Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Virðulegur forseti synjaði í gær því að flutt yrði fsp. sú sem var til meðferðar nú rétt áðan í Sþ. og gerði það með svolátandi úrskurði:
    ,,Fyrirspurninni er hafnað. Viðskrh. ber ekki ábyrgð á orðum utanrrh. Sjá 31. gr. þingskapalaga, 1. mgr.``
    Í viðræðum okkar á milli í kjölfar þessarar synjunar bauð virðulegur forseti upp á utandagskrárumræður í hálftíma sem ég taldi mig hafa þegið en skildi það svo að bakslag hefði komið í það boð eftir viðræður við hæstv. viðskrh. Viðskrh. sagði hins vegar við mig að hann væri tilbúinn til þess að ræða þessa fsp. Hann sæktist að sjálfsögðu ekki eftir því, það skil ég mætavel, en mundi gegna úrskurði forseta. Ég taldi þess vegna að virðulegur forseti hefði farið fram á það að ekki færi fram utandagskrárumræða um þetta mál og taldi mér þá skylt að láta á það reyna hvort Sþ. mundi verða sammála virðulegum forseta.
    Þegar lesin er 31. gr. þingskapalaga sést að ætlun löggjafans er að hv. alþm. geti óskað upplýsinga ráðherra eða svars um opinber málefni eða einstök atriði og síðan segir til nánari skilgreiningar: ,,Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``
    Ef þessi lagagrein er skoðuð blandast held ég engum hugur um það að hér er á ferðinni opinbert málefni í öllum skilningi. Í öðru lagi get ég ekki séð annað en fsp. sé sæmilega skýr. A.m.k. hef ég enn ekki hitt neinn sem ekki hefur skilið fsp. og út á hvað hún gengur, enda eru þau ummæli sem vitnað er til öllum kunn.
    Í þriðja lagi er hér um afmarkað atriði að ræða og hér er svo sannarlega um mál að ræða sem viðkomandi hæstv. ráðherra ber ábyrgð á, en það er málefni Seðlabanka Íslands sem lögum samkvæmt heyrir undir viðskrn. Þess vegna, virðulegur forseti, tel ég að úrskurður virðulegs forseta frá því í gær hafi verið rangur og niðurstaðan sem orðið hefur hér í dag ekki ráðandi sem fordæmi í framtíðinni. Ég gat að sjálfsögðu ekki komið fram með þessi sjónarmið fyrr vegna þess að forseta ber skylda til að bera tillöguna upp án umræðu.
    Ég vil taka það fram að hér er ekki spurning um, eins og kemur fram í úrskurði hæstv. forseta, hvort hæstv. viðskrh. beri ábyrgð á ummælum annars ráðherra. Hér er ekki spurning um það heldur er spurningin um hitt, hvort Seðlabanki Íslands heyri undir viðskrn., þannig að ég tel að úrskurður forseta sé á misskilningi byggður. Ummæli þau sem til er vitnað eru svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Fyrir handan götuna er mikil bygging undir Svörtuloftum, einhver mesta marmarahöll í Reykjavík, sem heitir Seðlabanki og þar starfa 166 manns, þar af a.m.k. 150 við að naga blýanta.`` Þetta er orðrétt haft eftir hæstv. utanrrh. á fundi 21. janúar sl. á Akureyri, á opinberum fundi. ( Forseti: Ég vil minna hv. þm. á að hér fer fram umræða um þingsköp.) Virðulegur forseti. Þingmaðurinn hefur tekið þeirri ábendingu og telur sig

vera að ræða um þingsköp og vona ég að virðulegur forseti fallist á það að hér er málsvörn fyrir það hvers vegna sá sem hér stendur telur að taka hefði átt málið á dagskrá sem venjulega fsp. Vona ég að virðulegur forseti sjái í gegnum fingur sér við mig og reki ekki ræðumann úr ræðustól fyrr en hann hefur lokið máli sínu sem skal ekki verða mjög langt.
    Í framhaldi af þessum umræðum, því að allt hefur þetta með málið að gera, sagði ráðherra síðan efnislega að húsið hefði verið byggt fyrir kaffisjóð starfsmanna. ( Forseti: Ég vil minna hv. þm. á að honum stendur opið að fá hálftíma utandagskrárumræðu um þetta mál. Það ber ekki að ræða það efnislega hér.) Má ég spyrja virðulegan forseta hvort hér og nú megi sú umræða fara fram. ( ÓÞÞ: Fráleitt.) ( Forseti: Það er fráleitt þar sem ráðherra hefur ekki verið gert viðvart um það. Hins vegar hefur verið um það talað að bjóða hv. þm. að sú umræða fari fram á morgun.) Má ég minna virðulegan forseta á það að ég talaði sjálfur við ráðherra í gær og hann sagðist vera tilbúinn hvenær sem er að taka þátt í umræðum um þetta mál og mundi sinna í öllum atriðum úrskurði forseta þannig að virðulegur forseti getur hér og nú úrskurðað um það hvort umræðan fari fram hér í dag. ( Forseti: Forseti getur það ekki vegna þess að þinghald dagsins er ekki skipulagt á þann veg. Hér hefjast innan tíðar fundir í deildum þingsins.) Ber að skilja þetta svo að hæstv. forseti ætli að koma í veg fyrir að ég ljúki ræðu minni um efnisatriði málsins? ( Forseti: Forseti mun ekki leyfa umræður um efnisatriði málsins.)
    Í þingskapaumræðunni er ég að tala um efnisatriði sem snúa að þingsköpum. Þar sem mér er meinað að tala hér í dag og þessari þingskapaumræðu á þar með að slíta vil ég lýsa því yfir að ég þigg það boð sem virðulegur forseti hefur boðið og bauð í gær, og ég hélt að hann hefði þá afturkallað, um að hálftími fari í utandagskrárumræður um þetta mál sem ég tel vera afar alvarlegt. Ég treysti á að virðulegur forseti muni við allra fyrsta tækifæri gefa virðulegum, hæstv. viðskrh. tækifæri til að segja sitt álit á þessu máli sem ég held að öllum hljóti að vera ljóst að er afar nauðsynlegt.