Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég tel alveg augljóst að sá úrskurður sem felldur var í þessu máli sé rangur. Hér er um mjög skýrt afmarkað mál að ræða. Það er augljóst að það hefur verið vegið með ómaklegum hætti að starfsmönnum Seðlabankans. Starfsemi Seðlabankans heyrir undir viðskrn. Ef það væri svo, eins og kemur fram í úrskurðinum, að það væri ekki hægt að bera fram fyrirspurn um réttmæti ásakana á hendur starfsmönnum einstakra ríkisstofnana vegna þess að ásakanirnar væru ekki bornar fram af þeim ráðherra sem málið heyrir undir, þá er nú fokið í flest skjól og augljóst að það er verið að teygja ákvæði þingskapa langt fram yfir það sem unnt er með nokkrum skýrum rökum. Ef einhver aðili utan þings bæri þessar alvarlegu ásakanir á starfsmenn Seðlabankans á það að gilda samkvæmt úrskurði forseta að ekki sé hægt að inna eftir því hvort þær hafi við rök að styðjast. Þess vegna tel ég að úrskurðurinn hafi verið rangur. Ég lít svo á að meiri hluti þingsins, stjórnarmeirihlutinn, hafi með atkvæðagreiðslu sinni hér verið að víkja hæstv. viðskrh. hjá því að svara þessari fsp. með formlegum hætti og ég skil það. Ég skil það að stjórnarmeirihlutinn skuli bera nokkurn kinnroða vegna þessara ummæla hæstv. utanrrh. og ég skil það að stjórnarmeirihlutinn vilji leysa hæstv. viðskrh. undan þeirri ábyrgð að svara.
    Frú forseti. Í máli forseta við atkvæðagreiðslu um þessa tillögu kom fram að forseti Sþ. telur að það sé ekki samboðið virðingu Alþingis að bera fram fyrirspurn um slík ummæli sem hæstv. utanrrh. viðhafði. Í ummælum forseta kom fram að það væri ekki samboðið virðingu þingskjalanna að bera fram fsp. um þvílík ummæli. Það sýnist hins vegar eiga að vera samboðið virðingu Alþingis að hafa utanrrh. sem getur viðhaft slík ummæli alveg athugasemdalaust. En í þessum ummælum kemur líka fram að virðing þingskjalanna þolir ekki ummæli sem þessi. M.ö.o.: það er verið að kveða upp þann úrskurð hér að virðing hæstv. utanrrh. þoli ekki samjöfnuð við virðingu þingskjalanna og hygg ég að annan eins dóm hafi nú enginn ráðherra fengið í sölum Alþingis.