höfum lagt alla áherslu á að kanna til þrautar hvort ná megi breiðri samstöðu um að takast á við vandamálin og leysa þau, að mynda hér ríkisstjórn sem hefur þor og vilja til þess að framkvæma það sem þarf að gera til þess að koma atvinnulífinu á lappirnar aftur í þessu þjóðfélagi. ( EgJ: En nýja stefnan hjá Steingrími?) Hálfkák og máttlausar aðgerðir sem einungis halda líftórunni í sjúku atvinnulífinu án þess að lækna það eru marklausar. Það verður að styrkja samkeppnisiðnaðinn og útflutningsfyrirtækin með raunhæfum aðgerðum og ráðast að viðskiptahallanum. Þetta er kjarni málsins. Ef ekki er hægt að knýja fram lækkun á raungengi íslensku krónunnar með vaxtalækkun og verðlagslækkunum er ekki annarra kosta völ en fella gengið verulega. Eina leiðin til þess að bæta fólkinu í landinu þá kjaraskerðingu sem af því hlýst er að lækka verð matvæla og annarra nauðsynja svo að um munar. Ef ekki fæst niðurstaða í þessum viðræðum Borgfl. og stjórnarflokkanna sér aðalstjórn Borgfl. ekki aðra leið en reyna að ná
samstöðu um raunhæfar aðgerðir að loknum alþingiskosningum. Að öðrum kosti munu heimilin

halda áfram að berjast í bökkum og atvinnulífinu heldur áfram að blæða út.