Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Við höfum nú heyrt upp lesinn endurnýjaðan stjórnarsáttmála og mann sundlar nú við nýjungarnar. Hann er nýendurskoðaður, athugaður, kannaður og með hugsanlegum lausnum á hinum ýmsu vandamálum, almennt orðalag um það sem hæstv. ríkisstjórn stefnir að að gera í framtíðinni til hagsbóta fyrir land og lýð. En enn um sinn verða þegnar þó að bíða. Bráðum, bráðum koma aðgerðir. Og fólkið bíður og bíður og er langþreytt á biðinni eftir varanlegum lausnum á vanda allra undirstöðuatvinnuvega okkar. Þær eru ekki í sjónmáli enn, aðeins kák og skammtímalausnir.
    Á sl. hausti þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sagði af sér áttu forsvarsmenn núv. ríkisstjórnar varla nógu sterk orð til að lýsa því hve mjög lægi á að mynda nýja ríkisstjórn vegna vanda atvinnuveganna og yfirvofandi stöðvunar alls atvinnulífs í landinu. Víst er það rétt að sá vandi var mikill og hann er mikill enn þrátt fyrir fjögurra mánaða setu ríkisstjórnarinnar á valdastóli. Hún hóf feril sinn með bráðabirgðaaðgerðum sem síðan átti að fylgja eftir með varanlegri aðgerðum til að tryggja rekstur fyrirtækja og atvinnulífsins í heild. Síðan hefur lítið gerst og almenningur gerist nú langþreyttur á biðinni eins og ég sagði áðan og allir hljóta að spyrja: Hvers vegna er svo lítið aðhafst?
    Ég held að orsökin sé fyrst og fremst sú að ríkisstjórnin nær ekki saman, kemur sér ekki saman um eitt eða neitt og tíminn fer í hlaup út um alla móa í leit að stjórnarstefnu sem ekki hefur fundist enn. Aðgerðir hennar í vandamálum ýmissa atvinnugreina bera þess ljósan vott að stefnuna vantar.
    Þegar Alþingi kom saman eftir áramótin var til umfjöllunar frv. um Tryggingasjóð fiskeldis og var mikill þrýstingur frá ríkisstjórninni um að Alþingi gerði sitt til að flýta afgreiðslu þess máls til að leysa vanda þessa atvinnuvegar sem helst er nú horft til og vonir bundnar við að verði veruleg lyftistöng atvinnulífs og afkomu. Málið var afgreitt frá Alþingi, en enn hafa ráðherrar ekki haft manndáð í sér til að skipa menn í stjórn sjóðsins svo að enn situr allt við það sama.
    Þegar rætt er hér um efnahagsmál er ekki úr vegi að líta á hver staðan er. Þjóðarframleiðslan hefur verið mikil og þjóðartekjur háar þó að þær hafi eitthvað dregist saman. En þrátt fyrir góðæri eru útflutningsatvinnuvegirnir á heljarþröm og atvinnulíf að hruni komið víða á landsbyggðinni. Ýmsar iðnaðargreinar eru að tapa fótfestunni. Gjaldþrot eru tíðari en nokkurn tíma hefur sést og gífurleg eignatilfærsla er nú í þjóðfélaginu. Orsakir þess eru ýmsar, t.d. rangar fjárfestingar og röng gengisstefna sem hefur bitnað harðast á útflutningsatvinnuvegunum og þar með á landsbyggðinni sem byggir atvinnu sína að miklu leyti á þeim.
    Undanfarnar vikur hefur verið hávær umræða um gengismál og þátt þeirra í hvernig komið er í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Þróun gengis og verðlags á erlendum mörkuðum á vitanlega mikinn

þátt í hvernig komið er og það er því ekki að undra þó að hinn svokallaði gengisfellingarkór sé hávær. Krafan um lækkun gengis er eðlileg því að staða útflutningsatvinnuveganna verður því aðeins bætt að þeir fái auknar tekjur og geti bætt rekstrarstöðu sína því að gengið verður að vera skráð þannig að útflutningsatvinnuvegirnir hafi nokkuð stöðug starfsskilyrði.
    Þær raddir heyrast oft sem telja gengisfellingu enga lausn vegna þess að hún hækki erlendar skuldir. Staða fyrirtækja er vissulega mjög misjöfn hvað þetta varðar og sum kunna að fara illa út úr aðgerð sem þeirri að fella gengið, en auknar tekjur hljóta þó að auðvelda þeim að greiða niður skuldirnar. Við kvennalistakonur viðurkennum þessi sjónarmið og höfum fallist á að óhjákvæmilegt verði að fella gengið. Ýmsir og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. hafa reynt að koma höggi á okkur vegna þessarar afstöðu, jafnvel haldið því fram að með því værum við að hrópa á kjaraskerðingu. Þetta er vitaskuld mjög óvandaður málflutningur. Við höfum aldrei talað um gengisfellingu sem úrlausnarkost öðruvísi en að jafnframt verði tryggt að áfallið yrði tekið af launafólki og heimilum. Til þess eru ýmsar leiðir og minna má á orð hæstv. forsrh. í umræðum skömmu fyrir þinghlé þar sem hann taldi upp kunnar leiðir eins og hækkun barnabóta og tekjutryggingar og niðurgreiðslu matvæla. Hann nefndi ekki matarskattinn þá, en snjallasta leiðin væri sú að nema burt þann rangláta skatt því að heimskulegri aðgerð en að setja hann á held ég að hafi ekki verið gerð hér í manna minnum. Það væri enn fremur líklegt til að skila sér sem hemill á verðbólgu og kaupkröfur ef skatturinn yrði tekinn af. Við slíku segir væntanlega hæstv. fjmrh. að við séum að hrópa á halla á ríkissjóði. Við því er fyrst og fremst það að segja að ef um er að velja halla á ríkissjóði, halla á heimilum, halla á atvinnulífi, þá er það ríkissjóður sem verður að taka það á sig. En því má heldur ekki gleyma að afnám eða lækkun matarskatts mundi aldrei verða hreint tekjutap fyrir ríkissjóð. Þeir fjármunir kæmu örugglega inn að nokkru eða miklu leyti eftir öðrum leiðum. Þetta höfum við margoft bent á og ég vil enn ítreka að gengisfelling kemur ekki til greina að okkar mati nema tryggt sé að skellurinn lendi ekki á heimilunum. Og það er
hægt að tryggja ef vilji til þess er fyrir hendi.
    Stjórnarandstöðunni hafa ekki verið kynntar tillögur og áform stjórnarinnar um úrbætur í efnahagsmálum fyrr en nú. Áður hafa þær öðru hvoru heyrst og sést í fjölmiðlum, en í sífellu verið að taka breytingum frá viku til viku, stækkað eða minnkað á víxl og nú hafa þær frekar minnkað. Og sú spurning vaknar hvers vegna. Hvers vegna þær eru svo linar og marklausar og almennt orðaðar.
    Kjarasamningar eru nú fyrir dyrum og það má ætla að launafólk reyni að lagfæra þær skerðingar sem það hefur mátt sæta hingað til. Þó fólk hafi orð ráðherra fyrir því að enginn matarskattur hafi verið lagður á leiða verðlagstölur frá Hagstofunni engu að síður í ljós að verð á mörgum algengum máltíðum

vísitölufjölskyldunnar hækkaði á bilinu 45--75% frá nóvember 1987 til nóvember 1988. Meðalhækkun matvæla var á þessu tímabili 33% eða 10% umfram hækkun framfærsluvísitölu og Hagstofan telur að hækkun matarkostnaðar hafi verið nokkru meiri en hækkun meðallauna á tímabilinu --- og leggja nú ráðherrar aftur augun. Hæstv. forsrh. minntist reyndar á þessi mál áðan í ræðu sinni og sagði að ríkisstjórnin hefði áhuga á því að lækka verð á matvælum, en það væri eðlilegt að það væri gert í tengslum við kjarasamninga. Það var athyglisverð yfirlýsing. Hún þýðir það einfaldlega að hæstv. ríkisstjórn ætlar að hafa matarskattinn illræmda sem verslunarvöru í komandi kjarasamningum. Þar er nú öll reisnin og velviljinn í garð almenns launafólks.
    Byrðar heimilanna hafa þyngst úr hófi fram á síðustu tímum og launafólk hlýtur að svara slíkum álögum af sömu hörku og því hefur verið sýnd. Eflaust átta hæstv. ráðherrar sig á því og halda nú að sér höndum þar til séð verður hvernig samningunum lyktar og grípa þá til aðgerðanna. Reynslan kennir okkur því miður að einmitt þetta er það sem launafólk má búast við að gerist þegar mál standa eins og nú er. Launafólk hefur venjulega fengið að bera flestar þær efnahagsaðgerðir sem ríkisstjórnir hafa gert í gegnum tíðina.
    En það er ein tegund efnahagsvanda sem ekki var minnst á í ræðu hæstv. forsrh. Fyrr í vetur hafa farið fram hér í þingsölum umræður um hvalveiðar Íslendinga og bann við þeim. Tvö þingmál hafa verið flutt í þá veru. Bæði þessi þingmál eiga rætur sínar að rekja til afstöðu Greenpeace-samtakanna til hvalveiða og þrýstings samtakanna á erlendar verslunarkeðjur að kaupa ekki íslenskt lagmeti eða íslenskar fiskafurðir meðan Íslendingar halda fast við þá stefnu að veiða hvali. Ég ætla ekki að rifja upp þær umræður, aðeins benda á að það virðast ekki hafa verið umhverfisverndunarsjónarmið eða umhyggja fyrir lífríki hafsins og verndun hvalastofna sem vakti þær umræður heldur fyrst og fremst bein hagsmunasjónarmið, verslunarviðskiptum okkar var stefnt í hættu.
    Ég er þeirrar skoðunar að betra hefði nú verið að Íslendingar tækju upp þá stefnu að hætta hvalveiðum vegna þess að þeir vildu virða samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins sem ítrekað hefur gert athugasemdir við þær hvalveiðar sem hér eru stundaðar í vísindaskyni og hefur skorað á íslensk stjórnvöld að draga veiðiheimildir sínar til baka.
    Ég er einnig þeirrar skoðunar að aðild okkar að Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna skuldbindi okkur til að hlíta fyrirmælum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það höfum við ekki gert. Og sú spurning hlýtur að vakna hvort við vegna ósveigjanlegrar stefnu stjórnvalda í þessu máli erum búin að koma okkur varanlega út úr húsi hjá þeim þjóðum sem okkur er nauðsyn og ég vil segja lífsnauðsyn að hafa samstarf við um umhverfismál.
    Mengun hafanna er þegar veruleiki og e.t.v. aðeins spurning um tíma hvenær sá vágestur tekur að veita

okkur búsifjar ef ekkert er að gert. Þau samtök sem harðast hafa vítt stefnu Íslendinga í hvalveiðimálunum gætu verið okkar öflugustu samherjar í baráttunni gegn mengun hafsins og því er mikil skammsýni að baka okkur tortryggni og óvild þeirra í þeirri baráttu sem fram undan er.
    Hér er verið að ræða efnahagsmál og það sem ég nú hef sagt tengist vissulega þeirri umræðu. Vegna stefnu stjórnvalda í hvalveiðimálum blasir sú staðreynd við að markaðir okkar eru í hættu. Vegna þrýstings frá umhverfisverndarsamtökum er sagt upp viðskiptasamningum, fyrirtæki geta ekki selt framleiðslu sína og verða að segja upp starfsfólki og nokkur hafa þegar lokað.
    Laugardaginn 28. jan. mátti sjá í Morgunblaðinu viðtal við forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja í lagmetisiðnaðinum og ég vil nú, með leyfi virðulegs forseta, vitna í nokkur af þeim.
    Þá er fyrst til að taka að Magnús Tryggvason hjá niðursuðuverksmiðjunni Ora í Kópavogi segir: ,,Verslanir taka ekki lengur við íslenskum vörum. Útflutningur á kavíar til Þýskalands hefur legið niðri undanfarna mánuði. Útflutningurinn stöðvaðist vegna óróa á markaðnum vegna mótmæla náttúruverndarsamtaka gegn hvalveiðum Íslendinga. Hjá Ora voru sett upp ný tæki til kavíarframleiðslu fyrir tveim árum og hefur verið framleitt fyrir Frakklandsmarkað. Hafa því verið nóg verkefni og selt hefur verið t.d. til ALDI og Tengelmann fyrir 45--50 millj. kr. árlega.`` En Magnús sagði að þessar uppákomur á Þýskalandsmarkaði væru alvarlegar fyrir sölusamtök lagmetis. Þau misstu 45--50% af tekjum sínum við þetta og rekstrargrundvöllur
dótturfyrirtækisins í Þýskalandi væri brostinn.
    Síðan segir Eiríkur Böðvarsson, forstjóri niðursuðuverksmiðju á Ísafirði, að hann trúi því ekki að hagsmunum okkar verði fórnað. ,,Ég hef lítið hugsað um afleiðingarnar ef ALDI hættir að kaupa af okkur. Ég trúi ekki að stjórnvöld fórni þessum hagsmunum fyrir hvalveiðarnar,,, segir hann. ,,Niðursuðuverksmiðjan á Ísafirði er með 40--50 manns í vinnu og fæst um helmingur tekna fyrirtækisins eða 200 millj. kr. á Þýskalandsmarkaði. En ef viðskiptabann ALDI yrði staðreynd [sem það er nú þegar orðið] þá mundi það kollvarpa öllum áætlunum fyrirtækisins.``
    Og hjá Norðurstjörnunni í Hafnarfirði er allt markaðsstarf í lamasessi, segir forstjórinn, Rafn Sigurðsson. Hann segir að Þjóðverjar vilji ekki lengur kaupa íslenskar vörur vegna hvalamálsins. Ísland er algert bannorð í Þýskalandi. ,,Þetta hefur kippt rekstrargrundvellinum undan skrifstofu okkar í Þýskalandi og allt þróunarstarf, sem búið er að eyða milljónum í, er runnið út í sandinn.``
    Í Norðurlandi eystra hafa fyrirtæki einnig orðið fyrir alvarlegum þrengingum af þessum sökum og var þó atvinnuástand þar ekki allt of gott fyrir. Verksmiðju KJ á Akureyri hefur verið sagt upp viðskiptasamningum. Vonandi ríður það nú ekki fjárhag fyrirtækisins að fullu, en fækkun starfsfólks er

óhjákvæmileg. Pólstjarnan á Dalvík, sem er niðursuðufyrirtæki, hefur verið lokuð síðan um miðjan september og 14 starfsmenn verið atvinnulausir síðan. Niðursuðufyrirtækið Hik á Húsavík hefur orðið að leggja niður starfsemi. Þar misstu um 20 manns atvinnu sína. Í blaðinu Degi á Akureyri er 31. jan. eftirfarandi frásögn um það fyrirtæki:
    Þar er sagt að niðursuðufyrirtækið hafi sagt upp öllu starfsfólki og að sögn framkvæmdastjórans sé ekkert að gera nema loka. ,,Við sitjum uppi með birgðir fyrir 40--50 millj. kr. og stöndum ekki undir því lengur. Við lendum allra fyrirtækja verst í þessu því að við höfum mestar birgðir. Og við seldum okkar vöru eingöngu til Tengelmann í Þýskalandi þegar fyrirtækið hætti viðskiptum við Ísland og þó að margir hafi sagt að það skipti ekki máli og við getum selt vöru okkar á öðrum mörkuðum hefur það ekki komið á daginn.``
    Miðað við fólksfjölda samsvara 20 störf á Húsavík 800 störfum í Reykjavík. Eitthvað mundi trúlega heyrast ef 800 manns í Reykjavík stæðu allt í einu uppi atvinnulaus. Bæjarstjórn Húsavíkur hefur fundað um þetta mál og sent áskorun til ríkisstjórnarinnar sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fundur haldinn í bæjarstjórn Húsavíkur þann 31. janúar 1989 samþykkir að skora á ríkisstjórn Íslands að leysa nú þegar þann fjárhagsvanda sem skapast hefur hjá fyrirtækjum í lagmetisiðnaði vegna stefnu ríkisstjórnar í hvalveiðimálum.
    Eitt fyrirtæki í lagmetisiðnaði er rekið á Húsavík og hefur stefna undanfarinna og núverandi ríkisstjórna í hvalamálum bitnað alvarlega á því. Er nú svo komið að rekstrarstöðvun blasir við ef ríkisstjórnin tekur ekki afstöðu til lausnar í málinu fyrir þau fyrirtæki sem stefnan hefur bitnað hvað mest á. Lausnin getur m.a. falist í beinum rekstrarstyrk til þessara fyrirtækja meðan unnið er að lausn markaðsmála. Það er mikið áfall fyrir Húsavík ef fyrirtæki, sem hefur 15--20 manns í vinnu og framleiðir afurðir fyrir 50--70 millj. kr., verður að hætta starfsemi vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í hvalamálum.

Með ósk um skjót viðbrögð.

Bæjarstjórn Húsavíkur.``

    Í ljósi þessa, sem ég hef nú sagt, vil ég krefjast svara frá hæstv. ríkisstjórn um það hvað hún ætlast fyrir í þessum málum. --- Maður er ekkert vanur því að forsrh. sé hér í sal, en það væri nú kannski skemmtilegra að hann væri viðstaddur. ( HBl: Þegar verið er að fjalla um sjávarútveginn er ekki óviðeigandi að sjútvrh. sé við.) Sömuleiðis. (Gripið fram í.) ( Forseti: Forseti skal óska eftir að sjútvrh. komi í salinn.) ( EgJ: Allt liðið.) ( HBl: Þeir ættu nú að hafa tíma til að sitja hér, búnir að vera í fríi í heilan mánuð.) ( Forseti: Það er verið að finna ríkisstjórnina.) Það er nú verst ef hún er týnd.
    Virðulegi forseti. Úr því að nokkrir ráðherrar eru nú gengnir í salinn er ég að hugsa um að lesa aftur áskorunina frá bæjarstjórn Húsavíkur. Ráðherrar hafa trúlega ekki lagt mikið eyrun við því sem ég var að segja, en ég var að lýsa ástandinu á landsbyggðinni

vegna stefnu stjórnarinnar í hvalveiðimálum þar sem hvert fyrirtækið af öðru lokar vegna þess að það hefur tapað mörkuðum sínum. Hér er áskorun sem ríkisstjórninni var send frá bæjarstjórn Húsavíkur:
    ,,Fundur haldinn í bæjarstjórn Húsavíkur þann 31. janúar 1989 samþykkir að skora á ríkisstjórn Íslands að leysa nú þegar þann fjárhagsvanda sem skapast hefur hjá fyrirtækjum í lagmetisiðnaði vegna stefnu ríkisstjórnar í hvalamálum.`` Svo fylgdi greinargerð:
    ,,Eitt fyrirtæki í lagmetisiðnaði er rekið á Húsavík og hefur stefna undanfarinna og núverandi ríkisstjórna í hvalamálum bitnað alvarlega á því. Er nú svo komið að rekstrarstöðvun blasir við ef ríkisstjórnin tekur ekki afstöðu til lausnar í málinu fyrir þau fyrirtæki sem stefnan hefur bitnað hvað mest á.
Lausnin getur m.a. falist í beinum rekstrarstyrk til þessara fyrirtækja meðan unnið er að lausn markaðsmála. Það er mikið áfall fyrir Húsavík ef fyrirtæki, sem hefur 15--20 manns í vinnu og framleiðir afurðir fyrir 50--70 millj. kr., verður að hætta starfsemi vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í hvalamálum.

Með ósk um skjót viðbrögð.

Bæjarstjórn Húsavíkur.``

    Í ljósi þess sem ég hef nú sagt vil ég krefjast svara frá hæstv. ríkisstjórn um það hvað hún ætlast fyrir í þessum málum. Er ætlun ríkisstjórnarinnar að halda fast við stefnu sína um hvalaveiðar? Hefur ríkisstjórnin áform um að hefja viðræður við viðskiptaþjóðir okkar um þessi mál og kynna þeim íslensk sjónarmið í þessum efnum? Áformar ríkisstjórnin að leggja lið þeim fyrirtækjum sem horfa fram á lokanir og gjaldþrot vegna hvalveiðimálsins og hvernig ætlar hún að taka á málum þeirra? Atvinnuleysi sem þegar er orðið, tjón fyrirtækjanna og tap í útflutningsverðmætum sem kann að velta á milljónahundruðum orsakast af stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og afleiðingarnar kunna að verða alvarlegri en við sjáum fyrir nú. Fólk á heimtingu á að fá að vita hvað stjórnvöld ætla að gera í þessu máli, hvort hugsanlegt er að hæstv. ríkisstjórn geti komið sér saman um einhverja stefnu og aðgerðir í framhaldi af því.