Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því áðan að hæstv. utanrrh. sagðist vera reiðubúinn til að standa fyrir máli sínu hvenær sem er. Nú veit ég ekki hvað hæstv. utanrrh. meinti með þessum sínum ummælum. Ég hélt að það væri nóg sagt áður og hélt að hann mundi biðjast afsökunar ef eitthvað væri í sambandi við hans ég vil segja niðurlægjandi ummæli um starfsfólk Seðlabanka. Ef hann er nú að gefa í skyn að hann ætli að standa fyrir máli sínu hvenær sem er gefur hann með því í skyn að hugur hafi fylgt máli þegar þessi orð duttu út úr hans munni fyrir norðan á sínum tíma. Ég hélt að vísu að það hefði verið slys ( Forseti: Má ég áminna þingmanninn að þetta er umræða um þingsköp.) og ég vil raunar segja hæstv. forseta að ef það á að biðja einhverja afsökunar í þessu máli, þá er það kannski Akureyringa fyrir að ummælin skyldu hafa fallið þar.
    En ég ítreka það sem ég sagði. Mér þykir hæstv. utanrrh. hafa bætt gráu ofan á svart. Ég vil segja að ég tel að hæstv. forseti eigi að greiða fyrir því að utandagskrárumræða geti farið fram um þetta mál þegar í stað til þess að hreinsa til svo að fram komi undir eins hvort vilji ráðherra stendur til þess að biðjast afsökunar á þessum ummælum eða ekki. Á meðan hæstv. forseti fæst ekki til þess að greiða fyrir slíkri umræðu þykir mér vafasamt að hæstv. forseti gæti virðingar þingsins svo sem rétt er og sanngjarnt er.