Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er misskilningur sem ber að leiðrétta, sem fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv., að sá sem hér er sökum borinn, sá sem hér stendur, sé ekki reiðubúinn til að standa fyrir máli sínu. Ég hef lýst því yfir að ég er reiðubúinn til þess innan þings sem utan. Það hefur komið fram að hv. 1. þm. Reykv. hefur óskað eftir utandagskrárumræðu. Það hefur komið fram að forseti hefur orðið við þeim tilmælum, þó ekki á þessum degi vegna dagskrár þings, þannig að það stendur ekki á neinum, hvorki þeim sem hér er borinn sökum né öðrum, að ræða þetta mikilvæga málefni á þingi og satt að segja hlakka ég til.
    Hitt er svo annað mál að hæstv. forseti hefur kveðið upp sinn úrskurð og meiri hluti þings staðfest hann svo að ég veit ekki um hvað menn eru að deila.