Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil einungis koma hér upp til þess að lýsa ánægju minni með það að þetta frv. skyldi hafa verið lagt fram. Ég held að sú hugsun sem kemur fram í frv. sé mjög góð. Ég tel raunar mjög mikla nauðsyn á því að starfrækja fjölskylduráðgjöf og ekki aðeins hér heldur vítt og breitt um landið, sérstaklega varðandi börn þeirra foreldra sem lenda í skilnaði. Oft og tíðum er það mjög miklum erfiðleikum bundið að sjá um að börnin bíði ekki tjón af breytingunni og að fjölskyldur, og þá oft tvær fjölskyldur sem úr þessu verða, geti átt eðlileg samskipti þegar fram í sækir.
    Ég þekki það nokkuð af eigin raun hvernig svona mál hafa gengið fyrir sig og hvaða vandamál oft hafa skapast. Það hefur einkum verið dómsmrn. sem hefur haft með úrlausn svona mála að gera og úrskurðað í skilnaðarmálum. Síðan hafa barnaverndarnefndir á hinum ýmsu stöðum kynnt sér fjölskylduaðstæður hjá viðkomandi aðilum þegar ekki er samkomulag milli foreldra um það hvernig með börn skuli fara. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hversu langan tíma þetta hefur stundum tekið og oft og tíðum verið mjög erfitt að fá ákveðnar og góðar niðurstöður í þessum málum. Þess vegna fagna ég því, eins og ég sagði í upphafi, að ætlunin er að setja á stofn einhvers konar fjölskylduráðgjöf þar sem mundu vera sálfræðingar og lögfræðingar innan dyra. Ég tel einmitt mjög nauðsynlegt að þar skuli vera lögfræðingar að því leyti til að oft og tíðum þegar svona mál eru rædd skortir aðstoð lögfræðinga til þess að túlka ýmis álitamál sem upp koma.
    En ég vildi spyrja hæstv. félmrh. að því hvernig þetta er hugsað. Ég náði því ekki alveg í hennar ræðu hvernig þetta er hugsað, hvenær þetta kemur til framkvæmda og hvernig þetta er hugsað í framkvæmd. Verður þetta sérstök stofnmiðstöð sem sinnir bara þessu eina máli? Hvernig tengist þetta starfi barnaverndarnefnda? Hvernig verða tengslin við dómsmrn. o.s.frv.? Það er lítið hægt að sjá svona beint á frv. og í grg. hvernig tengslin verða á milli allra þessara þátta, bæði varðandi fjölskylduráðgjöfina, hvaða hlutverki barnaverndarnefndir eiga að gegna í framtíðinni varðandi þetta afmarkaða svið og svo hvernig dómsmrn. kemur þá inn í þetta eða fjölskyldudeild dómsmrn. Að vísu hefur sú deild í dómsmrn. aðallega séð um að úrskurða um það hjá hvoru foreldri barn á að lenda ef ágreiningur verður um slíkt. En fyrir forvitnissakir, til að sjá hvernig þetta verður allt í framkvæmd, væri gott að fá upplýsingar um það frá hæstv. félmrh.