Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég mun halda mig við þingskapaumræðu eins og ég hef gert hér í dag þó að mér hafi verið meinað að ljúka máli mínu hér áðan en ætla ekki að hverfa aftur að því máli.
    Mér dettur í hug til þess að greiða fyrir þessu máli, virðulegi forseti, að stinga upp á því enn einu sinni að þessi umræða fari fram strax í dag þar sem allir sem málið við kemur hafa lýst sig reiðubúna til þess og einkum og sér í lagi vegna þess að svo stendur á að þeim málum sem eru til umræðu í dag, þ.e. bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar og staðfestingarfrv., hefur ekki verið lokið í nefnd. Nefndarstörf eiga að halda áfram í fyrramálið, nýjar brtt. hafa verið lagðar fram í dag og þess vegna augljóst að það fer betur á því að þær umræður geymist til morguns en þessi umræða fari strax fram á eftir. Ég legg þetta til, virðulegur forseti, af því að ég held að það geti greitt fyrir umræðunni. (Gripið fram í.) Það er kallað hér fram í af hálfu menntmrh. að í Ed. verði enn fremur fundur. ( Forseti: Ég verð að biðja um að hafa ekki samtöl í salnum.) Maður getur náttúrlega ekki skýrt út hvað bjölluhljómurinn þýðir í það og það skiptið nema einhver útskýring fylgi. --- En hæstv. ráðherra menntamála kallar hér fram í: ,,Það er fundur enn fremur í Ed.`` Ég vil aðeins segja hæstv. ráðherra þetta: Ef umræður eiga að fara fram um þetta mál í Sþ. á morgun getur ekki á sama tíma farið fram fundur í Ed. þannig að það kemur í sama stað niður. Vona ég að hæstv. ráðherra skilji það.